Þegar mikið stendur til, skal mikið í lagt.
Ef mann þyrstir í fréttir er oft gagnlegt að fara í heimsókn á næsta bæ þar sem gamli unglingurinn situr og les moggann og allt annað sem læsilegt er. Ein slík heimsókn er einmitt tilefni þessarar frásagnar af höfðum þess leggs ættarinnar sem hefur tekið sér bólfestu í höfuðstað Suðurlands.
Sálfræðingurinn hefur, sem sagt, eftir því sem sagan segir, þegið boð kóngsins (líklega prinsins, þar sem það er enginn kóngur í umræddu landi, heldur drottning sem ber nafnið Margrét Þórhildur) um að koma til konunglegrar veislu í tilefni af 25 ára útskriftarafmæli. Þá segir sagan að umræddur kóngur (prins) og sálfræðingurinn hafi verið skólabræður og verði nú fagnaðarfundir innan skamms. Flest í tengslum við þetta heimboð er reyndar frekar konunglegt, og auðvitað fyllumst við aðrir, sem fjölskyldunni tilheyra stolti yfir svo góðum tengslum sem hér virðist vera um að ræða.
Ferðin er nú hafin (það liggur fyrir). Fyrst lá leiðin til Kaupmannahafnar, þar sem áð var yfir nótt, áður en flogið var suðaustur í Miðjarðarhaf. Tilgangur þess hluta ferðarinnar er augljóslega, að leggjast á ylvolga sólarströnd um vikutíma til að líta hraustlegar út í hinu fína, konunglega samkvæmi sem framundan er.
Þegar gullinbrún höfuðin síðan lenda aftur í Khöfn eftir viku brúnkumeðferð, bíður þeirra límúsína á Kastrúp, sem flytur þau samdægurs til Árósa, þar sem konungurinn (prinsinn), að sögn, bíður þeirra með dýrindis konunglega veislu. Þeir félagar sálfræðingurinn og kóngurinn (prinsinn) munu þá væntanlega rifja upp prakkarastrikin sín frá háskólaárunum, áður en höfuð Selfossleggjar halda heim á leið, tilbúin að takast á við íslenskan vetur.
Svona er myndin sem upp hefur verið dregin að ferð þeirra heiðurshjóna frá Selfossi til Danmerkur í næstu viku. Þessi mynd er sannarlega þess eðlis að við hin gætum verið stolt af. Upplýsingarnar sem fyrir liggja um ferðina eiga að stærstum hluta rætur að rekja til frásagnar sálfræðingsins, er hann upplýsti gamla unglinginn um málið.
Því verður ekki neitað, að í mínum huga vöknuðu óhjákvæmilega nokkrara spurningar af þessu tilefni. Sú sem lét mig síst í friði, var auðvitað hversu náin kynni sálfræðingsins og prinsins hafa verið gegnum árin. Því var það að ég gúglaði prinsinn - þann eldri auðvitað - og komst þá að því að hann er 18 árum yngri en sálfræðingurinn og fyrir 25 árum mun hann þá hafa verið 15 ára og þar með ekki líklegur til að hafa verið að ljúka umtalsverðum námsáfanga frá Árósaháskóla. Við frekari rannsókn á dagskrá prinsins í næstu viku komst ég síðan að hinu sanna:
Aarhus Universitets årsfest og 80-års jubilæum |
Fredag 12. september 2008 kl. 13:30 |
H.K.H. Kronprinsen er til stede ved Aarhus Universitets årsfest og 80-års jubilæum i Århus. |
Það sem meira er,
Officielt besøg i Bulgarien |
Mandag 15. september 2008 - Onsdag 17. september 2008 |
Kronprinsparret aflægger officielt besøg i Bulgarien i dagene 15.-17. september. Ég verð að viðurkenna, að saga gamla unglingsins af merkisferðinni sem hér er um að ræða felur í sér meiri dramatík og spennu en sú sem birtist með því að laumast í dagbókina hans Friðriks. Það er hinsvegar jafn ljóst, að hin sunnlensku höfuð munu eiga ánægjulegar stundir í hinni konunglegu veislu. Það er svona þegar maður hefur ekkert að segja af sjálfum sér, þá er fínt að geta smjattað lítillega á öðrum höfðum. Kátt verður í konungs rann. Kannski nokkra brúnku fann Sigrún við að sóla sig, sú verður nú glæsilig. |
Jæja, þetta er farið að bera ávöxt!Laumubloggarinn farinn að ljóða út um allar þorpagrundir!
SvaraEyðaNú er brotið blað í sögu
bloggarinn nú reit hér bögu
rímaða af ráðsnilld tærri
réttir hana systur kærri.
Öfundsjúkr' af sálartryll
sendir kveðjur -
hirð-kveðill
Bloggskapur um kveðskap í bloggi hjá laumubloggaranum