Sýnir færslur með efnisorðinu Fjölskylda. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Fjölskylda. Sýna allar færslur

30 ágúst, 2014

Nýja hænan í kofanum (1)

Þetta er ekki hæna frá Hveratúni.
Það kann að virðast undarlegt að ég skuli skrifa það sem hér fer á eftir, en fyrir því eru ástæður sem ég mun fjalla um í framhaldinu.

Þegar ég var í kringum 10 ára aldur var ég maður með hlutverk á heimili fjölskyldunnar. Ég var hænsnahirðir og fóðraði hænur heimilisins, sem voru eitthvað í kringum 20 að jafnaði, bara svona venjulegar hænur, hvítar með rauðan kamb. Fóðrið var blanda af hænsnakorni og leifum sem hrutu af borðum Hveratúnsfólks.  Starfi mínu fylgdi einnig sú ábyrgð að sjá til þess að hænurnar hefðu alltaf nóg að drekka, hleypa þeim út til að viðra sig á sumrin og ná í eggin sem þær notuðu til að greiða fyrir tilveru sína.

Ég veit ekki hvernig svo æxlaðist að ég fékk þetta hlutverk, en held því auðvitað fram að systkin mín hafi bara ekki talist hæf til starfans. Ég veit hinsvegar að þau munu bera fram aðrar skýringar á ástæðum þessa og munu örugglega halda því fram að þau hafi einnig sinnt fiðurfénu, en ég andmæli slíkum fullyrðingum.

Náið samneyti við hænur í svo litlum hóp, þar sem hver hæna fékk að lifa svo lengi sem henni entist heilsa, hafði óhjákvæmilega þau áhrif að hænsnahirðirinn myndaði tengsl við flokkinn. Hver hæna fékk nafn og þær höfðu mjög mismunandi persónueiginleka. Sumar voru gæfar, en aðrar vildu sem minnst samskipti hafa við hirði sinn.

Hænsnakofinn var bak við gamla bæinn, með einum suðurglugga og dyrnar sneru að bakhlið íbúðarhússins. Byggingarefnið var holsteinn. Innan dyra var borð vinstra megin þegar inn var komið og þar fyrir ofan prik sem íbúarnir settust á þegar rökkvaði. Í hægra horninu fjærst voru síðan varpkassarnir og mig minnir að í þá hafi verið settir hefilspænir.  Loftið var rykmettað og með einhverju millibili þurfti að moka út úr kofanum og í staðinn var settur ilmandi spænir.

Ég tel að hænurnar í Hveratúni hafi verið það sem kallast núm "hamingjusamar hænur". Þær nutu útiverunnar í heimilsgarðinum fyrir framan suðurhlið íbúðarhússins (ég sé fyrir mér hænur spígsporandi á pallinum í Kvistholti, þar sem fD liggur og nýtur sólar. Afar rómatísk hugmynd). Hamingja þeirra fólst einnig í því að hafa svo umhyggjusaman hirði sem raun bar vitni.

Þar kom í lífi hænsnanna að þær drápust úr elli eða sjúkdómum. Ég hygg að ekki hafi verið mikið spáð í hvort þær verptu eða ekki, þó mig minni að hænsnabóndi í Hrunamannahrepp, sem var alltaf kallaður Blómkvist eða Blommi (Andrés Blómkvist Helgason í Miðfelli 3 (1927-2005)) hafi eitthvað komið að endurnýjun stofnsins.  Ég minnist þess að hafa nokkuð oft fjarlægt hænsnalík úr kofanum.

Nýrra hænsna, sem voru varla komnar af ungaaldri beið ekkert sældarlíf til að byrja með. Oftar en ekki lögðust hænurnar sem fyrir voru á þær, gogguðu í hausinn á þeim eða plokkuðu af þeim fjaðrirnar. Eins og allir vita þá er í gildi skýr goggunarröð í hænsnakofum, og ég vissi hverju sinni hver var forystuhænan og hver var sú sem neðst var í goggunarröðinni.
Eftir raunirnar voru nýju hænurnar yfirleitt teknar í hópinn, en það kom vissulega fyrir að þær lifðu ekki af.

Ætli hænsnahaldi hafi ekki lokið í Hveratúni einhverju eftir að fjölskyldan flutti í nýja bæinn, eða eftir að ég komst á þann aldur að erfiðara var að fá mig til að sinna skyldum mínum. Ég efast ekki um að systkini mín muna þetta betur en ég, en svo mikið veit ég, að ég var farinn að nálgast tvítugt þegar ég borðaði fyrst kjúkling.

Ég er eiginlega farinn að ímynda mér að, þegar grannt er skoðað, hafi ég gegnt starfi hænsnahirðisins stærstan hlut lífs míns.

En meira um það næst.
  

27 ágúst, 2014

Af gömlum unglingi og fleiru.

Skúli Magnússon
Haustið er að ganga í garð og gróður jarðar býr sig undir að tryggja upprisu að vori. Mannlífið skiptir um takt og daglegt líf Kvisthyltinganna tveggja, sem eftir eru í kotinu þegar börn og barnabörn eru horfin til síns heima til að sinna sínu, er sem óðast að komast í fastar skorður og því líkur á að upp verði tekinn þráðurinn á þessum vettvangi sem ýmsum öðrum.

Viðfangsefni mitt þessu sinni er sú breyting sem varð í lífi okkar, afkomenda Skúla Magnússonar, garðyrkjubónda í Hveratúni, þegar hann lét gott heita í byrjun ágúst og kvaddi jarðlífið eftir langa og nokkuð vel útfærða glímu við Elli kerlingu. Hann var á 96. áldursári og þótti það bara orðið ágætt, kvaddi sáttur, saddur lífdaga.
Við skildum og skiljum það vel að hann var tilbúinn að hverfa á braut. Þannig er nú lífinu einusinni háttað, að það tekur enda einhverntíma og svo langt líf sem hans er hreint ekki sjálfsagt, en þakkarvert. Þrátt fyrir að allir væru nokkuð sáttir við þessi málalok, var þarna um að ræða endinn á langri sögu og þar með fylltumst við trega og söknuði. Okkar bíður auðvitað það hlutskipti að halda áfram okkar leið á okkar forsendum. Við systkinin erum nú kominn á þann aldur að við teljumst, eftir því sem ég best veit, fullfær um að kunna fótum okkar forráð, en samt... með "gamla unglingnum" hvarf töluvert mikilvægur þáttur í tilveru okkar, rétt eins og gerist oftast, allsstaðar og á öllum tímum þegar lífi lýkur.

Ég nefndi langa sögu, sögu sem hófst við aðstæður sem nútímamaðurinn á erfitt með að ímynda sér. Pabbi fæddist í september, veturinn eftir að frostaveturinn mikli hafði valdið fólki ýmsum búsifjum. Foreldrar hans, eins og svo margir aðrir í þeirra sporum, liðu fyrir skort á jarðnæði á láglendinu, svo þau tóku það til bragðs að flytja að Rangárlóni við norðanvert Sænautavatn í Jökuldalsheiði, líklegast vorið 1918, með tvo syni á barnsaldri og þann þriðja á leiðinni. Sjá einnig hér.

Það er eiginlega ekki fyrr en maður fer að skoða þau lífskjör sem svokölluðu almúgafólki voru búin á fyrri hluta síðustu aldar ofan í kjölinn út frá einhverjum sem maður þekkir, sem maður áttar sig á hvílikar breytingar hafa átt sér stað.  Það hlýtur að vera mikið spunnið í þær kynslóðir sem þurftu að takast á við tilveruna á fyrri hluta tuttugustu aldar, ekki síst þann hluta þeirra sem þurfti að leggja á sig ómælt erfiði til að hafa í sig og á.  Þetta fólk fann leiðir til lífsbjargar, en það þurfti líka að færa fórnir. Föðurforeldrar mínir eru, til að mynda, sagðir hafa eignast 10 börn, en einungis sex þeirra náðu að vaxa úr grasi.  Faðir minn var sendur um sex ára gamall í fóstur á næsta bæ, líklegast til að létta á barnmörgu heimili.  Eftir það ólst hann upp með Sigurði Blöndal, syni hjónanna í Mjóanesi og síðar á Hallormsstað, sem hann hefur ætíð vísað til sem fóstbróður síns.
Þar sem ég sit og skrifa þetta fæ ég þær fregnir að Sigurður hafi látist í gær. Þeir fóstbræðurnir munu því ferðast áfram saman, nú á slóðum sem ég kann ekki að fjalla um.

Ég ætla nú ekki að fara að rekja ævigöngu föður míns, en hann dvaldi í Hveratúni til haustsins 2012, en þá varð það úr að hann flutti á Dvalar- og hjúkrunarheimilið Lund á Hellu.
Fram til þess síðsta tókst honum að halda léttri lund og þeim sem heimsóttu hann mætti alltaf brosandi andlitið, eða í það minnsta glott út í annað. Hann spurði frétta og tók í nefið og svo spurði hann aftur frétta. Hann var ekkert mikið fyrir að gera sjálfan sig og sína líðan að umfjöllunarefni, hafði meiri áhuga á því sem var að öðru leyti um að vera. Svo þegar umræðuefnið þraut um stund kom fyrsta línan í einhverri vísu, svona einskonar biðleikur til að kalla fram frekari frásagnir. Þessi var til dæmis nokkuð algeng

Svo er það við sjóinn viða
sama gerist upp til hlíða,
sveinn og meyja saman skríða,
segjast elskast jafnt og þétt,
     hvað er auðvitað alveg rétt!
Í hjónabandi að lifa og líða
uns lausakaupamet er sett.
          (ég hef ekki fundið höfundinn)

Við sem umgengumst hann lærðum þessar vísur smám saman og þá fór hann að láta sér nægja að fara með fyrstu línuna og beið svo eftir að við kláruðum dæmið og svo skellihló hann á viðeigandi stöðum.

Dvölin á Lundi á Hellu er kapítuli út af fyrir sig. Miðað við allt og allt held ég að betri staður til ljúka langri vegferð sé vandfundinn. Þetta segi ég ekki endilega vegna þess að mér finnist Hella í sjálfu sér vera sérlega hentugur staður fyrir aldraða í uppsveitum Árnessýslu, heldur vegna þess, að starfsfólkið á Lundi er einstaklega vel starfi sínu vaxið.
Við setjum lög og reglur um aðbúnað hinna ýmsu þjóðfélagshópa, meðal annars þeirra sem þurfa einhverja aðhlynningu síðustu árin. Þar er gert ráð  fyrir lágmarksfermetrafjölda á mann, lágmarks lofthæð og hvaðeina sem varðar ytri aðbúnað.
Ég leyfi mér að segja að húsakynnin eru ekki það sem mestu máli skiptir, heldur fólkið sem hefur þann starfa að annast um þá sem aldraðir eru, reynsluboltana, sem eiga langa og viðburðaríka sögu, en eru smám saman að missa krafta, eru orðnir vígamóðir í baráttu sinni við áður nefnda Elli, tapa heyrn eða sjón og jafnvel dvelja æ meir á sviðum sem raunveruleikinn nær ekki alveg til.  Við þessar aðstæður er það starfsfólkið sem skiptir sköpum. Það þarf að nálgast öldungana þar sem þeir eru á hverjum tíma og reyna að setja sig í spor þeirra, sinna þeim og þörfum þeirra af nauðsynlegri þolinmæði og umhyggju, spjalla við það og grínast við það.
Lífsgæði aldraðra felast ekki síst í því að þeir fái að njóta þess að finnast þeir skipta máli.

Hér fyrir ofan var ég að lýsa nálgun starsfólksins á Lundi, eins og við systkinin upplifðum hana. Rangæingar eru eflaust þakklátir fyrir að svo samhent, velhugsandi og dugmikið fólk skuli starfa við umönnun aldraðra á Lundi.
Svona fólk eiga aldraðir skilið í lok ævidagsins og fyrir umhyggjuna, velvildina og nærgætnina erum við systkinin afar þakklát.

Við sem stöndum undir samfélagsrekstrinum hverju sinni, skuldum öfum okkar og ömmum hverju sinni það, að síðustu áranna fái þau að njóta áhyggjulaust og við bestu aðstæður.  Nútíminn talar mikið um að horfa fram á veginn, en sannleikurinn er auðvitað sá, að ef ekki væri sá vegur sem þegar hefur verið farinn, þá væri heldur enginn vegur framundan.
---------
Í lokin skelli ég hér myndbandi af söng Laugaráskvartettsins. Þeir flytja Nú máttu hægt, en lagið er eftir H. Pfeil og ljóðið eftir Þorstein Erlingsson. Upptakan var gerð í Skálholti 16. ágúst. Laugaráskvartettinn skipa æskufélagar úr Laugarási: Egill Árni og Þorvaldur Skúli Pálssynir frá Kvistholti og Hreiðar Ingi Þorsteinsson og Þröstur Freyr Gylfason frá Launrétt í Laugarási. Það var Brynjar Steinn Pálsson frá Kvistholti sem myndaði og klippti, meðupptökumaður hljóðs var Guðný Rut Pálsdóttir frá Kvistholti.
Laugaráskvartettinn flutti þetta lag við útför afa síns og fyrrum nágranna.

NÓTT (Nú máttu hægt)




11 janúar, 2014

Sextíu árin svifin eru að baki (2)

Það var að morgni föstudagsins 27. desember, að síminn hringdi. Sá sem hringdi kynnti sig sem blaðamann á tilteknu dagblaði og að hann starfaði við þann hluta þess blaðs sem kallaðist Íslendingar. Hann spurði hvort hann mætti ræða við mig í tilefni yfirvofandi afmælis.
Þarna þurfti ég að hugsa hratt, sem ég gerði auðvitað. Eldsnöggt renndi ég yfir, í huganum allt það sem mælti með því að ég svaraði þessu játandi og allt sem mælti gegn.
Þetta eru tvær megin ástæðurnar sem mæltu eindregið gegn því að ég samþykkti að taka þátt í umbeðnu  viðtali:
1. Frá því núverandi ritstjóri tók við þessu blaði, hef ég aldrei flett því, jafnvel þó svo ég sæti einn heima hjá mér með eintak af blaðinu á borði fyrir framan mig í boði fD. Ekki hef ég heldur farið inn á vef þessa blaðs.  Já, já, lesendur verða bara að sætta sig við að svona er ég nú og ég hef ekki hugsað mér að breyta því. Með þessu móti hef ég að mörgu leyti verði sáttari við sjálfan mig en ella hefði verið.
2. Ég hef ekki tilheyrt þeirri manngerð sem telur það mikilvægt að halda sjálfum sér á lofti út á við. Þeir sem vilja sjá hver ég er, eða fyrir hvað ég stend, geta kynnt sér það. Að öðru leyti hef ég leyft umheiminum (fyrir utan þennan vettvang, auðvitað) að vera lausan við fregnir af því hverskonar snillingur ég er, að flestu leyti. Ég tel mig vera svona, eins og kallað hefur verið - prívatmanneskja eða "private person".

Þetta er það sem mælti hinsvegar með því að ég tæki í mál að taka þátt í þessum leik:
1. Ég hef stundað það nokkuð, aðallega mér sjálfum til skemmtunar, að fara aðrar leiðir en fólk á endilega vona á, og mér hefur stundum tekist að sýna á mér óvæntar hliðar. (jú, víst!)
2. Ég beiti nokkuð oft ákveðinni og fremur kaldranalegri kaldhæðni í daglegum samskiptum. (það held ég nú).
3.  Hér var um að ræða ákveðin, óeiginleg, tímamót í lífi mínu, en því gæti verið tilvalið fyrir mig að sýna nýja hlið.
4. Upp að vissu marki tel ég mig búa yfir ákveðnum húmor, ekki síst gagnvart sjálfum mér.
5. Maðurinn í símanum var afar kurteis, og virtist vera eldri en tvævetur.
6. Með umfjöllun um mig í þessu blaðið yrði minna pláss fyrir annað, sem hefði verri áhrif á þjóðina.

Eftir 5 sekúndna umhugsun samþykkti ég viðtalið, sem síðan fór fram og tók um 45 mínútur. Þar kom í ljós að viðtalstakandinn hefði alveg geta skrifað um mig án þess að hafa við mig samband, því hann gat fundið allt sem um mig var að segja með því að gúgla.
Á meðan á viðtalinu stóð gekk á með símhringingum, og ég fékk skilaboð um að það væri blaðamaður að reyna að ná sambandi við mig. Mér var farið að líða eins og einhverri mikilsháttar manneskju með öllum þessum áhuga fjölmiðlanna og það kann að hafa haft áhrif á það sem ég lét frá mér fara.
Viðtalinu lauk. Skömmu síðar hringdi síminn og þar var á ferð blaðamaður sem óskaði eftir viðtali við mig í tilefni af afmælinu. Þarna var ég orðinn heitur, og til í allt, en samt varð ekki af þessu viðtali, þar sem þessi reyndist vera frá sama blaði og hinn, og ég taldi að nóg væri að gert, þó eflaust hefði umfjöllun um persónu mína einnig farið vel, t.d. þar sem staksteina er að finna, öllu jöfnu (þá var að finna í þessu blaði þegar ég sá það síðast fyrir 5-6 árum).

Ég fékk viðtalið sent til yfirlestrar og mér var falið að senda tilteknar myndir, sem hvort tveggja gekk vel fyrir sig.

Mánudaginn 30. desember birtist svo viðtalið í þessu blaði.
Ég verð að viðurkenna, að sjálfhverfa mín olli því, að ég skoðaði umrædda opnu, en hinsvegar ekkert annað. Mér varð ekki um sel til að byrja með og þá aðallega vegna stærðar myndefnisins, en þá varð mér aftur hugsað til þeirra raka sem ég hafði fært með sjálfum mér fyrir að taka þátt og ákvað að láta þetta  ekki á mig fá.
Yngsti sonurinn lét mynd af greininni inn á samfélgsmiðil og þar tóku að birtast athugasemdir, flestar fremur jákvæðar og aðrar athyglisverðar:


Hér var á ferð samstarfsmaður minn, sem áttaði sig fullkomlega á hvað þarna var á ferðinni.
Svo kom annar samstarfsmaður, sem tók annan pól í hæðina, væntanlega í þeirri von að ég færi loks að nálgast lífsskoðanir hans, sem seint mun verða, eins og hver maður getur ímyndað sér. Það stóð ekki á viðbrögðum kvennanna, sem ávallt taka upp hanskann fyrir mig þegar því er að skipta:


Hvað sem því öllu líður fór þetta allt nokkuð ásættanlega og ég hef hafið vegferð mína inn í nýjan áratug ævinnar (reyndar hef ég vart mátt á heilum mér taka frá því afmælið skall á sökum ólukkans pestar sem á mig hefur lagst og sem óðum er að rjátlast af mér - ég hafna því að hún hafi verið áminning um að nú væri kominn tími til að hugsa málin upp á nýtt).
---
Þann 30. desember fékk ég ýmsar góðar kveðjur, þar sem mér voru eignaðir ýmsir góðir kostir, bæði að því er varðar eðliseiginleika mína og ytra útlit. Allt þetta lyftir mér upp.
Ein kveðjan, frá æskufélaga á sjötugsaldri, fékk mig til að staldra aðeins við:

Í "denn" minnist ég þess að einhverntíma hafi ég reynt að ímynda mér, hvernig komið yrði fyrir mér árið 2000. Þá yrði ég 47 ára. Sú hugsun leiddi ekkert af sér sem eðlilegt var. Ætli foreldrar mínir hafi ekki verið á þeim aldri þá og þau voru nú bara talsvert öldruð í mínum huga þá. 
Að hugsa sér sjálfan sig enn síðar, sem sextugan stútungskall, sem væri farinn að huga að starfslokum og lífeyristöku, var auðvitað enn fjær. 

Ég var við jarðarför í gær. Fyrrverandi nemandi, rétt skriðinn yfir tvítugt, lést eftir bílslys á afmælisdaginn minn. Það er skammur vegur milli lífs og dauða og þá er ekki spurt um aldur. Í þeim efnum er sanngirnin engin. 

Sannarlega vonast ég til að fá að njóta efri ára fullfrískur og þætti ekki slæmt að takst að viðhalda tiltölulega jákvæðu lífsviðhorfi - losna við að verða fúllynt og þreytt gamalmenni, en - "den tid den sorg" - ég er enn á fullu og verð, um langa hríð enn, ef......
-------------------------
Vegna tilmæla þeirra sem ekki hafa séð fjölmiðlaumfjöllun þá sem hér hefur verið vísað til:







06 janúar, 2014

Sextíu árin svifin eru að baki (1)

Ekki vil ég nú viðurkenna að það hafi hvarflað að mér að árans pestarskrattin sem hefur verið að leika mig grátt undanfarna daga, sé aldurstengdur, og ekki fannst mér skólameistarinn fara fínt í það þegar hann ýjaði að því að svo kynni að vera, þegar ég tilkynnti mig veikan, fyrsta sinni þennan veturinn. 

Ég blæs á allt sem gefur í skyn að með því aldur minn fluttist úr því að vera 59 ár, yfir í 60, hafi eitthvað breyst að því er varðar líkamlegt atgerfi mitt. Vissulega hefur það verið að þroskast og breytast í allmörg undanfarin ár; ýmislegt, sem á hverjum tíma hefur mátt teljast lítilsháttar, hefur, þegar litið er til lengri tíma, reynst hafa þroskast og breyst stórlega. Ég tel ekki að þessi vettvangur sé sá rétti til að velta sér upp úr því hvernig ástand mitt að þessu leyti, hefur breyst frá sem það var fyrir 40 árum eða svo: það getur hver maður (á mínum aldri, í það minnsta) ímyndað sér.
Það er miklu áhugaverðara, að mínu mati, að skoða aðra þætti sem viðkoma sjálfum mér, í þessu samhengi. Það sem þessir þættir eiga sameiginlegt hefur með að gera þá starfsemi sem á sér stað í heilanum: hugsuninni, tilfinningunum (sálarlífinu) og viðhorfunum.  Að þessu leyti má segja að mikil átök séu í gangi. Þar eru á ferð ótal spurningar um lífið og tilveruna. Þar er fjallað um hlutverk mitt sem einstaklings í samfélaginu. Svakalegar spurningar, sem fá svör fást við.

Ég, auðvitað til í að prófa ýmislegt, lét mig hafa það um daginn, að taka þátt í einhverju vitleysisprófinu sem gaf sig út fyrir að geta sagt til um aldur minn í andanum (mental age). Það kom mér svo sem ekki í opna skjöldu að ég skyldi reynast vera 19 ára á þeim mælikvarða. Sem sagt, annaðhvort afskaplega vanþroskaður, eins og flest fólk á þeim aldri er (að mínu mati), eða þá einstaklega vel með á nótunum í nútíma samfélagi. Auðvítað kýs ég að telja það vera hið síðarnefnda, þó ekki geti ég nú sagt að það höfði sérstaklega til mín að fara á "djammið" um hverja helgi (enda snýst slíkt aðallega um hormónastarfsemi) eða skjótast í Smáralindina til að öskra af tilfinningasemi yfir einhverjum internetgúrúum (reyndar var það fólk ekki 19 ára, en liggur bara vel við höggi sem samanburður).

Mér finnst það hafa komið mér vel á þessu sviði að hafa fengið að umgangast fólk milli tektar og tvítugs í daglegum störfum áratugum saman of þannig notið þess að drekka í mig tíðarandann á hverjum tíma. Mér finnst ég skilja fólk á þessum aldri að ýmsu leyti, en það sem skilur mig frá því er lífaldurinn. Ég er í þeirri aðstöðu að geta metið viðhorfin og skoðanirnar í ljósi áratuga reynslu. 
Jú, ég gæti fjallað um það allt saman í löngu máli, en það er ekki markmið þessa pistils, heldur frekar þau óeiginlegu tímamót sem ég upplífði þann 30. desember s.l.

Ég hef nú aldrei verið þessi afmælismaður. Man enga afmælisdaga að ráði, hef ekki talið mikilvægt að halda upp á afmælið mitt (fD hefur reyndar ávallt af gæsku sinni reitt fram tvennt á þessum degi, árlega, sem mér finnst betra en margt annað; brauðtertu og rjómatertu). Þessir dagar haf liðið einn af öðrum án þess að mikið væri við haft. Þar fyrir utan er þessi dagur á þeim stað í almanakinu, að varla er á bætandi hátíðahöldin.
Það varð niðurstaða þessu sinni, að sinna þessum degi, þó í litlu væri, enda varlegt að blása til stórveislu þegar allra veðra er von. Þessi samkoma fór vel fram og ég var harla kátur með að Kvisthyltingar voru þarna allir saman komnir meðal annarra góðra gesta.

Í tilefni þessa dags, sem markaði fyrst og fremst tímamót í óeiginlegum skilningi, bárust mér ansi margar kveðjur um samfélagsmiðla og með öðrum hætti. Ég mun koma að þeim að einhverju leyti í framhaldspistli, en hér læt ég fylgja eina kveðjuna, en hún lyfti sannarlega andanum og líklegast umfram það sem innistæða er fyrir. 
Hér mælir rímsnillingur sem hefur gefið sjálfri sér skáldanafnið "Hirðkveðill Kvistholts", en raunverulegt nafn hennar er Helga Ágústsdóttir:

Sextíu árin svifin eru að baki,
söm er lundin, gleði prýðir fas,
þó áfram líði tíminn taumaslaki,
sem telur korn í lífsins stundaglas.

Það er mælt að miklu ætíð varðar,
að mega ganga farsældar um veg,
og vera sannur vinur fósturjarðar,
þá verður æviferðin dásamleg.

Gleðstu Páll með gáskafullu sinni,
og geðprýði sem ávallt fylgir þér.
Allir þeir sem eiga við þig kynni,
af þér geyma mynd í hjarta sér.

Þakkir eiga skilið þjóðarhlynir,
þú ert slíkur eins og fjöldinn sér,
undir þetta allir taka vinir,
einum rómi og skála fyrir þér.

Ég hef bara ákveðið að trúa því að þarna sé á ferð raunsönn lýsing, og hyggst halda hnarreistur á grundvelli hennar inn í nýjan áratug.

Það er von á framhaldi umfjöllunar af sama tilefni og þá ekki síst í tengslum við fjölmiðlaumfjöllun sem varð vegna hennar í til teknu dagblaði og viðbrögð mín og annarra við henni.

24 desember, 2013

Jólagola í Laugarási


Jú, það hreyfir vind, en samt ekki að neinu marki. Auðvitað bara eðlilegt sem fyrirboði þess sem koma skal með öllu því tilstandi sem fylgir. Með golunni færist ró yfir húsið, einstaka smellir heyrast í prjónum frúarinnar, sem kveðst ekkert vera viss um hvað hún sé að prjóna. Kannski er það einhver jólaandi. Yngri hluti þeirra Kvisthyltinga sem heima eru, sinnir verkefnum út á við
Það er að koma að því að aftengja þetta samband við umheiminn um stund og og við tekur væntanlga að sinna einhverjum þeim verkum sem mér kunna að verða falin.
Hér með skrái ég von mína um að þið sem kikið inn á þetta svæði mitt við og við, eigið friðsæl og góð jól.

24 ágúst, 2013

Aðdáun barnabarna: "Afi, er þetta erfitt...eða?"

Fyrir alllöngu fjallaði ég um einstaklega vel heppnaða aðgerð í Kvistholti, sem fólst í því að fella nokkur tré, sem voru farin að hafa áhrif á sóldýrkun fD.  Þar kom m.a. fram, að barnabörnin fjögur fylgdust agndofa með aðgerðunum, full lotningar yfir fagmannlegum vinnubrögðum afa sína.
Þeir voru til sem drógu í efa að birtingarmynd meintrar aðdáunar væri rétt til komin. Til að færa sönnur á að  allt hafi verið eins og lýst var, hef ég afráðið að sýna myndband (þó ekkert sé nú bandið) sem tekið var af  aðgerðinni. Það hefur dregist nokkuð að klippa myndefnið til, en til þess hæfur Kvisthyltingur hefur nú unnið það verk og því ekkert að vanbúnaði að skella sönnunargagninu í loftið.

Njótið.

15 júlí, 2013

Aðdáun barnabarna

Kvistholt haustið 1983 - í ljósa hringnum
Þegar maður er búinn að búa á sama staðnum áratugum saman, fer ekki hjá því, að umhverfið taki breytingum, þó svo maður taki ekki beinlínis eftir því, svona frá ári til árs. Þegar íbúðarhúsið í Kvistholti var byggt í byrjun 9da áratugar síðustu aldar var trjágróðurinn vissulega til staðar þar sem  talsverðu hafði verið  plantað af trjágróðri í landið á allmörgum árum þar á undan. Sá gróður var hinsvegar ekkert sérlega áberandi orðinn, enda var veðurfar á landinu talsvert kaldara þá, en síðustu tvo áratugina. Trjám var þá plantað þétt, því það mátti búast við að talsverður hluti plantnanna lifði ekki af.
Kvistholt 1984
Þannig gáfu furutrén í Sigrúnarlundi, svokölluðum (nafngiftin er tilkomin vegna drauma systur minnar um sólbaðsstað í framtíðinni) ekki tilefni til neinna ráðstafana á þeim tíma.
En árin liðu og skjólið á sólpallinum fyrir ofan hús varð sífellt meira. fD gat sólbakað sig æ betur eftir því sem árin liðu og tilefni gafst til. Furan í Sigrúnarlundi teygði sig æ hraðar til himins, það sama mátti segja um grenitré og birki. Allur þessi gróður naut þess að sumarhitinn í uppsveitum hækkaði. Afföll urðu engin. Af þessu hlaust mikil samkeppni um sólarljósið, þar sem eitthvað varð að láta undan. Hæfustu trén lifðu af. Vandinn var hinsvegar sá, að trén töldu sig öll vera hæfust og þeystust upp í himinblámann í átt til sólar. Fyrir neðan þau, nær jörðu, myndaðist skuggi.

Síðustu árin hefur það orðið æ ljósara, eftir því sem sá hluti sópallsins sem nýttist til sóldýrkunar minnkaði, að það þyrfti að grípa til ráðstafana. Stofnar furunnar og grenisins í næsta nágrenni, gildnuðu ár frá ári og áhyggjurnar yfir því hvernig hægt væri að bregðast við jukust að sama skapi. Það hefur ekki síst verið vegna talsverðar íhaldssemi fD þegar nefnt var að það þyrfti að fella tré, sem þetta hefur dregist. Það má með sanni segja, að trjárisarnir hafi leitt til þess að það bærist nánast ekki hár á höfði á pallinum, neð þegar einstaka "hringrok", eins og fD kýs að kalla það þegar vindsveipir fara um pallinn á góðviðrisdegi, lætur á sér kræla.

Á þessu vori gerðist þrennt sem breytti stöðunni:
1. fD virtist ekki lengur vera jafn afhuga því að fella tré og áður hafði verið.
2. Skuggarnir á sólpallinum voru orðnir þannig, að í þær fáu klukkustundir sem sást til sólar, reyndist þörf á að aðlaga sólbaðsstaði að tíma dags, til að lenda ekki í skugga.
3. Sonurinn frá Álaborg gisti Kvistholt í vikutíma með fjölskyldu sinni.

Þegar þetta þrennt kom saman sýndist komið tækifæri og tilefni til aðgerða.

Felld tré merkt með rauðm hringjum.
Ég valdi þrjú tré sem helst komu í veg fyrir sólardýrkun, fékk að láni keðjusög hjá Hveratúnsbóndanum og þá var ekkert að vanbúnaði.

Einn örfárra sólardaga sumarsins var notaður til að fella tré. Engin smá tré.
Fall þeirra gat, ef ekki væri rétt að staði, valdið talsverðum usla, ekki bara með skemmdum á íbúðarhúsinu eða pallinum, heldur einnig ýmisskonar skrautgróðri sem enn fékk á sig sólarglætu dagspart á góðum degi.
Þarna kom sér vel að búa yfir einstakri verkkunnáttu, þar sem skógarhögg var annarsvegar. Trén féllu, eitt af öðru, nákvæmlega (næstum) eins og lagt var upp með. Á pallinum sátu barnabörnin fjögur í stúkusætum og hrópuðu hvatningu til afans, sem auðvitað efldi hann í ásetningi sínum að láta nú ekkert fara úrskeiðis.
Aðdáendur afa, frá visntri: Emilía Ísold Egilsdóttir, Rakel Jara Þorvaldsdóttir,
Gabríel Freyr Þorvaldsson og Júlía Freydís Egilsdóttir
"Afi, afi! Áfram afi! Afiiiiii!"
Hvatningin, ekki síst, varð til þess að felldum trjám fjölgaði frá því sem áætlanir gerðu ráð fyrir.
Eftirleikurinn var nokkur, þar sem það þurfti að fjarlægja feiknin öll af greinum, en sú vinna reyndist mér talsvert auðveldari en hefði getað orðið, með því, að meðan ég kastaði mæðinni eftir átökin við keðjusögina, sá Álaborgarsonurinn um að saga allar greinar af felldum trjám, auk þess sem hann bútaði stofnana í hæfilegar lengdir, til nýtingar í eitthvað (ég efast ekki um að fD finnur þar verkefni fyrir mig á næstu vikum og mánuðum og árum).

Nú er bara að vona að sólin fari að skína á pallinn.

02 júní, 2013

Slysin gera ekki boð á undan sér.

"Hvort ætlar þú að taka belginn eða grindina?" Það var fD sem varpaði fram þessari spurningu í hávaða vorverkanna á þessum sunnudegi. Sannarlega hafði ég ekki hugmynd um, um hvað málið snérist. Ég leit um pallinn, nýgræjuð blómakerin, sandborna og áburðarborna grasflötina og meira að segja inn í skógarþykknið í von um að koma auga á belg og grind, en án árangurs. Enginn belgur, engin grind.
"Belginn?"
"Já, eða kútinn. Veistu virkilega ekki hvað ég er að tala um?"
"Neibb."
Það leið enn nokkur stund, sem lyktaði með því fD gekk að útiarninum, sem er svona leirbelgur með strompi og hvílir á járngrind. Með því skýrðist hvað spurningin hafði snúist um. Þarna tók frúin í belginn og hugðist vippa honum af grindinni, en hrökk frá þegar hún uppgötvaði að svört aska frá haustinu 2012 klístraðist á leikskólakennarahendurnar. Þar með var ljóst hver tæki belginn.

Ég gekk að honum ákveðnum og þó nokkuð öruggum skrefum, skeytti engu um öskuna og hóf hann upp úr grindinni, án nokkurra vandkvæða. fD tók upp fislétta grindina og kom henni fyrir þar sem hún vildi hafa arininn þessu sinni. Hann hafði verið færður, að hennar ósk, síðastliðið haust, þegar reykinn frá honum lagði inn í hús. Ástæða þeirrar færslu var algerlega gleymd henni, en auðvitað ekki mér. Nú var hinsvegar uppi sú staða, að arinninn skyggði á blómaskeytingarnar og því þurfti hann að fara aftur á þann stað sem hann var, áður en hann var fluttur til vegna reykmengunar. Hvað sem því líður, þarna gekk ég léttilega, eða kannski rogaðist ég með leirbelginn þar til ég kom að þar sem fD hafði komið grindinni fyrir á hinum nýja, en samt gamla, stað. Staðurinn sá er alveg úti á brún á pallinum og svo hagar til, að af pallinum, á þessum stað eru einir 40 cm niður á jörð. Þar sem ég kom að grindinni, með arininn, sá ég að hann snéri ekki rétt, með því gatið vísaði út af pallinum. Ég hugðist því vippa mér hinumegin við grindina og koma þannig að henni, með belginn, frá hinni hliðinni. Í þessu skyni tók ég þá fínu ákvörðun að fara brúnarmegin við grindina, en fD hafði komið henni fyrir 15 cm inni á pallinum Til að byrja með leit þetta nokkuð vel út. Ég hélt belgnum yfir grindinni meðan ég freistaði þess að smeygja mér framhjá henni.

Það var í þessari, fyrirhuguðu færslu sem ég uppgötvaði, að þó svo ég telji mig bara nokkuð sprækan miðað við aldur, þá þurfi ég að læra að taka mið af því að lipurleikinn er ekki sá sami og var. Ég steig það utarlega á pallbrúnina að stærstur hluti hægri fótar stóð út af. Þarna gaf framhluti fótarins sig. Ég sá hvað verða vildi og af ótrúlegu snarræði lét ég belginn falla á grindina, án þess að velta fyrir mér hvernig hann snéri, enda skipti það ekki máli í þeirri stöðu sem nú var upp komin. Aðdráttarafl jarðar varð síðan til þess að ég, í léttleika mínum, hlunkaðist fram af pallinum án þess að fá rönd við reist. Ég veit ekkert hvernig það gerðist, að ég lenti á bakinu og hnakkinn skall í jörðina. Það var mosaræktin sem varð til þess að höggið hafði ekki meiri afleiðingar en, að mér fannst eins og heilinn losnaði í höfðinu.
"Þú færð kúlu á ennið" sagði fD, sem stóð uppi á pallinum, í ótrúlegum makindum, ef tekið er mið af því að eiginmaðurinn hafði þarna orðið fyrir talsverðu slysi (óhappi, í það minnsta). Þarna gat allt hafa gerst.
"Ég hef örugglega fengið heilahristing," sagði ég yfirvegun, þar sem ég lá og horfði á skýin. Ég lá þarna bara nokkuð lengi, en þar kom að ég ákvað að láta reyna á hvort ég hefði slasast alvarlega. Ég hef nefnilega heyrt að líkaminn komi í veg fyrir sársauka þegar slys verða óvænt. Ég fékk fljótlega ekki  betur séð en felst virkaði eins og áður og það var mér léttir. Mér var og er fyrirmunað að skilja hvernig ég gat marist á enninu við að detta á bakið. fD, sem var vitni að slysinu, hefur ekki getað gefið viðhlítandi skýringar og mér finnst algerlega óhugsandi, að ég geti hafa dottið fram fyrir mig fyrst, en síðan beint á hnakkann. Við erum ekki með eftirlitsmyndavélar á pallinum svo nákvæm atvik verða væntanlega aldrei upplýst svo fullnægjandi sé.

Ég kenni mér ekki meins eftir hrösunina utan mars á enni og heldur óþægilegra hláturroka fD. Í því sambandi minnist ég atviks/óhapps þegar vetrarstormur fyrir allmörgum árum, varð til þess að hurð sem fD átti að halda, feykti henni til svo hún lá spriklandi eftir. Ég kími enn með sjálfum mér við að rifja það atvik upp: 1:1
------------------
Ef textinn sem hér hefur verið ritaður ber þess merki að skrifarinn sé ekki með sjálfum sér, er það bara sönnun þess, að þarna hafi orðið slys, fremur en óhapp.

24 desember, 2012

"Þessi er sterk"

 Nú er upp runninn aðfangadagur, rétt eina ferðina. Ég er óendanlega árrisull nú sem aðra morgna, og er reyndar löngu búinn að átta mig á því, að slíku háttalagi fylgja margir kostir (ég nefni ekki gallana á degi sem þessum).
Fyrst það er kominn aðfangadagur þá var auðvitað Þorláksmessa í gær. Hún hefur undanfarin, allmörg ár falið í sér að fD og gamli unglingurinn hafa átt saman ágæta stund þar sem fjallað hefur verið um hvernig skatan væri það árið og síðan hafa þau sameinast í að gera þessu skemmda sjávardýri skil með sínum hætti. Minn hlutur og flestra þeirra sem einnig hafa tekið þátt í þessu borðhaldi, hefur verið sá,að snæða aðrar tegundir fiska með fullum skilningi á sérviskulegu skötuátinu og þar með höfum við leyft gegnsýrandi ilminum að leika um lyktarfærin allt um kring þessa átveislu þeirra félaganna í skötudýrkun.

Í gær var sá gamli fjarri góðu gamni.

Í aðdragandanum var fD í talsverðum vafa um hvort hún færi að standa í að sjóða skötu fyrir sig eina, en ég hvatti hana til þess að láta vaða með óljósu loforði um að ég kynni að freista þess að láta af skötubindindinu þó í litlu yrði. Það var keypt skata (eða "það var versluð skata" eins og þeir sem mæla á nútíma íslensku vilja hafa það). Henni var svo skellt í pottinn þegar leið að kvöldverði. Til vara, og fyrir eina Kvisthyltinginn auk okkar, sem heima var, voru þrjár aðrar fisktegundir á boðstólnum.  Innra með mér var ég búinn að búa mig undir það að takast á við að reyna einu sinni enn að aðlaga mig því að koma ofan í mig þessum ókræsilega mat. (Fyrir utan það, að lyktin er síður en svo aðlaðandi þá sér maður nú varla neitt ókræsilegra á borðum en nýsoðna skötu). Ég lagði mig fram um að sýnast svalur þar sem ég settist að borðinu.

"Úff, þessi er sterk" fD gefur skötu ávallt styrkleikaeinkunn og þar með hafa þau gamli maðurinn getað tengst í umfjöllun um ákveðið málefni. Nú þurfti hún að segja þetta upp úr eins manns hljóði, þar sem ég beið litla stund áður en ég tók þá stóru ávörðun að skella mér á barð. Setti það á diskinn minn og fékk síðan leiðbeiningar frá reynsluboltanum um hvernig best væri að aðskilja það sem maður setur ofan í sig frá hinu sem er síður ætt. Að því búnu skellti ég vel af kartöflum og vel af hamstólg yfir og allt um kring. Því næst tók við það sem átti að verða samstöðuát. Ég, sem sagt, skellti í mig fyrsta bitanum.

Ég held að það sé engum manni hollt, og allra síst á aðfangadegi jóla, að þurfa að lesa um það sem þessu fylgdi. Fyrsti þáttur þess átti sér stað þar sem ég bar gaffalinn upp að opnum munni og gerði þau stóru mistök að anda að mér um leið. Þeir sem borða skötu vita örugglega hvað ég er að tala um. Ég gafst ekki upp þrátt fyrir þá hnökra sem þarna urðu í byrjun. Gegnum þykkt og þunnt var ég ákveðinn í að sýna samstöðu með fD, sem annars hefði í einsend svitnað yfir þessum uppáhalds mat sínum. Eftir fjóra bita, sem ég naut engan veginn, voru líkamleg áhrif orðin of mikil til að áfram yrði haldið. Mér hafði láðst að setja vatn í glas til að skola "matnum" niður með, en mér hafði ekki láðst að bera á borð tiltekna framleiðslu frá Álaborg (til að sýna Kvisthyltingum sem þar búa alla jafna, samstöðu. Ég er á fullur í allskonar samstöðu um þessar mundir) sem kom beint úr frystinum. Það var af þessum sökum, einnig, sem allt stefndi í óefni undir máltíðinni. Álaborgardrykkinn notaði ég til að skola skötunni niður, hann virkaði algerlega bragðlaus og átti ekki séns í skötuna þegar kom að því að kyngja. Mér hafði bara láðst að setja á borð nægilega stórt glas og því þurfti ég  að hella alloft í glasið (var orðið skítkalt á hægri hendinni).

Þarna varð sá hluti máltíðarinnar sem sneri að þessum brjóskfiski, eins og sjá má af framansögðu, fremur endasleppur. Það var ekki þannig hjá fD, sem með glampa í augum, dásemdarorð á vörum og svitaperlur á enni, skóflaði dýrindismatnum í sig eins og enginn væri morgundagurinn.
Aðrar fisktegundir voru alveg ágætar.
-------------------
Ég læt mér í léttu rúmi liggja þótt einhver ykkar sem þetta lesið, líti viðhorf mín til skötuáts hornauga og telji afstöðu mín þar til bera vott um aumingjaskap eða gikkshátt. Ég hef lagt  mig fram um að sýna samstöðu og það er fyrir mestu.
-------------------
Með því að nú er framundan jólahátið þykir mér við hæfi að senda tryggum lesendum þessara stopulu bloggskrifa, bestu óskir mínar um að jólin verði þeim sem allra indælust. 
Við hugsum til barnanna, tengdadætranna og barnabarnanna í Hjaltadalnum og Ástralíu og hlökkum mikið til að sameinast um áramótin.

23 september, 2012

Það skyldi þó ekki vera komið haust?

Haustið hefur nú aldrei verið í neinu sérstöku uppáhaldi hjá mér og ástæður þess eru sjálfsagt blanda af einhverju sem ég geri mér grein fyrir og öðru sem læðist að mér óafvitandi. Þau eru ekki mörg haustin á ævi minni sem hafa ekki falið í sér skólabyrjun, annðhvort með mig sem nemanda eða starfsmann. Kannski er það bara þessvegna sem mér finnst haustin ekkert kalla til mín ljúfum róm. Þau ískra frekar inn, með talsverðum hávaða. Það sem lifði og blómstraði yfir sumarmánuðina verður dauða og rotnun að bráð. Ekki neita ég þvi að haustlitirnir eru fjölbreyttir og gleðja augað að mörgu leyti, en það sem þeir standa fyrir og boða, er ávallt yfir og allt um kring. Það má segja að í haustinu takist á fegurðin og dauðinn......... en nú er ég sennilega kominn of djúpt.

Eftir að sumargestirnir eru farnir burtu til að sinna sínu, hljóðnar yfir Kvistholti. FD er búin að setja lokið yfir sandkassann, það er búið að bjarga grillinu inn í skot, en sumarhúsgögnin standa enn ófrágengin í fullvissu um viðvarandi lognið í Þorpinu í skóginum.

Ekki eru íbúarnir á þessum bæ neinir hávaðaseggir dags daglega og ekki truflar umferðarniður, vindgnauð, partístand hjá nágrönnum, eða hanagal og hundgá.

Hér ríkir kyrrðin ein, þar sem litbrigði haustsins eru smám saman að breytast í órætt litleysi vetrar.

Hvernig er það - ætli ég þurfi ekki að fara að huga að því að fjárfesta í vetrardekkjum?

08 ágúst, 2012

Ekkert dass, sko - bara meðfædd snilldin.

Í tilefni dagsins, sem fD fagnar með sjálfri sér og öðrum heimilismönnum, eftir því sem þurfa þykir, er ég viss um, ákvað ég með sjálfum mér að henda í eins og eina brúna. Inni á þessum vef fann ég viðeigandi uppskrift, en þá kom í ljós, að ekki var allt sem þar var gert ráð fyrir til á bænum. Hjá mér er ekkert til sem heitir "næst best" og því hófst baksturshrinan á verslunarferð í Bjarnabúð.
Þegar heim var komið allt gert klárt með aðstoð ungfrú Júlíu. Fyrst fóru þessi venjulegu efni í hrærivélarskálina þar sem þau voru hrærð þar til nát var takmarkinu sem kallast "létt og ljóst" og sem hefur áður borið á góma í skrifum hér. Meðan hrærivélin vann sitt verk var svokölluðum þurrefnum blandað saman af fagmennsku, nema ef til vill að því leyti, að á tímabili voru áhöld um hvort gert væri ráð fyrir hveiti í uppskriftinni og það kostaði uppflettingu á vefnum til að komast að því að svo væri.

Þurrefnin voru síðan sigtuð út í hið létta og ljósa og öllu hrært vandlega saman, áður en ægifögru deiginu var hellt í mótið, sem síðan hvarf inn í fagnandi ofninn, fumlausum höndum.

Þegar leið að lokun tilskilins bökunartíma hóf ég vinnu við kremgerðina og leyfði mér, sem ég gerði ekki að öðru leyti, að víkja frá skrifaðri uppkriftinni, með því að bæta við "dassi" af sýrópi.

Það þarf í rauninni ekkert að fjalla um þennan kökubakstur: hann gerði ekkert nema sanna enn einu sinni, að þessi tegund starfsemi, svo sem raunar margar aðrar, leika í höndum mér.

Kakan reyndist ein sú besta sem bragðlaukarnir hafa fengið að kynnast, að sjálfsögðu, en hér eru myndir af dýrðinni.

Það er hægt að segja langa sögu af því þegar fD uppgötvaði, að "kaffistellið"
sem við fengum í gjöf  á þeim degi sem brúðkaup okkar var gjört á sínum tíma,
var nákvæmlega eins og það sem birtist okkur í frægum sjónvarpsþáttum
Ómars Ragnarssonar, þar sem hann tók Gísla á Uppsölum tali.
Það var fyrir handvömm mína að diskurinn lenti á þessari mynd.
Ég bara gleymdi.
Vonandi varpar diskurinn ljóma, fremur en einhverju öðru , á glæsilega
framborna tertusneiðina.


03 ágúst, 2012

Rangárlón eða Rangalón

Sagnfræðingur ætla ég ekki að þykjast vera. 
smella á myndir til að stækka
Önnur ástæða þess að ég er að fjalla hér lítillega um Rangárlón/Rangalón í Jökuldalsheiði, er að þangað lá leið á ferð um landið fyrir nokkrum dögum. Ég var svo sem búinn að sjá rústir bæjarins  í talsverðri fjarlægð í fyrri ferðum yfir Möðrudalsöræfi, en nú tókst mér (með nokkurri aðstoð) að finna slóða sem liggur heim í hlað á þessum bæjarrústum í heiðinni.  




Sænautasel
Sænautasel, heitir bærinn sem stóð við suðurenda Sænautavatns, þar er skemmtileg ferðaþjónusta: við langborð í fyrrum lambhúsi er t.d. hægt að setjast niður og fá sér heitt kakó og nýbakaðar lummur hjá vertinum, skemmtilegum karli á sjötugsaldri, sem þarna fæddist og ólst upp til 11 ára aldurs. Hann sagði að það væri klukkustundar gangur frá Sænautaseli í Rangárlón, og gerði tilraun til að lýsa hvernig best væri að komast þangað akandi, en Rangárlón er við hinn enda ílangs vatnsins.

Hvernig tengist þetta mér svo?
Hin ástæðan fyrir þessari færslu snýr að tengingu minni við þetta eyðibýli í Jökuldalsheiðinni.
Í 3-4 ár, nánast þau síðustu í ábúendasögu Rangárlóns, árin 1918-1921 eða 1922 bjuggu afi minn Magnús Jónsson (1887-1965) og amma, (Sigríður) Ingibjörg Björnsdóttir (1893-1968), á þessu heiðarbýli. Þau fluttu þarna uppeftir  með tvo syni, þá Alfreð (1914-1994) og Harald (1915-1991). Árið sem þau fluttu fæddist þriðji sonurinn Skúli (1918- ), sem er einmitt hlekkurinn milli mín og Rangárlóns. Hann fæddist, sem sagt, í Jökuldalsheiði veturinn eftir  frostaveturinn mikla, sem er fremur kuldaleg tilhugsun. Fjórða barn sitt, þeirra sex sem upp komust, og fyrstu dótturina, eignuðust afi og amma ári eftir flutninginn, en það var Björg (1919-1982). Þriðja barnið sem fæddist í heiðinni var Sigfríður (1921-1993). Árið eftir að Silla fæddist, eða sama ár, (Íslendingabók) flutti fjölskyldan í Freyshóla á Héraði, en þar fæddist afi. Þar eignuðust þau tvíbura. Annar lifði, en það var Pálína (1925-1987). Alls munu afi og amma hafa eignast 10 börn, en það var nú bara veruleiki þess tíma, að barnadauði var talsvert stærri partur af veruleikanum en við eigum að venjast nú.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef þá urðu barnabörn afa og ömmu 19 að tölu:
Alfreð eignaðist 3, Skúli 5, Björg 10 og Pálína 1.

-----------



Afkomenda hvað?
Ítrekað hefur það komið fram í samtölum, ekki síst að undanförnu, en einnig um árabil, að það væri kominn tími til þess að afkomendur Magnúsar og Ingibjargar blésu til afkomendahátíðar. Það mál er nú komið svo langt, að vonir standa til að af þessu verði sumarið 2013. Sjálfskipuð nefnd skipar sig og leitar síðan leiða til að hafa upp á öllum sem geta gert tilkall til að tilheyra svo glæstum hópi sem þarna gæti komið saman.  Það hefur nánast verið ákveðið að þessi hátíð verði haldin á viðeigandi stað á Héraði, eða í Jökuldal.

-----------

Það er spurningin um Rangárlón eða Rangalón. 
Því meira sem ég skoða um þennan stað, því sannfærðari er ég um, að hann heiti Rangárlón. Eini gallinn á þeirri niðurstöðu er, að ég hef ekki fundið neina Rangá þarna í nágrenninu. Þetta er eina dæmið um á með þessu nafni austanlands. Þá átta ég mig  ekki heldur á því, hversvegna bærinn heitir RangárLÓN, þar sem hann stendur á bakka Sænautavatns og ekkert lón sjáanlegt í nágrenninu.

Fyrir utan það, að eldri heimildir virðast nota nafnið Rangárlón, þá tel ég aldeilis útilokað, að einhver taki upp á því að nefna bæinn sinn Rangalón - sem væri þá væntanlega andstæðan við Réttalón - fyrir utan það að þarna er ekkert lón, hvorki rétt né rangt.

----------

Hafi einhver sem þetta les, athugasemdir, vegna betri þekkingar á þessum málum, bið ég hann hafa samband við mig svo mér auðnist að leiðrétta mögulegar rangfærslur sem fyrst.


19 júlí, 2012

Sérstök gleraugnakímnigáfa

Ég veit svo sannarlega ekki hvort það er við hæfi að fjalla um það sem hér fer á eftir, á þessum vettvangi, en þar sem lesendahópurinn er ekki stór, hef ég ákveðið að láta slag standa, og þar með að taka áhættuna af  hugsanlegum eftirköstum.

Það er á vitorði margra sem þekkja til Kvisthyltinga, að höfundur deilir að mörgu leyti ekki kímnigáfu með, í það minnsta hluta þeirra. Þarna telst með þetta stórundarlega fyrirbæri, sem felst í því að setja upp gleraugu og ráða sér þar með varla fyrir hlátri. Mig grunar að þetta sé til komið með þeim hætti að fD hafi flutt það til barnanna í frumbernsku.
Hvað um það þá hefur það fylgt þeim alla tíð, meira að segja svo, að ekki má minnast á það að taka af þeim mynd öðruvísi en þar þurfi gleraugu að koma við sögu.
Þá er mikið gert til að bera þessa gleraugnagleði til nýjustu kynslóðarinnar.

Fyrir skömmu hittust allir Kvisthyltingar í einu, en það gerðist síðast í desember árið 2007. Af því tilefni þótti við hæfi að mynda fólk í bak og fyrir, þar með voru Kvistholtsbörnin mynduð sérstaklega. Með gleraugum (sem þau tíndu saman með aðstoð móðurinnar) og án.

Hér er ein skárri gleraugnamyndanna


16 júlí, 2012

Gamlir kvartetttaktar

Fyrir allmörgum árum sungu 4 Laugaráspiltar, þeir Egill Árni Pálsson, Hreiðar Ingi Þorsteinsson, Þorvaldur Skúli Pálsson og Þröstur Freyr Gylfason, saman í kvartett þeim er Laugaráskvartettinn kallaðist. Þar kom að leiðir skildi þar sem hugar leituðu í ýmsar áttir, jafnvel vítt um veröld. Það var svo ekki fyrr en við skírn hjá Þorvaldi Skúla, þann 14. júlí að þeir hittust allir fjórir, og þá var ekki að sökum að spyrja, þeir renndu sér í gegnum nokkur lög, gestum til mikillar ánægju, enda flutningurinn líflegur og afslappaður.

Hér er upptaka af einu laganna, Java Jive.



12 maí, 2012

Snillingur sem fyrr

Það er ekki ástæða til að draga úr því þegar maður finnur til snilldarinnar í sjálfum sér - sem gerist furðu oft í mínu tilviki - eins og margir vita.

Nú undir kvöld varð ég vitni að enn einu augnabliki snilldar þegar ég tók heimalagaðan hamborgarann úr ofnimum, þar sem Camembert osturinn hafði fengið að leika um yfirborð hans.

Það þarf ekki að hafa um þetta fleiri orð  - myndin sér um að sannfæra efasemdarfólkið.



08 apríl, 2012

Það eru sumir í álnum.

Þennan fékk ég. Spurning um hve vel hann á við. Vel, ef til vill.
Mér þætti þó ekki slæmt ef þessi speki gengi eftir þeim gagnvart þeim sem urðu sér úti um álnir með slíkum hætti, að ekki telst falla innan ramma laga og réttar.

Unginn minn, málshátturinn minn og páskaliljurnar mínar.
Varla falla þau undir álnir.

29 mars, 2012

O, sole mio - Egill Árni Pálsson

Ég fjallaði lítillega um kórana sem sungu á tónleikunum í Háteigskirkju, laugardaginn 24. mars, s.l. Ég minntist líka á tvo einsöngvara.
Nú er ég búinn, í sveita míns andlits, að prófa mig áfram með að útbúa upptöku frá söng annars þeirra:  Egils Árna Pálssonar, þannig, að ég treysti mér að setja þau vinnubrögð mín fyrir sjónir lesenda minna. Hér er ekki fullkomin myndvinnsla á ferð, en ég er nú þeirrar skoðunar, að söngurinn nálgist það svið frekar. Í þessu er ég auðvitað ekki hlutlaus, en ef ég væri það, væri ég sömu skoðunar, held ég. :)


28 mars, 2012

Heyr, himna smiður


Á laugardaginn var (24. mars) voru haldnir tónleikar tveggja kóra Menntaskólans að Laugarvatni í Háteigskirkju: þess sem var stofnaður fyrir tuttugu árum, og sem starfaði til 2002 undir stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar og þess sem var stofnaður síðastliðið haust, undir stjórn Eyrúnar Jónasdóttur. Með kórunum lék tríó Kjartans Valdemarssonar, fyrrum kórfélagarnir þau Egill Árni Pálsson, tenór og Kristjana Skúladóttir, sungu sitt lagið hvort.

Þetta voru sérlega skemmtilegir tónleikar, og hér er sýnishorn: eldri kórinn syngur Heyr, himna smiður eftir Þorkel Sigurbjörnsson, við texta Kolbeins Tumasonar.

Hér má sjá báða kórana flytja Jómfrú Mariae dans eftir Hreiðar Inga Þorsteinsson, þar sem hann og Unnur Sigmarsdóttir syngja einsöng. Textann gerði sr. Daði Halldórsson.

17 mars, 2012

Þröngur dráttur

Ég þarf, eins og tugir þúsunda annarra í þessu landi, að koma mér til vinnu á hverjum morgni vinnudags. Það er nú allavega hvernig þessir morgnar eru, en meðal þess sem ég get átt von á, er að það hafi fryst um nóttina, eftir rigninguna daginn áður. Hafi fryst, þá stend ég frammi fyrir þeim vanda, að lásinn bílstjóramegin í xtreilinum mínum frýs, þannig, að það er hægt að opna, en ekki hægt að skella í lás fyrr er miðstöðin hefur náð að hita loftið í bílnum talsvert upp fyrir frostmark. Þetta þýðir, eins og hver maður getur séð, að ég þarf að halda hurðinni lokaðri upp undir 10 km vegalengd, þegar þessi staða er uppi. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það, að þetta er hvimleitt, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, og ég er tilbúinn að leggja talsvert á mig til að komast hjá þessum aðstæðum.
Það er einnig rétt að halda því til haga, í samhengi við það sem hér er skráð, að vaxtarlag mitt ber ekki með sér að ég sé fastagestur á líkamsræktarstöðvum og aldur minn nálgast óðum að fylla það sem menn kölluðu "three score years" á tíma Abrahams Líncons.
Dagarnir í síðustu viku voru með nokkuð reglubundnum hætti þannig, að það hlýnaði eftir því sem á leið morguninn og var jafnvel talsverð væta þegar á leið daginn. Það frysti hinsvegar á nóttunni, og á þeim morgni sem um ræðir hér, var rétt rúmlega 5°C frost þegar haldið var af stað til vinnu.
Ég vissi hvert stefndi og ákvað í ljósi þess, að fara farþegamegin inn í bílinn - hef gert það áður með eftirtektarverðum árangri. Byrjaði á að opna dyrnar, tók þar fram sköfurnar og tókst að opna hæfilegt gat á framrúðuna til að ég myndi sjá hvar ég væri hverju sinni og tækist að forðast að aka útaf, eða á það sem fyrir kynni að vera.
Þegar þessu var lokið hófst innför mín, farþegamegin yfir í bílstjórasætið. Auðvitað gekk ágætlega að hálfsetjast í farþegasætið og sveifla vinstra fæti yfir stokkinn milli sætanna og yfir á gólfið  bílstjóramegin. Síðan mjakaði ég meginhluta mínum yfir stokkinn og gírstöngina, yfir í bílstjórasætið. Þá var þetta næstum komið, utan það að hægri fótur var enn farþegamegin. Verkefnið var að koma honum sömu leið og megin hlutinn var kominn. Til þess að svo mætti verða þurfti ég að beita handtaki fyrir neðan hné, og vippa fætinum yfir stokkinn og troða honum framhjá stýrinu og niður á gólf, bílstjóramegin. Þegar hér var komið sögu var fD tilbúin til brottfarar, en við erum samferða til vinnu á þessum morgni vikunnar.

Í þann mund er ég beygði mig fram til að grípa fótinn, og í framhaldi af því vippa honum honum yfir, gerðist það sem enginn myndi vilja reyna við þessar aðstæður. Ég fann hvernig hann* lagði undir sig hægra lærið, nístandi sársaukinn, sem hefði framkallað háværa .........skræki ef ég hefði ekki tekið karlmennskuna á þetta, og látið frá mér tiltölulega hófstillt: AHHHH, AHHHH, eða AAAAAH.
Ég reyndi að finna betri stöðu, sem linaði þjáninguna, en hana var ekki að finna, þar sem ég sat þarna nánast á sjálfheldu. Sársaukinn gerði ekkert nema versna, þannig ég sá ekki aðra leið, til þess í rauninni að bjarga mér frá þessum skelfilegu kvölum, en að henda efri hluta mínum fram á við, ná í dyrakarminn og vippa mér útfyrir, næstum í einum rykk, þannig að ég felldi fD næstum, þar sem hún stóð, tilbúin að setjast inn.

Það tók mig nokkra stunda að safna sjálfum mér saman, þannig að jafnvægi væri náð. Gekk þá að dyrunum bílstjóramegin, rykkti þeim upp, settist inn, setti í gang, greip með hægri hönd um húninn á bílstjórahurðinni, ók af stað og hélt, þögull og æðrulaus, 12 km. leið, þar til frostið loks sleppti tökunum á hurðarlásnum.


*hér er um að ræða svokallaðan sinadrátt, fyrir þá sem ekki hafa áttað sig strax.




Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...