13 mars, 2011

Trúarleg afskipti (5)

Kórbúðir á Nesjavöllum
Tíminn í Skálholtskórnum, sem ég reikna með að verði að teljast með því viturlegra sem ég hef tekið mér fyrir hendur á lífsgöngunni, stóð í um 20 ár. Því vil ég halda til haga, að ég tók ekki þátt í þessu starfi af trúarþörf einni saman, þó ekkert hafi ég haft á móti því að sinna þeim hluta starfsins. 

Vissulega kölluðu hefðbundnar messur ekkert á sérlega mikla sköpun eða frumlegheit. Þar fer nú allt fram samkvæmt messuskrá og líkist því að mörgu leyti leikþætti. Ekki ætla ég mér hinsvegar að fara að agnúast út í það, enda hef ég ekki betri lausn á því hvernig trúariðkum þeirra, sem játa evangelísk lúterska trú, ætti að vera (meginkrafan í þeim efnum ætti væntanlega að vera sú, að messugjörð sé þess eðlis að fólk þyrpist í kirkjurnar).
Í Gethsemane kirkjunni í Berlín
við undirbúning flutnings á
Brynjólfsmessu og Berlínarmessu

Kórinn fékk nú stundum að spreyta sig í tengslum við messurnar, flutti glæsilega kirkjutónlist við og við. Kirkjutónlist finnst mér vera sérlega skemmtileg og hún er ein megin ástæða þess að ég ákvað að endast í Skálholtskórnum svo lengi. 

Önnur megin ástæða fólst auðvitað í því, að það er mikilvægt fyrir samfélag að geta treyst á þjálfaðan kór til að flytja tónlist við ýmsar kirkjulegar athafnir, ekki síst á fagnaðar og sorgarstundum. 

Þriðja ástæðan fyrir þátttöku minni var auðvitað mikilvægi þess, í mínum huga, að taka þátt í félagsstarfi af einhverju tagi; komast út meðal félaga sinna, bæði til að njóta samvistanna og til að sinna einhverju sem skiptir miklu máli, bæði fyrir mann sjálfan og aðra. 

Fjórðu ástæðuna vil ég telja þann sem valdist til að stjórna tónlistarflutningnum; mann sem  virtist stundum fara fram úr sér í markmiðum, gerði stundum kröfur til samstarfsfólks, sem virtust út fyrir það sem eðlilegt mátti teljast, en sem reyndist vita nákvæmlega hvað hann vildi þar sem tónlistin sjálf var annarsvegar. Það sem þessi hópur lærði, ekki síst, var að vera tilbúinn að takast á við eitthvað nýtt, oft með stuttum fyrirvara. Við lærðum að takast á við áskoranir af æðruleysi, festumst, að ég tel, ekki í einhverju fari vanans - við lærðum að takast á við breytingar og fjölbreytni.
Í Pompei

Fimmta ástæðan, og hreint ekki sú sísta, voru ferðir kórsins vítt og breitt um Evrópu. Ætli fyrsta ferðin út fyrir meginland Íslands hafi ekki verið farin til Vestmannaeyja. Síðan var farið að hugsa stærra - meginland Evrópu varð áfangastaður kórsins í það minnst fjórum sinnum: 
- Sú fyrsta var í Móseldalinn og til Elsass, 
- Næst lá leiðin til Strassborgar og til Gardavatnsins (fór ekki - ekki viss), 
- Í þriðja skiptið lá leið til Slóveníu og Króatíu
- Fjórða, og stærsta ferðin var farin til Ítalíu.
- Sú síðasta, eftir að kórinn hafði verið leystur upp formlega, til Berlínar. 
Fornt hringleikahús á Sikiley

Ég held að ferðasögur hafi verið skrifaðar í lok allra þessara ferða, og þeim þyrfti að halda saman. 

Ein mikilvægasta ástæða þess að þessar ferðir (allar nema sú síðasta) voru svo einstakar sem rauning varð, var sú að við nutum þess að hafa í okkar röðum snilldar skipuleggjanda og fararstjóra, Hólmfríði Bjarnadóttur 'Hófí', en hún kom í sveitina með Hilmari Erni og starfaði með kórnum stærstan hluta þess tíma sem ég tók þar þátt.

Framundan um þetta efni - trúarleg afskipti mín - er lokakaflinn, sem mun væntanlega fjalla um aðdraganda þess að Hilmar Örn lét af störfum í Skálholti og það sem síðan hefur gerst.
Meðan á þeim umbrotatímum stóð var ýmislegt sagt og skrifað, staðfest eða óstaðfest. 


Sett hér af rælni: Þetta rákumst við á
í Pompei, en það gengdi það lílkega
því hlutverki að vísa leiðina að stað
þar sem unnt var að njóta holdsins
lystisemda.

1 ummæli:

  1. Víða fórum, vel þá sungum
    -varist tárum fæstir gátu-
    þessu næst, með lif'r og lungum
    lögðumst pent í drykkju' og átu.

    Enda kórinn annálaður
    yndis selskap vífa' og karla
    þar var enginn meðalmaður
    mannverurnar flottar - harla!

    Hirðkveðill yrkir ... með tárum... um Skálholtskór heitinn.

    SvaraEyða

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...