19 mars, 2010

'ÉG' þjóðin og tabúin

Sá sem hér lemur lyklaborðið, hefur áður tjáð sig á þessum vettvangi um eitthvað af því sem borðið hefur fyrir augu og eyru á undanförnum árum.
Áður hefur verið fjallað hér um tilefni til reiði. Á slíku er ekkert lát frekar en fyrri daginn - alltaf er af nógu að taka. Vandamálið í umfjölluninni er ekki hvað þarf að ræða, heldur hvar á að byrja.

Það var athyglisvert að í viðtali í morgunútvarpinu, þegar stuðningsmaður 40% flokksins var spurður að því hvernig skýra mætti allt þetta fylgi, að honum vafðist tunga um tönn og hreint ekki að ástæðulausu. Helsta skýringin tengdist því hver vanhæf núverandi ríkisstjórn er, ekki hversu traustur og öflugur 40% flokkurinn er. Í því sambandi má velta fyrir sér hvaða hópur fólks þessi 40% sem telja sig myndu kjósa þennan umrædda flokk, er.

Hér koma skoðanir á því:
1. Allir þeir Íslendingar sem sjá ekki út fyrir sjálfa sig og eru yfirkomnir af sjálfsvorkunn vegna þess hve bág staða þeirra er nú.
2. Allir þeir Íslendingar (þúsundir að sagt er) sem óttast að þurfa nú að fara að borga skatt af afleiðusamningagróðanum sínum (eða hverju öðru svipuðu, sem einkabankarnir létu hjá líða að reikna af þeim).
3. Allir þeir Íslendingar sem hafa beina hagsmuni af því að koma núverandi ríkisstjórn frá.
4. Allir þeir Íslendingar sem moka inn fé með kvótaeigninni sinni.
5. Allir þeir Íslendingar nenna ekki að velta fyrir sér samhengi hlutanna.
6. Allir þeir Íslendingar hafa dottið á hausinn síðan haustið 2008 og misst minnið.
7. Allir þeir Íslendingar, og reyndar er þar um að ræða afar varkára áætlun, sem þingmaðurinn utan flokka nefndi í velþekktu útvarpsviðtali. (Það er svo margt sem ekki má tala um í þessu spilltasta samfélagi Vesturlanda). Guði sé lof, að sá sem hér vogar sér að taka undir orð þingmannsins, og bæta jafnvel í, er ekki opinber persóna.
8. Allir þeir Íslendingar sem vilja kenna ríkisstjórninni um að það gengur hægt að endurvekja fyrirmyndarsamfélagið frá 2007.
9. Alllir þeir Íslendingar sem misstu sig í brjálæðislegu eyðslufylleríi á tíma bankabólunnar og vakna nú upp með vonda timburmenn. Það var ekki þeim sjálfum að kenna - hreint ekki.

Þessi upptalning nær væntanlega ekki yfir alla þá sem fylla 40% eða þau 13% sem hinn flokksgapinn fær í þessari skoðanakönnun, en það verður svo að vera, það kann að vera að þarna leynist einn og einn stjarfur einstaklings- og frjálshyggjupótentáti einhvers staðar.

Hér má ennfremur gera alvarlegar athugasemdir við það, að fyrir dyrum stendur að afskrifa hitt og þetta hjá hinum og þessum sem hafa farið illa út úr hruninu. Til eru þeir sem skiljanlegt er að ættu að eiga tilkall til þessa, en þeir eru einnig yfirmáta margir sem eiga að fá að brenna sig rækilega, þar sem þeir hegðuðu sér með afskaplega óábyrgum hætti á bólutímanum.

Þessi pistill fjallaði um þessa þjóð. Það má ímynda sér, að sá sem þetta ritar hafi ekki mikla trú á henni. Það er ekki rétt. Hann hefur mikla trú á þeim sem nú teljast vera í minnihluta á þessu landi. Hann hefur enga trú á 40+13%unum.
Þegar sú stund rennur upp (sem aldrei verður með þessu áframhaldi) að fólk fer að hugsa út fyrir sjálft sig, skilja það að það þurfa allir að standa skil á sínu til samfélagsins og að það bera allir ábyrgð á því að hér verði aftur lífvænlegt, þá verður gott að búa á Íslandi.

SVEIKST ÞÚ UNDAN SKATTI?
SVÍKUR ÞÚ KANNSKI ENN UNDAN SKATTI?
FINNST ÞÉR AÐ ÞÉR BERI EKKI SKYLDA TIL AÐ BORGA SKATT?

Sá sem hér er á ferð kemst ekki hjá því að borga skatt til samfélagsins og telur það ekki eftir sér, nema ef vera skyldi vegna þess sem hann horfir upp á í umhverfinu, þar sem enn finnst fólk sem keppist við að koma undan fjármunum sem eiga með réttu að renna til sameiginlegra útgjalda. Það eru til þeir sem svífast einskis við að notfæra sér ýmsar neyðarráðstafanir sem gripið hefur verið til, til að skara eld að eigin köku, þó réttur þeirra til þess sé enginn.

"Ja, ljótt er ef satt er" - eins og gamli unglingurinn myndi segja.

Á ÞAÐ VIÐ UM ÞIG?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...