13 mars, 2010

Ég stuðla að endalokum lífs á jörðu


...og þú líka.

Ég hef nú ekki talið mig vera af þeirri tegundinni sem berst af krafti fyrir einhverjum málstað. Auðvitað var ég nokkuð ákafur stuðningsmaður málstaða af ýmsu tagi áður fyrr, en hef smám saman komist að þeirri niðurstöðu, að slíkt hefur ekki miklar breytingar í för með sér. Það eru þau öfl sem ráða för og hafa til þess fjármagnið og völdin, sem skapa tortryggnni í garð þeirra hópa sem freista þess að berjast fyrir málum, sem í raun eru afar mikilvæg og sem gætu hugsanlega ógnað völdum og áhrifum þessara ráðandi afla.

Við Vesturlandabúar eigum það sameiginlegt að vera miklir neytendur og við erum beinlínis hvött til neyslu til að stuðla að auknum hagvexti.

Ég er sekur um að neyta meira en ég hef í rauninni þörf fyrir.
Ég kaupi ansi oft hluti sem ég nota síðan ekki.
Ég læt af og til glepjast af auglýsingum um vöru og þjónustu sem ég get vel verið án.
Ég keyri 50 km á dag til og frá vinnu.

Það jákvæða við þetta er auðvitað að þarna er ég oft að stuðla að því að fólk hefur atvinnu hérlendis og erlendis; ég er að stuðla að auknum hagvexti.
Það neikvæða er að ég er að taka þátt í því, að ganga á auðlindir jarðarinnar. Þessar auðlindir eru ekki ótæmandi.

Nei, ég datt ekki á hausinn - ég fór á námskeið.

Kristín Vala Ragnarsdóttir flutti þar fyrirlestur um sjálfbærni (sustainability) Þetta er hugtak sem við erum búin að heyra um allt frá því um 1980. Þetta hugtak er ekki einfalt og ég ætla mér ekki að reyna að útskýra það hér, en hluti þess snýst um að mannkynið eigi ekki val um það lengur, hvort það gerbreytir umgengni sinni við náttúruna og náttúruauðlindir. Þarna sýndi fyrirlesarinn mynd sem skýrir afskaplega vel um hvað þetta snýst.

Ég tel ekki rétt að blanda flokkspólitík í þetta mál. Það er miklu stærra og flóknara en svo að það myndi ganga upp. Flokkspólitísk umræða á þessu landi er á því stigi, að hún myndi engan veginn ráða við umræðu af því tagi sem hér um ræðir, því miður.

Ég neita því ekki, að eftir þetta námskeið er ég orðinn all svartsýnn á það sem framundan er. Líklega mun þetta lafa með óbreyttum hætti meðan ég lifi, en hvað um þá sem á eftir koma? Auðvitað er hægt, ef heimsbyggðin breytir lífsháttum sínum, að snúa þróuninni við. Auðvitað eru afar margir vaknaðir til þessarar meðvitundar.

En.....
auðvitað er þeir margir sem ekki næst til með þessar upplýsingar og
auðvitað eru þeir margir sem afgreiða þessi mál sem pólitískt kjaftæði og
auðvitað eru þeir margir sem hugsa sem svo, að það skipti engu máli hvað þeir gera meðan aðrir gera ekkert í málinu og gera þess vegna ekkert.

Þetta var ekki lítið alvöruþrungið.

Hún er um 20 mín, en þess virði að horfa á allt til enda.

1 ummæli:

  1. Já við mennirnir erum orðnir eins og asninn sem stóð á milli tveggja vatnsbóla.
    Ef hann fór að öðru þeirra þá fjarlægðist hann hitt svo það endaði með því að hann dó úr þorsta þar sem hann stóð.
    Allt eru slæmir kostir og það eina sem við uppskerum er samviskubit

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...