14 nóvember, 2011

Endalok lýðræðis

Ég er ekki að fara að bjóða mig fram til neins. Ég hef hér á þessum síðum farið heldur niðrandi orðum um þjóðina; tel hana vera harla undarlega, satt að segja og fékk stuðning við þær skoðanir með viðtali við hinn írska Kirby í Silfri Egils í gær. 
Hvað er það í karakter þessarar þjóðar, sem veldur því að sá stjórnmálaflokkur sem var í lykilvaldastöðu í 20 ár fyrir hrun, er enn stærsti flokkurinn, á meðan samsvarandi stjórnmálaflokkur á Írlandi er kominn nánast út í ystu myrkur?

Ég held að lýðræði, eins og við höfum kynnst því, sé fyrirbæri sem komið er að fótum fram. Mannskepnan er nú búin að hafa einhversstaðar nálægt öld eða tveim (eða þrem - skiptir ekki máli) til að átta sig á göllum hugmyndarinnar um það að fólk eigi að geta valið sér fulltrúa til að sitja á löggjafarþingi, eða með einhverjum öðrum hætti.

Það eru svo margar ástæður fyrir því að lýðræðishugmyndin er komin að fótum fram, að ég ætla mér ekki að reyna að fara að fjalla um það  allt saman, en nefni þrennt:

a. kjósendur velja sér fulltrúa - fulltrúinn fær með því völd til að sinna lagasetningu eða stjórnsýslu - í krafti valdsins býr hann í haginn fyrir sig og sína út fyrir það umboð sem hann fékk og út fyrir þann tíma sem hann var kosinn til.

b. fjármagn eykur líkur á því að einstaklingar komist í valdastöður, þ.m.t. með kosningum, einfaldlega með því þeir sem eru vel stæðir eiga greiðari aðgang að fjölmiðlum, geta sett upp glæsilegri kosningafundi o.s.frv.

c. fjölmiðlar eru í mjög krítiskri stöðu þegar lýðræðið er annars vegar.  Fólk hneigist til að trúa því sem er haldið að því.  Fjölmiðlar þurfa tekjur, fjölmiðlar eiga eigendur, fjölmiðlar geta hagrætt sannleikanum - verið í það minnsta ónákvæmir í frásögn sinni. Ef fjölmiðill segði t.d. að Skálholt væri í Hrunamannahreppi þá myndu þeir sem ekki beinlínis vissu betur, líklegast trúa því.

Einhvern veginn grunar mig að forsetar Bandaríkjanna séu nú ekki endilega valdir eingöngu vegna persónulegar hæfni sinnar.

Forsætisráðherrar Grikklands og Ítalíu hafa þurft að taka pokann sinn og í þeirra stað hafa verið settir inn "til bráðabirgða" menn sem ekki þurfa að sækja umboð sitt til kjósenda, en sem eru taldir geta tekist á við vandann sem uppi er, á grundvelli þekkingar sinnar og færni.


Hvað kemur í stað lýðræðis?  Þróaðra lýðræði? Lýðræði sem byggir á því að fólk verði að sanna færni sína til að greiða atkvæði, t.d. með því að taka próf í grundvallaratriðum? (Þetta finnst mér bara nokkuð góð hugmynd, sem líklega myndi breyta valdhlutföllum talsvert, í þessu landi. :))

1 ummæli:

  1. ;) + ;) - Íturmenntað einræði með sterkum keim af húmanisma væri líka til í dæminu. EN eigum við slíkan einstakling?


    Að auki vil ég að fram fari rannsókn - vísindaleg - á því hvers vegna sumt fólk er kosið á þing. Sleppi listanum því hann er nokkuð langur og byrjar eiginlega fremst í stafrófinu...

    H.Ág.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...