21 nóvember, 2018

Fáránleiki

Fáránleiki er  eitt af þessum orðum sem er orðið merkingarlaust eftir að hafa verið misnotað um ýmislegt sem varla getur talist neitt sérlega fáranlegt. Þetta orð er þarna samt og ég ætla að leyfa mér að nota það um allan fjárann hér á eftir og leyfa lesandanum síðan að meta það, hvort um er að ræða viðeigandi notkun orðsins.


1. Það er fáránlegt ef ég kaupi poka af ísmolum í Bónus. Ísmolum sem búið er að flyta í frystigámi frá Bandaríkjunum.



2. Það er fáranlegt þegar ég, í verslunarferð í Krónuna, kaupi grísakjöt frá Spáni, þegar ég get fengið sýklalyfjalaust, íslenskt grískjöt frá bónda í næsta nágrenni við mig.
3. Það er fáránlegt þegar ég kaupi blandað salat í Nettó, sem ræktað er og unnið á Ítalíu, en skolað úr íslensku vatni  í stað þess að kaupa samskonar bakka með salati sem er ræktað í næsta húsi, algerlega laust við varnarefni.

4. Það er fáránlegt þegar ég kaupi tilbúinn fiskrétt frá Noregi í 10-11 þegar ég get keypt margfalt betri samskonar íslenskan fiskrétt.

5. Það er fáránlegt þegar ég á leið í Vínbúðina og kaupi rauðvínsflösku frá Chile eða Nýja Sjálandi. Fáránlegt vegna þeirrar vegalengdar sem þessi glerflaska hefur ferðast áður en vínið ratar í glasið mitt og glerflaskan, eins þung og hún er, lendir í maski í endurvinnslunni.

6. Það er fáránlegt að í íslenskum matvöruverslunum þurfi ávallt að vera til ávextir og grænmeti af öllum tegundum, allt árið. Látum vera með þetta helsta, sem ekki er ræktað hér á veturna, en það er fáránlegt, að kaupa grænmeti og ávexti frá Suðurálfu, sem fluttir hafa verið 15.000 km hingað norðureftir. Segðu mér að það sé ekki fáránlegt.

7. Það er fáránlegt þegar ég kaupi innflutt glingur til jólagjafa á sama tíma og ég get nálgast allt sem ég þarf í þessu efni, jafnvel í næsta herbergi.

Þessum fáránleika öllum þarf eiginlega að linna. Fyrir honum færa innflytjendurnir ýmis þau rök sem ganga í neytendur. Stundum eru rökin gild en í annan stað fáránleg. Já, ég nota áfram þetta margþvælda orð: fáránlegt.

Það er þetta með viðskiptafrelsið og alþjóðasamninga.
Við lifum á tímum þar sem það sem hægt er að gera telst mikilvægara en það sem þarf að gera. Okkur finnst að vegna þess að það er hægt að flytja inn ódýra ísmola frá Bandaríkjunum, þá skuli það gert og það telst vera réttur okkar.
Algengustu rökin fyrir fáránlegum innflutningi snúa að því, að það sem innflutt er, sé ódýrara. Oft er það rétt, en hvernig má það vera?
Hvernig getur kíló af rauðri papriku sem er flutt inn frá Spáni kostað 300 kr meðan sú íslenska kostar 900 kr.?
Hvernig getur staðið á því að poki með ísmolum frá Bandaríkjunum sé 40% ódýrari en samsvarandi poki sem framleiddur er á Íslandi?  Og, ef út í það er farið, hvernig getur mögulega staðið á því að innflutt vara, með öllum þeim áhrifum sem hún hefur á umhverfi okkar, sé ódýrari og oft miklu ódýrari en vara sem framleidd er hér á landi, með allri þeirri ódýru og hreinu orku og hreinu vatni sem við njótum?
Hvernig getur staðið á því?
Nokkrar tillögur, sem ef til vill þarf að skoða:

1. Við erum gráðug þjóð.  Góð og gild fullyrðing og líklega hægt að sannreyna í einhverjum tilvikum.
2. Við búum við hærri framleiðslukostnað vegna þess að við borgum betri laun og gerum betur við starfsfólkið okkar.  Vísast er þetta að einhverju leyti réttmæt fullyrðing, en er þetta á heildina litið svo?  Ég veit um Íslending sem sótti um vinnu, en fékk ekki, þar sem hægt var að fá innflutt vinnuafl að miklu hagstæðari kjörum (fyrir vinnuveitandann).
3. Ísland er bara á þannig stað á jörðinni, að framleiðsla hlýtur að kosta meira. Þetta á ekki síst við um ræktun grænmetis og ávaxta. Þessu verður varla á móti mælt.
4. Íslenskur markaður er svo lítill og því kostar framleiðsla á hverja einingu meira. Erfitt er að að mótmæla þessu. Það kostar að vera lítill og búa norður í Ballarhafi.
5. Milliliðir á Íslandi taka  óeðlilega mikið til sín. Þessu hefur löngum verið haldið fram og er rannsóknarefni.
6. Innfluttar vörur eru framleiddar fyrir margfalt stærri markaði og af margfalt ver launuðu vinnuafli (jafnvel börnum og þrælum).  Ég fjallaði um innflutning á grænmeti í fyrra og þá umfjöllun má lesa undir þessum hlekkjum:

Engisprettufaraldur  


Lifi frelsið - burt með siðferðið 


Þetta viljum við ekki vita.


Framundan er innflutningur á hráu kjöti. 
Dómur hefur verið kveðinn upp þar sem okkur er gert að leyfa slíkan innflutning.
Það er varað við afleiðingum þess.
Við vitum öll hvernig það fer.

Við búum í landi sem þannig er ástatt með, að við þurfum að flytja inn stóran hluta þess varnings sem við notum. Mér finnst að við ættum að gera það vel, vanda okkur.
Einbeitum okkur að því að framleiða íslenskar vörur og kaupa íslenskar vörur.  Það er gott fyrir okkur þegar upp er staðið og það er líka til þess fallið að auka líkur á að jörðin verði byggileg eitthvað áfram.
Þetta síðasta er sennilega of dramatískt, en hvað er dramatík, ef út í það er farið?

Ætli sé ekki rétt að láta staðar numið - í bili - og halda áfram með lífið í þessu leikhúsi fáránleikans.

Þar með er þessi blástur frá í tilgangsleysi sínu........ og fáránleika.


19 nóvember, 2018

Fagnaðartilfinning

fD í fagnaðarbing
Þetta byrjaði svo sem allt eins og venja er til. Þarna sátum við í makindum og fylgdumst með seinni fréttatíma kvöldsins, þar sem endurteknar voru fréttir fyrri fréttatímans. Aldrei skyldum við komast í þá aðstöðu að vita ekki hvað væri að gerast utan landamæra Kvistholts.

Í lok fréttatímans var síðan greint frá helstu íþróttaviðburðum dagsins, en sú venja er viðhöfð, að þegar kemur að íþróttafréttum eftir fyrri fréttatímann, er skipt um rás, enda ekki talin ástæða til að horfa á sömu íþróttafréttir tvisvar.

Þar kom, að fjallað var um knattspyrnuleik sem fram fór fyrr um daginn milli Englendinga og Króata þar sem þeir fyrrnefndu höfðu borið sigur úr býtum eða farið með sigur af hólmi, borið sigurorð af þeim síðarnefndu, nú eða bara eins og nútíminn vill hafa það "höfðu sigrað leikinn" á heimavelli sínum.

Í þann mund er Englendingar fögnuðu síðara marki sínu, sigurmarkinu, heyrði ég skyndilega óvenjulegan andardrátt í sófanum við hliðina á mér og í kjölfarið kom annað óvenjulegt látbragð. Það var engu líkara en fD væri að berjast við að ná andanum. Þetta varð til þess, að ég leit í átt til hennar, og sá hana starandi á fagnaðarlæti Englendinga, þar sem Harry Kane lá neðstur í haugi samherja sinna.

"Ég myndi kafna ef ég lægi þarna", varð fD á orði þegar henni hafði tekist að ná andanum aftur.  Ekki hvarflaði að mér að draga þessa yfirlýsingu í efa en komst hinsvegar ekki hjá því að velta fyrir mér, hvernig svona haugur, þar sem fD lægi neðst eftir að hafa skorað stórkostlegt sigurmark, liti út.  Viðbrögð mín við andarteppunni voru eitthvað á þá leið, að líklegast væri það ekki ofarlega í huga þess sem þarna lá, hvort hann gæti andað.

Þessi uppákoma er enn ein staðfesting þess að í fD leynist knattspyrnuáhugamaður (-kona, - eintak) sem mikil orka fer í að leyna, alla jafna, en brýst síðan fram þegar minnst varir.

16 nóvember, 2018

Vonir standa til um það að það takist

Ég er í stöðugri klemmu, sem er að stórum hluta til komin vegna tvenns. Í fyrsta lagi aldurs og í öðru lagi einhverskonar áhuga á tungumálum, og þá ekki síst íslensku.

Klemman snýst einfaldlega um það, hvort ég á að vera að láta fjölmargar og sívaxandi ambögur sem daglega birtast í ræðu og riti, fara í taugarnar á mér. Rökleg lausn er auðvitað sú að láta bara eins og ekkert sé, ekki síst vegna þess, að ekki ber ég ábyrgð á þessu. Það að auki veit ég það fullvel að málfarsfjas mitt á þessum vettvangi breytir engu til eða frá. Fjasið í mér skiptir líklegast engan neinu máli, nema mögulega sjálfan mig. 
Ofan á þetta bætist síðan, að það mun vera eitthvað að hjá fólki sem finnur hjá sér þörf fyrir að setja út á málfar. Það hafa ónefndar rannsóknir sýnt svo ekki verður um villst, að sögn. Þetta er þekkt aðferð við að þagga niður í fólki, að gera lítið úr því.

Ég fæ ekki staðist það að hnýta í nýupptekinn og rétthugsaðan stíl hjá RUV, að tala nota alltaf þau þar sem venjan var að tala um þá, eða það. Það komust nefnilega einhverjir að því að þessi karlkynsmynd ætti upptök sín í feðraveldinu svokallaða.
Látum það vera. Ekki nenni ég að fara að fjasa um einhverjar kynjaðar feðraveldisstaðalmyndir. 

Málfarsrétthugsun RUV
Vandinn hjá RUV felst í því að þar á bæ hefur fólki ekki tekist að halda þessu fornafni stöðugu í fréttaflutningi sínum, enda er þarna um eitthvað alveg nýtt að ræða sem laga verður sig að. Það kemur ekki síst til af því, að  þau nafnorð sem notuð eru um fólk (af báðum kynjum), eru af ýmsum kynjum og tölum:

Manneskja er kvenkynsorð og þar með skal nota HÚN eða ÞÆR þegar vísað er til þeirra. (örugglega mæðraveldislegur uppruni í þessu orði).

Fólk er hvorugkynsorð og er bara til í eintölu, þó það vísi bara til fleirtölu og þar með skal nota ÞAÐ þegar vísað er til þess.

Einstaklingur (hjálpi okkur allir heilagir, ef við föllum í þá gryfju að nota þetta orð) er karlkynsorð og þar með skal nota HANN eða ÞEIR þegar vísað er til þeirra.

Barn er hvorugkynsorð og þegar vísað er til slíkra eintaka af menneskju er notað ÞAÐ eða ÞAU.

Nú er mér spurn:
Hvaða nafnorð er það í íslensku, til í eintölu og fleirtölu, sem hægt er að vísa til bæði með ÞAÐ og ÞAU?
 
Auðvitað detta mér nokkur í hug:
Hús, ríki, lamb, tröll, eintak ..... fullt af hvorugkynsnafnorðum sem til eru í eintölu og fleirtölu.
Hvaða orð er hægt að nota í íslensku um fólk eða manneskjur eða einstaklinga af báðum kynjum, sem hægt er að nota bæði í eintölu og fleirtölu? Jú, orðið KYN, auðvitað.
Ég finn slatta þar fyrir utan, en ekkert sem er hlutlaust og hægt að nota um bæði kyn í senn. Ég viðurkenni að ég er að vísu ekki búinn að leita lengi.

Í þessu kristallast rétthugsunartilburðirnir hjá RUV.
Það eru alltaf einhverjir (einstaklingar) að lenda í einhverju og rata fyrir þær sakir í fréttir. Hvernig skal tekið á því, svo ekki þurfi að nota karlkynsfornafnið hann?
Niðurstaða RUV er að þvælast bara einhvernveginn í gegnum þetta, enda virðist það ekki skipta neinu máli, svo fremi að karlkynsfornöfn komi ekki við sögu (nema búið sé að ganga úr skugga um að viðkomandi hafi allir verið karlkyns og tryggt að á meðal umræddra sé ekki að finna neitt hán).

Eðlileg niðurstaða, þegar um er að ræða hóp fólks/einstaklinga/manneskja, er að nota orð sem er í hvorugkyni. Þar með sitja menn (vá, hvað ég er vogaður!) uppi með hvorugkynsorðið FÓLK. Afskaplega gott orð bara, sem þó er gallað að því leyti, að það er ekki til í fleirtölu og þar með er ekki hægt að nota um það fornafn í fleirtölu. Svo einfalt er nú það. 

Málfarsspekúlantar RUV hafa kosið að umgangast orðið fólk eins og það sé til í fleirtölu og segja sem svo í fréttum eða umfjöllun þar sem um er að ræða einhverja (já, ég sagði það) sem ekki hafa verið kyngreindir:
Fjöldi fólks lét lífið, þau voru af báðum kynjum.
Þar með er RUV búið að ákveða að nafnorðið FÓLK sé til í fleirtölu, þó ekki sé það svo. Þar með hefur rétthugsunin borið tungumálið ofurliði, enda tungumálið væntalega til orðið á forsendum feðraveldisins, ef að líkum lætur. Ég bíð þess í ofvæni að framundan sé tíminn þegar þetta falleg orð fólk, fer að birtast í æ ríkari mæli: Fólkin sem létust hétu..... Það var haft eftir fólkunum að....

------------------------

Fyrirsögnin á tilvísun í fréttir á Stöð tvö í gærkvöld þar sem fjallað var um skýli fyrir unga, heimilislausa karlmenn í fíknivanda/fíkla.  Orðrétt sagði fréttaeintakið:
"Vonir standa til um að það verði hægt að taka þetta nýja skýli í notkun......". Ég spurði sjálfan mig (og fD), til hvers UMMIÐ væri. Við því fengust engin svör.

Hvaða fornafn notar maður með orðinu fíkill?
Jú, mikið rétt: HANN og ÞEIR í fleirtölu. Má það?


Lof sé þér sem komst í gegnum þetta og skildir inntakið.

Þetta er í tilefni af degi íslenskrar tungu.







28 október, 2018

H * A * M * A * M

Ég hef það fyrir sið, þegar ég fer utan (ég, fer, sem sagt UTAN, stundum, en aldrei ERLENDIS) að kíkja út fyrir þægindarammann, gera eitthvað það sem ég myndi aldrei taka mér fyrir hendur hérlendis. Glöggt dæmi um þessa áráttu mína birtist hér, hér  og hér, en þar greinir frá því þegar ég skellti mér á og síðan af bananabát. Þar greindi ég meðal annars frá því að ég æli þann draum í brjósti, að fljúga einhvern daginn í fallhlíf. 
Í nýjustu utanferðinni mátti sjá fallhlífar af þessu tagi fljúga yfir sjónum undan ströndinni og ég rifjaði auðvitað upp drauminn sem ég ber í brjósti, við undirtektir sem óþarfi er að hafa orð um. Eitthvað þurfti hinsvegar að gera til að búa til eftirminnilega reynslu og ekki værri verra að hún tengdist siðum heimamanna, sem í þessu tilviki voru Tyrkir.  Þessu velti ég nokkuð fyrir mér, en svo gerðist það, að fjölskylduhópurinn sem ég tilheyrði í þessari ferð, lenti í klónum að slyngum sölumanni, sem bar fram tilboð sem ómögulegt reyndist að hafna. Hann, eins og nærri má geta, kynnti fyrir okkur einstakt tilboð á HAMAM og ekki bara því, heldur einnig slökun og nuddi, í einum pakka á verði sem enginn hefði getað staðist.

Mynd af vef Doganay hótelsins.

Ef einhver veit svo lítið að hann hefur aldrei heyrt minnst á HAMAM þá skal það útskýrt hér:
Hér er um það að ræða sem einnig kallast "tyrkneskt bað", sem hefur það að meginmarkmiði að fjarlægja ysta lag húðarinnar með sérstakri aðferð. Aðfarirnar eru í grunninn þær sömu en einstakir þættir geta verið með mismunandi hætti eftir baðstofum.

Það sem gerðist
Við vorum fjögur sem fórum í einu holli. Var gert að mæta á tilteknum tíma, afklæðast (þó ekki svo að ósiðsamlegt teldist). Að því búnu var okkur ætlað að dvelja um stund í saltsána, sem var herbergi fullt af salti sem átti að gera okkur eitthvað sem ég skildi aldrei fyllilega, sennilega að leysa eitthvað um húðna sem fjarlægja skyldi. Í þetta saltsána fengum við, skýringarlaust, aldrei að fara, Því var það að aðgerðin byrjaði á að við vorum leidd inn í venjulegt sána, svona eins og Finnar fara í.  Þar dvöldum við í dágóðum hita í einar 10 mínútur, áður en við vorum leidd inn í sjálfan HAMAM salinn. Þar vorum við látin setjast á kassann sem sjá má á myndinni, eitt á hvern kant. Það var karl sem tók við mér, en konur sáu um hin.
Svo tók meðferðin við.
Fyrst var ég látinn leggjast á magann (er ekki enn kominn á það stig að vega salt í slíkri stöðu). Náunginn hellti því næst yfir mig  talsvert mörgum skálum af ca 40°C heitu vatni og í framhaldinu hóf hann að skrúbba og skrúbba og til þess notaði hann einhverskonar þvottapoka sem var eins og sandpappír. Hann skrúbbaði og skrúbbaði. Það var hreint ekki óþægilegt, en samt fylgdi því svosem enginn unaður. Þegar bakhlutinn hafði verið afgreiddur tók framhliðin við og fékk sömu meðferð.

Mynd af vef Doganay hótelsins. Þarna er ekki hópurinn sem ég var hluti af.

Að báðum hliðum afgreiddum var ég aftur skolaður með volgu vatni. Eftir það fór gaurinn eitthvað að bjástra, sem ég síðan uppgötvaði að fólst í framleiðslu á froðu. Henni steypti hann síðan yfir mig og lét liggja á mér, bæði að aftan og framan, meðan sápukúlurnar sprungu við húðina og fjarlægðu (væntanlega) húðarleifar sem eftir kunnu að vera. Þessi froðumeðferð var bara all þægileg.

Slökuninn og gríman
Aðgerðinni lauk svo með skolun úr volgu vatni, við þurrkuð hátt og lágt og síðan leidd inn í slökunarherbegi þar sem okkur var fært indælis te, sem hefði svosem getað innihaldið hvað sem var, en var harla gott á bragðið. Þarna reyndi ég að ná slökun, sem reyndist þrautin þyngri, þar sem heilmikill umgangur var þarna allt í kring, fólk að spjalla saman og börn að skrækja, en hvað um það.
Það næsta sem gerðist var, að að mér kom kona og tilkynnti mér að hún ætlaði að bera á andlitið á mér, en eitthvað slíkt hafði farið framhjá mér þegar innihald "pakkans" var kynnt. Ég maldaði auðvitað ekki í móinn, liggjandi á slökkunarbekknum, nýbúinn að klára teið góða.  Svo fann ég bara þegar hún bar eitthvað sandblandað á andlitið á mér með pensli. Það sama gerði hún síðan við hin í hópnum. Svo hélt "slökunin" áfram um stund, en þá var komið að næsta fasa, en áður var okkur sagt að skola okkur í framan. Þegar að því kom sá ég í spegli að andlitið á mér var hulið grænleitri grímu og brá nokkuð við, en lét auðvitað á engu bera og skolaði hana af eins og ekkert væri eðlilegra.

Nuddið
Þarna var komið að síðasta þættinum í meðferðinni: nuddinu. Karlinn sem tók á mér kunni greinlega til verka og til marks um það klifraði hann upp á nuddbekkinn til að ná kröftugra nuddi á bakið. Afar þægilegt og vísast hollt og gott og allt það.
Þarna taldi ég öllu vera lokið, en það var hreint ekki svo.

Samantektin og framhaldið
Okkur fjórum var safnað saman inni í litlu herbergi þar sem stjórnandi baðsins sat. Þangað komu síðan nuddararnir okkar hver á fætur öðrum og lýstu því, á tyrknesku, hvað þeir höfðu fundið að líkömum okkar og hverju þeir mæltu með í framhaldsmeðferðinni. Baðstjórinn fór síðan yfir  þessar skýrslur á ensku og sannarlega reyndumst við hvert og eitt burðast með erfiða bagga sem nauðsynlegt væri að nudda úr okkur. Ekki fer ég nánar út í það, en frá baðstjóranum fórum við öll með ómótstæðileg tilboð um meðferðir sem myndu bæta líf okkar og líðan. Við kváðumst ætla að hugsa málið og hugsanlega panta tíma.
Við erum enn að hugsa.

Þetta var bara hreint ágætt, þetta HAMAM. Um langtíma meinabót treysti ég mér ekki til að fjalla, en þetta var ágætt meðan á því stóð og eitthvað áfram.

11 október, 2018

Hvað kemur mér það við?

Ég, rétt eins og þið hin, tel mig tilheyra þessu samfélagi okkar, með þeim réttinum og skyldum sem það felur í sér, svona eins og maður getur búist við að standi í stjórnarskrá og lögum og reglugerðum og bara allstaðar þar sem eitthvað er skráð um svona lagað.

Látum það vera.

Á hverjum degi stend ég mig að því að velta því fyrir mér, hvort ég sé kominn fram yfir síðasta söludag í mannlegu samfélagi, eða þá hvort það fólk sem mest hefur sig frammi er bara svo óþroskað að það er bara ekki hægt að hafa það til sölu enn. Æ, ég veit það ekki, en má vera að þarna sé eitthvert grátt svæði.

Þegiðu bara!
Ég hef smám saman verið að komast að þeirri niðurstöðu, að við búum við aðstæður þar sem best er fyrir mig að halda mér saman, ekki vegna þess að ég átti mig ekki á því að annað fólk er líklega ekki sammála mér, heldur einfaldlega vegna þess að þeir sem eru ósammála mér öskra á mig og ausa yfir mig svívirðingum í stað þess að í stað þess að rökræða við mig.

Ég tel að rökræður, sem er hugtak sem felur í sér að fólk þurfi að færa rök fyrir skoðunum sínum muni geta fært okkur áleiðis að betra samfélagi. Með þeim myndi umræðan halda áfram þar til hún hefði þróast á þann stað að allir væru bara nokkuð sáttir, þó þeir héldu áfram að vera ósammála.

Nálgun að álitamálum í samfélaginu, sem væri með þessum hætti, myndi þroska það og okkur sem það byggjum og leiða okkur áfram til betra samfélags.

Svona er þetta því miður ekki á Íslandi þessi árin.

Það eru til hópar sem telja sig eiga sannleikann og hver sem dirfist að draga rétt þeirra til hans í efa, fær það óþvegið, oftast þannig að það beinist að persónum fremur en málefnum, t.d. í þessum stíl: "Hvað vilt þú, gamli karlpungur upp á dekk? Þú ert nú meira fíflið!"

Misskilningur minn?
Nú kann það auðvitað að vera svo að ég misskilji þetta allt saman; að þetta sé einmitt sú "umræðuhefð" sem mun gera okkur færari um að takast á við framtíðina. Með henni takist að temja þá sem eru á öndverðum meiði þannig, að á endanum verði bara ein rödd; röddin sem segir þér hvernig hlutirnir eiga að vera og þú eigir ekkert að vera að hafa einhverja skoðun á því. 

Þó mér finnist þetta ekki eiga að vera með þessum hætti, þá mun ég víst vera kominn á þann aldur að vera búinn að missa leyfið til að tjá skoðanir mínar. Ég á víst að láta þennan vettvang eftir, þeim sem vita betur, sem reynist svo oftar en ekki vera svo, því miður.

Gröftur undir plástrinum
Ég fæ ekki betur séð, en mikilvægast sé í "umræðuhefð" okkar að finna eitthvað sem er að og skella á það plástri. Það er þetta gamla, að taka á einkennunum en nenna ekki að velta fyrir sér hvað olli þeim. Þingmenn hrópa hver á annan og útdeila ásökunum, það sama gera borgarfulltrúar, og baráttuhópar af ýmsu tagi.  Það eru dregin fram í dagsljósið orð eða hugtök, sem er síðan beitt eins og sverðum í átökunum við óvininn. Orð og hugtök sem verða að klisjum og koma í staðinn fyrir einhverja rökræna pælingu. Mér koma mörg í hug nú, en ég nenni ekki að fara að kalla á holskeflu frá baráttufólkinu; fólkinu sem telur sig eiga sannleikann.
Klisjuumræða
Hér ætla ég að nefna tvennt, en sleppi því þriðja svo mjög sem mig kann nú að langa til að taka það með.

Það fyrra:
Stórvaxandi neysla ungs fólks á lyfjum eða efnum af ýmsu tagi og geðsjúkdómar sem hrjá ungt fólk í meira mæli en áður hefur þekkst.  Samfélagið æpir á aðgerðir og kallar ráðamenn til ábyrgðar. Það á að setja plástur á þetta!  Engan hef ég enn heyrt velta því fyrir sér hvað það getur verið sem veldur þessari áberandi breytingu.  Er það raunin að enginn sé að leita að samhenginu? Hversvegna er ungt fólk í meiri vanda nú en áður var, í þessu þjóðfélagi þar sem börn eru talin nánast heilagar verur í orði, á sama tíma og halda má því fram að aldrei fyrr hafi æska barna verið erfiðari? Þið takið eftir því, að ég segi "halda má því fram".  Ég er reyndar búinn að skrifa heilmikið um þetta mál áður, og endurtek það ekki nú.

Það síðara:
Nú gangast allir upp í því að vera óskaplega miklir umhverfisverndarsinnar -  rjúka út að plokka, hamast við að sauma tuskuinnkaupapoka, og jari jari (eins og fD myndi segja). Erum við ekki búin að vita það árum saman að í óefni stefnir með þessa jörð okkar?  Erum við ekki búin að tala um þetta afskaplega lengi?  Hvað höfum við hinsvegar gert, þessir allsnægtavesturlandabúar?  

Ég hef þá tilgátu að við höfum, með sjálfum okkur, ætlað öllum öðrum að taka á í umhverfismálum.  Við höfum hugsað sem svo, að plastpokinn sem við keyptum utan um vörurnar í Bónus, skipti engu í heildarsamhenginu.  
Við erum samt svo góð, í orði, góð í að tala um hvað hinir eiga að gera. Förum kannski í átak, svona svipað og þegar við förum í megrun,  plokkum svona dag og dag, verðum þannig fyrirmyndarborgararnir sem aðrir geta dáðst að á facebook. 

Hvar eru rætur þessa vanda?  Þegar stórt er spurt.....

Ég get hugsað sem svo, kominn á minn aldur: "Það lafir meðan ég lifi". Jörðin verður ekki óbyggileg fyrr en ég er kominn undir græna torfu. Hvað kemur það mér við, sem gerist eftir það?

Svona má ég hinsvegar ekki hugsa, því þar með geri ég að engu allt það sem líf mitt hefur snúist um: afkomendur mína, starfið sem ég ég hef eytt ævinni í, bloggin mín, myndirnar mínar. Til hvers hefði líf mitt verið án þessa alls?

Nóg er nóg
Ég lýk þessum blæstri mínum á að biða þig sem nenntir að lesa alla leið, velvirðingar á að hafa hér og þar verið fremur ruglingslegur og/eða hvass.  Ég er lengi búinn að vera að leita einhverrar leiðar til að fá útrás fyrir gremju mína yfir því hvernig við lifum æ meir í núinu, hendum því sem var, reynum lítið, í raun, til þess að skapa framtíð fyrir okkur á jörðinni. 
Mér finnst stundum að við séum orðin föst í gildru sem við bjuggum til sjálf.  Okkur mun ekki takst að öskra okkur út úr henni. Við þurfum að reyna að muna hvernig við bjuggum hana til, og rekja okkur þaðan.  Þannig mun allt fara vel að lokum.

06 október, 2018

Dauður reykskynjari

Þar sem ég bý í timburhúsi á ég að vera sérstaklega vakandi varðandi allt sem kemur að brunavörnum. Ég er auðvitað vakandi, meira að segja sérstaklega, en ekki hefur þetta vökulíf mitt beinst neitt sérstaklega að brunavörnum hússins sem ég bý í.
Jú það fór svo, að það voru keyptir reykskynjarar og settir upp hér og þar um húsið og með því skyldi tryggt, að það sem átti ekki að og mátti ekki gerast, gerðist, myndum við allavega sleppa lifandi úr húsinu. 
Áður kom maður frá brunavörnum árlega með nýja rafhlöðu og skipti úr slökkvitækjum - sá þannig til að brunavarnir væru eins og vera bar.

Svo hætti hann að koma, en í staðinn gat  maður farið í tiltekið hús á Selfossi og fengið nýja rafhlöðu og nýáfyllt slökkvitæki. Þegar ábyrgð á eigin öryggi er þannig sett á herðar manns sjálfs, fer örugglega ýmislegt úrskeiðis hjá ýmsum. Jú, ég hef reynt að vera vakandi fyrir því að skipta um rafhlöður, en hefur gengið ver með slökkvitækin.

Einhvernveginn hefur aðdragandi jóla orðið til þess að manni verður hugsað til reykskynjaranna og þannig var það einnig fyrir síðustu jól. En samt gleymdist að skipta. Ekki gáfu þeir til kynna að rafhlöður væru að tæmast, svo það var eiginlega ekkert sem varð til þess að minna á.
Ég ákvað samt, þegar á leið sumar, að athuga með þessa verndara mína. Ýtti á takka sem á að verða til þess að heyrist píp.
Það gerðist ekkert.
Nú jæja, rafhlaðan bara steindauð hugsaði ég og skipti um, setti nýja og ferska í.
Það breytti engu, ekkert píp.
Hvað var nú?
Ferð á Selfoss með reykskynjarann varð til þess, að ég varð upplýstur um að reykskynjarar eru ekki eilífðarvélar. Þetta hafði enginn sagt mér og ekki er ég svo mikill brunavarnanörd að ég hefði nokkurntíma farið inn á vef Mannvirkjastofnunar til að fræðast um reykskynjara. Ég er búinn að því nú. Þar segir, neðarlega í upptalningu á þáttum sem ber að hafa í huga verðandi brunavarnir, að:

Líftími reykskynjara er um það bil tíu ár. 
Aðgætið framleiðsludag/ár þegar reykskynjari er keyptur.

Mínir reykskynjarar reyndust hafa verið framleiddir árið 2003 og þar með með líftíma til 2013 eða þar um bil.  Þeir dóu úr elli, blessaðir.

Ég er nú að setja þetta hér vegna þess að ég trúi því ekki að ég sé eina manneskjan sem ekki hefur gert mér grein fyrir því að líftími reyskynjara væri takmarkaður. Ef svo er, þarf ég auðvitað að hugsa min gang og tengja mig betur við raunveruleikann.

Ég þurfti sem sagt að kaupa nýja reykskynjara, sem var ekki mikið mál, enda ódýr öryggistæki. Það sem ég er hinsvegar ósáttur við er, að til þess að festa þá upp það að skrúfa þá upp og vegna þess að festingar fyrir þessi ágætu tæki eru ekki staðlaðar, þarf að ger ný göt fyrir hvern nýjan reyksynjara. Vesen!

Eru þínir reykskynjarar kannski dauðir?

05 október, 2018

Með skrautlega stundatöflu

Leið mín lá á Selfoss í dag eins og stundum áður. Einnig eins og stundum áður, lét ég eftir mér að skella mér á Skalla og fá mér hamborgara. Svona nokkuð gerist við og við, eiginlega of sjaldan.

Á Skalla þessu sinni var hópur pilta á framhaldsskólaaldri og mér skildist á tali þeirra að þeir væru í Fjölbrautaskóla Suðurlands.
Ég fékk minn hamborgara og hóf að neyta hans svona eins og gengur og gerist, en heyrði, meðan nautakjötið og frönsku kartöflurnar lögðu leið sína "upp í munn og oní maga", samræður piltanna í þessum hópi. Þeir fjölluðu um nám sitt í neikvæðum tóni og virtust gangast talsvert upp í að segja hver öðrum frá því hvað hitt og þetta væri nú ömurlega leiðinlegt. Hvort sú var síðan raunin er auðvitað annað mál.
Þar kom að einn þeirra kvað upp úr með: "Viljiði sjá stundatöfluna mína? Hún er sko skrautleg!"  Svo virðist hann hafa dregið fram umrædda stundatöflu, en þar sem ég snéri baki í hópinn, þar sem ég gerði máltíð minni skil, sá ég ekki þessa skrautlegu stundatöflu. Hópurinn rak upp heilmikinn hlátur og einn þeirra sagði: "Það er bara eiginlega ekkert á henni!"  Stundatöflueigandinn greindi í framhaldinu fullum hálsi frá því hvað allir þessir áfangar sem hann hafði verið skráður í, hefðu verið ömurlega leiðinlegir og hann væri dauðfeginn að vera búinn að segja sig úr þeim.
Það var ekki fjallað um hvað síðan tæki við.
Það fylgdi ekki sögunni hvernig líðanin með þessa stöðu væri í raun og veru.

Jú, ég lauk við hamborgararnn minn og annað sem honum fylgdi, hugsi. Strákarnir héldu áfram að reyna að toppa hver annan í lýsingum sínum á þessu glataða lífi sem fólst í að sækja nám í framhaldsskóla.
"Ég er kominn með 30 fjarvistir!"

Ég hefði getað staðið á fætur og reynt að biðja þessa ungu pilta að setjast nú niður í rólegheitum með sjálfum sér og velta fyrir sér lífi sínu eftir 10 ár, miðað við mismunandi forsendur, en ég gerði það ekki.
Hversvegna hefði ég svo sem átt að gera það?
Af manngæskunni einni saman?
Sem gamli kennarinn sem hokinn er af reynslu í þessum bransa?
Sem karlmaður, sem sér kynbræður sína í æ meira mæli flosna upp úr námi?
Hver hefði svo sem borgað mér fyrir þann tíma sem færi í það?

Nei, ég kyngdi síðasta bitanum af hamborgaranum, stóð upp og gekk á dyr. Horfði í leiðinni yfir þennan hóp sem ég hafði verið að hlusta á. Velti fyrir mér hvort tal þeirra um námið endurspeglaði raunveruleg viðhorf þeirra, eða hvort það væri ef til vill bara í nösunum á þeim. Þetta gat ég ekki vitað. Mögulega var þarna um að ræða einhverja pilta sem stóðu frammi fyrir enn einu tapinu í lífinu, einhverjum ókleifum vegg, þar sem uppgjöf virtist vera eini valkosturinn. Telja, að þegar svo sé komið sé best að reyna að gera gott úr því, taka því með karlmennsku, hvað sem það nú er. Kannski þeirri tegund karlmennskunnar sem gefur skít í. "Fokk it oll, bara!"

Ég gekk síðan út og settist inn í bíl, en ég var hugsi og er enn hugsi. Fannst þessi reynsla ekki til þess fallin og bæta meltinguna.
Hvað get ég svo sem gert? Ef ég færi að blanda mér í umræðu um skólamál, með þær skoðanir sem ég hef, yrði meðferðin á mér líkast til svipuð þeirri sem sálfræðingurinn fékk í DV í dag:

Stefán Sturla Svavarsson
Er þetta ein af þessum svokölluðum falsfréttum.

Halldóra Eyfjörð
Guð hvað ég vona að þetta sé grín annars er eitthvað mikið að hjá þessum sálfræðing

Birgir Kristbjörn Hauksson
Ég tek ofann fyrir Arnari að hafa kjark til að segja það sem mörgum býr í brjóst. Hér er á ferðinni risastór bleikur fíll sem allir snúa baki við og enginn vill kannast við.

Það verður fróðlegt að heyra röksemdir gegn þessu. Arnar er sérfræðingur á þessu sviði og hugreki hans er algjört að hætta sér í þessa ormagryfju þar sem Cult femínismi hefur hertekið alla umræðuna.

Kraki Johnson
Nenniði gömlu pungar að hætta að þykjast vera einhverskonar verndarar okkar kyns for fuck sake.
Ekki bað ég ykkur um það. Kveðja ungi Karlmaðurinn

Árný Margrét Agnarsdóttir
Þessi var greinilega ekki alinn upp konum með þessar ógeðslegu skoðanir.

Hallfriður Jóna Hauksdottir
Ég held að hann þurfi sálfræði hjálp

Trölla Konan
Arnar segir að karlkyns uppalendur séu því sem næst útdauðir.
Er maðurinn að reyna halda því fram að karlmenn hafi almennt séð um uppeldið á árum áður?

Ég setti í gang og skellti mér á pósthúsið og svo þurfti að kaupa íslenska papriku, og svo myndi lífið halda áfram. 

29 september, 2018

Að efna í aldarminningu (7) - lok

Á þessum degi, 29. september, 2018, eru 100 ár frá fæðingu Skúla Magnússonar í Hveratúni. 

Þegar þessari frásögn lauk síðast, var Hveratúnsfjölskyldan búin að sprengja utan af sér "gamla bæinn" og hafin bygging á nýju húsi sem var 140 m², eða 80 m² stærra.
Svo hélt lífið áfram og úr þessu fór því fólki fækkandi sem þurfti húsakjól í Hveratúni. Ætli elsta barnið hafi ekki farið í Skógaskóla um 1962, það næsta á Laugarvatn 1964, afinn á bænum, Magnús lést í byrjun árs 1965.
Þetta er gömul saga og ný: þegar fólk hefur loksins náð efnalegri getu til að komast í hæfilega stórt húsnæði fyrir fjölskylduna, fer að fækka. Eldra fólk í of stóru húsi, er niðurstaðan.
Um 1970 voru Skúli og Guðný í Hveratúni með tvo syni heima á vetrum, sem enn voru í grunnskóla, en skammt í að þeir hyrfu einnig til vetrardvalar fjarri heimilinu.

Árin liðu og Hveratún styrktist í efnalegu tilliti og snemma á níunda áratugnum kom yngsti sonurinn til liðs við foreldrana og tók svo við þegar sá tími kom.

Nýi bærinn í Hveratúni sumarið 1961 (Mynd frá Ástu)
Þetta á að heita aldarminning um föður minn, Skúla Magnússon í Hveratúni, en ekki saga fjölskyldunnar í Hveratúni. Þetta tvennt er þó eðli máls samkvæmt, afskaplega samtvinnað og það getur verið snúið að fylgja aðeins einum þræði þar sem margir eru ofnir saman í einn streng. Ég tek því á það ráð, að reyna að losa um þráðinn sem er Skúli til að skoða hann sjálfan, persónuna sem hann var, jarðveginn sem hann nærðist á og það sem hann bardúsaði fyrir utan að vera samofinn hinum einstaklingunum í fjölskyldunni.

Hver var hann svo, þessi Skúli Magnússon, sem fæddist í Jökuldalsheiðinni - líklega afsprengi frostavetursins mikla - hálfum mánuði áður en Kötlugosið hófst, tæpum mánuði áður en spánska veikin tók að herja á Íslendinga og einum og hálfum mánuði áður en fyrri heimstyrjöld lauk?
Var þessi piltur ef til vill fyrirboði þessara stóru atburða?
Þegar stór er spurt.

Sauðfé var hluti af bústofninum, F.v Ásta, Páll, Sigrún. 
Jú, hann er sonur fólks sem ekki var mulið undir, engin silfurskeið á þeim bæ. Þar er grunnurinn. Ræturnar liggja í þeim jarðvegi sem nærði smábændur á Fljótsdalshéraði. Nægjusemi var nestið sem hann tók með sér í fóstur til kennaranna Sigrúnar og Benedikts á Hallormsstað.

Fjórðungi bregður til fósturs, segir í Njáls sögu, en það merkir, að sá sem elur upp barn mótar það eftir sínu skaplyndi að einum fjórða, þrír fjórðu eru erfðir og ýmsar aðstæður. Hér verður ekkert fullyrt um þetta, en ætla má að það umhverfi sem Skúli komst í á Hallormsstað, hafi breytt, ekki aðeins umhverfinu, heldur einnig viðhorfum hans og sýn á tilveruna. Þar komst hann inn í heim þar sem menntun og menning var höfð í hávegum og heim þar sem fólk átti ekki allt sitt undir veðri og vindum.  Hann var sendur í skóla. Þó ekki væri um langskólanám að ræða, var skólagangan meiri en margra annarra á þessum tíma.
Ætli megi ekki segja að það hafa síðan orðið nokkurskonar leiðarstef í lifi hans að bera virðingu fyrir og skilja erfiða lífsbaráttu og menntun sem grunninn að því að verða sjálfstæður einstaklingur.

Ef við gefum okkur nú að Skúli hafi mótast með þeim hætti sem hér hefur verið tæpt á, hvernig birtist það svo í líf hans síðar?

Ég byrja á að segja þetta:
Skúli var stefnufastur framsóknarmaður og grallari, sem fór sínar eigin leiðir.
Svo reyni ég að rökstyðja þessa fullyrðingu af veikum mætti.

1. Stefnufastur. 
Hann gekkst dálítið upp í því að halda sig við þá stefnu sem hann hafði markað sér og sínum, jafnvel þó svo gild rök gætu verið fyrir því að önnur stefna væri líkast til betri og árangursríkari. Hann þertók fyrir að þetta persónueinkenni hans mætti kalla "þrjósku". Stefnufesta var það og hún átti ekkert skylt við þrjósku. Þetta einkenni á Skúla birtist afar skýrt í framsóknarmennskunni.

2. Framsóknarmaður. 
"Hetja" Skúla á þessu sviði var Eysteinn Jónsson.
Tíminn kom í póstkassann alla tíð, hvort sem það var með mjólkurbílnum einu sinni í viku, í bunkum, eða daglega, svo lengi sem hann var gefinn út undir þessu nafni.
Við vörubíl(inn)
Það voru aldrei, keyptar vörur til heimilisins nema í KÁ eða hjá Sambandinu og það var aldrei keypt eldsneyti á bíla nema hjá Esso. Þetta tók eitthvað að riðlast, að vísu eftir að eignarhaldið á þessum fyrirtækjum fór út um víðan völl með tiheyrandi nafnabreytingum.
Þessi skoðanastefnufesta gekk svo langt, að síðustu árin, þegar arftakar Eysteins höfðu leitt flokkinn út fyrir allt velsæmi, hélt hann samt áfram að verja flokkinn sinn, þó svo vörnin væri engin. Það var þá sem hann fór að leyfa grallaralegu glottinu að fylgja varnarræðum sínum. Þá vissi maður að hann var genginn af trúnni og það kom reyndar í ljós í samtölum, að hann var framsóknarmaðurinn sem vildi að flokkurinn væri sá sem hann var í árdaga. Steingrímur var síðasti formaður hins sanna Framsóknarflokks.

3. Grallari
Ekki er ég viss um að þetta orð "grallari" nái alveg því sem átt er við. Skúli naut þess að vera ósammála viðmælendum sínum, bar fram mótbárur við skoðunum viðmælandans og setti fram sína eigin, jafnvel þó svo þær stönguðust á við eigin skoðanir á þeim málefnum sem um var að ræða. Þegar hann var í þessum ham gerði hann sitt ýtrasta til að halda andlitinu, en það tókst misvel. Grallaralegt glottið sem falið skyldi vera, hreyfði oftast örlítið við andlitinu.

4. Fór sínar eigin leiðir.
Höfundur aftan á Landróvernum,
sennilega frekar þeim brúna en þeim bláa.
Dag nokkurn, sennilega í kringum 1960 þurfti Skúli að skreppa til Reykjavíkur í einhverjum erindagerðum. Fór líklegast með mjólkurbílnum eða grænmetisbílnum. Á þessum tíma hafði ekki verið bíll í Hveratúni frá því vörubíllinn var og hét. Um þennan vörubíl veit ég reyndar ekkert, en hef frétt af honum og séð hann á mynd.
Hvað um það, Skúli sneri til baka úr höfuðborginni á Landrover bensín, ljósbrúnum eða drapplitum, nýjum úr kassanum. Ekkert vissum við, ungviðið á bænum um að til stæði að kaupa Landrover, en það sem meira var, bifreiðakaupin komu frú Guðnýju Pálsdóttur einnig í opna skjöldu.
Þetta einkenni á Skúla fylgdi honum fram á síðustu ár. Meðan hann enn ók bíl, átti hann það jafnvel til að aka út í buskann án þess að láta kóng eða prest vita, en þar kom að hann þurfti að sætta sig við að það sem áður var hægt gekk ekki lengur. Það var hinsvegar fjarri honum að viðurkenna fylgifiska ellinnar fyrir nokkrum manni. Um slíkt ræddi hann ekki.
---
Þar sem hann lifði og hrærðist einn í húsinu sínu í Hveratúni síðustu árin, þótti við hæfi að hann fengi öryggishnapp ef eitthvað kæmi upp á. Þetta fannst honum hin mesta  vitleysa og spurði hvernig hann ætti að fara að því að ýta á þennan hnapp ef hann dytti nú niður dauður.  Hann fékkst þó til að bera hnappinn, aðallega til að friða umhverfið.

Þegar á leið leitaði hugurinn æ oftar austur á land til þess tíma sem hann var á Hallormsstað og það stóðu upp úr honum vísurnar sem hann hafði lært sem barn og ungur maður. Þetta voru yfirleitt kersknisvísur svokallaðar, eða fyndnar, sem sagt.  Hann fór með þær aftur og aftur þar til maður lærði og alltaf hló hann jafn dátt þegar búið var að fara með vísu af þessu tagi. Ég tek hér  tvær vísur af þessu tagi sem dæmi:

Einu sinni var bóndi austur á Héraði og var honum illa við prestinn. Hann orti um klerk þessa vísu:
 
Mikið er hvað margir lof´ann 
menn sem aldrei hafa séð´ann
skrýddan kápu Krists að ofan,
klæddan skollabuxum neðan.


Skollabuxur er húðin frá mitti og niður úr, en klæði menn sig í slíkar buxur skortir þá ekki fé í þessum heimi – en brenna munu þeir að eilífu í víti annars heims.
Nú er að segja frá því að í sveitinni var annar bóndi og líkaði honum einnig illa við prestinn. Hann heyrði vísuna og einsetti sér að læra hana utanbókar. Eftir tæp þrjú ár taldi hann sig vera kominn með þetta og fór svona með hana, heldur rogginn:
 
2013 á Lundi. Þarna gæti hann verið að fara með
vísuna um skollabuxurnar

Mikið er hvað margir lof ´ann
að ofan
menn sem aldrei hafa séð´ann
að neðan.


Flutningi á þessari vísu fylgdi síðan skellihlátur allra viðstaddra.


Það kom fyrir að hlé varð á samræðum um stund, en þá kom þessi vísa oftar en ekki:

Svona' er það við sjóinn víða
sama gerist upp til hlíða

Oft lét hann þetta nægja en framhaldið kom þó einnig stundum:

sveinn og meyja saman skríða
segjast elskast jafnt og þétt -
hvað er auðvitað alveg rétt.
Í hjónabandi' að lifa´og líða
uns lausakaupamet er sett.

---
Þetta fer nú sennilega að verða gott um föður minn, sem ávallt reyndist mér og mínum vel. Aldrei fólst það þó í því að hann fjallaði um tilfinningar eða hefði frammi mörg orð. Hann var maður sem brást við með aðgerðum þegar á þurfti að halda, þurfti ekkert að ræða það neitt sérstaklega. 

Níræður með börnum og tengdabörnum.

Það má segja að lífið hafi farið vel með hann í flestu, en sannarlega þurfti hann að takst á við erfiðleika á lifsleiðinni, þó ég telji nú að hann hafi verið tiltölulega heppinn með börn (hvað sem aðrir kunna að segja um það). 
Sennilega hefur það tekið einna mest á hann að missa lífsförunautinn í desember 1992. Hann tjáði sig hinsvegar ekki um það, við mig í það minnsta. Geymdi söknuð og sorg með sjálfum sér og lifði fram í háa elli. Hann lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Lundi á Hellu þann 5. ágúst 2014, að verða 96 ára.



22 september, 2018

Bragi á Vatnsleysu

"Tvær úr Tungunum" 2013
Hann sat í blíðunni á stól fyrir framan útidyrnar á Vatnsleysu þegar ég renndi úr hlaði. Var svo sem þessi sami gamli Bragi og hann hafði alltaf verið, en til viðbótar mátti greina yfirbragð þess sem tekið hafði ákvörðun sem hann var sáttur við. "Þetta er orðið gott", sagði hann. "Kva..ég er búinn að lifa í rúmlega áttatíu ár!"  Hann leit yfir Vatnsleysuhlaðið, arfleifðina, og naut veðurblíðunnar. Æðruleysi, gæti maður líklega sagt.

Halla og hann höfðu þá setið með mér drjúga stund við upprifjun á 62 ára gamalli sögu, sögu sem hafði breytt lífi þeirra til frambúðar. Sögunni um það þegar Halla hafði fyrst séð hann á Vatnsleysuballi sumarið 1955 og síðan beðið hann um eld á Vatnsleysuballi sumarið eftir. Eldurinn sem þá var kveiktur logaði síðan í ríflega 60 ár er nú orðinn að minningum um gleði og sorgir og allt þar á milli.

Á æfingu fyrir lokatónleika undir stjórn Hilmars, í september 2008


Ég fór eiginlega ekkert að kynnast Braga að ráði fyrr en ég ákvað að ganga í Skálholtskórinn fyrir einhverjum tugum ára. Þá var mér komið fyrir við hlið þeirra bræðra frá Vatnsleysu, Sigga á Heiði og Braga.
Svo var farið að æfa.
Það var þetta lag eða þessi sálmur eða þetta verk sem farið var í undir styrkri stjórn Glúms Gylfasonar. Það brást varla að það gall í öðrum hvorum bróðurnum: "Við kunnum þetta!" eða  "Það þarf ekkert að æfa þetta!". Þarna tjáðu sig þrautreyndir tenórarnir sem höfðu þarna sungið í þessum kór í vel á þriðja áratug. Ég kunni náttúrurlega ekkert, en það var óendalega þægilegt að hafa svona reynda og örugga tenóra sér við hlið og smátt og smátt síaðist þetta inn.

"Röddin hefur dökknað og þú ættir sennilega betur heima í bassanum". Efnislega þurfti Bragi að heyra þetta um sjálfan sig á afdrifaríkum fundi fyrir óskaplega mörgum árum.
Svona segir maður bara ekki við tenór!
Þar með hætti hann í kórnum og kórinn sprakk reyndar í frumeindir, ef svo má að orði komast, en það liðu ekkert óskaplega mörg ár áður en hann mætti aftur galvaskur, inn í endurreistan kór, á tenórbekkinn, talaði reyndar um það á nánast hverri æfingu, að nú ætti hann að fara að hætta, en það dróst eitthvað á langinn, enda eindreginn vilji kórfélaganna að hann yrði hluti af þessum hópi sem lengst, ekki bara vegna þess hve öflugur söngvari hann var, heldur ekki síður vegna þess hve góður félagi.  Í lítillæti sínu tók hann oftar en ekki til sín aðfinnslur kórstjórans, sem ávallt beindust í raun að öðrum röddum frekar.

Á leið inn í Bláa hellinn /Grotta Azurra á Caprí, 2007
Bragi var sem sagt í Skálholtskórnum allt þar til fyrir nokkrum árum. Það voru veikindi sem tóku þá ákvörðun fyrir hann. Ávallt kom hann þó á tónleika til að styðja sitt fólk, hrósaði og gerði að gamni sínu.  Ekki veit ég um neinn sem var duglegri að sækja tónlistarviðburði. Hann söng ekki í Skálholtskórnum bara vegna félagsskaparins. Hann sótti í tónlistina, ekki síður til að njóta en taka þátt.

Ég tel það hafa verið forréttindi að hafa fengið að alast upp við hlið Braga í Skálholtskórnum. Hann var tenór fram að síðasta andardrætti.

Bragi lést þann 12. september og útför hans er gerð í dag, frá Skálholti.

Tenórar Skálholtskórsins (ásamt öðrum röddum) takast á við verk eftir Gunnar Þórðarson og  Arvo Pärt í Gethsemane Kirche 2009


Gethsemane Kirche í Berlín 2009

20 september, 2018

Að efna í aldarminningu (6)

Þar var komið sögu í síðasta hluta þessarar aldarminningar um föður minn, Skúla Magnússon, að þau Guðný Pálsdóttir frá Baugsstöðum, verðandi eiginkona hans, höfðu fest kaup að garðyrkjubýli í Laugarási, sem kallaðist Lemmingsland. Þarna höfðu dönsk hjón Börge og Ketty Lemming byggt upp litla garðyrkjustöð, og bjuggu þar frá 1941-1945 (svona um það bil).  Það er sérlega gaman að segja frá því að mér hefur nú tekist að komast í samband við afkomendur þeirra Börge og Ketty, sem þekkja til sögu þeirra á Íslandi og bíð nú spenntur eftir svörum þeirra við spurningum mínum um þessi ágætu hjón. 

Þann 30. maí, 1946 gengu þau Skúli og Guðný í hjónaband eins og lög gera ráð fyrir, enda vart við hæfi að hefja búskap ógift.

Hveratún 1968, séð til norðurs. Lengst t.h. gróðurhúsin þrjú 
og gamla íbúðarhúsið, sem Skúli og Guðný keyptu. 
Fremst fyrir miðju er íbúðarhúsið sem tilheyrði Grósku.
Það sem þau keyptu þarna voru þrjú gróðurhús, ca. 100 m² hvert og 60m²  íbúðarhús með engu eldhúsi. Fólk myndi víst ekki lifa lengi á svona garðyrkjustöð nú.  Það má telja fullvíst, að fyrst eftir að þau komu í Laugarás, hafi þau fengið inni í íbúðarhúsinu í Grósku (Grózku)(síðar Sólveigarstaðir). Á þessum tíma var Skaftfellingur að nafni Guðmundur, sem hafði átt Grósku (sem þá hét óþekktu nafni) í tvö ár, búinn að selja Náttúrulækningafélagi Íslands býlið. Þá voru þarna 4 gróðurhús, alls 600m² og íbúðarhús.
Eina ástæða þess að fyrir liggja upplýsingar um að nýju Laugarásbúarnir hafi búið í Grósku er sú, að þar fæddist elsta barn þeirra, Elín Ásta í júní 1947. Það má með góðri samvisku gera ráð fyrir því, að ekki hafi frú Guðný gert sér að góðu að búa í eldhúslausu húsi og þannig hafi það komið til að þau bjuggu til að byrja með í Grósku.
Magnús Jónsson

Svo var eldhúsið klárt  og flutt inn. Framundan 45 ára búskapur Skúla og Guðnýjar með öllu sem slíku fylgir, þar með 5 börnum á 12 árum. Það hefur nú varla þótt neitt merkilegt á tímum barnasprengjunnar sem varð í hinum vestræna heimi á þessum árum.
Elín Ásta, sem áður hefur verið nefnd, fæddist 1947, tveim árum síðar, 1949,  bættist við önnur dóttir Sigrún Ingibjörg, þá liðu þrjú ár (enda þurfti að vanda sig) þar til fyrsti sonurinn kom í heiminn, í lok árs 1953, en það var Páll Magnús. Fjórða barnið og annar sonurinn, Benedikt mætti á svæðið rúmum tveim árum síðar, 1956. Þegar þarna var komið var nú vísast farið að minnka plássið í litla 60 m² húsinu, ekki síst vegna þess að frá 1950 hafði faðir Skúla, Magnús Jónsson, sem áður hefur verið fjallað um, búið hjá þeim í Hveratúni. Þar fyrir utan voru oftar en ekki vinnukonur, aðallega á sumrin. Í raun skortir mig hugmyndaflug til að segja til um hvernig þeim var komið fyrir.

Gamli bærinn í Hveratúni. Teikning eftir minni.
Hér til hliðar er gróf teikning af húsinu sem Guðný og Skúli bjuggu í með börnum og afa frá 1947-1961.  Á teikningunni eru ýmsir fyrirvarar, m.a. um hlutföll, en herbergjaaskipanin er nokkuð skýr. Gera má ráð fyrir að systkini mín kunni að hafa sínar skoðanir á þessu og reynist þær réttari en þarna má sjá, verður auðvitað tekið tillit til þess.
Á teikningunni eru húshlutarnir merktir með tölum:
1. Anddyri og gangur.
2. Búr og löngu síðar framköllunarkompa.
3. Stofa, en sennilega síðar svefnherbergi.
4. Geymsla og þvottahús. Þarna lá stigi upp á loft.
5. Snyrting
6. Eldhús. Þegar Skúli og Guðný komu var íbúðarhúsið sambyggt gróðurhúsi og þarna var gengið á milli húsanna.
7. Herbergi Magnúsar og borðstofa
8. Fjölskylduherbergi síðar stofa.
9. Hænsnakofi. Ekki er alveg ljóst hvenær hann var byggður en það var eftir að Skúli og Guðný komu á svæðið.

Það var orðið þröngt á fjölskyldunni þegar þriðji sonurinn, fimmta barnið, Magnús, kom í heiminn í september, 1959. Það var því ekki annað í stöðunni en að fara að byggja. 

Fjölskyldan í Hveratúni 1960.
Myndina tók Matthías Frímannsson en hann starfaði þá sem "eftirlitskennari"  í barnaheimili RKÍ, Krossinum.


Árið 1961 tók við enn einn áfanginn á leið Skúla í gegnum lífið, en um hann verður fjallað í síðasta hluta, sem birtast mun áður en langt um líður, ef að líkum lætur.








12 september, 2018

Fyrir litlu greyin

Það haustar, eina ferðina enn. Orðið napurt á stundum þó veðrið undanfarna daga hafa verið harla gott á þann mælikvarða sem settur er á liðið sumar. 
Mér finnst ágætt að gera stundum annað en afla gagna, vinna myndir, skrifa texta eða vinna í vef, en þetta hefur nú verið meginstarf mitt undanfarnma mánuði og á því er ekkert lát sjáanlegt á næstu mánuðum.
Þegar ég geri eitthvað annað, þá reyni ég að láta það ekki vera af því tagi sem veldur mér leiðindum. Vissulega kemst ég ekki alltaf hjá því að sinna slíku, en þannig verður það bara að vera.

Eftir að vorið tók við af síðasta vetri og vetrargestirnir hurfu smátt og smátt af pallinum með ungunum sínum, hóf ég að velta fyrir mér hvernig framhaldið gæti orðið. Þegar ég fer að velta einhverju fyrir mér, þá má slá því nokkuð föstu að það fyrsta sem mér dettur í hug verður ekki niðurstaðan. Það má líka slá því nokkuð föstu, að þegar fD segir að ég skuli bara gera svona, og svona og svo svona, þá verður ekkert úr því. 
Ég kýs að láta hugmyndir mínar gerjast nokkuð lengi, og ég þarf að vera búinn að hugsa allt til enda áður en ég læt til skarar skríða.  Þessi háttur minn á ekki upp á pallborðið hjá fD, sem telur einna helst að skortur minn á framkvæmdasemi stafi af einberri leti, sem auðvitað er raunin.  Sá tími sem notaður er til að hugsa áður en maður framkvæmir, verður seint ofmetinn. 

Það kom sá tími fyrir nokkru að ég var búinn að hugsa alla leið, hvernig ég hygðist búa að fuglum himinsins á pallinum í Kvistholti á komandi vetri. Grunnurinn sem hann verður byggður á, á sér þá sögu að hafa verið trégrindin utan um gasgrillið sem við ákváðum að keyra í ruslagám í Reykholti. Í okkar huga er gasgrill ekki í tísku lengur, en lítið kolagrill uppfyllir allar okkar þarfir í grillmálum í staðinn. 

Grindin utan af gasgrillinu var sem sagt grunnurinn, sem síðan var hugsað í kringum og inn í  og nú er fyrsti þáttur í fóðurpallssmíðinni klár. Ungir helgargestir þær Júlía og Emilía Egilsdætur sáu um listskreytingu, sem án efa mun falla ræflunum litlu vel í geð. Götin á bakhliðinni ákvað ég að setja í þrennu augnamiði: 1. Til að fuglarnir setjist þar og skoði kræsingarnar áður en þeim eru gerð skil, 2. til að fuglarnir rammi sjálfa sig inn fyrir mig og EOS-inn, og 3. til að búa til nokkurskonar vindbrjót, þó auðvitað sé ekki þörf á slíku í Laugarási.

Það stendur enn yfir hugsanaferli sem lýtur að því hvernig þak verður sett á pallinn. Ég þykist viss um að því ferli lýkur farsællega, enda vel til vandað hugsunarinnar.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...