23 ágúst, 2008

Af lýsingarorðum

Ég lét það eftir mér að horfa á undanúrslitaleik í handknattleik á ólympíuleikunum í Beijing sem fram fór um miðjan dag í gær. Þar áttust við Spánverjar og Íslendingar. Leikur þessi reyndist vera hin ágætasta skemmtun og nú stefnir í framhald í fyrramálið, þegar Frakkar og Íslendingar leika um gullverðlaun á leikunum.

Ég heyrði mig, í gær, gagnstætt því sem ég á að venjast af minni hendi, hrópa og nánast öskra á meðan á umræddum leik stóð.

Umfjöllunarefnið þessu sinni snýr að því hver fátækleg lýsingarorðanotkun okkar virðist vera þegar við stöndum frammi fyrir atburðum af þessu tagi. Ég hef hugsað mér að benda á nokkur ný sem gætu sómt sér.

Algengustu lýsingarorðin sem ég hef heyrt og séð í framhaldi ofannefnds leiks eru af þrennum toga:

I. GÓÐ OG GILD ÍSLENSK

þetta var frábært/þetta var frábær leikur/hann er frábær.

Lýsingarorðið frábær er gott og gilt íslenskt orð og notað um eitthvað það sem ber af. Vandinn er hinsvegar sá, að ef þetta ágæta orð er notað 1000 sinnum á einum klukkutíma þá tapar það merkingu og lýsir þar af leiðandi ekki lengur einhverju sem ber af, heldur verður bara eins og hver annar ropi. Hér ætla ég því að tiltaka nokkra aðra möguleika sem vel er vert að skoða, þó ekki væri nema til þess að auka fjölbreytni í málnotkun:

þetta var hreint ágætt/þetta var hreint ágætur leikur/hann er hreint ágætur þetta var harla gott/þetta var harla góður leikur/hann er harla góður
þetta var sérlega gott/þetta var sérlega góður leikur/hann er sérlega góður
þetta var yfirmáta gott /þetta var yfirmáta góður leikur/hann er yfirmáta góður


II. BLÓTSYRÐI EÐA ÓVIÐURKVÆMILEG(ÍSLENSK OG ERLEND)

Það hefur nú ekki verið talið mönnum til lasta, að taka sterkt til orða og af þeim sökum hafa blótsyrði unnið sér sess sem jákvæð lýsingarorð. Hér koma tvö dæmi, annað íslenskt, en hitt ættað frá bestu vinum okkara fyrir vestan haf.

þetta var helvíti gott/þetta var helvíti góður leikur/hann er helvíti góður
þetta var fokking flott/þetta var fokking flottur leikur/hann er fokking flottur

Hér mætti hugsa sér aðra möguleika af sama toga:

þetta var djöfuls ári gott/þetta var djöfuls ári góður leikur/hann er djöfuls ári góður
þetta var samlífs gott/þetta var samlífs góður leikur/hann er samlífs góður
þetta var andskotanum betra /þetta var andskotanum betri leikur/hann er
andskotanum betri

III. SJÚKDÓMA- EÐA LÍKAMSTENGD

Hér hefur eitt orð umfram önnur náð að festa sig í sessi

þetta var geðveikt gott/þetta var geðveikt góður leikur/hann er geðveikt góður

Í staðinn mætti velja úr mikilli flóru sjúkdóma sem hrjá mannkynið, eða þá einhverja ágalla sem valda því að fólk víkur með einhverjum hætti frá því sem venjulegast er. Hér eru örfá dæmi:

þetta var manískt gott/þetta var manískt góður leikur/hann er manískt góður
þetta var oflætis gott/þetta var oflætis góður leikur/hann er oflætis góður
þetta var búlimískt gott/þetta var búlimískt góður leikur/hann er búlimískt góður
þetta var blint gott/þetta var blint góður leikur/hann er blint góður
þetta var MS gott/þetta var MS góður leikur/hann er MS góður
þetta var krabba gott/þetta var krabba góður leikur/hann er krabba góður

...svona væri hægt að halda lengi áfram, en ég tel rétt að gefa lesendum færi á að reyna sig sjálfir á tilbreytingu af þessu tagi í lýsingaraorðavali.

Það verður kannski svo að hin fleyga setning forsetafrúarinnar verði til þess að vekja upp nýja tegund lýsingarorða sem fælist þá í að breyta óreglulegri stigbreytingu.


Ísland er stórasta land í heimi
Ísland er góðasta land í heimi
Þetta var langasta skot sem ég hef séð.
Þarna sá ég lítilasta handboltamanninn

o.s.frv.


ÁFRAM ÍSLAND!


Sá góðasti er gjarnan sá stórasti.

3 ummæli:

  1. Ja.... þetta krefst nú nákvæmari lestrar en hirðkveðillinn getur innt af augum núna....

    en skelfingar undur sem hann hlakkar (alveg) refamikið til að tjá sig ....
    í verulega löngumáli og tyrfnu

    ... hirðkveðillinn

    SvaraEyða
  2. Já þetta er dúndur flottur pistill hjá þér. Toppmálflutningur. Vibbaleg rök. Ekki má maður heldur gleyma hve subbulega vel íslenska liðið á eftir að mala frönsku skriðdrýslana...

    SvaraEyða
  3. Gullbrúðkaup, fyrrum kvennaflagara árið 2069:

    Samlífsgóður sjentilmann
    sér hér kvinnur manískt fann
    geðveikt flott var gæða ein drós
    sú góðasta til lands og sjós
    berist henni blint vort hrós.

    (Og bara aðeins ...)

    Krabba-blíði bloggarinn
    búlimískt sér strauk um kinn
    MS-klár með oflæti
    algert refa-fágæti
    - kátur mann í Kvistholti -

    Errretti nóg um lísingjaorrðinn?
    (síðbúinn bloggskapur um ofanskráð efni)

    Hirðkveðillinn

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...