29 ágúst, 2008

Undan dúnsænginni stutta stund

Ég minnist þess, að fyrir ævalöngu var hænsnakofi bak við gamla bæinn í Hveratúni. Ég ímynda mér að þarna hafi verið um 20 hænur að jafnaði, sem sáu heimilinu fyrir eggjum. Þessar hænur lifðu í vellystingum praktuglega, enda tel ég mig hafa fengið það hlutverk að vera helsti hænsnahirðirinn. Á borðum fiðurfénaðarins voru matarleifar auk hefðbundins hænsnafóðurs í þá daga og þær fengu að spígspora allt um kring, oftar en ekki inni í gróðurhúsum. Auðvitað kom að því í lífi hænsnanna að þær urðu að yfirgefa þetta líf, langoftast vegna elli, löngu hættar að verpa. Hamingjusamar hænur, sem sagt. Þegar hæna dó (ég segi dó, en ekki drapst, þar sem þessar hænur voru nánast einstaklingar í huga hirðisins) þá var fengin ný í staðinn og hennar beið mikil þolraun þegar hún birtist í þessu samfélagi fiðurfénaðarins. Það var mér ljóst frá unga aldri að til er fyrirbærið 'goggunarröð'. Ég er nánast viss um að einhverjar nýhænurnar voru drepnar í valdabröltinu sem átti sér stað í hænsnakofanum.

Nú kann einhver að velta fyrir sér hvaða hænsnatal þetta er. Það verður nú upplýst.

Ég starfa einnig nú sem n.k. hirðir, þessu sinni við virðulega menntastofnun og þangað streymir ungt fólk á hverju hausti, bæði ungt fólk sem á sér sögu innan stofnunarinnar og telur hana vera sitt svæði og einnig annað ungt fólk sem kemur nýtt inn og sem á sér enga sögu sem þátttakandi í hinu mótandi lífi sem skapast við þær aðstæður sem þarna eru. Síðarnefnda unga fólkið er nokkurskonar nýhænur fyrstu dagana og kallast þá busar. Busar teljast ekki merkilegir pappírar, en þegar þeir hafa gengið í gegnum ýmsar þolraunir eru þeir skírðir í Laugarvatni, með latneskum yfirlestri. Eftir þann atburð teljast þeir nýnemar og er fagnað sem slíkum með rós úr hendi stallara nemendafélagsins (yfirhænunnar).

Þessi atburður átti sér stað í dag og var ég þar viðstaddur með minn EOS400D (en ekki Egils 450D).

Nokkrar myndir frá atinu er að finna hér, eða allar hinar má sjá á vefsíðu ML eftir helgina, svona fyrir þá fyrrverandi nostalgíska ML-inga sem lesa þessa síðu.

Hér gefur að líta Brynjar Stein Pálsson, sem nú birtist væntanlega síðasta sinni í hlutverki ógnvalds.

Hér eru þær stöllur, Herdís Anna Magnúsdóttir frá Hveratúni og Guðrún Linda Sveinsdóttir, systurdóttir frú Kristínar í Kirkjuholti. Þær hafa, í annan tíma, verið snyrtilegri.


Undir dúnsæng umboðsmaður skríður
sendir bréf og svo hann bíður
þess er verða vill.

(mjög kryptískt þessu sinni)

6 ummæli:

  1. EOSinn hefur ekki klikkað frekar en fyrri daginn, sama hvaða númer hann ber :) Mín 18-55mm linsa hefur nú lítið í þína.... X-Xmm hvað "depth of field" viðkemur.

    Mjög skemmtilegar myndir

    SvaraEyða
  2. Canon 620A nægir mér. En þetta rifjar óneitanlega upp minningar þar sem ég á engar myndir frá þessum tíma

    SvaraEyða
  3. Skemmtilegar myndir. Alltaf gaman að sjá líf og fjör á stað sem kallar fram minningar.
    Þegar ég gekk í gegnum mína vígslu minnir mig að einungis Gylfi Gísla hafi verið uppáklæddur enda hélt hann þrumu ræðu yfir okkur busunum. Síðan var stokkið á okkur en við gátum líka tekið á móti og ég fékk að draga einn eldri bekkinginn upp úr mýrinni við Íþróttakennaraskólann :)

    SvaraEyða
  4. úfff good old times ! Bæði hlutverkin voru ótrúlega skemmtileg..

    SvaraEyða
  5. Undir dúnsæng oft er gott að skríða
    loka eyr' og auga í senn
    ekki þurf' að hlust' á menn
    hvað þá fiðurféðnað enn
    með fagra rödd og blíða
    allar stundir
    aumingjum að stríða.

    niður-með fiður-goggunar-fénaðinn-bloggskapur.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...