31 ágúst, 2008

Að opna með tánum

Það er ég viss um að allir átta sig á því að þegar eitthvað er gert, þá kallar það á eitthvað meira. Það er þannig í Kvistholti.
Mikil aðgerð átti sér hér stað þegar borðplötur í eldhúsi voru slípaðar og olíubornar. Því ferli hefur öllu verið lýst hér.
Það var svo einn daginn fyrir einhverjum vikum, þegar jafnvel stóð til að halda í bæjarferð, að ég kom heim og sá þá að allar höldur á skápum og skúffur í eldhúsinu voru horfnar; höfðu að sögn fD gegnt hlutverki sínu og meira til. Þetta taldi hún vera líklegustu leiðina til að tryggja að nýjar höldur yrðu keyptar í fyrrgreindri bæjarferð. Til þess að tvítryggja kaup á nýjum höldum hafði hún komið þeim gömlu tryggilega fyrir í ruslagámi sem var síðan tæmdur samdægurs.
Það varð hinsvegar ekkert af bæjarferðinni eins og til stóð.
Af þessum sökum hefur staðan verið sú, vikum saman, að til þess að komast í skúffu eða skáp í eldhúsinu hefur reynst nauðsynlegt að reka tær hægri fótar undir skáphurðar, opna þannig skápinn til að geta náð undir skúffuna fyrir ofan og þannig opnað hana. Það er síðan þannig með einn skápinn, að hjólagrindur eru tengdar við hana að innanverðu og þarf því að draga út heilmikið hlass til að opna skápinn. Það sem meira er þá er í skúffunni fyrir ofan margt það sem þarf að nota nokkrum sinnum á dag. Það var fyrst í gærmorgun sem ég fann að tærnar voru að öðlast nægilegt afl til að draga út þessa hurð, en þá skall bæjarferð á og keyptur var haugur af höldum sem síðan voru umsvifalaust settar á.
Nýþjálfaðir távöðvar stefna nú í þjálfunarleysi þar til eitthvað svipað gerist aftur.

Traustir eru távöðvar,
trauðla finnast aðrir eins.

3 ummæli:

  1. hehe sniðugt hjá múttu, rífa þetta bara af sem snöggvast, þá kannski líður skemmri tíma en ella þangað til eitthvað verður gert í hlutunum ;)

    SvaraEyða
  2. Minnir mig á lítt þektan málshátt, neyðin kennir naktri konu að spinna, fD hefur vafalaust nýtt sér hið óendanlega náttúrulögmál :)

    SvaraEyða
  3. Tárin mér titruðu á hvarmi
    nær táin var pikk-föst í karmi
    og fáránleg flís
    sem ferlegsta rís
    þá olli mér ómælis harmi.

    En karlmennskan kom enn að notum
    er kominn var niður-að-lotum
    (ég hjó hana burt
    í bræð' en með kurt)
    "búinn" og kominn að þrotum.

    Bloggskapur um ómælda karlmennsku

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...