26 júní, 2021

Séra Egill Hallgrímsson

Í Skálholti 2016
Að deyja þegar sumar er framundan, hafa mér þótt verri örlög en að kveðja lífið síðla hausts, þegar vetrardrunginn og kuldinn er framundan. Í rauninn er það þó svo að það skiptir engu máli hver árstíminn er, þegar fólk deyr. Það er aldrei einhver réttur tími til þess, hvort sem það er sumar eða vetur, hvort sem fólk er ungt eða gamalt, hvort sem það kveður lífið snögglega eða smám saman. Þetta er alltaf erfitt og kallar fram allskyns hugsanir hjá þeim sem eftir standa hverju sinni. Hvað sem því öllu líður, þá er dauðinn bara eðlilegt framhald af lífinu, sem við, mannfólkið höfum alltaf vitað að biði okkar á einhverjum tíma. 

Séra Egill tók við prestsembætti í Skálholti fyrir 23 árum, sama árið og Skálholtskórinn fór í merka söng- og gleðiferð til Þýskalands og Frakklands. Nýi presturinn slóst í för með kórnum í þessa ferð og þar hófust fyrstu kynni okkar af manninum sem sett hafði stefnuna á að verða sálusorgari okkar og samstarfsmaður til framtíðar.
Kórferð á erlenda grund 1998

Leiðin lá í Móseldalinn það sem vínviðurinn grær, schnitzel er borið á borð, og hvítvínið fyllir glösin. 
Hópurinn reyndi margt saman í þessari eftirminnilegu ferð, en ekki hyggst ég fjölyrða um hana hér, en vísa þess í stað á frásögn af henni sem er að finna HÉR. Samt get ég ekki látið hjá líða, að nefna tvennt sem varð til þess að hjálpa til við að búa til þá mynd af nýja prestinum, sem síðan hefur fylgt honum í mínum huga, í það minnsta.

Þann 5. október 1998 kom kórinn og allt fylgdarfólkið saman til kvöldverðar, sem auðvitað er ekki í frásögur færandi í sjálfu sér. Þarna vorum við búin að dvelja í Móseldalnum í nokkra daga og framundan heimsókn yfir landamærin til Frakklands, bæjarins Barr í Elsasshérðinu.  
Umræddur kvöldverður var á veitingahúsi og í boði voru mismundandi tegundir af Schnitzel, mismunandi tegundir af hvítvíni og margt annað girnilegt. 
Eðlilega hafði ferðafólkið, þegar þarna var komið, fengið að njóta ríkulega helstu framleiðslu Móselmanna, hvítvínsins, bæði í meiri og minni mæli, eins og gengur.  Þar sem séra Egill sat við borðsendann hjá mér, gekk þjónn um salinn og bjóða gestunum drykki með matnum, líka séra Agli. Pöntun hans hljóðaði svona:
"Dræ kóla, bitte"
Skömmu síðar kom þjónninn aftur með pöntunina, en það voru þá þrjú stór glös af kóladrykk, sem hann raðaði skilmerkilega fyrir framan þennan sérstaka gest.  Það er skemmst frá því að segja, að við sem sátum við sama borð, veltumst um við þessa uppákomu og séra Egill hló manna mest. Þarna var þá kominn prestur sem hafði húmor fyrir sjálfum sér. Það var ágætt.

Með Ólafíu á þorpshátíð í Laugarási 2002
Séra Egill átti það til, í ferðinni, að hverfa þegar færi gafst og kanna  umhverfið á eigin spýtur. Eftir eitt slíkt skipti kom hann til baka með merkilegt miðaldasverð, sem hann hafði orðið sér úti um og lýsti ánægju sinni yfir kaupunum. Með þessu tiltæki varð uppi nokkur spenna í hópnum, því ólíklegt taldist að prestinum tækist að koma gripnum á íslenska jörð, þar sem ekki væri einfalt að flytja vopn til landsins bara si svona. 
Hápunktur afleiðinga vopnakaupanna átti sér síðan stað, fimmtudaginn 8. október þegar hópurinn beið þess í flugvél í Frankfurt, að halda heimleiðis. Svo segir í frásögn af ferðinni:   
Það síðasta sem við sáum af meginlandi Evrópu þennan dag var malbikið á flugvellinum nokkrir vöruvagnar og einmana miðaldavopn, vafið í pappír. Vopnið átti að vera hluti af farangrinum í vélinni sem var á norðurleið, til landsins nyrst í Atlantshafinu, þar sem skammdegið var að setjast að, en það fór hvergi. Hvar það er nú veit undirritaður ekki á þessari stundu.
Ekki veit ég enn hvað varð um þetta sverð.

Ég held að sú ákvörðun séra Egils að skella sér með kórnum í þessa ferð hafi orðið til þess að samband hans við þetta framtíðar samstarfsfólk, hafi orðið eins hnökralaust og samstarf prests við kór sinn getur orðið. Að baki embættismannsins er maðurinn og honum fengum við að kynnast aðeins betur í þessari ferð og ég tel fullvíst að aðlögun kórs og prests hafi orðið auðveldari eftir.

Það er ekki mitt að fjalla um séra Egil sem predikara og boðbera Orðsins. Til þess eru aðrir betur fallnir. Þar að auki get ég ekki sagt, að ég hafi kynnst manninum svo heitið geti. Það kemur þó ekki í veg fyrir að mér finnist ég hafa eitthvað um hann að segja og sem mér finnst hafa einkennt hann, sem hluta af  lífinu í Tungunum.

Aldarafmæli Guðmundar Indriðasonar, maí 2015
Þegar hann kom í Skálholt urðu eðlilega nokkrar áherslubreytingar og okkar var að aðlaga okkur að þeim, en hans líka, að okkar siðum og venjum. 
Þar má til dæmis nefna þetta með fermingarnar. Þar kom séra Egill fram af krafti, í samfélagi sem hafði verið vant því að fermt væri á hvítasunnudegi ár hvert. Með honum kvað við nýjan tón, smám saman. Hann var tilbúinn að ferma sem oftast, eitt barn hér og annað þar. Sannarlega fengu foreldrarnir þarna meira valfrelsi með dagsetningar, en á móti hvarf auðvitað sú sameiginlega upplifun allra fermingarbarna hvers árs að játa trú sína saman, með tilheyrandi minningum síðar. Hér var sennilega bara um að ræða vaxandi kröfur fólks um að ákveða fermingardaga sjálft, sem séra Egill tók bara fagnandi. Hann starfaði í samfélagi sem var smám saman að víkja frá einsleitninni, svona eins og þegar Ríkisútvarpið hætti að vera eina útvarps- eða sjónvarpsstöðin. Hér væri hægt að fjalla í löngu máli um hvort þær breytingar sem síðustu áratugir hafa fært okkur séu til góðs fyrir mannkynið, eða merki um upplausn, úrkynjun og endalok. Það mun ég þó ekki gera.

Annað einkenni á störfum séra Egils voru predikanirnar og útfararræðurnar, en þar dró hann ekki af sér alla jafna og ekki vil ég neita því, að stundum urðu þær full ítarlegar og að sama skapi í lengra lagi. Ég er nú samt þakklátur honum fyrir ræðuna sem hann hélt yfir föður mínum, en hana tel ég hafa verið í samræmi við það sem sá gamli hefði getað sætt sig við.

Skálholtshátíð 2018
ásamt Jóni Sigurðssyni og Drífu Hjartardóttur
Á tímabili í lífi mínu smitaðist ég af umhverfinu með því að sjá möguleikann á að verða ríkur af því að kaupa hlutabréf í einhverjum bönkum eða fyrirtækjum. Skemmst er frá að segja að ekkert hefur komið út úr neinu að þessum tilraunum mínum til að auðgast. Með einhverju móti kom það til, á þessum tíma, að ég sótti séra Egil heim, til að afla mér upplýsinga um ótrúlega vænlegan fjárfestingarkost, þar sem hann bjó yfir miklvægum upplýsingum; var einhverskonar tengiliður eða mjög vel heima í því sem þarna var um að ræða. Hann reyndist afar sannfærandi og það fór svo að ég sló til, en það hefur farið eitthvað minna fyrir arðinum af þeim hlutabréfakaupum og þetta félag, eða sjóður hvarf af sjónarsviðinu eða gufaði upp, rétt eins og aðrir vænlegir fjárfestingakostir sem hafa orðið á vegi mínum um ævina. Mér var víst aldrei ætlað að efnast af veraldlegum auði, svo mikið lærði ég á þessu brölti. 

Séra Egill var maðurinn sem fylgdi takti samfélagsins og tók sér ýmislegt fyrir hendur, þar sem íhaldssamara fólk hefði staldrað við, en á sama tíma tókst honum að vera fullkomlega trúverðugur í hlutverki sínu sem sálusorgari og predikari. Það var eins og hann væri alltaf tilbúinn að feta nýja slóð, afla sér þekkingar á ólíkum sviðum. Ætli það kallist ekki, að vera leitandi.

Nú er sögu hans sem samferðamanns okkar sóknarbarnanna lokið, en við höldum áfram og þökkum honum hlýjuna og ljúfmennskuna sem einkenndi alla hans framkomu. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu þann 9. júní síðastliðinn og útför hans er gerð frá Skálholtsdómkirkju í dag.  

 - fyrir hönd Kvisthyltinga16 júní, 2021

Ég hafði val (óður til eldri borgara) (3)

Siglingaleiðin, í sem stærstum dráttum.
(var sennilega miklu flóknari en myndin sýnir)

Það sem hér fer á eftir er framhald af þessu.

Eftirlitið
Nú tók við almennt eftirlit björgunarsveitarmannanna í áhöfninni, með hlaupurunum og skokkurunum, sem var sannarlega ekki heiglum hent. Þeir fyrstu voru, áður en við var litið orðnir að litlum punktum í fjarska fyrir framan okkur, en skemmtiskokkararnir sem síðastir höfðu verið ræstir mynduðu litla punkta í fjarskanum fyrir aftan. Þetta þýddi aðeins eitt: Björgunaraðilar, sem þurftu að vera til staðar í báðum fjörskunum, þurftu að bruna fram og til baka meðfram vatnsbakkanum og meta hvar þörfin væri mögulega mest. 

Vandkvæði
Þar sem ég var þarna með það hlutverk að festa viðburðinn á myndflögu, freistaði ég þess að smella af í hvert sinn sem báturinn var kyrr litla stund. Þegar hann var á siglingu var borin von að á myndum sæist annað en einhver afmynduð litaklessa.  Sem betur fer var öldugangur fremur lítill þarna norðan megin á vatninu, svo einstaka sinnum tókst mér að grípa þátttakendur við hinar og þessar aðstæður, en oftar ekki. Mér fannst að einhverjir hefðu nú alveg mátt lenda í einhverjum áhugaverðum aðstæðum, en það var lítið sem ekkert um það. 

Hindranir
Eftir Hjálmsstaðaárós þurfti að fara yfir ós markaskurðs milli Hjálmsstaða og Miðdals og eftir talsverð hlaup eftir það yfir ósa Skillandsár og Hólaár. Þeir ósar eru dálítið sérstakir vegna þess að Skillandsá rennur í Laugarvatn en Hólaá úr því og ós og upptök eru á sama stað.  Þannig gæti maður ætlað, að ef hlaupari félli í vatnið í þessum ósum, væri undir hælinn lagt hvort hann bærist með Skillandsá út í Laugarvatn, eða með Hólaá áleiðis í Apavatn.  Mér kom til hugar, að þarna gæti myndast áhugavert myndefni, en ég var farþegi í björgunarsveitarbát, þar sem hlutverk björgunarsveitarmannanna var að fylgjast náið með þeim hundruðum hlaupa- og skokksfólks sem liðaðist eftir vatnsbakkanum og ótrúlega mismunandi hraða.

Hlífar
Það segir ekki mikið af minni persónu meðan á þessu krussi fram og til baka um vatnið stóð. Vissulega hefði ég alveg viljað að bátnum hefði verið siglt inn að ósi Skillandsár og upptökum Hólaár, en ég reikna með að það hefði endað með strandi fleytunnar. 
Þegar við vorum farnir að þeysast fram og til baka meðfram austurbakka vatnsins (Úteyjarmegin) tók ég eftir því, að þegar leið okkar lá undan norðanþræsingnum, hlýnaði umtalsvert og þegar þar kom, að lofthitinn utan hanskanna sem ég hafði á höndum, var orðinn meiri, en innan þeirra, tók ég það til bragðs að fara bara úr þeim og freista þess að koma þeim fyrir í jakkavasanum, sem var hreint ekki auðvelt. Vestið stóra og öfluga, huldi alla vasa og ég þurfti af augljósum ástæðum að halda mér við bátinn öllum stundum. Eftir nokkurt bras og úthugsaða aðgerð, hurfu hanskarnir ofan í jakkavasann. Þangað voru þeir varla komnir þegar skipstjórinn snéri við og tók eindregna stefnu aftur í norður, þar sem við fengum heimskautagarrann beint í fangið og ég fór að sjá eftir því að hafa farið úr hönskunum og engan veginn fannst mér ásættanlegt að þurfa að fara að berjast við að ná þeim úr vasanum aftur. Það hefði bara verið vandræðalegt. Treysti á að þegar næsti leggur til baka yrði farinn, myndi sólinni takast að verma kalda fingur, sem raunin varð ekki, Ekki reyndi ég að klæðast hönskunum aftur í þessari ferð.


Fram og til baka
Eftirlitið hélt áfram, fram og til baka og við og við náði ég að smella af  með misjöfnum árangri. Fyrstu kepperndurnir voru löngu komnir í mark þegar þeir síðustu voru að nálgast Útey.  Þar kom, að eftirlitið beindist að suður eða suðvestur bakkanum og þar var ölduhæðin orðin talsvert meiri en við norðurbakkann. Áhöfnin fylgdist grannt með hlaupurunum sem aftastir voru og sem fóru æ hægar yfir, en reyndu þó sitt ítrasta til að líta vel út þegar við áttum leið hjá.  Fram og til baka, fram og til baka og ég fann  æ minna fyrir fingrunum, en eins og gefur að skilja var ekki um það að ræða að ég styngi höndunum í vasa til að fá smá hlýju. Önnur höndin var bundin við að halda í kaðalinn utan á slöngunni, en hin hafði fundið sér festu í álgrind sem var í miðjum bátnum. Við þessa grind var stýri bátsins fest, svo og ýmis stjórntæki, eins og inngjöf og annað slíkt. Báðar hendur mínar voru, sem sagt uppteknar við að halda mér innan báts - "í kulda og trekki". 

Ekki neita ég því, að ég hefði viljað að skokkararnir hlypu hraðar, en dáðist samt nokkuð að þeim fyrir að leggja þessi ósköp á sig. 
Þegar skipstjórinn tók sig svo til og gerði sig líklegan, að mér fannst, til að sigla til lands fyrir framan Vígðulaug, fór um mig ákveðin tilfinning léttis og þakklætis og ég sá fram á að komst í kaffisopa og hverabrauð með reyktum silungi. Við vorum sem sagt komnir í grennd við Fontana heilsulindina og þetta leit vel. Síðustu skokkararnir og fylgdarmenn þeirra voru við það að vaða Djúpá, sem er eina áin sem rennur í vatnið sunnan megin. Þá ákvað skipstjórinn að snúa við aftur við.

Næstsíðasti leggurinn
Það má alveg kalla þennan næst síðasta legg siglingarinnar einhverskonar hápunkt á þessu ævintýri og skiljanlegt, að vissu marki, að þessi lokahnykkur hafi verið tekinn með talsvert meira trukki en það sem á undan var gengið.  Í sem stystu mál þá var farkosturinn tekinn til kostanna eða "staðinn" og stefnan tekin á Útey á ógnarhraða. Loppnir fingur mínir gripu um kaðalinn og álrörið, sem áður er lýst, og einbeiting mín við að halda mér innanborðs var algjör. Augljóslega gerði ég mitt ítrasta til að aðrir í áhöfninni sæju ekki á mér nein svipbrigði sem gætu bent til þess að mér stæði nú ekki á sama. Ég þakkaði þarna fyrir að ég hef eytt liðnum (eða líðandi) vetri, milli kófhléa í mikla líkamsrækt (heilsueflingu 60+) og jafnvel gengið svo langt að stunda crossfit æfingar um tíma. 

Björgunarsveitarbáturinn þeysti áfram milli öldutoppanna beint inn í ískaldan norðanblásturinn. Hann fór reyndar ekki "milli" öldutappanna, heldur var meira eins og hann fleytti kerlingar frá einum þeirra til annars þannig, að þegar hann tók á loft af einum, þurfti ég að beita afli við að halda mér niðri (það loftaði samt milli rass og slöngu sem nam 20- 30 cm, líklegast, Þegar hann lenti síðan á næstu öldu þurfti ég að taka á öllu mín til að skoppa ekki af slöngunni eins og bolti eitthvert út í buskann, rétt áður en ég þurfti aftur að koma í veg fyrir að ég flygi upp í loft eins og flugeldur á gamlárskvöldi. Á ákveðnum tímapunkti fannst mér báturinn vera farinn að hiksta. Það skiptist á inngjöf og afsláttur, eins og skipstjórinn væri stöðugt að gefa inn og slá af.

Þarna er verið að tilkynna mér að ég skuli 
mæta að verðlaunapalli til að mynda
sigurvegara.

Þú ættir að færa höndina. 
Mér varð þá litið á rörið sem vinstri höndin hélt í og áttaði mig á því að þar, rétt hjá var inngjöfin (þar sem hraða bátsins var stýrt). Ég hafði sem sagt, ómeðvitað verið farinn að hafa áhrif á hraða bátsins, þar sem höndin færðist upp rörið þar sem ég freistaði þess að halda mér niðri og færðist síðan niður þegar ég lenti aftur.  Þetta atriði er nokkuð flókið frásagnar og líklegt að lesandi átti sig ekki fyllilega á þeim aðstæðum sem kölluðu fram ofangreind orð skipstjórans frá Bala. Ég varð við tilmælum hans.

Síðasti leggurinn
Síðasti leggurinn fól síðan í sér margslungna blöndu af tilhlökkun yfir að nú skyldi haldið til hafnar, þakklæti fyrir að ekkert fór úrskeiðis, eftirsjá þar sem nú væri þessu ævintýri að ljúka, virðingu fyrir æðruleysi björgunarsveitarmannanna í áhöfninni og sannarlega einhverskonar æðruleysi og þreki sem ég hafði þarna sýnt sjálfur.

Við bryggju beið síðan forsvarsmaður hlaupsins og tilkynnti mér að ég ætti að taka myndir af verðlaunahöfum í hlaupinu, núna strax.  Sjóriðan var minni en ég hafði búist við. Mér tókst að skipta um linsu og hlaupa síðan til verðlaunaafhendingar með EOS-inn.

Eftir um það bil 20 mínútur var ég farinn að finna fyrir fingrunum aftur.

---------------------------

Sigurvegarar í kvennaflokki

Sigurvegarar í karlaflokki

Svona í lokin.
Eins og einhver ykkar gætu ímyndað sér, þá er ýmislegt í frásögninni nokkuð fært í stílinn, þó svo í grundvallaratriðum sé um sanna frásögn að ræða.
Forsvarsmenn Gullsprettsins og allt fólkið sem kemur að framkvæmdinni á lof skilið fyrir þennan viðburð (hér tala ég ekki sem hlaupari eða skokkari). Þarna er um að ræða samfélagslegt verkefni sem hefur nú verið stundað í 16 ár samfellt. Það fé sem inn kemur vegna þessa, rennur til góðgerðarmála.
Guttarnir á björgunarbátnum voru svo bara engir guttar, heldur sérlega ábyrgðarfullir björgunarsveitarmenn í sínum mikilvæga þætti í þessu og ég er þeim þakklátur fyrir hve vel þeir fóru með mig í þessari ævintýraför. 
Svo var það fD og sonardæturnar, sem biðu mín þolinmóðar og milli vonar og ótta (reikna ég auðvitað með) á bakkanum, Þeim er hér með þakkað fyrir það. 😉

Segir nú ekki fleira af hlutverki mínu við framkvæmd 16. Gullsprettsins . Kannski verð ég í þyrlu næst.


15 júní, 2021

Ég hafði val (óður til eldri borgara) (2)

 
Það sem hér fer á eftir er framhald af þessu

Já, einmitt - það var haldið til vatns á slöngubjörgunarbát Björgunarsveitarinnar Ingunnar. Þarna sat ég á annarri slöngunni, all óviss um hvernig færi ef báturinn lenti í ókyrrð, að ef á hann kæmi slinkur. Ég tók fljótlega eftir því, að á slöngunni utanverðri var festur kaðall og gerði fastlega ráð fyrir að hann væri ætlaður fyrir tilvik þar sem hætta gat verið á að farþegar hrykkju útbyrðis. Nú, ef illa færi þá væri ég alltaf í vestinu mikla og góða. Helst að ég hefði áhyggjur af hundraðaþúsunda fjárfestingu minni í myndavélarbúnaði. Reyndar hafði mér verið gefið gott ráð, að því er það varðar, áður en haldið var af stað. Ráðið það fólst í að benda mér á, að freista þess að standa bara á vatnsbotninum og halda myndavélinni ofan vatnsborðs og halda þannig áfram að mynda. Ágætis ráð og raunhæft, þar sem Laugarvatn er víst bara að jafnaði um einn metri á dýpt, að sögn. Samt var ég ekkert viss um að ég vildi láta á það reyna. 

Vatnsferðin hefst
Báturinn brunaði út á vatnið móti storminum og öldunum, en ölduhæð var hvorki meira né minna en 30-40 sentimetrar.  Eftir tiltölulega stutta og rólega siglingu sló skipstjórinn af og biðin hófst - biðin eftir því, að forsvarsmenn (já ég sagði forsvarsmenn - enda finnst mér að orðið forsvarsmanneskja um fyrirbærið karl eða konu hreinlega ljótt, ekki síst vegna þess hve líkt það er orðinu sveskja, sbr. forsvarssveskja. Að nota orðið fólk, er ávísun á endalaus vandræði með að nota rétt fornafn í framhaldinu, eins og vel er þekkt úr rétttrúandi fjölmiðlum þessa lands) ræstu fyrsta hóp keppenda. Klukkan varð 11 og svo 5 mínútur yfir 11 og svo 10 mínútur yfir. Í gegnum linsuna sá ég forsvarsmennina standa uppi á heimasmíðuðu útiborði. Annar var augljóslega að fara yfir málin með keppendum og hinn hélt talsvert stóru spjaldi af einhverju tagi, fyrir framan sig.  Annar var kennari og við vitum hver staðalmynd (einstaklega óaðlaðandi orðskrípi)  kennara er, jú, einmitt: þeim finnst gaman að tala. 

Hinir í áhöfninni: Jakob Þór vinstra megin og Andrés.
 Um áhöfnina
Það var farið að kólna á vatninu þar sem við biðum ræsingar, tilbúnir til myndatöku og björgunar.
Til að fylla í eyðuna, sem verður til að biðina, er rétt að geta þess hverjir siglingarfélagar mínir í þessaari fer voru. Sá sem stýrði fleytunni var Andrés Pálmason, frá Bala á Laugarvatni, Laugdælingur að langfeðga- og/eða langmæðginatali og sá sem sat á hinni slöngunni og beindi haukfránum sjónum yfir sviðið bar nafnið Jakob Þór Gíslason, sem ég reyndar hafði aldrei áður fyrir hitt, mér vitanlega og því gat ég ekki staðsett hann, að því er varðar ætt og uppruna, fyrr en ég lagðist í örlitla rannsóknarvinnu. Það gerði ég aðeins vegna þess að ég átti erfitt með að trúa því að hann tengdist Laugardalnum ekki með einhverjum hætti. Og viti menn! Það kom í ljós að afi Jakobs er Bragi Pálmason, frá Hjálmsstöðum. Þar með reyndist áhöfn björgunarbátsins vera að tveim þriðju upprunnin á Hjálmsstöðum. Afi Jakobs og amma Andrésar eru systkin. Þetta gat eiginlega ekki verið öðruvísi, en hjálpi mér allir heilagir, reynist þetta vera rangt.


Ræst
Þar kom, að kennarinn og forsvarsmaður hlaupsins lauk máli sínu og strax í kjölfarið var fyrsti hópurinn ræstur (næstum atvinnumenn allt saman). Skipstjórinn æpti ekki "ræs", en setti í gang og tók stefnuna á fyrsta vaðið sem keppendur þurftu að komast yfir, en það var þar sem Hjállmsstaðaá fellur í vatnið. Ekki varð ég sérstaklega var við að piltarnir, Hjálmsstaðamennirnir í áhöfninni, brygðust við, þar sem við litum ósa þessarar skemmtilegu ár (eða læks).  

Púðinn
Á leiðinni að ósum Hjálmsstaðaár fór ég að líta aðeins í kringum mig í farkostinum og frammi í stefni var svartur púði, sem augljóslega mátti túlka þannig að hann væri ætlaður til að sitja á. Mér fannst auðvitað, að í ljósi stöðu minnar í áhöfninni, væri þarna um að ræða tilvalinn stað til að sitja, öruggur, milli slangnanna þar sem þær mættust og mynduðu stefni bátsins. Ég hugsaði mig ekki lengi um áður en ég skáskaut mér af slöngunni og niður í þetta fína sæti og þóttist aldeilis góður. 
Þar sem ég var að hreiðra um mig, meðan ég var á stöðugu útkíkki eftir góðu myndefni, tók ég eftir að dýfur bátsins voru orðnar það miklar, að hann nánast fór í gegnum öldurnar. Norðan garrinn, sem mér fannst fara vaxandi, hlaut  að valda auknu ölduróti og þar með meiri ágjöf. Svona er sjómennskan víst bara. 
Þú ættir kannski ekki að sitja þarna
Það var engu líkara en húsbóndinn í Bala hefði mælt þessi orð, svo líkur var raddblærinn. Þetta var auðvitað skipstjórinn sem benti mér, einkar kurteislega, á það, að með setu minni í stefninu, vildi það leita neðar í vatnsborðið og þar með ykist öldugangurinn og ágjöfin. Úr þessu glappaskoti mínu og nokkurri vanþekkingu á slöngubátum, varð ekkert mál. Ég vippaði mér aftur upp á slönguna og ágjöfin minnkaði umsvifalaust. 

Fyrsti ósinn
Við tókum land við ósa árinnar, en þá stukku aðrir en ég í áhöfninni úr bátnum þegar hann nálgaðist land og drógu hann (og mig) upp í fjöru, þannig að ég gat stigið (virðulega að sjálfsögðu) frá borði þurrum fótum, rétt í þann mund er fyrstu keppendurnir létu vaða í Hjálmsstaðaárósinn. Enn var enginn farinn að taka afgerandi forystu, en ljóst af svipbrigðum, að nú skyldi skrækur skjálfa og hlaupinu rústað. Þarna fremst var,eins og áður er sagt, keppnisfólkið.  Síðan nokkru síðar komu meðaljónarnir (í jákvæðri merkingu, auðvitað) fólkið sem stundaði hlaup að umtalsverðu marki, en í hófi. Í síðasta hollinu voru svo skemmtiskokkararnir - fólkið sem hefur gaman af að vera úti í náttúrunni, og nýtur þess að skokka um fagurt og sérstakt umhverfi.  Við leystum landfestar áður en skemmtiskokkararnir voru farnir að sjást að einhverju ráði. 
Aftur var siglt til vatns og nú lá leiðin til suðurs.

---------
Þar sem eitthvað virðist ætla að teygjast á þessu hjá mér, verð ég að setja saman þriðja hluta þessarar frásagnar. Hann mun koma - æsilegri en nokkuð það sem hér hefur þegar verið greint frá.

14 júní, 2021

Ég hafði val (óður til eldri borgara) (1)

Ég veit það vel, að aldur er afstæður og hef reynt það á eigin skinni, að mat mitt á eigin aldri og því sem honum fylgir er ekki alltaf hárnákvæmt. Auk þess verð ég æ oftar var við það, að öðru fólki finnst ég vera eldri en upplifun mín segir til um.  Eini tölulegi mælikvarðinn á aldur minn er sá sem mæla má í lífárum, en á þessu ári verða liðin 68 ár frá því ég gladdi foreldra mína (og nánast veröld alla) með því að koma í heiminn.  
Ég neita því ekki, að stundum verður mér hugsað til baka um nokkra áratugi, til þess fólks sem þá var um sjötugt. Það fólk var bara hreinlega orðið gamalt og slitið. Aldur nú til dags er með einhverjum hætti öðruvísi en hann var. Reyni einhver að mótmæla því, er mér að mæta.
Ekki meira um það.

Aðdragandinn (fyrir þann 12.)
Fyrir nokkrum dögum fékk ég skilaboð á Facebook frá fyrrum samstarfsfélaga til áratuga, Grímu Guðmundsdóttur, sem voru á þessa leið:
Viljið þið fd ekki bara skreppa á Laugarvatn á laugardaginn og taka myndavélina með? 😉
Þar sem ég var tiltölulega léttur í sinni á þá stundina, svaraði ég um hæl:
Jú, jú  😊Tími, stund og staður?
Gullsprettur, start kl. 11 en gott að koma tímanlega til að fanga stemninguna fyrir hlaup 😊
Þarna ákvað ég að ögra lítillega:
Það þarf að finna stað þar sem er mesta atið, er það ekki?
Jú, á bát eða við Hólaá.
Þarna voru mér sem sagt gefnir tveir kostir, annar sem ég hafði áður prófað, en það var árið 2015 (MYNDIR) og þá við Hólaá. Þar sem ég vil, alla jafna, síður endurtaka mig, fór ég strax að renna hýru auga til fyrri valkostsins.  

Gullspretturinn
Fyrir þau ykkar sem ekki vita neitt um Gullsprettinn, þá eru þetta nokkurnveginn þær upplýsingar sem þarf:
Gullspretturinn er hlaup í kringum Laugarvatn sem fram fer þann 12. júní og hefst kl. 11 við gróðurhúsið niður við vatn. Uppselt er í hlaupið og ekki er lengur skráð á biðlista.
Vegalengd og leið: Hlaupið verður í kringum Laugarvatn yfir ár, mýrar, móa með frjálsri aðferð. Vegalengdin er ca. 8,5 km og drykkjarstöð verður við Útey eftir að Hólárós hefur verið vaðinn.Tímataka fer fram með flögum
Hámarksfjöldi þátttakenda er 300 manns í forskráningu. Eftir að hámarksfjölda er náð, þá verður hægt að skrá sig á biðlista.
Þátttökugjald er kr. 4.000. Allur ágóði rennur til góðgerðarmála.
Keppt verður í karla og kvennaflokki.
Þátttakendum boðið upp á hverabrauð Erlu, Egils gull, Kókómjólk, Hleðslu og reyktan silung frá Útey að loknu hlaupi.
Til að forðast umferðaröngþveiti niður við vatn er þátttakendum bent á að leggja bílum sínum á malarvellinum sunnan við íþróttahúsið.
Aðdragandinn (þann 12. nokkuð árla)
Laugardagurinn 12. júní rann upp.
- dagurinn þegar keppendur í Gullsprettinum skyldu ræstir. Um var að ræða 16. skiptið sem fólk var ræst til þessa spretts.
- dagurinn þegar ég yrði öðru sinni, hugsanlega, formlega skipaður ljósmyndari.
- dagurinn þegar í ljós kæmi hvort ég myndi lenda í viðlíka ævintýri og þegar ég, fyrir þrem árum, lenti í talsverðum háska í hafinu fyrir vestan Afríku.

Sérann (C-HR) flutti okkur fD og tvær sonardætur mjúklega á Laugarvatn og þar sem leið lá niður að tilgreindu bílastæði.  
Jú, þar sem það blundar í mér einhver ævintýramaður, þó fáum geti komið það til hugar, sem kannast við mig, renndi ég nokkuð hýru auga til hugmyndarinnar um að þeysa með björgunarbát þvers og kruss um Laugarvatn og taka myndir af keppendum við ýmsar aðstæður.  Samt var ég svo sem alveg reiðubúinn til þess líka, að rölta á bakkanum og taka myndir af rúgbrauðinu og silungnum, fólki með glampa í augum hefja hlaupið, og örþreyttu fólki nota síðustu kraftana til að líta vel út við markið. Ég var opinn fyrir flestu.
Gríma að sannfæra sjálfa sig um að mér
sé treystandi til að fara með bátnum.

"Treystirðu þér til að vera í bátnum?"
spurði Gríma, sem stýrði þarna bara öllu, held ég. 
Ekki neita ég því að við þessa spurningu tók ég sekúndubrot til að velta því fyrir mér, hvort ég treysti mér til þess arna. Ég rifjaði upp  hvernig fólk í kringum sjötugt var fyrir nokkrum áratugum, ég man eftir ævintýri mínu í bananabátum fyrir rúmum þrem árum. Ég gerði mér fulla grein fyrir því, að ég er engin horrengla. Sekúndubrotið leið og þar sem ég er búinn að leggja stund á krefjandi heilsurækt með hópi eldra fólks á Selfossi í tæpt ár og þar að auki stundað Crossfit og fylgt fD  og morgunkörlum í göngum þvers og kruss um götur og skóga, stóð ekki á svarinu: Kva, auðvitað!

Ef ég hefði haldið að umhyggja Grímu fyrir velferð minni næði ekki lengra, þá hefði það verið misskilningur. "Það er örugglega kalt á vatninu. Á ég ekki að finna hlýrri föt handa þér?  
Enn þurfti ég sekúndubrot, sem ég nýtti til að komast að því hvort klæðnaðurinn sem ég hafði valið mér, í ljósi þeirra upplýsinga sem vedur.is hafði fært mér um veðrið sem búast mætti við á þessum sólríka degi, væri fullnægjandi. Ég hafði bara valið mér þann fatnað sem ég nota oftast við göngur á Selfossi og í nágrenni. Fyrst hann var nægilega skjólgóður þar, myndi hann hlífa mér vel á siglingu um Laugarvatn. Þessi dagur var sannarlega bjartur, en hann blés á norðan, vindstreng sem ættaður var frá heimskautasvæðum jarðar. Skjannabjört sólin myndi örugglega duga til að vega upp kaldan gustinn. 
Nei, nei, þetta er ekkert mál. Svo er ég með húfu og hanska!

Björgunarbátnum ýtt á flot.
 Aðdragandinn 
(þann 12. - ræsing nálgast)
Þarna hafði ég, sem sagt, verið ráðinn sem formlegur bátsljósmyndari Gullsprettsins. Græjurnar mínar voru EOS-inn og stóra linsan. 

Svo fóru þeir að bjástra við björgunarbát Björgunarsveitarinnar Ingunnar og ég fór nú að reyna að kynna mér hvað framundan væri og neita því ekki að það fór aðeins um mig, þegar ég leit augum piltana sem báru það með sér að ætla að stjórna bátsferðinni. Ekki aðeins fannst mér þeir heldur ungir til að taka að sér þetta verkefni (annan man ég eiginlega síðast sem grunnskólapjakk á Bala) heldur voru þeir klæddir eins og þyrluflugmenn sem kallaðir hafa verið til björgunarstarfa á Svalbarða.  Ég var reyndar fljótur að hætta að efast um hæfni þeirra til þess ábyrgðarstarfs sem beið þeirra, enda handtökin við að búa bátinn til siglingar um úfið vatnið, fumlaus.  
Mér var afhentur verklegur flotjakki (en ekki hjálmur), líklega til þess ætlaður að koma í veg fyrir að ég drukknaði í Laugarvatni við það að falla útbyrðis. Með þessum flotjakka tel ég að ég hafi verið orðinn harla vígalegur, að minnsta kosti ef eitthvað er að marka orð þeirra sem ég þarna þekkti til og sem settu fram skoðanir sínar og mynduðu herlegheitin í bak og fyrir. Held að ég hafi mögulega verið farinn að minna á Svein Þormóðsson (þekktan ljósmyndar hér áður fyrr). 

Til báts 
Þar sem klukkan nálgaðist 11 fyrir hádegi, fékk ég merki um að ég skyldi fara að ganga til báts, sem ég og gerði. Þetta var það sem kallað er slöngubátur með utanborðsmótor (sem bilaði þegar hæst stóð,við samskonar aðstæður í fyrra, ).  Þar sem ég var kominn að bátnum, velti ég fyrir mér, hvar ég ætti nú helst að sitja, því engin augljós sæti var að sjá um borð. Í stefninu var vænlegur púði, en að öðru leyti bara slöngurnar sitthvorumegin.  

Það er best að þú komir um borð af bryggjunni. 
Það var kannski best, enda hefði ég að öðrum kosti þurft að ösla út í, sem mér hefði ekki hugnast sérstaklega. Með góðum vilja, hefði ég getað túlkað þessi orð til komin vegna aldurs míns, en það gerði ég ekki. Þarna var bara um að ræða umhyggjusemi við ljósmyndara, sem átti auðvitað ekki að þurfa að bleyta sig í fæturna.

Ég steig um borð, svo virðulega sem mér var unnt (einhhver væri kannski að fylgjast með) og tók mér sæti á annarri slöngunni, en aðrir skipverjar (tveir) tóku til við að ýta bátnum af grynningunum, svo hægt væri að setja mótorinn niður. Að því búnu stukku þeir um borð og það var haldið til vatns.


Ætli verði bara ekki úr því að síðari hluti birtist áður en langt um líður, ef ekki verður sett lögbann á frekari birtingu.

09 júní, 2021

Varla vansæmdarlaust

Unnið við að leggja símalínu - einhversstaðar
Fólk var að byrja að lifa hraðar, þarna á fyrstu tveim áratugum síðustu aldar. Í stað venjulegra róðrarbáta við að komast yfir árnar, þurfti að setja upp dragferjur til að komast í kaupstað. Þetta var svo ekki nóg, því það þurfti endilega að fara að byggja brýr yfir árnar, sennilega til að auðvelda lífið. Ekki nóg með það, á tímum heimstyrjaldar var allt að fara á fleygiferð og krafan um að fá símatengingu í hverja sveit varð æ háværari. Hvar gat þetta eiginlega endað? 

Tungnamenn hafa aldrei verið meðal kröfuhörðustu íbúa þessa lands, en þegar svo var komið að það var kominn talsími í neðri sveitir, varð ekki lengur þagað og hreppsnefndin sendi sýslunefndinni bréf til að fá hana til að biðja síma- og landsstjórnina að fara nú að gyrða sig í brók og leggja símastreng í Tungurnar. Hér kemur svo bréf Tungnamanna, þar sem þeir freista þess að beita fyrir sig erlendum ferðamönnum og kónginum sjálfum:

Eins og tekið er fram í lögum nr. 25, 22. okt., 1912, um ritsíma og talsímakerfi Íslands, 4. gr., á að leggja síma frá Hraungerði að Torfstöðum upp í Hreppa o.s.fr.  Síðan eru liðin 6 ár og þessi sími þó eigi kominn lengra en spölinn frá Hraungerði að Kiðjabergi, syðsta bæ í Grímsnesi á þessari leið. Með öðrum orðum má segja, að hann sje sama sem ekkert kominn áleiðis, því að þessi spotti hans er gagnslaus fyrir allar sveitirnar, sem honum er, á endanum ætlað að ná um, meira að segja gagnslaus fyrir meginhluta Grímsneshrepps.

Eins og tímanna táknum er nú varið, má með sanni segja, að sími sé yfirleitt nauðsynlegastur af öllu nauðsynlegu, hvað alt viðskiftalíf snertir. Kaupstaðirnir, þar sem þjettbýlið er þó svo mikið og verslun og aðdrættir hægir, hafa talið sjer síma óhjákvæmilega. Sama er að segja um sveitir og hjeruð, sem standa vel að vígi hvað verslun og aðdrætti snertir, að þeir telja sjer á þessum tímum síman óhjákvæmilegann. Hvað mætti þá segja um sveitir eins og Biskptungnahrepp, sem liggur í ca. 90 km. fjarlægð frá aðalverslunarstað sínum Reykjavík, á þangað að sækja yfir einn hinn mesta fjallveg, Hellisheiði, er stórvötnum lukt á alla vegu og auk þess sjálf víðáttu mikil og veglaus. Hví ætti þá ekki sími að vera slíkri sveit beinlínis lífskilyrði, til að spara ferðalög og ljetta öll viðskifti?

Allavega mjög gamalt símtæki
Á það má einnig líta, að þessi sveit hefir að geyma Geysi og Gullfoss, sem útlendir og innlendir ferðamenn streyma að á sumrum til að skoða. Varla getur talist vansæmdarlaust að veita þeim ekki þau þægindi, að geta haft síma nálægt sjer, mönnum, sem ekki hafa áður þekt eða reynt slíka einangrun, sem er að því að komast úr símasambandi við umheiminn og sem bera síðan frjettir út um heiminn um menningu eða menningarleysi vort. Síðast mætti og minna á það, að konungur vor er væntanlegur hingað á næsta sumri og má þá telja víst, að hann vilji bregða sjer hingað austur til að sjá Geysi, Gullfoss og ef til vill hinn fornfræga stað, Skálholt, og má þá búast við, að honum finnist fátt um um, auk vegleysanna, að vera algert út úr símasambandi svo langa leið, sem um er að ræða.

Heyrst hefir að símastaurar og þráður væri þegar til, en myndi jafnvel ekki verða notað í þenna löngu lögboðna síma, vegna þess, að þessi sími myndi ekki gefa jafnmiklar tekjur og væri hann lagður annarsstaðar. En er þá ekkert að      aðstæður og hag sveitanna, sem ...??? [neðsti hluti blaðsins skemmdur og þvó ólæsilegur - sjá mynd] líklegt, að þessi sími gefi jafnmiklar tekjur og annarsstaðar, þar sem sveitirnar, sem hann lægi um, eru allfjölmennar? Auk þess er nýstofnað Kaupfélag innan þeirra, sem óhjákvæmilega þarf mjög á síma að halda.


Með erindi þessu viljum vjer beina máli voru til hinnar heiðrðu sýslunefndar Árnessýslu, ef hún vildi taka mál þetta að sjer og koma því á framfæri við síma- og landsstjórnina og gera sitt til, að þvi verði hraðað til framkvæmdar, svo að Biskupstungnahreppur og aðrar uppsveitir sýslunnar verði eigi lengur en þörf gerist, látnar vera án þessa óhjákvæmilega viðskifta og menningartækis, sem sími er.


Virðingarfyllst
Biskupstungnahreppi 24. mars, 1919
Eiríkur Þ. Stefánsson, Torfastöðum (bréfritari)
Þorsteinn Þórarinsson, Drumboddsstöðum
Bjarni Guðmundsson, Bóli
Jón Gunnlaugsson, Skálholti
Björn Bjarnarson, Brekku.


Afgreiðsla sýslunefndar á erindi Tungnamanna.


04 júní, 2021

Af sjónarhóli ekkjunnar

Dragferja á ótilgreindum stað.

Runólfur Bjarnason,
bóndi á Iðu og ferjumaður, drukknaði í Hvítá, í september 1903, skömmu eftir að dragferjan þar var tekin í notkun. Hann skildi eftir sig konu sína Guðrúnu Markúsdóttur (1874-1965) og þrjár dætur á barnsaldri, þær Þorgerði (1895-1966), Sigríði (1899-1987) og Guðnýju (1902-1953). Guðrún var þá þunguð og eignaðist fjórða barn þeirra hjóna Runólf (1904-1933) í apríl árið eftir lát bónda síns.

Frá vinstri: Guðrún Markúsdóttir, Þorgerður, Sigríður, Guðný og Runólfur Runólfsbörn, Páll Jónsson.

Guðrún stóð þarna ein uppi  með dæturnar þrjár og ófrísk að fjórða barninu. Það varð úr að Páll Jónsson, sá sem hafði sett upp dragferjuna, kom að Iðu og gerðist þar vinnumaður, eða "fyrirvinna", eins og segir í sóknarmannatali. Páll Jónsson (1853-1939) (sjá einnig hér) var kallaður "trúr þjónn" í grein sem skrifuð var um hann í Óðni árið 1936. Þar segir um ástæður þess að hann gerðist vinnumaður hjá Guðrúnu á Iðu:
Haustið 1903 vildi það hörmulega slys til, að Runólfur bóndi á Iðu druknaði í Hvítá, frá konu og 4 börnum ungum. Þau hjón voru nýkomin þangað austan úr Skaftafellssýslu. Efni voru lítil og ekki annars kostur en að ekkjan yrði að flytjast aftur austur á sína sveit, nema einhver maður fengist til bús með henni. Var nú leitað til nokkurra, en allir neituðu; þótti ráðið ekki fýsilegt. Þá bauðst Páll til; sagðist ekki geta hugsað til, að börnin yr'ðu tekin frá móðurinni og sett niður. Þessu boði var tekið fegins hendi og fór hann að Iðu vorið 1904, og veitti búinu forstöðu með ekkjunni (Guðrúnu Markúsdóttur) til vorsins 1913. Þá voru börnin uppkomin öll, og fluttist þá ekkjan með þeim austur í átthaga sína. Páll vann kauplaust öll árin, og gaf af sínu fje til styrktar að auki, eftir þörfum, svo að stóru nam. 

Á hinum bænum á Iðu bjó Sigmundur Friðriksson (1840-1908) ásamt tveim börnum sínum og öðru fólki.

Eftir að dragferjan var tekin í notkun, sumarið 1903, þurfti að ákveða hvernig rekstri hennar skyldi háttað, og voru um það talsverðar deilur milli hreppsnefndar Biskupstungnahrepps, en oddviti var þá Björn Bjarnarson á Brekku  og, að því er mér sýnist, Guðrúnar Markúsdóttur, ekkju Runólfs Bjarnasonar. Þessar deilur stóðu í nokkur ár og komu til umfjöllunar á fundum sýslunefndar. 

Árið 1905 óskuðu Tungnamenn eftir að sýslunefndin setti reglur fyrir dragferjuna "þar eð hreppsnefndin ekki geti komist að samningum við ferjubændurnar. Sýslunefndin álítur sér ekki skylt, jafnvel naumast heimilt að semja reglugjörð um þetta, sem hafi fult gildi, heyri það beinlínis til hreppsnefndinni, enda hefir sýslunefndin ekki þá staðlegu þekkingu, sem til þess þarf. En með því að sýslunefndin hefir yfirumsjón með þessari ferju, sem öðrum lögferjum, vill hún fyrir sitt leyti kjósa mann til að vera í ráðum með hreppsnefndinni um þetta."

Ferjustaðurinn við Iðu 1947.
Myndin er tekin af Iðuhamri.
Mynd Geir Zoega

Á sýslunefndarfundum var það auðvitað þannig, að þeir sem höfðu valdið, komu saman til að ráða málum og ráðum sínum. Þar inn flutti sýslunefndarmaður Biskupstungnamanna erindi hreppsnefndar og talaði í umboði hennar. Ætti hreppsnefnd í deilum við íbúa, einn eðpa fleiri, má því ætla að sjónarmið þeirra hafi ekki fengið að njóta sín sem skyldi á fundum nefndarinnar.  Íbúarnir gátu komið sínum sjónarmiðum á framfæri með því að skrifa bréf og það var einmitt það sem Guðrún Markúsdóttir á Iðu gerði, árið 1906, en bréf hennar er að finna í bréfasafni sýslunefndar. Ég verð að viðurkenna það, að ekki tókst mér að lesa texta bréfsins fullkomlega og þau tilvik þar sem ég gafst upp við að skilja, eru tiltekin í texta bréfsins, sem hér fylgir:
Af sýslufundi Árnessýslu 1904 má sjá, að kosin?? var maður til að semja við Iðubændur um dragferjuna við Iðuhamar, en með því hann hefur ekki komið að semja við mig um þetta mál, þá varð ég að sleppa ferjurétti mínum sökum svo óaðgengilegra skilmála er tungnahreppsnefnd setti, eða að öðrum kosti leita hans í aðra átt, en hef þó ekki gjört það fyr en nú að ég fer þess á leit. Verð því að skýra þetta mál nokkuð nákvæmar.

Sem öllum sýslubúum mun kunnugt var dragferja sett á Hvítá við Iðuhamar sumarið 1903 af tilhlutan sýslunnar og tungnahrepps. Ferjan kostaði als um 1.000 kr., hún sjálf rúm 800 og strengurinn tæp 200 kr. Enginn getur annað álitið en þetta væri mikil samgöngubót fyrir ferðamanninn á móti því að flytja á róðrarbátum og þá ekki síður þegar skoðað er frá mannúðarlegu tilliti. Því á meðan dragferjan verður brúkuð þarf öngvan hest að sundleggja. Þar á móti verður hún að öllu útgjaldaliður á ferjumanninum og öngvu hægari flutnings aðferð með núverandi fyrirkomulagi því róðrarbáta verður að hafa sem áður, því hún (drf.) verður ekki brúkuð nema að sumarlagi þegar áin er íslaus.

Nú vildi hreppsn. (tungnahr) að ferjan yrði eign ferjubænda með sömu ferjutollum, að öðru en því, að 5 aura skyldi borga fyrir hest hvern er hafður væri í henni, en það var sama gjald og halda í hest á eftir róðrarbát. Að þessum skilmálum gat ég ekki gengið, að minnsta kosti ekki fyr en ég var búin að sjá hvað þessi inntekt hennar næði til að jafna útgjaldalið hennar, sem voru að öllu ný útgjöld, en inntektin að nokkru eða öllu tekin frá róðrarbátnum, en engin sönnun var fengin (í fyrstu) hvort fleiri myndu brúka hana til hestaflutninga en hesta á eftir róðrarbát. Þennan reikning hélt ég sumarið 04 og var það að mjög jöfnu útgjöld og inntekt það árið, en nákvæmur gat hann ekki verið, sem meðfylgjandi skýrslur og athugasemdir sýna. Þessi reikningur var svo sendur til oddvita (t.hr).
Sumarið 1904 samþykti hreppsnefnd að ferjan skyldi vera eign hreppsins, en ég mætti halda hana, með því að borga hana ef hún færist fyrir handvömm, en viðhald hennar og önnur útgjöld – sem hljóta að vaxa með tímanum – var ekki frekar rætt að öðru en lausleg tillaga um að mundi meiga hækka ferjutolla á utanhreppsmönnum – einkum utan sýslu – að jafna á móti útgjöldunum. Þessa samþykt vildi ég ekki gangast undir og get heldur ekki í efnahagslegu tilliti, hvað sem út af bar og fyrir þetta var ég neydd til að sleppa ferjurétti mínum, en skil þó svo 7. gr., að rétti mínum hafi verið misboðið.

Síðan hefur hreppsnefnd haft hana sem eign hreppsins. Hefur hún leitast við að fá aðra að gegna ferjustörfum en ekki komist að aðgengilegri skilmálum – með ferjutolla og annað – en við Sigmund sambýlismann minn, en hverjir þeir eru, veit ég ekki, mér hafa þeir ekki verið kyntir??, enda álit skilmála frá hreppsnefnd og öðrum en sýslunefnd óviðkomandi gagnvart núgildandi ferjulögum.

Iðuferja 1956 (mynd líklegst Jón Eiríksson)
Í vetur eða vor tapaði Sigm[undur] bát sínum í ána, en með því hann hafði ekki annan forsvarlegan ferjubát, sem meðfylgjandi vottorð st.st. (séra Stefán Stephensen] vitnar, þá var minn fenginn, en af því mér hefur gengið fremur ervitt að fá útborguð skuldaviðskifti mín hjá Sigm[undi] og hreppsn[efnd], búin að taka ferjubát minn, þá fór ég þess á leit við oddvita í áheirn Jóns bónda í Skálholti og heimilisfólks míns, að hann hlutaðist svo um, að ég fengi um 10 kr. þóknun fyrir bátslánið og færði hann það í tal við Sigmund á heim. Tómasar hreppstjóra og J[ón] bónda í Skálh[olti]., en hann tók þá dauflega undir að greiða neina þóknun og var því þá slept, eða að minsta kosti hef ég ekki orðið vör við hann; þegar ég var orðin vonlaus að fá neinn greiða þá fór ég þess á leit við séra Stefán í Laugardalshólum að hann gæfi mér meðmæli sín til sýslunefndar ef ég vildi krefjast þess og gaf hann þá góðfúslega það meðfylgjandi vottorð sitt, án þess að ég hefði nokkra heimtingu af honum að geta það fremur en öðrum sérstökum ferðamanni sem??? brúkaði bátinn eftir það.

Þegar fyrst var þröngvað svo að rétti mínum að ég sá mér ekki fært að halda honum, sökum 400-800 kr. ábyrgðar sem ég mátti búast við að borga hvað sem útaf bar, því þó svo væri að orði komist, að mér bæri ekki að borga ferjuna að öðru en ef hún færist fyrir handvömm (og ég af öllum vilja gjörð að láta það ekki ske) þá hafði ég öngva tryggingu fyrir hvort fremur mundi álítast ef óhöpp kæmu fyrir.

Eigi nú einnig að fara að brúka bát minn sem ferjubát eftir þörfum, án nokkurs endurgjalds og eiga á hættu að hann glatist á mína ábyrgð, þar hann er í þess manns höndum er ég get síst treysti til þeirra hluta, þá get ég ekki lengur stilt mig um að snúa mér með þetta mál, er mér virðist að við eiga. Strangri réttarkröfu vil ég þó ekki að sé framfylgt í þessu máli og heldur vil ég gefa eftir bátslánið í þetta sinn, arðleysi hans og viðhaldi í 2 ár og önnur óþægindi sem ég hef orðið fyrir að þessum tíma, en að það þurfi að kosta málarekstur, en vil þar á móti mælast til að þér hr. sýslumaður sem oddviti sýslun[efndar]. hlutist svo um við sýslunefnd að ég hér eftir hafi og haldi ferjurétti mínum óskertum eftir sem áður (þar ég get ekki séð að ég hafi brotið af mér ferjurétt minn) á meðan ég er ábúandi á Iðu og vil þá gangast undir
Niðurlag bréfs Guðrúnar Markúsdóttur

1. að halda ein ferjuna í 2 ár að jöfnu við það sem sambýlismaður minn hefur haft hana, þar ég hef jafnrétti við hann sjá 5. og 6. gr. með þeim skilmálum er réttsýni þeirra mælir með, er um þetta mál – lögferjumál – eiga að ræða, sjá 3,4,5,6,.... 20 og í heild sinni allar greinar ferjulaganna.
2. Með því að semjendur núgildandi laga hafa ekki haft neina hugmynd um dragferju, né tilkostnað við hana, sjá 14, 15 og 19. gr. þá að sá tilkostnaður verði tekin til greina, eða samið við mig um hann.
3. Þá eru og um nokkrar lagagr. sem mér virðist að verði að koma sér saman um við sýslunefnd, þar til önnur, ný lög verða samin og mun ég benda á þær á sínum tíma.

Iðu 29. okt. 1906

Guðrún Markúsdóttir
-------------------
Páll Jónsson


Ári síðar, var ferjumálið enn óleyst og virtist vera í talsverðum hnút, en á sýslunefndarfundi það ár var þetta bókað:
Út af umkvörtunum um margfalda vanrækslu og vanhirðu á dragferjunni við Iðuhamar, skoraði sýslunefndin á hreppsnefndina í Biskupstungum að bæta úr þessu með nýjum, glöggum og haganlegum samningum við þá sem ferjan verður falin, svo og að ganga stranglega eftir því að ferjan verði betur hirt og stunduð eftirleiðis. Jafnframt skoraði sýslunefndin á oddvita sinn að vera til aðstoðar við samningana, ef með þarf og hafa strangt eftirlit með því, að þeir sem ábyrgð og umsjón ferjunnar verður falin, gæti skyldu sinnar í því efni.

Það er fjallað meira um þessar deilur á fundum sýslunefndar og fleiri bréf er þar að finna um þær. Þau koma mögulega hér inn, eftir því sem verk mín vinnast.

Guðrún flutti með börn sín í Meðalland vorið 1913, en þar voru átthagar hennar. Síðar flutti hún til Sigríðar, dóttur sinnar í Hveragerði og var þar til æviloka.30 maí, 2021

Dragferja í ein 14 ár

Eins og við vitum mörg, þá eru Biskupstungur umkringdar ám og fljótum og sú var tíð, að á þeim voru ekki brýr, þannig að það fólk sem þurfti að komast í eða úr sveitinni þurfti að vaða þessar ár, eða, eins og algengara var, að notast við báta. Það var væntanlega til í dæminu að á bæjum sem stóðu við einhverjar þessara fljóta, ættu menn sinn eigin bát. Þar sem hinsvegar var mest umferð fólks voru settar upp ferjur og varð það þá kvöð á viðkomandi bæjum að sinna flutningi fólks frá öðrum bakkanum til hins. Þessar ferjur gengu undir heitinu "lögferjur". Það þýddi það, að búendur á bæjum þar sem slíkar ferjur voru ákveðnar, voru skyldugir til að flytja ferðalanga yfir, ef fært var, gegn svokölluðum ferjutolli, sem var ekki há upphæð og jafnvel engin. Einhvern styrk fengu ferjumennirnir frá hinu opinbera. Ferjubátarnir voru venjulegir árabátar.  

Í kringum Laugarás voru þrjár  lögferjur (í 3 ár voru þær fjórar), eins og alkunna er: 
Tvær á Hvítá, önnur var Iðuferja, sem var þar sem brúin er nú, milli Iðuhamars og Skálholtshamars, en hin Auðsholtsferja, milli Auðsholts og Auðsholtshamars, Laugarásmegin.
Á Brúará var lögferja við Spóastaði fram til 1903. Þegar ákveðið var, vorið 1900, að lögferja skyldi vera, í Reykjanesi í Grímsnesi, sem var talsvert neðar í Brúará, var fallist á þá ósk bóndans á Spóastöðum, að leggja af lögferjuna þar árið 1903. 

Það var Sýslunefnd Árnessýslu sem hafði með ferjumálin að gera, en hver hreppur hafði það hlutverk að sjá til þess að lögferjum væri sinnt svo vel sem kostur var og skiluðu árlegum skýrslum til sýslunefndar um hvernig staðan var á hverri ferju. 

Um aldamótin 1900 jókst umferð um ferjustaðina, ekki síst vegna þess að þá var komið læknissetur í Skálholti. 
Í ljósi þessa fóru Tungnamenn að huga að því að fá uppsetta dragferju við Iðu og sendu í því skyni bréf til sýslunefndar, í apríl 1903, sem hljóðaði svo (bara nokkuð skemmtilegt bréf):

Hreppsnefnd Biskupstungnamanna leyfir sér hjer með að beiðast liðsinnis hinnar heiðruðu sýslunefndar Árnessýslu til að koma á dragferju á Hvítá að Iðu.

Tungnamönnum er það mikið áhugamál, að því fyrirtæki geti framgengt orðið nú þegar í vor, enda munu allir, sem til þekkja, játa að það sé mikil nauðsyn.

Tungnamenn eru verst settir allra Árnesinga að því er snertir samgöngur og aðdrætti, þar sem þeir eigi aðeins eiga lengsta leið í kaupstað, heldur hafa og stórárnar Brúará og Hvítá, sína á hvora hlið og þriðja stórvatnið, Tungufljót, skiptir sveitinni að endilöngu. Að vísu er nú góð brú á Brúará, svo að sjaldnast þarf að sundleggja hesta til Reykjavíkur, þó getur það komið fyrir, því að brúin er svo sett, að bæði er þangað mikill krókur fyrir marga sveitarmenn, svo að þeir nota hana ekki nema í brýnustu nauðsyn, og landslagi er svo háttað beggja vegna við hana, að þar er opt ófært hestum úr því snjór er kominn til muna. Þrátt fyrir það hafa þó flestir Tungnamenn til þessa kosið að sækja heldur yfir Brúará til Reykjavíkur, heldur en niður á Eyrarbakka, og er þó vegamunur svo mikill, að munar hjer um bil 2 dögum í hverri lestaferð. Aðalorsökin til þess er sú, að Hvítá er þröskuldur á leiðinni niður á Eyrarbakka. Hún er, eins og kunnugt er, miklu meira vatnsfall en Brúará og auk þess flugmikil dögum saman, bæði haust og vor, þegar ferðalög eru mest, og stundum svo, að hún er engum hesti fær. Eptir því sem miskunnsemi við skepnur fer í vöxt, blöskrar mönnum meir og meir að sundleggja hesta sína yfir hana hvað eptir annað og hvernig sem á stendur.

Um brú yfir hana á hentugum stað getur ekki verið að tala, til þess er áin langt of breið og því hefur nú verið vakið máls á því, að setja á hana dragferju. Með henni er unnið það þrennt, 1) að ekki þarf að sundleggja hestana, 2) ferðamenn þurfa ekki að telja sig þurfa að spretta af hestunum, jafnvel ekki taka ofan klyfjarnar og 3) hvorki væta sig né farangur sinn, sem opt vill verða á hinum ferjunum.

Vitanlega verður dragferja ekki notuð nema á sumrin, en á vetrin er lítið um lestaferðir yfir Hvítá hvort sem er, nema á ís. Það má telja víst, að er dragferjan væri komin, mundu Tungnamenn snúa verzlun sinni miklu meir til Eyrarbakka og Stokkseyrar heldur en nú, til þess að spara sjer Reykjavíkurferðirnar, sem eru svo miklu lengri, eins og áður er sagt.

Máli þessu til undirbúnings hefur verið leitað álits verkfróðra manna. Herra Páll Jónsson vegagjörðamaður, hefur skoðað ferjustaðinn og gjört mælingar þar, er hann taldi nauðsynlegar. Síðan hefur málið verið borið undir verkfræðing landsins, herra Sigurð Thoroddsen og hefur hann lofað að gjöra uppdrátt af ferjunni og áætlun um kostnaðinn. Var svo ráð fyrir gjört, að áætlun sú kæmist til hreppsnefndarinnar nú fyrir sýslufund, en því miður hefur það brugðist, og getur því hreppsnefndin enga vissa hugmynd haft um kostnaðinn. Þar er þó sú bót í máli, að ráðstöfun hefur verið gjörð til þess að áætlunin verði send oddvita sýslunefndarinnar svo að hún verði þar til sýnis er mál þetta kemur til umræðu í sýslunefndinni. Hið eina sem hreppsnefndin getur byggt á, að því er til kostnaðarins kemur, er það, að dragferjurnar á Héraðsvötnum kostuðu önnur rúml. 1300 kr, en hin rúml. 1000 kr og má ætla, að kostnaðurinn yrði svipaður við dragferju að Iðu.

Nú má að vísu segja, að fyrirtæki þetta sje mest fyrir Tungnamenn, og er það satt, þó má benda á það, að margir eiga erindi yfir Hvítá að Iðu úr öðrum sveitum, ekki síst nú, síðan Skálholt varð læknissetur, og allur helmingur umdæmisins verður að sækja til læknisins yfir Hvítá, og þá einmitt helzt á þessum stað. Þar á og prestur yfir að sækja og sóknarfólk til kirkju sinnar.

En þó væntum vjer, að sýslunefndin líti einkum á það, að hjer er að ræða um mikið nauðsynjamál, sem vert er að styðja, bæði vegna manna og skepna. Það er einnig hið fyrsta fyrirtæki þess kyns hjer um slóðir og sýnist mega fremur njóta þess en gjalda.

Þá er og á það að líta að hjer á sá hluti sýslunnar í hlut, sem á örðugra aðstöðu í samgöngumálum en aðrir. Landssjóður hefur tekið ómakið af flestum öðrum hreppum sýslunnar með því að brúa Ölfusá, svo að nú þurfa menn þar hvorki að sundleggja hesta sína, nje tefja sig, nje gjalda ferjutolla. Leggja Tngnamenn þar árlega til sinn skerf eins og aðrir sýslubúar, til þess að losa þá við töf og kostnað og hesta þeirra við sund, en sjálfir hafa þeir brúarinnar svo að segja engin not. Þykir það, sem og er, ekki nema sjálfsagt, því það heimtar allur fjelagsskapur, að hver veri byrðina með öðrum, en hart mundi oss þykja, Tungnamönnum, ef þeir hreppar sýslunnar, er fengið hafa, án sjerstakra fjárframlaga slíka samgöngubót sem Ölfusárbrúin er, vildu lítið eða ekkert styrkja oss til að fá þá litlu samgöngubót, er nú förum vjer fram á.

Ekki kemur oss þó til hugar að fara fram á það að sýslan kosti dragferju þessa að öllu leyti, en vjer leyfum oss að fara þess á leit, að hin heiðraða sýslunefnd vilji veita allt að helmingi kostnaðarins úr sýslusjóði. Vér ætlum, að vísu, að sýslunefndin vilji heldur veita einhverja tiltekna upphæð til þessa fyrirtækis, enda er oss það jafnkært, en með því að vjer höfum eigi fyrir oss áætlun um kostnaðinn, viljum vjer ekki nefna upphæðina, heldur fela það sýslunefndinni, því að, eins og áður er sagt, treystum vjer því, að áætlunin verði komin til hennar, þegar málið kemur til umræðu.

Að því er snertir framkvæmd verksins sjálfs, skal geta þess, að hreppsnefndin hefur ætlað Páli Jónssyni, verkfræðingi, að sjá um það, og munu allir er þekkja hann, telja allvel fyrir því verki sjeð, er hann á að stjórna.

Biskupstungnahreppi 11. apríl 1903

Undir bréfið rituðu nöfn sín þeir:
séra Magnús Helgason, Torfastöðum,
Björn Bjarnarson, Brekku,
Gísli Guðmundsson, Kjarnholtum,
Ingimundur Ingimundsson, Reykjavöllum,
Geir Egilsson, Múla og
Eiríkur Eiríksson, Miklaholti.
(Þetta bréf er að finna í bréfasafni sýslunefndar Árnessýslu á myndasetur.is)
Páll Jónsson (1853-1939)

Sýslunefnd tók málið fyrir og samþykkti að veita kr. 550 til uppsetningar á dragferju. Tungnamenn reiknuðu með að uppsetningin myndi kosta á bilinu 1.000 til 1.300 krónur, sem eru, uppreiknað skv neysluvísitölu í kringum 300.000 krónur.
Ferjan var sett upp og það var Páll Jónsson sem hafði veg og vanda að því verki. 
Það var svo í september þetta ár, að ferjumaðurinn Runólfur Bjarnason, bóndi á Iðu, drukknaði eftir slys við ferjuna. Um þetta slys var fjallað allnákvæmlega í Þjóðólfi og einnig skrifaði Skúli Sæland, ítarlega grein um það í Litla Bergþór 1. og 2. tbl. 2018. Fyrra blaðið er að finna á timarit.is.

Dragferjan var notuð á þessum stað til 1917, en var þá flutt á Brúará við Spóastaði og var þar, þar til brú þar leysti hana af hólmi 1921.

Fyrstu árin eftir að hún var tekin í notkun var kvartað talsvert undan henni og sýslunefnd sá ítrekað ástæðu til að hvetja  Tungnamenn til að koma á hana skikki.

Lögbrot á Kili

Fyrir framan Hallormsstaðaskóla. F.v Pálína, ég, pabbi og mamma. Fyrir ykkur sem tölduð að ég ætlaði að tjá mig um hálendisþjóðgarð, eða ofb...