Það er mikil þolraun að fara á ráðstefnur. Flug um langar leiðir í níðþröngum flugvélasætum, leigubílaakstur milli staða, gisting á hótelum, ferðalög á ráðstefnustað, mjaðmaskemmandi göngutúrar þar á milli og samkundur af ýmsu tagi þegar líða tekur á dag. Ég verð að viðurkenna, að ég er bara hreint úrvinda eftir ráðstefnuferðina til kóngsins K. og var því bara ekki alveg klár í gefandi starf á þessum dýrðar haustdegi, en að því var ekki spurt.
Það var heldur léttara hjá fD sem tók hús á hinum og þessum leggjum ættar sinnar þar úti. Ég naut nú reyndar líka góðs af því eftir því sem unnt var, vegna ráðstefnuannanna.
Okkur bárust upplýsingar um það skömmu áður en lagt var af stað heim á leið, að angi af skemmtanahaldi í kringum réttadansleik hefði átt sér stað í Kvistholti og var því eðlilega ekki fullkomlega rótt, fyrr en í ljós kom að hér virðist hafa veið um að ræða fremur hófstillta samkomu; ekki sáust merki um hana umfram húsgögn sem höfðu verið flutt úr stað, gúmmískó okkar hjóna á röngum stað, en þeir höfðu greinilega verið notaðir við þann hluta skemmtanahaldsins sem fram fór á pallinum góða, og stúlkuúlpu sem hafði gleymst þegar haldið var til dansleiks.
Þessu sinni verður ekki sagt hér margt utan..
Rangt var ei til ráðstefnu að halda,
rétt var, sko, á málum haldið þar.
Ekki gerðum óskund neinum valda
og eigi sáumst út'á næsta bar.
Stúlku úlpan var mín!
SvaraEyðaÓsköp er erfitt að halda
SvaraEyðaandlit' í ráðstefnuför;
klemmdur með fótleggi kalda
kraminn á sinum og mör.
Mjaðmirnar skældar og skekktar
skelfingar verkur í hné,
frumur í taugunum trekktar
nú tek ég mér veikindahlé!
Bloggskapur um ferða- og ráðstefnuraunir