Sýnir færslur með efnisorðinu Samfélagsmál. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Samfélagsmál. Sýna allar færslur

12 mars, 2016

Bönnum það bara

Í sannleika sagt veit ég ekki alveg hvernig réttast væri að bregðast við fregnum af því, að einhver, að öllum líkindum fulltrúi sveitarstjórnar Blaskógabyggðar, eftir að ákvörðun hafði verið tekin þar, er búinn að koma fyrir skilti í brennustæði við Brennuhól, þar sem Laugarásbúar hafa í fjölmörg ár hist á gamlárskvöld, til að njóta ylsins frá veglegum bálkestinum sem safnað hafði verið í allt árið. Þarna hafa Laugarásbúar einnig fengið að njóta skottertu í boði björgunarsveitarinnar og flugeldasýningarinnar í Reykholti í fjarskanum.

Það sem mér finnst mæla með því að banna losun við Brennuhól er aðallega sú misnotkun á staðnum sem erfitt hefur verið að sporna við.
Það er til fólk sem lifir fyrir sig í núinu. Þetta fólk skortir sýn á að verk þess kunna að hafa áhrif á líf/lífsgæði annarra, eða lætur sig það bara engu skipta. Það hefur brenglaða siðferðiskennd og ætti bara að skammast sín. Þetta er fólkið sem fór með ruslið sitt í brennustæðið við Brennuhól; gömul sófasett, eða eldhúsinnréttingar og jafnvel bara úrgang.
Mig grunar að þessi staða sé uppi nú vegna þessa fólks.

Ég tel hinsvegar, að það hefði átt að láta reyna á aðrar leiðir áður en gripið var til þess ráðs að setja þarna upp skilti sem bannar losun af af hvaða tagi sem er,  t.d. sakleysislegt skiltið sem búið var að koma þarna fyrir og sem flutti þessi skilaboð: Hér má einungis henda timbri, engu öðru, annars missum við brennuleyfið.

Það sem nú blasir við, ef við Laugarásbúar, svo hlýðnir og lítillátir sem við erum nú, þurfum að flytja allt timbur sem fellur til hjá okkur, aðallega vegna grisjunar, upp í Reykholt, en það er 12 km. spotti. Þar með þurfum við að eiga bíl með dráttarkúlu og viðeigandi kerru. Síðan þurfum við að fá eins og einn gám af timbri sendan úr Reykholti þegar áramót nálgast, ef við stöndum þá bara nokkuð í þessari áramótavitleysu á annað borð.

Það sem er kannski erfiðast að kyngja í þessu máli er samráðsleysið. Við vitum ekki einusinni hver setti þetta skilti þarna upp þó svo leiða megi líkur að því.

Það er líklega kominn tími til að við stofnum þorpsráð og kjósum okkur þorpshöfðingja til að sinna samskiptum við utanaðkomandi vald.  Ég er viss um að í skóginum leynist fólk sem er tilbúið að tala máli okkar út á við.


Til að fyrirbyggja misskilning, þá var það SA-hvassviðri á þessum degi, sem getur orðið vart við Brennuhól (þó ekki verði þess vart í þorpinu sjálfu), sem felldi bannskiltið. Ég viðurkenni hinsvegar, að ég reisti það ekki upp.

03 mars, 2016

Jákvætt eða neikvætt - kannski bara kvætt.

Þetta tengist línuritunum sem finna má neðar, en hefur
enga skírskotun til einhverrar skoðunar höfundar.
Ég fann þessi merki á netinu og tek enga
afstöðu til litanna
Börn eru alltaf að fæðast eins og hver einn veit. Algengast er að kyn þeirra við fæðingu sé annað hvort kvenkyn eða karlkyn. Það mæta litlar stúlkur og litlir piltar á svæðið, foreldrum sínum til mikillar gleði, í það minnsta ef það sem á undan fór fæðingunni var í samræmi við það sem almennt er talið rétt og eðlilegt.
Ástríkir foreldrarnir eru tilbúnir að leggja mikið á sig til að sá jarðvegur sem barnið þroskast síðan upp úr verði sem allra næringarríkastur og að ávestir ástar þeirra njóti besta mögulega atlætis.  Sumir birta meira að segja myndir af litlu krúsidúllunni á samfélagsmiðlum, væntanlega til að leyfa öðrum að njóta þessarar dásemdar með sér eða kannski til að fá eilítið hrós fyrir vel smíðaðan grip. Fljótlega fer hinsvegar ýmislegt að koma í ljós, jafnvel eitthvað sem öðruvísi en foreldrarnir bjuggust við; lífið sjálft eins og það birtist í hversdagsleik sínum, allar flækjur þess og hömlurnar sem unginn setur á ástfangna/ástríka foreldrana. Þeir þurfa að fara að neita sér um það sem sjálfsagt þótti áður og reynist það mis auðvelt. Þeir komast að því að barn er ekki bara krúsídúlla heldur einnig beisli, eða haft.

Svo er það þetta með kynið.
Hvað á nú að gera í því?
Má klæða unga stúlkubarnið í bleikan kjól, eða piltbarnið í bláar buxur?
Hvert á hlutverk móðurinnar að vera eða hlutverk föðurins?
Hvað á að ganga langt í því að láta stúlkuna leika sér með bíla eða piltana með brúður?
Stærsta spurningin er kannski: Hver er hinn raunverulegi munur á piltum og stúlkum?

Svo tekur samfélagið við, því foreldrarnir þurfa að afla tekna til heimilisins.
Fyrst er það leikskólinn. Þar mætir barninu móðurleg veröld.


Hefur leikskólagangan einhver varanleg, mismunandi áhrif á kynin? Hvar byrja þau að leita sér fyrirmynda? 
Allt í lagi með það. 
Við tekur grunnskólinn þar sem móðirin er enn allsráðandi. Móðirin verður alltaf kona, hvað sem við reynum að gera til að breyta því.
Í grunnskólanum má reikna með að kynin fari að pæla í hlutverkum hvors um sig. Það eru strákar og það eru stelpur. "Til hvers er það nú?", spyrja blessuð börnin og leita svara. 
Stelpurnar sjá fyrirmyndar konur allan daginn. Strákarnir sjá fyrirmyndarkonur allan daginn, sem segja þeim að vera stilltir eins og stelpurnar, kannski af því þær eru konur. Konur eru konur, en ekki karlar, nefnilega.  Strákarnir vita oftast af pabbanum, þeir sjá hann yfirleitt á kvöldin og um helgar, ef þeir eru heppnir  með pabba. Eiga jafnvel pabba sem er ekkert svo mikið í tölvunni þegar hann kemur heim úr vinnunni.  Strákarnir fara að velta fyrir sér hvað það er að vera karlmaður; átta sig á því að þeir muni verða svoleiðis. Hvar geta þeir fundið sýnishorn af þannig fyrirbæri. Jú, vissulega heima, á kvöldin og um helgar, ef þeir eru heppnir. Hvar annars?  Jú, í sjónvarpinu þar sem hetjurnar ríða um héruð og drepa mann og annan, kannski. Og í tölvunni þar sem er nú aldeilis úrval af ímyndum hinnar sönnu karlmennsku, ekki síst eftir að hvolpavitið er farið að beina  huganum inn á ýmsar framandi slóðir.

Eftir grunnskólann tekur við framhaldsskólinn. Þá ber aðeins nýrra við:


Það var ekki fyrr en skólaárið 2005-6 sem konur urðu fjölmennari en karlar við kennslu í framhaldsskólum. 
Maður skyldi ætla að þarna fái allir nauðsynlegar fyrirmyndir. Fyrirmyndar kvenkennara og fyrirmyndar karlkennara.  Ekki verður hér og nú, í þessum pistli á hálu svelli, gerð tilraun til að draga miklar ályktanir. Kannski má halda því fram að þegar komið sé á framhaldsskólastig sé of seint að kynna fyrir piltunum venjulega karlmenn, sem ekki eru hasarmyndahetjur, íþróttahetjur eða jafnvel klámstjörnur með þann búnað sem þær hafa.  Það kann meira að segja að vera svo, að grámóskulegir karlkennararnir í framhaldsskólunum, með einhverjar undarlegar hugmyndir um samskipti standist hreinlega ekki mál þegar leitað er að fyrirmynd í lífinu. Þær geta ekki verið svona! Þarna er mögulegt að vonbrigði piltanna verði mikil og þeir ákveði að þrátt fyrir fyrirmyndar kvenkennarana sé ekki líft innan veggja framhaldsskólans. Skýrir það mögulega að einhverju leyti umtalsvert meira brotthvarf pilta úr framhaldsskólum en stúlkna?

Hvað gerist síðan í sambandi við framhaldið, eftir að framhaldsskóla er lokið? Þá gerist þetta:


 Er mögulegt á finna í þessu samsvörun við eitthvert meint kvenlegt uppeldi og skort á eðlilegum fyrirmyndum pilta?

Ég leyfði mér einhverju sinni að nefna það sem möguleika, en slíkar hugmyndir voru slegnar fast út af borðinu með: Allar rannsóknir hafa sýnt að það breytir engu. Mig langar dálítið að sjá þær rannsóknir. Rannsóknir eru af ýmsum toga.

Ég kann að fjalla meira um þessi mál síðar. 


28 febrúar, 2016

Opnun fyrir mannkynslausnara

Ég hef ekki, alllengi, tjáð mig neitt um stjórnmál, en gerði talsvert af því fyrir einhverjum árum. Meginástæða þessarar þagnar minnar er tilgangsleysi þess að fjalla málefnalega um stjórnmál á þessu landi. Í skúmaskotum leynist fólkið sem hefur öll svörin og bíður færis að láta á sér kræla ef það telur sig finna færi á.

Ástæða þess að ég skelli hér nokkrum línum á blað um stjórnmál er ákveðinn ótti um að stjórnmálaaflið sem hefur notið mikils og vaxandi fylgis í skoðanakönnunum um langt skeið verði fórnarlamb fólksins í skúmaskotunum, sem ég hef kosið að kalla "mannkynslausnarana".  Flokkurinn sem um ræðir er fremur óskrifað blað og þar með berskjaldaður fyrir tilraunum til yfirtöku. Það vill svo til, að ég hef lítilsháttar reynslu af svona löguðu.

Þjóðvaki

Ég bendi þeim sem eru að lesa þetta og ekki vita neitt um þetta fyrirbæri, að gúgla bara. Þarna var um að ræða stjórnmálaafl sem kom fram  í aðdraganda þingkosninga 1995. Þetta var eiginlega flokkur sem var stofnaður af og í kringum Jóhönnu Sigurðardóttur og stærsti tilgangurinn með stofnun hans var að freista þess að búa til einhverskonar sameiningarafl vinstri manna, en ýmsum hefur orðið fótaskortur við slíkar tilraunir.
Þjóðvaki  mældist með 17,5 prósenta fylgi fyrst eftir að flokkurinn var stofnaður. Fylgið minnkaði og var mánuði síðar orðið 10,5 prósent og þegar að kosningum kom var fylgið farið niður í 7,2 prósent.

Á þessum tíma var ég einhvernveginn tilbúinn að taka þátt í stjórnmálastarfi og var mjög fylgjandi því að fólk sem skilgreindi sig á vinstri vængnum ætti að finna sér sameiginlegan farveg.  Þjóðvaki varð þarna til og vettvangurinn virtist sá rétti. Ég lét slag standa og fór að sækja fundi.  Ég var mikið barn á stjórnmálasviðinu, hélt að þar starfaði fólk af heilindum fyrir hugsjónum.  Ég var nokkuð fljótur að læra, að aðrir þættir og ógeðfelldari, voru jafnvel enn mikilvægari. 

Það var boðað til stofnfundar Þjóðvaka á Suðurlandi og þar var saman komið margt ágætis fólk, sem hafði heilbrigða sýn á það sem framundan var. Þar var líka fólk sem var komið til starfa á allt öðrum forsendum. Það kom nefnilega í ljós að X (nefni hann ekki þar sem persóna hans skiptir engu máli í því samhengi sem ég skrifa þetta) hafði eytt miklum tíma og fyrirhöfn í að ferðast vítt og breitt um Suðurland til að afla sér fylgismanna. Þeir reyndust síðan fjölmennir á fundinum. X hafði góðan talanda og virðist hafa öll svör á reiðum höndum og ég neita því ekki að mér fannst bara nokkuð til hans koma.  Það kom fljótlega í ljós, að það bjó annað undir hjá honum en baráttan fyrir sameiningu vinstri manna. Hann ætlaði sér forystuna með fulltingi stuðningsmanna sem hann hafði safnað um persónu sína fremur en málefnin sem flokkurinn átti að standa fyrir fyrir. 

Í hönd fóru fundir vítt og breitt um Suðurland. Þetta reyndust ekki vera neinir skemmtifundir og það rann upp fyrir okkur sem þarna höfðum komið bláeyg til leiks, að ef eitthvað ætti að verða úr þessu framboði, yrðum við að láta sverfa til stáls.  Sem við og gerðum, en auðvitað varð það til þess, að ágreiningurinn komst í fjölmiðla og þá var ekki að sökum að spyrja. Hér er umfjöllun í ónefndu dagblaði eftir afskaplega erfiðan og harðan fund:
2. mars, 1995:  
Tveir bítast um efsta sætið hjá Þjóðvaka í Suðurlandskjördæmi, Þorsteinn Hjartarson skólastjóri á Brautarholti á Skeiðum og X. 
Á fundi Þjóðvaka sem haldinn var á Þingborg í Flóa á þriðjudagskvöld urðu átök um fyrsta sætið. Greidd voru atkvæði á fundinum um skipan tveggja efstu sætanna eftir orðaskipti milli fylkinga. Á fundinum var síðan samþykkt að talning færi ekki fram fyrr en eftir klukkan 19 á laugardag og að fram til þess tíma hefðu þeir félagar í Þjóðvaka á Suðurlandi sem ekki mættu á fundinn rétt til að greiða atkvæði um skipan efstu sætanna á listanum.
Fundurinn snerist upp í prófkjör
Fyrir fundinum lá tillaga um að Þorsteinn Hjartarson, Skeiðum, Ragnheiður Jónasdóttir, Hvolsvelli, og Hreiðar Hermannsson, Selfossi, skipuðu þrjú efstu sætin. Á fundinum kom fram tillaga um að Þorsteinn Hjartarson  skipaði fyrsta sætið og X, annað sætið. Fundurinn á Þingborg snérist því upp í prófkjör fram til laugardagskvölds um tvö efstu sætin á framboðslistanum.
Þorsteinn Hjartarson kvaðst mundu taka niðurstöðunni hver svo sem hún yrði. X hefur lýst því yfir að ólíklegt sé að hann taki annað sæti á listanum fái hann ekki fyrsta sætið. Hann vísar til tilnefninga sem félagsmenn gerðu um fólk á listann. Hann hefði fengið mun fleiri tilnefningar en Þorsteinn og vill að farið sé eftir þeim.
Í mínum huga er þetta stærsta áskorunin sem blasir við þegar ný stjórnmálaöfl reyna að ná fótfestu. Þar sjá ýmsir tækifæri til persónulegs ávinnings og hugsjónirnar víkja fyrir vongóðum smákóngum sem langar að komast í valdastöðu.
7. apríl, 1995:Yfirlýsing frá 60 Sunnlendingum Hörð gagnrýni á forystu Þjóðvaka
Sextíu Sunnlendingar hafa undirritað yfirlýsingu til stjórnar suðurlandsdeildar Þjóðvaka, sem barst blaðinu í gær, þar sem forysta og framboðsmál Þjóðvaka á Suðurlandi eru harðlega gagnrýnd.
Í fréttatilkynningu, sem fylgdi yfirlýsingunni, segir m.a. að í tilefni þess, að undanfarna daga hafi umræða átt sér stað um framboðslista Þjóðvaka á Reykjanesi og víðar og að ritari flokksins hafi sagt að um einstakt óánægjutilvik sé að ræða, vilji 60 Sunnlendingar tilkynna að svo sé alls ekki. Gríðarleg óánægja hafi lengi verið með forystu og framboðsmál Þjóðvaka á Suðurlandi og mál þar þróast með þeim endemum að þeir sem undirriti yfirlýsinguna hafi kosið að nota þetta tækifæri til þess að segja skilið við flokkinn. Í yfirlýsingunni er meirihluti stjórnar suðurlandsdeildar Þjóðvaka sakaður um að hafa margbrotið lög félagsins og traðkað á lýðræðislegum réttindum félagsmanna.

Svo mörg voru þau orð. Daginn eftir voru síðan haldnar þingkosningar.

Því miður held ég, að þessi sömu örlög bíði Pírata í kosningum eftir rúmt ár ef forystumönnum þeirra tekst ekki að loka fyrir skúmaskotin og halda aftur af mannkynslausnurunum sem þau fylla.




27 febrúar, 2016

Að vera blaðamaður

Það gerðist bara einhvernveginn fyrir um það bil ári síðan, að ég var settur (eða kannski: það var sett mig) inn í ritnefnd merkisrits sem er gefið út í Biskupstungum og sem ber nafnið Litli Bergþór. Þarna var auðvitað á ferðinni kolóleg aðgerð þar sem með réttu skal ritnefnd kjörin á aðlfundi Ungmennafélags Biskupstungna, en það félag stendur að útgáfu þessa rits. Það kann að fara svo á aðalfundi félagsins, sem ekki er langt undan, að ég tel, að sú gjörð að taka mig inn í nefndina verði vítt og mér sparkað, en það kemur þá bara í ljós.
Litli Bergþór kemur út tvisvar á ári, að vori (ef það tekst, annars í lok sumars) og í nóvember eða desember.

Nú er ég búinn að taka þátt í útgáfu tveggja tölublaða Litla Bergþórs og undirbúningur að útgáfu þess þriðja er hafinn.

Þetta blað á sér orðið talsvert langa sögu. Undir þessu nafni hefur  það verið gefið út síðan 1980. Vinnsluaðferðin þá var talsvert frumstæðari en nú. Blaðið var vélritað, skrifað og teiknað á blekstensla, sem stöðugt færri hafa hugmynd um hvað var. Síðan þróaðist það með bættri tækni og fleiri áskrifendum þar til það komst í núverandi mynd. Hvert framtíðarútgáfuformið verður, er erfitt að ímynda sér, en ekki finnst mér úr vegi að ímynda sér að rafræn útgáfa sé það sem verður raunin.

Fyrsta tölublaðið sem ég koma að. Að
sjálfsögðu tókst mér að troða teikningu
eftir frumburðinn á forsíðuna.
Ég kom til starfa við Reykholtsskóla 1979, árið eftir kom fyrsta blaðið út og fyrir því stóð Grímur Bjarndal, sem þá var skólastjóri.  Ég dróst síðan inn í útgáfuna og kom að henni til 1985.  Síðan þá, eða í ein 30 ár, hef ég ekki haft annan snertiflöt við þetta ágæta blað annan en venjulegir áskrifendur hafa.
Nú er ég mættur aftur á svæðið, orðinn blaðamaður og farinn að safna og skrifa efni. Hvernig það gengur verður tíminn að leiða í ljós og þar getur margt gerst, þetta helst:
1. Ég verð settur úr útgáfunefndinni á aðalfundi ungmennafélagsins.
2. Áskrifendur deyja frá áskriftum sínum og rekstrargrundvöllur brestur.
3. Útgáfunefndinni tekst að ná til yngri kynslóða og efla blaðið.

Það má kannski segja og það í fullri alvöru, að útgáfa eins og sú sem hér um ræðir, sé ómetanleg í sögulegu samhengi. Í nútímanum er maður nefnilega ekkert mikið að spá hvernig nútíminn núna birtist í nútímanum eftir 30 ár.

Mér finnst, að stærsta verkefnið sem blasir við útgefendum Litla Bergþórs sé, að fjölga áskrifendum; ná til yngri kynslóða.
Hvernig gerum við það?
Varla með því að freista þess að efla útgáfuna með því að setja karl á sjötugsaldri nýjan inn í nefndina, er það?  Nefndarfólkið sem fyrir var þar, var svo sem að stórum hluta engin unglömb. Vissulega ungt og hresst í andanum, en með árafjöld að baki.

Megi Litli Bergþór lifa.

16 febrúar, 2016

"The Condom King" - eða þannig

Ekki veit ég hvaða afleiðingar þessi pistill hefur fyrir mig en ég verð að láta á það reyna. Ég treysti því í það minnsta að þeir sem þekkja taki þessum skrifum eins og til er ætlast.

Það varð nokkur kurr meðal nemenda í ML í morgun þegar þessi fyrirsögn birtist á vísi punktur ís:







Ég nokkuð viss um að fólk sem hefur ekki fylgst með fréttum undanfarna daga hafi skilið þessa fyrirsögn talsvert öðruvísi en hún átti að skiljast.  Skilningur einhverra var með þessum hætti (með því að lesa fyrirsögnina):

"Það er kominn tími til, í ljósi ástandsins meðal nemenda í Menntaskólanum að Laugarvatni að bregðast við og ræða við þá um mikilvægi smokkanotkunar" 
Undirtextinn væri þá sá að nemendur stundi ábyrgðarlaust kynlíf í stórum stíl og nauðsynlegt sé að freista þess að koma þeim í skilning að til sé fyrirbæri sem kallast smokkar sem hafa þann megin tilgang að koma í veg fyrir þunganir, sem séu alltof margar.

Svona er ástandið þetta auðvitað ekki í mínum ágæta skóla og það má fastlega reikna með því að nemendur stundi kynlíf í svipuðum mæli og jafnaldrar þeirra vítt um landið.

Þarna er við fréttamann vísis að sakast, en hann hefði sannarlega átt að setja fréttina í viðeigandi samhengi við þá umræðu sem átt hefur sér stað að undanförnu, um mikilvægi smokksins við að koma í veg fyrir  fjölónæmar lekandasýkingar.

Samhengið var miklvægt þar sem það verður æ erfiðara að ná til einhvers umtalsverðs fjölda fólks í gegnum fjölmiðla, ekki síst ungs fólks og auðvitað þeirra sem lesa bara fyrirsagnirnar og telja sig fá úr þeim þær upplýsingar sem þörf er á.

Í ML fá nemendur sannarlega upplýsingar um gagnsemi smokksins strax á fyrsta ári (ef þeir hafa þá ekki fengið slíka fræðslu áður). Auk þess er vinsælasti fyrirlesarinn, á Dagamun á hverju ári, kynfræðingur sem fjallar um kynlíf og kynheilbrigði.

Eftir þennan dag situr skólameistari ML uppi með, í hugum einhverra, titilinn sem þessi pistill ber, hafandi birst við hliðina á litríkum smokkahaug á vefmiðli, eftir að hafa í grandaleysi svarað spurningum fréttamanns um það hvort í ML væru smokkasjálfsalar, ef ekki:hversvegna og hvað væri meiningin að gera í sambandi við það.
Þá má það teljast undarlegt að ekki skuli, í sömu frétt fjallað um svör skólameistara FSu varðandi þetta mál. Það má túlka þannig, að líklegt sé talið að ML-ingar séu duglegri í kynlífinu en jafnaldrar þeirra í þeim skóla.
Orð og frramsetning þeirra eru vandasöm fyrirbæri.

Það fyndnasta er, líklegast, að hér sit ég í svipuðu hlutverki og Jóhannes Þór Skúlason þegar hann freistar þess að túlka orð forystumanns ríkisstjórnarinnar.

Svona er lífið ófyrirsjáanlegt.

23 janúar, 2016

Janúar blús - þreyjum þorrann

Ætli mér sé ekki óhætt að fullyrða, að ástæðu þagnar minnar á þessum síðum undanfarið megi rekja til árstímans. Fyrstu tveir mánuðirnir hafa aldrei talist með þeim vinsælustu í huga mér og mér liggur við að segja að séu þeir nánast hundleiðinlegir, í það minnsta svona í stórum dráttum. Ég veit að þetta er ekki fallega sagt og sjálfsagt ekki á bætandi mögulegan miðsvetrarblúsinn í hugum ykkar sem þetta lesið.

Grámi þessa dags í síðari hluta janúarmánaðar kallar ekki fram neinn sæluhroll. Það er kalsarigning og hvasst í nágrenni Laugaráss.  Landsliðið, sem oft hefur nú lýst um þennan dimmasta tíma ársins, er úr leik og maður verður að halda með Degi eða Guðmundi. Þorrablót Tungnamanna var í gærkvöld, en þangað fór ég ekki. Laugarásbúar halda sig heima við og það er hálka á vel ruddum gangstígum. Framundan eru síðustu dagar janúarmánaðar og þá tekur febrúar við, og svipað ástand.

Ég er nú bara að grínast með þetta allt saman, verður það ekki að teljast líklegt? Í allri þeirri sút sem við kunnum að upplifa á þessum árstíma, þurfum við ekki annað en beina athyglinni að því hve heppin við erum í þessu landi allsnægtanna og undrafegurðarinnar.
Líf flestra okkar er harla öruggt og við njótum þess, að lúta forystu á stjórnmálasviðinu sem slær hvert heimsmetið á fætur öðru á hinum aðskiljanlegustu sviðum. Við höfum í rauninni óbilandi trú á þeirri braut sem leiðtogar okkar ryðja fyrir okkur. Við erum þess fullviss að forysta þeirra muni færa okkur alla þá brauðmola sem við eigum skilda. Við megum ekki vera vanþakklát því óendanleg viska landsforeldranna, þó stundum skorti okkur vit eða sýn til að skilja hvert þeir eru að leiða okkur, mun á endanum leiða okkur inn í fyrirmyndarríkið þar sem hver fær það sem hann á skilið, hvorki meira né minna.

Sannarlega er ástæða til að gleðjast, til að fagna ljósinu, ekki aðeins ljósi eldhnattarins sem dag frá degi hækkar á himinhvolfinu, heldur ekki síður viskunni, réttsýninni, mannskilningnum, kossunum og faðmlögunum sem leiðtogar okkar eru svo ósinkir á og sem veita okkur innblástur til afreka sem við höfum ekki getað ímyndað okkur að væru á okkar færi.

Ég er viss um að ég gæti orðið öflugur áróðursmeistari  tiltekinna stjórnvalda austast í Asíu, ef dæma má af því sem ég hef lamið inn hér fyrir ofan. Mér virðist reynst auðvelt að breyta svörtu í hvítt og öfugt, í samræmi við það hvernig vindar blása hverju sinni. Slíka andagift get ég fyrst og fremst þakkað undursamlegri leiðsögn minna ástkæru leiðtoga.

Þessi skrif eru innblásin af starfi íslenskra stjórnvalda, segja jafn mikið og jafn lítið. Þau eru af ásettu ráði eins og þau eru, hvork of né van. Allt eins og því er ætlað að vera.

Megi fínu jólapeysurnar okkar gleðja ykkur, kalla fram
lítil bros, auka bjartsýni og efla trú á íslenska þjóð.





19 desember, 2015

Áhigjur af f***ing túnguni.

Þetta er bara eitt af því sem ég þarf að losa mig við. Ég veit reyndar að það mun ekki gerast með þessu móti einu, en þetta er örugglega skref í átt að því að ég sætti mig við það sem er og fái betri innsýn í það sem líklega verður.
Eftirfarandi texta skrifaði ég á þessa síðu fyrir nokkru. Hér hef ég freistað þess að sjá fyrir mér hvernig hann gæti litið úr eftir einn til tvo áratugi.
Tilefnið er ræða menntamálaráðherra áðan, menntamálaráðherra.

Framundan eraði flutningur kórar úr uppsveitir með einsöngvarar, orgel, trompet og klarinett á verk eftir sigvaldi kaldalóns kirkja óma öll. það erar ekki á móti mæla að einhverjir tenórar beruðu nokkur kvíðbogi fyrir ein nóta í umrætt verk.
Forsaga málið eraði sú að við upphaf æfingar á þetta verk eraði það eins og hver annar verk sem æfað eraði tenórinn dansaði um nóturnar áreynslulaus þó svo ein nóta undir lok hver erindi hafi takað nokkur á. Það eraði ekkert annar en áskorun og þetta var hinn góðasti mál. Með þessi háttur eraði verkið æfað nokkur sinn og það eraði að koma góður mynd á það.

við þeir aðstæður geraði það allt í einu að einn sópraninn tjáaði þá skoðun sinn að sópranlínan liggjaði of lágur. Einhverjir margari sópran takaði undir þessi skoðun.


-lesendur eru varaðir við að taka mig alltof hátíðlega á þessu stigi. Þó kraumi undir, geri ég mér grein fyrir því að ýmislegt er óumflýjanlegt. Þar má til dæmis telja íslenska tungu.

01 desember, 2015

Í auga stormsins, í Laugarási eða úlfur, úlfur!

"Maður er kominn á þann aldur að fara ekkert að þvælast út í einhverja óvissu og vita síðan ekki hvort maður kemst aftur heim í dag".  Ætli þetta hafi ekki, efnislega, verið spekin sem rann upp úr mér í morgun, þar sem miðlar af öllu tagi vöruðu fólk við að ana út í óvissuna. Það var gengið ansi langt í lýsingum á þeim ósköpum sem framundan voru.
Undirtektir við þennan málflutning minn voru óvenju jákvæðar og þar með varð til sú niðurstaða að heima skyldi setið og óveðrinu leyft að leika lausum hala úti fyrir.
Ákvörðunin var tilkynnt á viðeigandi stöðum, í ágætu veðri, lítilsháttar golu og hita sem var að mjakast yfir frostmarkið. Fyrir landið í heild sinni var þessi veðurlýsing kannski ekki nákvæm, en hún var það fyrir Laugarás. Ég hafði síðan í hyggju að bregða mér út fyrir Þorpið í skóginum þegar birti til að gá til veðurs sem gæti samsvarað því sem fjölmiðlar höfðu lýst, en ég gerði það reyndar ekki.
Það leið á morguninn, það hlýnaði heldur og það var líka eina breytingin sem við urðum vör við.
Það leið að hádegi, tímanum sem veðrið var sagt mundu verða í hámarki, en í Laugarási var stinningskaldi, úrkomulaust og hiti um 3 gráður.

Það er ástæðulaust að fjölyrða frekar um þetta mál: Hér hefur verið ágætis veður í allan dag, og reyndar ekki bara hér heldur á öllu svæðinu sem Laugarás tilheyrir.

Ég leit sennilega ekki vel út á vinnustaðnum í dag.

Ég velti fyrir mér hvaða ákvörðun ég muni taka næst þegar fjölmiðlar flytja boðskap færustu manna um ofasaveður um allt land og að fólki sé ráðið til að "halda sig heima, sé þess nokkur kostur".  Ætli verði ekki úr að Qashqai verði tekinn til kostanna í fullvissu um að allt svoleiðis veðurtal sé bara enn eitt fjölmiðlabullið.

Mér finnst líklegt að það sé ástæða fyrir öllum þessum varnaðarorðum: það sé betra að vara við af fullum krafti en að gera  minna úr en síðan verður raunin og sita uppi með ásakanir um að hafa ekki varað nægilega mikið við.
Kannski verður fólk ekki jafn reitt eftir að veðrið reynist minna en spáð var og þegar spáin gerir ráð fyrir skaplegu veðri sem síðan reynist óvitum í umferðinni þungbært.

Þarna þarf einhvern milliveg.





23 júní, 2015

"Ég er að fara erlendis að versla föt"

 "Ég er að fara erlendis" Við skiljum þann sem þetta segir (með réttu eða röngu) sem svo að hann hyggist halda af landi brott, að hann sé að fara utan, eða að hann sé að fara tíl útlanda.
Erlendis mun vera eitt af þessum orðum sem kölluðust atviksorð og gefa til kynna kyrrstöðu, svona eins og inni eða úti. Þessi orð gefa til kynna að einhver er á einhverjum tilteknum stað.  Þannig segir maður: Ég er inni eða Ég er úti. Í samræmi við það segir maður væntanlega Ég er erlendis. Þá vaknar spurningin: Ef maður getur sagt: Ég er að fara erlendis, getur maður þá einnig sagt Ég er að fara inni, eða Ég er að fara úti?  Fáir held ég að myndu telja svo vera.


"Ég ætla að versla (mér) föt" Þetta skiljum við (með réttu eða röngu) þannig, að viðkomandi ætli að kaupa (sér) föt.  Sögnin að versla felur í sér að eitthvað er látið af hendi í stað einhvers annars. Þannig kaupir maður skyrtu og lætur af hendi einhverja fjárupphæð í staðinn. Í samræmi við það er eðlilegt að segja: Ég var að versla.  Það er einnig hægt að segja að einhver versli með skyrtur og þá merkir það að hann kaupir skyrtur og selur þær síðan aftur.  Sá sem fer út í búð til að versla, sér þar kannski þessa fínu skyrtu og niðurstaðan verður sú að hann kaupir hana og kaupmaðurinn selur hana. Kaupandinn verslar skyrtuna ekki, þó svo kaupmaðurinn versli með skyrtur.  Kaupmaðurinn kaupir skyrtur og selur þær aftur og verslar þannig með skyrtur. Viðskiptavinurinn kaupir skyrtu og greiðir fyrir hana og þannig má segja að hann versli við kaupmanninn, en hann verslar (sér) ekki skyrtuna.


Svo mörg voru þau orð og ég get þó alltaf sagt að ég hafi reynt.

19 júní, 2015

Gekt fab einkanir

Ég er enginn veiðimaður, en hef þó farið nokkrum sinnum að veiða um ævina og þá bara á svæðum þar sem mögulegt er að veiða silung. Ég hef fundið þá tilfinningu  að hafa veitt silung, einhverskonar sigurtilfinningu með tilheyrandi adrenalínflæði (einkunn 9,5). Oftast veiddi ég þó ekkert þó ég hafi vandað mig við val á veiðarfærum og staðið tímunum saman úti í á eða á árbakka (Einkunn 4,0).
Það eru sennilega um 20 ár síðan ég fór, ásamt fleirum úr fjölskyldunni til silungsveiða á stað þar sem silungur var ræktaður og sleppt í lítið vatn eða tjörn og síðan gat fólk keypt veiðileyfi þannig að greitt var fyrir hvert kíló sem veiddist.  Við hófum þarna veiðar og ekki leið á löngu áður en það beit á (9,5) hjá mér og hinum. Frábært, fannst okkur. Við kunnum að veiða, eftir allt saman. Hentum út í aftur og viti menn, það beit aftur á, og aftur og aftur og aftur. Eftir því sem aflinn varð meiri minnkaði ánægjan og á endanum nenntum við þessu ekki lengur og síðan hefur mig ekkert langað til veiða.

Þetta var inngangur til að sýna fram á munninn á ánægjunni af því að leggja sig fram til að ná árangri, annarsvegar og ánægjuleysinu af því að ná fyrirhafnarlausum árangri, hinsvegar.

Það er rætt um það þessa dagana, að margt bendi til þess, að einkunnir nemenda sem sækja um inngöngu í framhaldsskóla fari hækkandi ár frá ári, þær samræmist æ ver þeim kröfum sem framhaldsskólinn gerir til nemenda sinna og að þær séu ekki sambærilegar milli grunnskóla.

Framhaldsskólar kalla eftir samræmdum prófum til að unnt sé raða umsóknunum á sambærilegan mælikvarða.
Foreldrar gera kröfur til þess að árangur barna þeirra sé metinn þannig að þau komist í þá skóla sem þau (eða foreldrana) fýsir að komast í.

Nú er ég kominn á svæði sem er fullt af jarðsprengum og ég vil forðast feilspor.

Þar sem ég sit við tölvuna mína og skoða umsóknir grunnskólanema um bóknámsframhaldsskólann sem ég starfa við velti ég óhjákvæmilega fyrir mér hvað liggur að baki þeim einkunnum sem þar birtast mér. Þarna blasa við mér einkunnir þriggja nemenda (A, B og C) úr þrem mismunandi grunnskólum (1, 2  og 3). Þær eru alveg sambærilegar, en ég verð að velja á milli þeirra. Einn kemst inn, en hinir tveir ekki.
Með því að slá einkunnum umsækjendanna inn í excel kemst ég að því, að einkunnir nemanda B úr grunnskóla 1 eru örlítið hærri en einkunnir A og C. Ég vel nemanda B. En spyr mig jafnframt hvort það val var sanngjarnt. Ég spyr mig hvað það var sem myndaði einkunnir þessara nemenda. Voru þær sambærilegar, eða var ég kannski að hafna nemanda sem væri talsvert betur undirbúinn en B fyrir bóknám?  Hafði nemandinn sem ég hafnaði allt til brunns að bera sem einkennir öflugan námsmann, en bara svo "óheppinn" að koma úr grunnskóla þar sem kennarar hans höfðu gert kröfur á hann og ekki gefið honum neitt sem hann ekki átti? Kom nemandinn sem ég valdi úr grunnskóla þar sem matið byggði einvörðungu á hæfni hans til að taka próf? Kom hinn nemandinn sem ég hafnaði úr skóla þar sem matið byggðist að miklum hluta á öðru en prófum, þar sem metnir voru aðrir þættir frekar en þekking á námsefninu, s.s. ástundun, samvinnuhæfni, samviskusemi, viðhorf eða því um líkt? Var það jafnvel svo, að kennarar nemandans sem ég valdi höfðu gefið honum einkunnir á öðrum forsendum en þeim sem ég geng út frá? Var það kannski svo að einkunnagjöfin í viðkomandi grunnskóla endurspeglaði hreint ekki getu eða hæfni nemendanna?

Mér er það fulljóst, þar sem ég sit og velti þessu fyrir mér, að einkunnirnar, það eina sem ég hef á skjánum, kunna að vera og eru líklega algerlega ósambærilegar.

Ég vona að það sé orðið þeim ljóst, sem þetta lesa (ef þeir eru á annað borð einhverjir) að ég er talsverður talsmaður þess að nemendur sem útskrifast úr grunnskóla og ætla sér í framhaldsnám, gangist undir samræmt mat, annað er ávísum á að þeir verði ekki metnir inn í framhaldsskóla á sömu forsendum og aðrir.

Ég veit að það er trúaratriði hjá mörgum að berjast gegn samræmdum prófum og þeirra vilji er ofan á þessi árin.  Trú þeirra breytir engu um það að nemendur halda áfram að flytjast milli grunnskóla og framhaldsskóla. Framhaldsskólar munu varla til lengdar sætta sig við að val á nýnemum sé einhverskonar happdrætti. Einhverjir eru farnir að tala um inntökupróf.  Hvernig ætti nú að framkvæma slíkt? Ef tekið verður upp inntökupróf í framhaldsskóla, þá mun það líklega enda sem samræmt próf, því ekki gengur að hver nemandi þurfi að fara í inntökupróf í 2-4 framhaldsskólum, það segir sig sjálft.

Hvað er til ráða?  
Það þarf enginn að fara í grafgötur um að ég veit það, en það er víst ekki nóg. Þrátt fyrir það leyfi ég mér að hvísla það hér inn í storminn.
1. Foreldrar gera sér grein fyrir því að það er börnum þeirra fyrir bestu að fara í það nám sem hentar hæfileikum þeirra og áhuga.
2. Foreldrar gera sér grein fyrir því að einhverntíma þurfa börn þeirra að takast á við eitthvað sem gerir kröfur til þeirra, setur pressu á þau, veldur þeim kvíða, stillir þeim upp í samkeppnisaðstæðum.
3. Grunnskólar skipuleggja nám þannig í 9. og 10. bekk, að nemendur fái að njóta sín á þeim sviðum sem hentar áhuga þeirra og hæfileikum. Foreldrar eru kallaðir að borðinu og þeir sannfærast  um hvaða leiðir í framhaldsnámi henta börnum þeirra. Þeir vita hvaða leiðir eru í boði fyrir hvern og einn.
4. Á haustmánuðum í 10. bekk er tekin ákvörðun um hvert stefnt skal og í framhaldi af því eru nemendur 10. bekkjar skráðir í mismunandi tegundir samræmds mats allt eftir áhuga, hæfni, viðhorfum, lífssýn eða hvaðeina. Markmiðið: nemandinn fái að njóta sín til fullnustu. Hver getur mótmælt slíku?
5. Á vormánuðum gangast nemendur í 10. bekk undir samræmt mat til undirbúnings umsóknar um framhaldsskóla á viðkomandi sviðum.
6. Nemendur senda inn umsóknir sínar um þá skóla sem stefnt er á. 
7. Framhaldsskólarnir fá í hendur algerlega sambærilegar niðurstöður og vinna úr þeim.

Ég veit að það vakna ótal spurningar í þessu sambandi, en kjarninn er sá, að mér finnst foreldrar og grunnskólar  verði að taka undirbúning fyrir umsókn um framhaldsnám föstum tökum. Það hefur átt sér stað og á sér stað feikileg sóun á hæfileikum margra ungmenna sem hafa lagt í nám sem þau hafa ekki áhuga á eða hæfni til að stunda. Því þarf að breyta.

Á sextánda ári eiga unglingar að vera færir um að takast á við krefjandi verkefni, streitu og kvíða í hæfilegum skammti. Slíkt tel ég vera góðan undirbúning fyrir framhaldið.


23 apríl, 2015

Ólygnir sögðu mér

Það hefur ekki farið fram hjá þeim sem lesið hafa þessi skrif mín, að ég hef haft nokkurn áhuga á þróun mála sem tengjast fyrrum sláturhúsi SS hér í Laugarási. Eftir að slátrun lagðist af 1989 var húsið að mestu í reiðileysi þar til það var selt, ásamt landinu 1998, en þar skyldi hafinn veitinga- og hótelrekstur. Í sem stystu mál gekk það upp og ofan og á endanum gekk það ekki og Byggðastofnun eignaðist heila klabbið. Undanfarin sumur hefur einhver hreyfing verið þarna á köflum, fremur fálmkennd, án þess ég viti svosem mikið um það, frekar en það sem hér fer á eftir:

Allir þeir punktar sem hér eru nefndir eru óstaðfestir og því ber að taka þeim með fyrirvara:
Ég hef sem sagt heyrt eftirfarandi:

a. Byggðastofnun seldi húsið (og væntanlega landið) og sveitarstjórn Bláskógabyggðar fékk ekkert að vita um það.

b. Opinber starfsmaður á svæðinu varð var við að eldur logaði utandyra við sláturhúsið, fór á staðinn og benti fólki, sem þar dundaði sér við að bera það sem lauslegt var út fyrir húsið, á bálköst, á að slíkt væri bannað og til þess arna ætti að nota gáma. Hann fékk ekki jákvæð viðbrögð við tilmælum sínum um að viðkomandi létu af verknaði sínum.

c. Kaupendur væru tengdir ferðþjónustufyrirtæki, sem meðal annars væru umsvifamiklir í fólksflutningum.

d. Kaupendur tengdust BSÍ

e. Kaupendur hygðust rífa sláturhúsið og byggja þess í stað hótel.

f. Það hafi sést þrívíddarteikning (módel) af umræddu hóteli, sem flokkast geti undir glæsihótel.

g. Á þrívíddarteikningunni er hótelið bogalaga á þrem hæðum og sú hliðin sem snýr að Hvítá er úr gleri. Þakið er að hluta einnig úr gleri og á hugsunin að vera sú, að þar fyrir neðan geti gestir setið í hægindum og fylgst með norðurljósum.

h. Að kaupandinn og sá sem er í forsvari, sé fyrrverandi vert á ......(vil ekki ganga og langt).


Reynist allt þetta vera rétt og satt (ef frá eru dregnir liðir a. og b.) þá er það sannarlega fagnaðarefni.
Betri staður en Laugarás, í hjarta uppsveita Árnessýsu, með ótal möguleikum til stuttra ferða þar sem helstu djásn landsins er að finna, er vandfundinn.

Reynist þetta allt vera steypa, er það auðvitað leitt, en maður fékk þó að ylja sér við tilhugsunina litla stund :)

Ég kvika, þrátt fyrir þetta, ekki frá þeirri skoðun minni, að í Laugarási verði byggt hjúkrunarheimili í tengslum við Heilsugæslustöðina.

Hinumegin við girðinguna

Auðvitað er við hæfi að óska ykkur, ágætu lesendur, þess að sumarið megi verða ykkur gjöfult og gott (með mikilli sól á pallinum).
Þessi fyrsti morgunn sumars kveikti einhvern neista til að skjótast að Geysi og Gullfossi. Veðurblíðan í Laugarási var einstök, eins og ávallt, og ég henti mér í jakka (ekki tók ég húfu með, eða trefil, eða vettlinga), greip myndvél og tilheyrandi græjur og síðan lá leið okkar fD í norðurátt þar sem við blasir ægifagur, fannhvítur fjallahringur (reyndar ekki neinn hringur, heldur bara fjöll sem standa hlið við hlið á mörkum óbyggðar og byggðar, en það er bara flottara og venjulegra að segja fjallahringur).
Við Geysi var mannlaust (tveir túristar).
Það var einnig kalt á Geysi (ég ómögulega klæddur fyrir næðinginn). Þar var umhverfið heldur nöturlegt. Undanfarin ár hefur umhverfið sem geymir þetta einstaka svæði verið að drabbast niður, hellulögnin, þar sem hún er, er meira og minna úr lagi gengin, bandspotti sem afmarkar gönguleiðir hangir á skökkum steyputeinum, grasþúfur graslausar, útfellingar orðnar að dufti, runnið úr göngustígum, allt úttroðið og þunglyndisvaldandi. Geysir hefur verið niðurlægður.
Það var ekki laust við að einhver vonleysistilfinning kæmi yfir Kvistholtsbóndann við að ganga um þetta umhverfi eyðilagðrar náttúruperlu. Framundan eru heimsóknir hundraða þúsunda ferðamanna, sem eru fullir tilhlökkunar að líta gersemarnar, en við þeim mun blasa eyðilegging. Strokkur mun að vísu standa fyrir sínu, en skelfing er þarna lítið annað áhugavert.
Geysissvæðið er í mínum huga táknmynd græðginnar, sem flytur inn ferðamenn selur þeim mat, selur þeim drykk, selur þeim gistingu, selur þeim ferðir, selur þeim glingur.
Selur þeim ekki aðgang að náttúrunni svo unnt verði að auka þol hennar fyrir ágangi.
Já, græðgin lætur ekki að sér hæða.

Ég varð bjartsýnni við að fara út fyrir girðinguna og yfir veginn, en þar er allt að gerast. Hótel, veitingastaðir og verslun, allt snyrtilegt og vel við haldið. Fyrir norðan hótelið er búið að grafa fyrir mikilli stækkun, og þyrla lenti á þyrlupallinum í þann mund sem við áttum leið hjá. Það er ánægjulegt að sjá hve myndarleg og kröftug uppbyggingin er þarna megin við veginn.

Það er ekki sama hvorumegin vegar maður er við Geysi.

Hver getur krafist þess að eigendur landssvæðisins sem flestir ferðamenn sem til landsins koma sækja, taki til óspilltra málanna við að bjarga því sem bjargað verður? Svona gengur þetta ekki lengur.


Við lögðum leið okkar einnig að Gullfossi, en það er önnur saga.


03 apríl, 2015

Að eiga kökuna og étana

Álftirnar kvökuðu í morgun þar sem volgran frá lóninu rennur í Hvítá og ég freistaði þess að láta sem ég svæfi, en vissi að það myndi ekki leiða til þess að það yrðu úr því einhver raunverulegur svefn. Sú varð heldur ekki raunin. Ég er farinn að sjá afskaplega margt jákvætt við að þurfa ekki að sofa langt fram eftir morgni. Eitt af því sem gefur morgnum gildi er tækifærið sem þeir veita manni til að velta fyrir sér stóru málunum. Gallinn við þær vangaveltur, hinsvegar er, að þær verða ekkert nema vangaveltur. Sannarlega tekst mér að leysa mörg stór mál í huganum, en jafnskjótt geri ég mér grein fyrir tilgangsleysi pælinganna og þeirra lausna sem spretta fram í hugskotinu.

Hér læt ég fylgja eitt dæmi um það sem ég nefni hér fyrir ofan.

Ég hef lengi velt fyrir mér hversvegna þessi þjóð horfir meira vestur yfir haf, til Bandaríkja Norður Ameríku þegar leitað er fyrirmynda eða lausna á verkefnum í íslensku samfélagi, en til þeirra þjóða sem næst standa okkur sögulega og landfræðilega. Mér hefur fundist þetta undarlegt og illskiljanlegt. Hér á ég t.d. við eftirfarandi:

- ameríski daumurinn og sá íslenski fela í sér það sama. Hér á einstaklingurinn hafa hafa frelsi til að verða ríkur og frægur. Þennan draum ala menn með sér þó möguleikarnir virðist oftast harla litlir. Þeir eru valdir til forystu sem lofa peningum í vasann, jafnvel þó það sé ekki það sem lofað er í raun. Það hljómar bara svo vel.

- foreldrar líta á það sem skyldu sína að borga allt uppihald og skólagöngu fyrir börnin sín og finna hjá sér þörf til að safna í sjóð "college fund" í því skyni.

- það eiga að vera lágir skattar og á móti á fólk að þurfa að greiða sérstaklega fyrir heilbrigðisþjónustu og skólagöngu barna sinna.

- ljósvakafjölmiðlar keppast um áhorf með auðmeltu afþreyingarefni sem að mestu eru framleitt í Bandaríkjunum, þar sem "góði kallinn" sigrar og amíslenski draumurinn fær að rætast.

- það er horft til dollarans þegar rætt er um nýja mynt.

- unga fólkið fer á "deit" og það gefur Valentínusardagsgjafir.

Ég gæti tínt margt til sem bendir til þess að þessi þjóð þrái að líkjast þjóðunum sem byggja risaveldið í vestri, en ég nenni því bara ekki.

Skv uppl. frá Hagstofu Íslands. Ef rennt er yfir dagskrá
Stöðvar 2 og Skjás 1s blasir við að stærstur hluti erlends
efnis á uppruna í Bandaríkjunum.
Áhrif þessa á þjóðarsálina þurfa ekki að koma á óvart.
Á sama tíma og þráin eftir að "meikaða" eða verða rík og fræg einkennir þjóðina, með öllum þeim óstöðugleika sem því fylgir, eru háværar kröfur um að við fáum að njóta þess sem kallað er "norræn velferð". Ef fólkið "meikar" það ekki á þessu landi og fær ekki fullnægjandi aðstoð þegar ekkert gengur, þá er horft til nágrannalandanna þar sem, jú, skattar eru háir, en launin eru hærri og samfélagið veitir á móti þjónustu án endurgjalds. Þar er ekki greitt fyrir læknisþjónustu, túlkaþjónustu og skóla svo einhver dæmi séu nefnd.  Þessi samfélög eru kannski ekki mjög spennandi fyrir fólk sem elur í brjósti sér íslenska drauminn. Þau eru  fyrirsjáanleg og kannski frekar leiðinleg að einhverra mati, en veita á sama tíma öryggi og stöðugleika.

Lukkuriddarar samtímans berja á því að þetta land sé land hinna frjálsu, land möguleikanna, landið þar sem fólkið getur orðið svo óendanlega ríkt af veraldlegum auði. Það er minna gert úr því að þetta sé ef til vill einnig landið þar sem yfirborðsmennska, populismi, sjálfsdýrkun og plebbaskapur eru helstu einkennin.

Ég held að fari ekkert á milli mála hvora tegund þjóðfélags ég aðyllist. Þessi þjóð veit hinsvegar varla í hvorn fótinn hún á að stíga.



29 mars, 2015

Einskis manns eða allra.

Á æskuheimili mínu var þvottur upphaflega þveginn í hvernum. Síðan kom til sögunnar þvottavél í samræmi við vaxandi efni, en mesta byltingin í þvottamálum varð þegar á heimilið kom þvottavél sem bar nafnið Centrifugal Wash. Ég minnist þess að mér þótti nafnið frekar töff og hætti ekki fyrr en ég komst að því hvað það merkti. Það voru engin vandræði með WASH hlutann, sem augljóslega þýddi þvottur. Ég komst fljótt að því að CENTRIFUGAL var samsett orð  þar sem fyrri hlutinn merkti miðja og sá síðari flótti. Þar með var komin merkingin á heiti vélarinnar: MIÐJUFLÝJANDI ÞVOTTUR. Síðan rann auðvitað samhengið upp fyrir mér, eins og nærri má geta: þvottavél af þessu tagi byggði á því að nota miðflóttaaflið við vindingu á þvottinum, með því belgurinn snérist á ógnahraða og þrýsti  þvottinum eins langt frá miðju hans og mögulegt var. Vatnið í þvottinum þrýstist síðan úr þvottinum og út fyrir belginn, eftir varð þvotturinn, tilbúinn að að hengja til þerris.

Þessi inngangur á sér tiltölulega einfalda skýringu: Mér verður stundum hugsað til þessarar þvottavélar þegar ég velti fyrir mér málefnum sem tengjast uppsveitum Árnessýslu. Í því samhengi hugsa ég eins og Laugarásbúi, þar sem Laugarás er í miðju svæðisins. Síðan koma til kraftar, sem vel má kalla einhverskonar miðflóttaafl. Þessir kraftar hafa það í för með sér að flest sem gert er, eða flestar hugmyndir sem fram koma um uppbyggingu, sogast út úr þessari miðju.

Ég leyfi mér að halda áfram að hafa þann draum að uppsveitir Árnessýslu sameinist í eitt öflugt sveitarfélag og að þeir kraftar sem ákvarða staðsetningu þessa eða hins marki stefnu sem tekur mið af því að heildarhagsmunum íbúanna verði þjónað sem best.

Ég hef áður fjallað um hjúkrunarheimili í uppsveitunum. Það gerði ég hér, hér og hér. Ég vísa í þessi skrif ef einhver vill kynna sér það betur. Ég tel mig hafa sagt það sem ég hef að segja í þeim þrem færslum sem þar er um að ræða.

Árið 2010 var tekin í notkun brú yfir Hvítá sem opnaði stystu leið milli Reykholts og Flúða. Barátta fyrir brúnni hafði staðið lengi og því var haldið mjög á lofti að eini möguleikinn á að hún yrði að veruleika væri alger samstaða á svæðinu um mikilvægi hennar á þeim stað sem síðan varð. Á þeim tíma kom ég að sveitarstjórnarmálum í Biskupstungum og er minnisstætt hve mikil áhersla var lögð á þessa samstöðu. Mínar skoðanir á staðsetningu þessarar brúar voru ekki í samræmi við það sem barist var fyrir, en ég, með það að leiðarljósi að betri væri brú en engin brú, tók þátt í þeirri samstöðu sem þarna var um að ræða. Ég gerði mér fyllilega grein fyrir því, að þessi brú breytti engu í jákvæða átt fyrir Laugarás, enda er leiðin frá Laugarási að Flúðum nákvæmlega jafnlöng hvor leiðin sem valin er.

Árið 2010 var opnaður nýr vegur frá Laugarvatni á Þingvöll. Um þessa framkvæmd ríkti mikil samstaða hér á svæðinu og aðeins vegna hennar varð af þessari vegagerð. Vegalengdin frá Laugarási til Reykjavíkur breyttist ekkert við þessa framkvæmd. Hún er hinsvegar afar mikilvæg fyrir heildarhagsmuni íbúa í uppsveitunum.

Ýmislegt af þessu tagi kennir okkur, að ef við náum saman, þó ekki séu allir fullkomlega sáttir, þá náum við margfalt meiri árangri en með því að togast á innbyrðis.

Hjúkrunarheimilið sem rætt hefur verið í vetur er verkefni af þessu tagi. Það þarf að sækja fé í ríkissjóð til þess arna og ef við komum ekki fram sem eitt á þeim vettvangi verður þetta verkefni framkvæmt annarsstaðar.

Ég minni enn á, ef einhverjum skyldi ekki vera það ljóst, að Laugarásjörðin er í eigu allra uppsveitahreppanna. Þeir keyptu jörðina á 3. áratug síðustu aldar undir læknissetur. Þar réði framsýni för og við, sem svæðið byggjum búum við einhverja bestu læknisþjónustu sem völ er á á þessu landi.
Hér við hliðina er úrklippa úr Litla Bergþór frá 2011. Þar er um að ræða hluta úr erindi sem Þorsteinn Sigurðsson á Vatnsleysu flutti í útvarpið 1971.

21 febrúar, 2015

Friðhelgi einkalífs á heimavist


Þessi mynd og aðrar myndir með þessum pistli 
eru af lífi nemenda í Menntaskólanum að
Laugarvatni. Tilgangurinn með þeim er enginn annar
en að lífga upp á textann.
Til að taka af allan vafa þá endurspegla þær skoðanir sem ég kann að setja fram hér á eftir einungis mínar skoðanir og hafa ekkert með stofnunina sem ég starfa fyrir að gera.  

Ég vara mögulega lesendur við því að það sem fer hér á eftir getur ekki talist skemmtilestur. Hér er fjallað um aðstæður ungs fólks sem tekur þá góðu ákvörðun, að fara í framhaldsskóla með heimavist. Ég veit að ég tala fyrir munn margra með því að fullyrða að fáar leiðir eru betri til alhliða þroska en heimavistardvöl.  Þeir sem fara þess leið eiga yfirleitt vinafjöld til æviloka að henni lokinni.

Tilefnið
Tilefnið þessa pistils er að finna hér.
Þarna segir meðal annars:
Umboðsmaður barna, Margrét María Sigurðardóttir, segir að allar reglur um heimavist verði að vera í samræmi við réttindi nemenda sem eigi að sjálfsögðu rétt á friðhelgi til einkalífs eins og aðrir.
 segir Margrét.
Ef grunur vakni hins vegar um refsiverða háttsemi, til dæmis þjófnað eða vörslu fíkniefna, er hægt að hafa samband við lögreglu sem hefur heimild til að framkvæma leit vegna sakamálarannsóknar.

„Það þarf lagaheimild eða dómsúrskurð til þess að það sé heimilt að leita í herbergjum nemenda, en engin heimild er til þess í núgildandi lögum. Ég á því erfitt með að sjá að þessar reglur séu í samræmi við lög og réttindi nemenda,“
 Ekki efa ég að umboðsmaðurinn talar hér samkvæmt bestu vitund og í samræmi við það sem rétt er, samkvæmt lagabókstafnum. Við eigum rétt á friðhelgi einkalífs, hvort sem við erum börn eða fullorðin. Það er mikilvægt að uppeldisumhverfi barna sé verndandi og leiðbeinandi. Foreldrar eru ábyrgir fyrir því að skila börnum sínum til samfélagsins sem heilsteyptum einstaklingum. Þessa ábyrgð axla þeir með mismunandi hætti. Í auknum mæli gera þeir kröfur til þar til ætlaðra stofnana um að þær axli hluta ábyrgðarinnar á uppeldinu. Þar með má segja að þeir framselji uppeldishlutverkið að meira eða minna leyti til þessara stofnana, bæði að því er varðar menntun barnanna og aðlögun þeirra að þeim reglum og siðum sem samfélagið samþykkir. Foreldrar gera í mörgum, tilvikum meiri kröfur til þess uppeldis sem stofnanirnar taka að sér, en til sjálfra sín.

Þann 1. janúar 1998 tóku gildi lögræðislög, en samkvæmt þeim teljast einstaklingar sem orðnir eru 18 ára lögráða.  Þar með urðu allir einstaklingar sem voru yngri er 18 ára skilgreindir sem ólögráða, eða börn. Mér hefur reyndar alltaf verið frekar í nöp við þessa breytingu, ekki síst vegna þess að mér finnst að með henni sé verið að skilgreina hálffullorðið fólk sem börn, sem ekki þurfa að axla ábyrgð á sjálfum sér. Með þessu hefur sú þróun orðið, að smám saman hefur það síast inn í þjóðarsálina, að fólk teljist börn til 18 ára aldurs, ekki aðeins í lagalegum skilningi heldur einnig í raun.
Lögin eru svona, hvaða skoðun sem ég kann að hafa á því.

Sú skylda hvílir á hverju samfélagi, hvort sem það nú eru foreldrarnir eða stofnanirnar sem taka að sér uppeldi barna til 18 ára aldurs að koma börnunum til manns, sjá til þess að þau verið tilbúin til að takast á  við líf fullorðinna og sjálfstæðra einstaklinga.  Á skólunum hvílir ekki aðeins fræðsluskylda til 18 ára aldurs, heldur einnig uppeldisleg skylda.

Þetta var svona inngangur að umfjöllunarefninu.

Börn sem dvelja í heimahúsum þar til þau verða lögráða eru á forsjá foreldranna, svo sem vera ber. Þeim eru væntanlega innrættir góðir siðir og allt það. Þau hafa jafnvel eigin herbergi til umráða, en sem ábyrgir uppalendur, kenna foreldrarnir þeim að umgangast herbergið með viðunandi hætti, til dæmis að taka til og þrífa með reglulegu millibili. Börnunum eru einnig settar reglur um hvað má og hvað má ekki gera í herbergjunum.  Börnin undirgangast þær reglur sem foreldranir setja, enda eru það þeir sem bera ábyrgð á að börnin læri alla grunnþætti þess sem líf manneskjunnar í samfélagi manna krefst. Foreldrarnir áskilja sér eðlilega rétt til að fylgja reglunum eftir, meðal annars með því að athuga hvort umgegni og hegðun innan veggja þess er í samræmi við þær. Foreldrar telja sig líklega ekki þurfa dómsúrskurð til að leggja leið sína í herbergi barna sinna í þessu skyni.

Fólk sem fer að heiman á 16da ári í heimavistarskóla, er ennþá börn í skilningi laga og þar með flyst uppeldishlutverkið til heimavistarskólans að hluta til þann tíma sem þau dvelja þar. Heimavistarskólinn setur reglur um umgengni í herbergjum  og framgöngu barnanna, hvort sem er inni í herbergjunum eða í skólahúsnæði að öðru leyti. Þessar reglur eru ekki síst til þess ætlaðar að skapa heilbrigðar og æskilegar uppeldisaðstæður og sömu reglur verða augljóslega að gilda um alla þá lögráða og ólögráða einstaklinga sem þessi heimavistarskóli tekur að sér.
Þegar umsækjandi er tekinn inn í heimavistarskóla undirgengst hann skriflegar reglur sem gilda í skólanum og í heimavistarhúsnæði, þar með talið á herbergjum. Hann og forráðamenn hans þurfa að samþykkja með formlegum hætti þær reglur sem starfað er eftir. Það verður sem sagt til samningur sem segir efnislega að skólinn tekur eintaklinginn inn og lofar að tryggja öryggi hans innan veggja skólans og sjá honum fyrir menntun. Á móti samþykkir umsækjandinn og forráðamenn hans að undirgangast þær reglur sem skólinn hefur sett varðandi dvölina á heimavistinni. Þessi samningur byggir á 3. málsgrein 1. greinar húsaleigulaga nr. 36. 1994, en þar segir:

 Sé íbúðarhúsnæði leigt til ákveðinna hópa, svo sem námsmanna, aldraðra eða öryrkja, þar sem sérstakar aðstæður kalla á aðra skipan en lögin mæla fyrir um, er þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. heimilt, vegna sérstaks eðlis eða tilgangs starfseminnar, að víkja frá einstökum ákvæðum laganna með samningi.
Friðhelgi einkalífs - hvað er nú það?
Ég tek hér nokkuð öfgafullt dæmi.
Ef ég, lögráða einstaklingur, sit inni í bílnum mínum í rólegheitum og neyti áfengis eins og mig lystir, væri það líklega brot á friðhelgi einkalífs míns að rífa upp dyrnar á bílnum, gera áfengið upptækt eða hella því niður og láta mig gjalda þess með einhverskonar refsingu. Ef ég myndi hinsvegar skella mér í bíltúr við þessar aðstæður myndi málið horfa öðruvísi við. Ég væri þar með orðinn hættulegur samferðamönnum mínum og þar með búinn að brjóta  lög og hlyti viðeigandi refsingu ef ég yrði uppvís að akstrinum. Þarna kemur líklega til skoðunar t.d. 2. málsgrein 71. greinar stjórnarskrárinnar:
 71. gr. [Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.
 Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns.
 Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.]1)
Það má, sem sagt takmarka friðhelgi einkalífs þar sem um er að ræða að vernda réttindi eða öryggi annarra.

Ef ég velti nú fyrir mér aðstæðum á heimavist einhvers framhaldsskóla þá blasir það við að það þarf að huga að tvennskonar hagsmunum barnanna/unglinganna/hinna ólögráða einstaklinga:

1. Það þarf að tryggja velferð íbúanna, tryggja að þeir fái notið friðhelgi einkalífs, ekki aðeins gagnvart starfsmönnum skólans, heldur einnig öðrum íbúum. Þeir skulu njóta öryggis og heilbrigðra uppeldisaðstæðna í hvívetna. Þessir hagsmunir eru mikilvægari en aðrir.

2. Það þarf einnig  að huga að hagsmunum þeirra barna/unglinga/ólögráða einstaklinga sem kjósa að láta reyna á einhver mörk, eins og nokkuð algengt er meðal unglinga. Sannarlega eiga þeir að njóta alls þess sama og aðrir svo fremi að þeir fari ekki út fyrir þau mörk sem tilgreind eru í þeim samningi sem þau og forráðamenn þeirra gerðu við upphaf skólagöngunnar/heimavistardvalarinnar. Sá samningur, sem kallast yfirleitt heimavistarreglur, kveður á um það sem má og það sem ekki má  innan veggja þeirrar uppeldisstofnunar sem um er að ræða. Mikilvægur þáttur í þeim samningi er ákvæði um aðgang tiltekinna starfsmanna að herbergjum barnanna/unglinganna/ hinna ólögráða einstaklinga, til að tryggja öryggi þeirra, leiðbeina þeim, t.d. varðandi umgengni og til að hafa eftirlit með því að þau/þeir haldi þann samning sem gerður var við upphaf dvalarinnar.. Aðgangurinn sem þar er tilgreindur er engan veginn meira íþyngjandi en sá sem börnin/unglingarnir/ hinir ólögráða einstaklingar þyrftu að búa við byggju þeir á heimili foreldra sinna. Þarna má segja að ákveðinn réttur eða ákveðnar skyldur foreldris/forráðamanns séu færður yfir til uppeldisstofnunarinnar.

Meðan á dvöl í framhaldsskóla með heimavist stendur, ná börnin að verða 18 ára og þar með lögráða. Samningurinn sem þau undirrituðu heldur hinsvegar áfram fullu gildi. Það sem breytist er, að samskipti stofnunarinnar við foreldra hætta. 18 ára einstaklingur verður einn og sjálfur ábyrgur fyrir framgöngu sinni. Við þessar aðstæður hefur hann val: að undirgangast þann samning sem gerður var og gildir áfram, eða taka á leigu annað húsnæði, sem gerir minni kröfur til umgengni og hegðunar og þar með líklega hætta í viðkomandi skóla.

Niðurlag
Í upphafi þessa pistils vitnaði ég til orða umboðsmanns barna, og til upprifjunar þá voru þau svona:

Ef grunur vakni hins vegar um refsiverða háttsemi, til dæmis þjófnað eða vörslu fíkniefna, er hægt að hafa samband við lögreglu sem hefur heimild til að framkvæma leit vegna sakamálarannsóknar.„Það þarf lagaheimild eða dómsúrskurð til þess að það sé heimilt að leita í herbergjum nemenda, en engin heimild er til þess í núgildandi lögum. Ég á því erfitt með að sjá að þessar reglur séu í samræmi við lög og réttindi nemenda,“
Ég tel að umboðsmaður þurfi að taka tillit til þess að börn/unglingar sem dvelja á heimavistum eru þar í uppeldisumhverfi og í trausti þess að öryggi þeirra sér tryggt og að þau/þeir njóti sambærilegra uppeldisaðstæðna og börn/unglingar sem dvelja á heimili foreldra sinna.  Ég sé ekki fyrir mér, að unglingur geti sett foreldrum sínum verulegar skorður þegar kemur að aðgangi þeirra að herbergi hans. Á heimilinu gilda reglur sem uppalandinn setur, reglur sem miða að því að upp verði alinn heilsteyptur, sjálfsöryggur og dugandi einstaklingur.

Það er ekki bara svo, að allt geti snúist um rétt fólks. Rétturinn er auðvitað mikilvægur, en skyldurnar  eru það ekki síður. Þeir sem engar telja sig hafa skyldurnar geta ekki búist við að komast langt á rétti sínum einum saman.


25 janúar, 2015

Þorrablót 2015

Hvítá að morgni annars dags þorra. 
Ég gat horfið stoltur af þorrablóti Skálholtssóknar á bóndadagskvöldi og átti svo sem ekki von á öðru. Hafði heyrt af undirbúningnum mánuðum saman, ritun kvikmyndahandrita, kvikmyndatökum vítt og breitt, jafnvel við erfiðustu aðstæður, klippivinnu, þar sem krafa var gerð um niðurskurð sem var varla framkvæmanlegur, ritun handrita að lifandi atriðum og æfingar fyrir þau. Það er feikileg vinna sem er að baki svo metnaðarfullri dagskrá sem þorrablótsgestum var boðið upp á, meiri en margir geta ímyndað sér.
Fyrir mína hönd þakka ég öllum sem þarna komu að kærlega fyrir það sem fram var borið og ekki var annað að heyra en áhorfendur deili þessum þökkum með mér.
Þó bræður mínir hafi ítrekað látið í ljósi svo ég heyrði, málamyndakvartanir yfir hvað þetta væri mikil vinna, fór blikið í augunum ekki framhjá mér. Þeir nutu "stritsins" í botn. Það sama held ég að megi fullyrða um aðra þátttakendur einnig.

Allt þetta breytir þó ekki þeirri skoðun minni (sem er auðvitað til komin vegna persónueiginleika minna, aldurs og sjálfsagt annarra þátta) að félagsheimilið Aratunga er ekki nægilega stórt til að hýsa viðburð af þessu tagi. Þar sem ég sat við langborð í miðjum sal og var gert að rísa á fætur til að taka þátt í fjöldasöng, vafðist það fyrir mér, eins og flestum öðrum. Til þess að uppstandið tækist þurftu að eiga sér stað samningaviðræður við þann sem sat við næsta borð, til dæmis þannig að hann myndi fyrst færa sinn stól aftur svo langt sem unnt væri. Smeygja sér síðan upp af stólnum til hægri eða vinstri og ná þannig að rísa upp. Renna því næst stólnum sínum undir borð og opna þannig færi á að ég gæti rennt mínum sól aftur með sama hætti. Þessi aðgerð öll, kallaði einnig á samningaviðræður við þá sem sátu til beggja handa. Eftir þetta uppstand var síðan hægt að syngja af list áður en framkvæma þurfti sömu aðgerð í öfugri röð til að geta sest aftur.
Þrátt fyrir þessa vankanta var ég alveg sáttur og við fD hurfum á braut áður en við tók borðaflutningur af gólfinu upp á svið til að rýma fyrir dansandi gestunum.
Ekki neita ég því að það er ákveðinn "sjarmi" yfir þrengslunum og borðaflutningnum; kann að þjappa fólki saman og ýta undir samskipti, sem æ meir skortir á.

Miðasala á skemmtunina var auglýst svo sem hefðin segir til um. Miðarnir seldust upp á örskotsstund, sem varð tilefni til stöðufærslna á blótssíðunni. Þar leyfði ég mér að taka lítillega þátt og sendi frá mér eftirfarandi texta, sem ég læt fylgja hér með aðallega til að geyma hann á vísum stað. Í honum eru tilvísanir í það sem einhverjir aðrir settu þarna inn og því kunna einstaka setningar að virðast úr samhengi.

Forsíðumynd Þorrablótssíðunnar eftir fyrri miðasöludaginn.

Þorrablót er einn þessarar viðburða sem eru fastur punktur í tilveru margra Tungnamanna og tækifæri til að koma saman og skemmta sér kvöldstund fram á nótt. Ekkert nema gott um það að segja í sjálfu sér.
Það sem hinsvegar hefur gert mig fremur afhuga þessum skemmtunum (fyrir utan það að vera að eldast og róast) eru nokkur atriði:
1. Miðaskömmtun eða takmarkaður miðafjöldi, af augljósum ástæðum sem allir þekkja.
2. Borðadráttur, sem er auðvitað alger veisla fyrir spennufíkla, en heldur síðra fyrirkomulag fyrir þá sem vilja bara sæmilega góðan stað til að sitja á.
3. Þrengsli, en það segir sig sjálft, að með hámarksfjölda í húsinu þurfa sáttir að sitja þröngt, og líka ósáttir.
Svo vil ég bæta við fjórða þættinum, sem tengist þessu, en það er sú staða sem fólkið sem í undirbúningsnefnd/framkvæmdanefnd lendir í, algerlega án þess að hafa til þess unnið. Það selur miðana á blótið svo lengi sem þeir eru til, eftir einhverjum reglum sem ég veit ekki einu sinni hvort eru skýrar, og þegar miðarnir eru búnir situr það ef til vill undir einhverjum meiningum um að það misfari með eitthvert vald. 
Í aðdraganda að þorrablóti Tungnamanna er réttlæti fyrir alla vandséð.
Auðvitað má spyrja sig hvort það sem ég nefndi sé nauðsynlegur hluti af þorrablótum Tungnamanna: það þurfi að vera spenna, það þurfi að vera hasar, það þurfi að vera þröngt.  Sé svo, þá er þetta bara þannig samkoma og ekkert meira um það að segja.
Sé vilji til að setja þessa ágætu skemmtun upp með öðrum hætti, er það örugglega ekkert stórmál.
Ein(n) þeirra sem hér settu inn færslu að ofan töldu mig vera kjarkaðan að nefna hlaðborð og jafnframt að ég gæti átt von á krossfestingu ;). Ég get fullyrt að frá minni hendi snýst það ekki um neinn kjark, enda finnst mér það afar skemmtilegur siður að hver komi með sinn mat til þorrablóts.  Það er hinsvegar ekkert sem bannar það, mér vitanlega, að þegar ásókn í þessa skemmtun er orðin svo mikil sem raun ber vitna, að allir geti átt kost á þorrablótsfyrirkomulagi við sitt hæfi.
Annar sem hér tjáði sig hér fyrir ofan sagði: „krossarnir eru tilbúnir“. Mig langar nú eiginlega dálítið að sjá þá krossa. J
Ég hef ekki reynslu af því að ætla að fá miða á knattspyrnuleik og ekki fengið. Reikna reyndar ekki með að verða nokkurn tíma þeirri reynslu ríkari. Ég er hinsvegar viss um það, að ef KSÍ hefði mögulega átt kost á því að flytja leikinn sem hér hefur komið til tals, á annan völl sem tæki kannski 15000 manns í stað 10000 þá hefði það verið gert.

13 janúar, 2015

Hikstandi nútímalíf

"Þarf þessi snúra að liggja þarna með loftinu og svo niður á gólf?"
Það getur hver og einn giskað hver átti þessa spurningu (sjá hér). Umrædd snúra var í, nýfyrrverandi vinnuaðstöðu fD í kjallaranum. Ég hafði við upphaf internetstenginga fengið símamann til að koma hér og sjá til þess að ég hefði slíkt samband í þá verðandi vinnuaðstöðu minni sem er nú nýfyrrverandi vinnuaðstaða fD.  Vð síðustu hrókeringar innanhúss, sem áður hefur verið greint frá, var þessi snúra allt í einu orðin óþörf, enda wi-fi um allt hús.

"Nei, það er engin þörf fyrir hana lengur", svaraði og sagði svo ekki fleira um það mál, heldur hófst, innan ekki of langs tíma (ég er farinn að átta mig á í stórum dráttum hvenær tími er orðinn of langur) handa við að taka snúruna niður. Það gekk ágætlega að losa hana frá veggnum og þar kom, að ég stóð með dósins fyrir tölvutenginguna í höndunum, opnaði hana og sá fjóra fíngerða víra sem lágu inn í dósina og voru þar festir með einhverjum hætti tveir og tveir. Til þess að ná snúrunni var ekki um annað að ræða en losa hana af vírunum, sem ég gerði, átakalaust með naglbítnum á heimilinu. Nú var snúran laus, utan sá endinn sem hvarf inn í vegg þar sem síma og rafmagnslagnir liggja inn í húsið. Á einu augabragði beitt ég naglbítnum aftur og gat þar með gangið frá snúrunni. Sá endinn sem gekk inn í vegginn hvarf snyrtilega inn í holu sína.
Að þessu þarfaverki loknu hélt ég aftur á efri hæðina og lét fD eftir að halda áfram að bardúsa í nýfyrrverandi vinnuaðstöðu sinni. Þar stendur mikið til, svo ekki sé meira sagt.

Þar sem ég var kominn upp lá leið mín í nýuppgerða dyngju mína til að senda pósta og vinna í vinkonu minni henni Innu. Sú vinna helgast af því, að í dag stundaði heimavinnu, eða fjarvinnu þar sem ekki þótti mögulegt að stunda staðvinnu. Á bak við þessa yfirlýsingu er löng og flókin saga sem ekki verður rakin hér.
"Not connected to the internet" var það fyrsta sem blasti við mér þar sem ég freistaði þess að senda póst, sem ég hafði lokið við að skrifa, þegar aðgerðin sem lýst er hér fyrir ofan hófst. Ég reyndi aftur, og aftur og enn aftur, en það breytti engu. Ég endurræsti allt saman, eins og manni er stundum sagt að gera þegar tölvudót virkar ekki. Ég fór meira að segja inn í "advanced settings" til að leita upp mögulega bilun. Gerði reyndar ekkert þar, þar sem það gæti orðið til þess að ég framkvæmdi eitthvað óafturkræft.
Nú lá fyrir að gera frekari rannsóknir á ástæðum þess að samband náðist ekki við netið eina. Það fólst í að fara í fartölvu á svæðinu og athuga hvort þannig gengi betur. Það reyndist ekki vera.
Ég endurræsti beininn (routerinn) án árangurs. Ég prófaði að hringja í heimasímann, sem einnig var árangurslaust.
Þarna kom það mér í fyrsta skipti í hug að sambandsleysið gæti tengst með einhverjum hætti snúrunni í nýfyrrverandi vinnuaðstöðu fD.
Það fór um mig hrollur og ég fann fyrir ýmisskonar ónotum, aðallega taugatengdum.
"Var ég búinn að klippa í sundur samband heimilisins við umheiminn? Ef svo væri, hvernig átti ég að fara að því að koma því í lag? Væri þá búið með að ég gæti hunsað leikjabeiðnir á Fb í allan dag? Myndi ég ekki geta fylgst með hvað vinir mínir eiga falleg börn? Myndi umræðan um ófarna Parísarför alveg fara framhjá mér? Gæti ég ekki einusinni horft á fréttirnar í sjónvarpinu í kvöld? Hvernig færi þessi dagur eiginlega?"

Með allar spurningnarar í höfðinu fór ég niður í kjallara þar sem fD stóð í stórræðum við að undirbúa nýfyrrverandi aðstöðuna sína fyrir allskyns fínheit, sem verða umfangsmeiri eftir því sem hún dvelur lengur þarna niðri.

Þarna lá fyrir að skrúfa niður plötu, á bakvið hverja er rafmagnsinntakið og símainntakið, en um það snérist málið.  Af ótrúlegri yfirvegun og ævintýralegu innsæi, með flækju af allskyns vírum í höndunum, tókst mér að lifa mig inn í hlutverk símamannsins, rekja vírana sem komu að utan, saman og vírana sem komu að innan einnig. Eftir nokkrar tilraunir tókst mér að festa endana í dósina sem hafði hýst fyrrum tölvutenginu í fyrrverandi aðstöðu minni og nýfyrrverandi aðstöðu fD. Einhver sem býr hér í nágrenni við mig myndi kalla þetta "skítamix" en ég er ekki frá því að allar tengngar um þessar lagnir séu miklu hraðari eftir en áður.
Tölvan tilkynnti eftirfarandi:"CONNECTED TO THE INTERNET", póstarnir voru afgreiddir og Innumálin, fyrstu barnamyndirnar voru skoðaðar, nokkrir leikir hunsaðir og nýjustu tilvitnanir vegna ófarinnar Parísarfarar lesnar. Svo eru það fréttirnar í kvöld.

Mér kom það oft í hug í dag að nútímamaðurinn er kominn út á ansi hálar brautir. Var lífið ekki talsvert miklu öruggara þegar maður sneri tvær stuttar og ein löng, þegar dagblaðið kom í bunkum einusinni eða tvisvar í viku, þegar það var greiða uppi á þaki til að ná útsendingu sjónvarps?
Það eru tveir örmjóir vírar sem tengja þetta heimili við allt annað en beinlínis viðveru í eigin persónu. Mér finnst að það þurfi að vera til varaleið, en ætli það breyti miklu? 

04 janúar, 2015

Marsipan

Maður þarf endalaust að vera að taka afstöðu til einhvers. Oftast gerir maður það á grundvelli þess sem maður telur vera rétt.  En hvernig kemst maður að þeirri niðurstöðu að eitthvað sé rétt, og að eitthvað annað sé rangt?

Mér finnst marsipanmolarnir í konfektkassanum heldur misheppnuð framleiðsla og hún höfðar ekki til mín. Það mun enginn geta kallað eftir samstöðu minni um að krefjast þess að það verði bara framleiddir marsipanmolar. Ég mun leyfa mér að gagnrýna þá skoðun að marsipanmolarnir séu einu ætu molarnir í kassanum.

Talsmenn marsipanmolanna komust til valda í þessu landi með því að lofa kjósendum því að það yrðu margir frábærir molar í gylltum og silfruðum umbúðum, með alveg nýju marsipanbragði í kössunum ef þeir kæmust til valda. Þeir halda svo áfram að segja þjóðinni að marsipanið sé gott og að við eigum að sýna samstöðu um það. Þeir þola illa raddir sem reyna að halda því fram að marsipan sé vont.

Það var mikið rætt um samstöðu þjóðarinnar í ávörpum fyrirmenna um áramótin.

Kannski verða bara marsipanmolar í konfektkössunum um næstu jól.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...