Sýnir færslur með efnisorðinu Skóli. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Skóli. Sýna allar færslur

18 mars, 2011

Takk, Sko....

Nú áðan skelltum við fD okkur á frumsýningu nemenda ML á frumsömdu verki sem kallast Sko....  Vettvangur verksins er heimavist skólans og þar takast á fulltrúar mismunandi tónlistarstefna. Inn í það allt saman blandast síðan ýmislegt það sem ætla má að eigi sér stað í heimavistarheimi þar sem kynni eru náin og ýmislegt látið flakka.

Hér er á ferðinn harla skemmtilegt verk, ekki síst fyrir það að það var frumsamið að öllu leyti, bæði tónlist og texti. Slíkt ber að meta.


Auðvitað bar verkið keim af því að ekki voru atvinnumenn á ferð, en samt var þetta afskaplega vel gert. Ég vil ekki síst nefna tónlistina, sem var auðvitað frumsamin eins og annað. Hljómsveitin stóð sig heldur betur í stykkinu.


Þá sýndu allnokkrir leikarar afbragðs takta.

Guðbjörg Guðjónsdóttir, formaður árshátíðarnefndar
ásamt leikstjórunum Árnýju Fjólu Ásmundsdóttur og Brúsa Ólasyni

12 mars, 2011

Sköpunarskrall

Ekki ætla ég mér að fara að kvarta yfir sólskininu sem lætur það eftir sér að lauga storð skjannabirtu á frostköldum laugardegi á góu. Meðan hörmungar ganga yfir réttláta jafnt sem rangláta einhversstaðar í fjarskanum, heldur maður áfram að líða í gegnum nútíðina eitthvert inn í framtíðina, ekki bölvandi neinu nema flestu því sem manni er í nöp við. Það að vera í nöp við eitthvað gerir manni nú ekkert gott, svona á heildina litið. Ég fæ til dæmis ekki mikla útrás fyrir nöp mína við það að lýsa hneykslan minni á illa kveðinni vísu - geri það nú samt - engum til framdráttar eða gleði.
Ég get tekið mig til, svona til tilbreytingar, og leitt hugann frekar að því, sem hefur birtist manni í dagsins önn með von um að veröldin er nú ekki öll að fara til fjandans.

Ég hef látið mig hafa það að tjá mig um málefni sem tengjast börnum og unglingum, ekki síst þar sem vinnan mín tengist fólki sem er að baksa við að verða fullorðið. Ég hef haldið því fram að við séum ekki að skapa þessu fólki besta mögulegt uppeldisumhverfi, og fer svo sem ekkert ofan af því. Þrátt fyrir uppeldislegt umhverfi er þarna á ferð hópur sem á það til að koma manni talsvert á óvart, og dæmi um slíkt átti sér einmitt stað í gær.

Þannig er, að á mínum vinnustað er það fastur liður í starfi vetrarins, að starfsmenn allir taka sig til og gera sér dagamun með því að varpa af sér hversdeginum með annarskonar starfi. Eitt af því sem þar gerist er liðakeppni, þar sem þeim sem yngri eru keppa sín á milli í ýmsum greinum. Þeir eldri setjast í dómarasæti og stig eru reiknuð þannig að sigurvegari kemur í ljós. Sama fyrirkomulag hefur verið á þessum keppnum í allmörg ár og ákveðin þreyta farin að gera vart við sig. 
Það kom fram sú hugmynd (meðal hinna eldri) að gera nú tilraun til breytingar á þessari keppni. Í stað þess að þátttakendur hlypu tímamældir um víðan völl og leystu þrautir var ákveðið að þessu sinni skyldi áherslan vera á skapandi keppni; nú skyldu liðin keppa að stærstum hluta í skapandi greinum.

Til að ekki veldust einhverjar, mögulegar klíkur í lið, tóku þeir eldri sig til og skikkuðu unglingana holt og bolt í lið með einhverjum félögum sínum. Liðunum var síðan ætlað að velja sér foringja, sem síðan sæi til þess að valdir yrðu fulltrúar til að leysa þær þrautir sem þeir eldri höfðu útbúið af kostgæfni. Til þess að leysa þrautirnar höfðu liðin síðan að hámarki einn og hálfan klukkutíma.  Þrautirnar sem um var að ræða voru:
Leiklist (skrifa og flytja leikverk, þar sem uppfylla varð tiltekin skilyrði)
Tónlist (semja lag og texta um tiltekið efni og flytja)
Skapandi skrif (skrifa texta um tiltekið efni)
Myndlist (teikna og mála myndir út frá tilteknum forsendum)
Síðan voru einnig þrautir fyrir þá sem  það hentaði betur:
Útivist (leysa verkefni með GPS tæki)
Raungreinar (ýmis verkefni leyst)
Hreysti (keppni í þrautabraut)

Það varð mitt hlutskipti að gerast dómari í tónlistarkeppninni. Ekki átti ég nú von á stórkostlegum afrekum á því sviði á svo stuttum tíma sem var til umráða. Þarna sátum við tvö og hlustuðum á sjö frumsamin lög og texta. 
Ég væri ekki að skrifa þetta nema fyrir það, að ég reyndist verða hálf gapandi yfir því sem út úr þessu kom. Sumt alveg einstaklega gott, bæði lag, texti og flutningur - auk sjálfsagðrar kurteisi, að sjálfsögðu, en einn þeirra þátta sem metinn var, var framkoma við dómara.

Tónlistarflutningurinn og leikverkin voru öll tekin upp á EOS550D í HD og verða flutt einhversstaðar þegar ég er búinn að læra að klippa myndupptökur af þessu tagi - nú er komið tilefni til.

Þetta var ekki leiðinleg keppni, reyndar bara harla skemmtileg, ekki síst fyrir það, að þarna voru nánast allir þátttakendur virkir í keppnisgreinum, bæði hlaupagikkirnir og þeir sem ekki hafa fengið að blómstra í fyrri keppnum af þessu tagi.


25 febrúar, 2011

"Ennþá með legið í brókinni"

Ég hef áður vikið lítillega að því að fyrir skömmu sótti ég námskeið í skyndihjálp ásamt samstarfsmönnum mínum. Leiðbeinandinn var afar hress og skemmtileg kona frá Árnesingadeild Rauða krossins - hélt athygli viðstaddra óskiptri í ríflega fjóra klukkutíma.

Meðal þess sem fjallað var um voru viðbrögð við því þegar stendur í einhverjum í nánasta umhverfi manns. Leiðbeinandinn lýsti helstu aðferðum sé nýttust vel við fólk á ýmsum aldri og í ólíkar aðstæður. Meðal þeirra aðferða sem fjallað var um var svokölluð Heimlich-aðferð, sem beitt er eins og sjá má á skýringarmyndinni sem fylgir hér. Leiðbeinandinn greindi frá hvernig henni skal beitt á mismunandi aldursskeiðum og eftir mismunandi ásigkomulagi þeirra sem stæði í.  Einn var sá hópur sem mun þurfa að greina lítllega áður en gripið er til Heimlich-aðferðarinnar, en það eru vanfærar konur. Þá þarf fyrst að athuga hvort viðkomandi er (hér vísast til fyrirsagnarinnar). Þó svo einhverjir kunni að halda því fram, að málfarið sem leiðbeinandinn notaði, sé í óheflaðri kantinum, þá verður því varla á móti mælt, að það er afar myndrænt og athyglisvekjandi.

Ég rétt sé sjálfan mig framkvæma slíka greiningu við þessar aðstæður. Hvar byrjar t.d. brókin? Það hlýtur að fara eftir ýmsu, sem ég ætla ekki einu sinni að reyna að fabúlera um. Það verður hver að gera fyrir sig.

19 febrúar, 2011

Þrír vitrir apar

Í gær var ég í aðstæðum sem á einhvern undarlegan hátt ollu því að mér varð hugsað til hinna þriggja vitru apa og einnig til spakmælisins: Það sem þú þekkir ekki getur ekki skaðað þig.  Ég held að svona sé þetta í mörgu með okkur mennina: sumt viljum við ekki vita: viljum ekki heyra af því, viljum ekki sjá það og viljum ekki tala um það, því þar með erum við búnir að opna á hluti sem betur hefðu verið látnir eiga sig.

Fyrir 15-20 árum gegndi ég starfi námsráðgjafa við stofnunina sem ég eytt unganum úr ævinni í. Ég er þannig innréttaður, að ef ég tek eitthvað að mér vil ég helst vita hvað ég er að gera. Því var það, að þegar mér var boðið á námskeið fyrir námsráðgjafa, sem fjalla skyldi um sjálfsvíg ungmenna, sló ég til. Það væri nú ekki verra fyrir mig að vera vel upplýstur um þessi mál í þeirri stöðu sem ég var. Samt var eitthvað sem sagði mér að um þetta vildi ég helst ekkert vita; það væri of alvarlegt til að ég vildi þurfa eitthvað að gefa mig út fyrir að þekkja til þess. 
Námskeiðið var afskaplega áhugavert og fræðandi. Þarna fjölluðu færir sálfræðingar um þetta fyrirbæri, sögðu reynslusögur og kenndu þátttakendum hver væru helstu merkin sem gæfu til kynna hvort einstaklingur væri í sjálfsvígshættu og fóru yfir hvernig unnt væri að bregðast við í slíkum tilvikum. 
Þátttakan í þessu námskeiði gerði líf mitt ekkert einfaldara, þvert á móti. Mánuðum saman á eftir var ég afar upptekinn af að leita að merkjum hjá unglingum sem komu í viðtal hjá mér vegna einhverra persónulegra vandamála. Oftar en ekki fannst mér að um gæti verið að ræða einstakling í sjálfsvígshættu. Þetta gekk meira að segja svo langt, í undantekningartilvikum, að ég var farinn að velta fyrir mér hvort skólinn þyrfti ekki að koma sér upp vinnuferli til að takast á við áföll af þessu tagi, en slíku var ekki til að dreifa þá. 
Það verð ég að viðurkenna, að oft fannst mér að ég hefði ekki átt að fara á þetta námskeið - það hefði verið betra að þekkja bara hreint ekki of mikið til þessara mála (What you don't know can't hurt you).

Þetta rifjaðist upp fyrir mér í gær þegar blásið var til námskeiðs í skyndihjálp fyrir starfsmenn þessarar sömu stofnunar. Vissulega var þarna um að ræða frekar hraðsoðið námskeið þar sem farið var í öll helstu áföll sem við getum lent í að takast á við einhverntíma. Nafnið á þessu fyrirbæri er afar lýsandi fyrir það sem um er að ræða: eitthvað alvarlegt kemur fyrir einhvern í umhverfi okkar og þá getur það oft skipt sköpum að viðbrögð séu rétt og fumlaus. 
Þarna var á ferð fær sérfræðingur í skyndihjálp sem fór á líflegan og skemmtilegan hátt í gegnum afskaplega alvarlegt efni. Þarna þurfti enginn á skyndihjálp að halda (þrjú persónulíki á mismunandi aldursskeiðum voru notuð til sýnikennslu), en það var ekki laust við að ég velti fyrir mér hvernig ég myndi bregðast við ef ég stæði frammi fyrir aðstæðum af því tagi sem þarna var lýst. Ég held nú reyndar að adrenalínflæði yrði til þess að ég velti stöðunni ekki fyrir mér með sama hætti og við þessar námskeiðaðstæður. Ég myndi væntanlega reyna að vera gerandi í aðstæðunum. Hinsvegar held ég að ég þyrfti talsvert ýtarlegra og nákvæmara námskeið til að nálgast stórslasaðan einstakling af einhverju öryggi.

Eftir námskeiðið ók ég heim á leið og mætti bílum á leið minni. Undarlegt er frá því að segja, en ég velti fyrir hvernig ég myndi bregðast við ef einn þessara bíla æki út af veginum rétt áður en ég mætti honum, og ylti einhverjar veltur fyrir augum mér. 

Ég er viss um að þetta bráir af mér innan skamms, vona auðvitað að aldrei þurfi ég að nota hraðsoðna skyndihjálparþekkingu mína.

08 febrúar, 2011

Að notfæra sér aðstæður

Það gerðist um helgina, sem hlaut að gerast fyrr eða síðar: ég varð að takast á við að hætta orðspori mínu sem maðurinn sem verður aldrei veikur. Þetta lagðist að um helgina, auðvitað. Á mánudagsmorgni var ekki um annað að ræða en að tilkynna á vinnustaðinn að ekki gæti orðið af því að ég kæmi til vinnu þennan morguninn.
"Nú, er það út af stormi í Laugarási?" Það var fJ  sem svaraði loks í símann á kennarastofunni, (enda átti ég ekki von á að fG á skrifstofunni kæmist til vinnu eftir stanslausa snjókomu alla nóttina). Að sjálfsögðu var ekki svo, enda er, eins og allir vita, aldrei stormur í Laugarási, alltaf logn. Helst að maður heyri hvína í trjátoppunum í mesta óveðri. 
"Nei, það er vegna þess að það er stormur innan í mér", svaraði ég, til að halda samlíkingunni - fannst ófrumlegt að segjast bara vera veikur.
"Ég skila þessu til fG, mér sýnist bíllinn vera að koma." 

Þar með lauk símtalinu með þökkum frá mér.

Það næsta sem gerðist var, að á vegg minn á fésbókinn var komin setningin: "Svo bregðast krosstré sem önnur tré.", sem ég svaraði óðara með eftirfarandi hætti: "Það kemur að því þegar flest þessi óbreyttu tré hafa brugðist. Vil frekar hafa hann svona: Eftir bregðast krosstré öðrum trjám."  Svar við þessum snilldarleik mínum barst seint og um síðir: "Verði þinn gráðugi vilji", sem mér er í rauninni ekki alveg ljóst hvað merkir, en kýs, með tilliti til fG (sem hér var á ferðinni) að túlka sem svo að hún telji að þarna hafi komið fram slík snilld að engu væri til að svara. Nema þá að viðhorf hennar til mín sé samsvarandi því sem fram kemur í hinum kristna texta sem þarna var vitnað til, svo ekki varð um villst. 

Það gerðist nú ekkert frekar í þessum málum fyrr en í morgun að ég lét mig hafa það, hreysti minnar einnar vegna, að skella mér á vinnustað til að reyna að reisa við orðspor mitt, en þá komst ég að því að veikindi höfðu verið eina umræðuefni gærdagsins á vinnustaðnum, svo mikil tíðindi höfðu þarna verið á ferðinni.

Það vissi ég að fG myndi taka mér fagnandi með sínum hætti, enda varð sú raunin. Samskiptin hófust með því að hún tilkynnti mér að það væri ekkert að mér, hverju ég svaraði á þann veg að það væri alveg rétt - þetta væri ekki nokkur skapaður hlutur. Þá fór auðvitað eins og ég vissi - hún hóf að vorkenna mér svo fárveikum - ég þyrfti nú bara að drífa mig heim og ná þessu úr mér. Þessu hélt hún áfram fram að hádegi með þeim afleiðingum að ég var farinn að efast um að ég kæmist heim hjálparlaust. Það var sprottinn út á mér kaldur sviti og hnerrar og hóstar voru óstöðvandi. Ég fór heim með fyrra fallinu, með von um á mér tækist að koma þessu í lag með lítilli vorkunnsemi frá fD, en auðvitað fór það svo að hún bauðst til að taka að sér skylduverk mitt þennan daginn, auðvitað ekki mín vegna, heldur þess sem njóta skyldi verka minna. Ég veit þó að annað býr að baki.

Öfug sálfræði verður seint ofmetin. 

Það er huggun harmi gegn að veikindin áttu sér stað á þeim degi sem flestir starfsmenn í vestrænum ríkjum kjósa að tilkynna veikindi. Sætt er sameiginlegt skipbrot.

14 desember, 2010

Gegn straumnum

Það sem ég skrifa hér á eftir er ekki allra. 
Auðvitað er punkturinn sem ég vel til að senda þetta frá mér, af gefnu tilefni, sem enn skýtur stoðum undir áratuga skoðun mína á því hvernig námi verður best háttað. Ég er strax kominn með efasemdir um að rétt sé að leggja af stað í þessa vegferð, ekki síst vegna þess að hún virðist harla tilgangslaus. Ég er líklega kominn á það lífsskeið að það er auðvelt að afgreiða mig sem fastan í einhverri fortíð og að ég beri ekki skynbragð á nútíma skólastefnur.

Það má bara vel vera.

Á þessum tímapunkti nenni ég nú ekki að fara út í að skrifa langloku máli mínu til stuðnings, því enda þótt ég eigi nokkra trausta og rétthugsandi lesendur, þá lít ég bara á það sem of mikla vinnu fyrir ekki meira fjölmenni.

Í mínum huga felst traust nám í því af öðlast góða heildarmynd. 
Það er byrjað að mála þessa mynd strax í fæðingu í faðmi foreldra, síðan fer málningarvinnan fram með stöðugt skipulegri hætti í leikskóla og grunnskóla. Í framhaldsskólanum hefst ákveðin sérhæfing, en þó þannig, að mikilvægi almennrar þekkingar og færni fá að fylla út í málverkið og tengja þannig saman þá fleti sem fókusinn er mestur á. 
Í lok framhaldsskólans á að vera komin góð mynd á verkið. Þá tel ég eðlilegt að þess sé farið á leit að viðkomandi geti gert grein fyrir myndinni, lýst henni og því samspili sem á sér stað milli ólíkra þátta hennar. 
Til að vera nú ekki að týna mér í þessari samlíkingu þá þýðir þetta einfaldlega, að það er í mínum huga afskaplega mikilvægt í menntun ungs fólks að það öðlist heildarmynd af því samfélagi sem það á eftir að eyða ævinni í: sögu þess, menningu þess, reglum þess, samskiptum innan þess, ábyrgð sinni innan þess, og svo framvegis, og svo framvegis. 
Nú, þegar samfélagið er flóknara en nokkurn tíma og því enn meiri ástæða til að tryggja staðgóða þekkingu á því og færni til að komast af innan þess, er drifið í því, undir taktslætti útrásarvíkinga, að stefna að því leynt og ljóst að stytta nám í framhaldsskólum. 

Það voru sett ný lög.

Við erum búin að komast að því á undanförnum árum, að það er ekki allt með felldu í íslensku menntakerfi. Þetta bara fullyrði ég, og ætla ekki hér og nú að leiða að því rök, enda tel ég þess ekki þörf.

Kröfur eru stöðugt að aukast á skóla um innra eftirlit og skýra markmiðssetningu. Þetta er komið á það stig að ég, í það minnsta, fæ það á tilfinninguna, að eftirlitið og markmiðssetningin séu að verða mikilvægara í skólastarfi en að koma unga fólkinu til manns. Það má halda því fram, að skólum sé ekki lengur treystandi til að sinna meginhlutverki sínu af bestu getu.

Það hefur verið að aukast stemning fyrir því að búta námið niður í vel skilgreindar einingar, án þess að úr því myndist hin nauðsynlega heildarmynd. Svo ég taki aftur samlíkinguna við málverkið. Bútanámið felur í sér, að það er málað þetta fína græna hús í hægra hornið. Svo er það bara búið. Því næst er máluð rauð glæsibifreið í vinstra hornið. Svo er hún búin. Þá kemur þessi dásamlega manneskja í óræðum lit efst fyrir miðju. Henni er þar með lokið.  Það sem vantar í þessa mynd er samhengið milli þessara þátta. Hvernig tengist t.d. bíllinn húsinu, eða manneskjan bílnum? Hvernig leiðir liggja þarna á milli? Það er sem sagt talsverður skortur á bakgrunni í þessa mynd.

Skyldi það vera svo, að hraðnámið sem hefur verið til umræðu undanfarna daga sé eitthvað í likingu við svona mynd. Er ekki hætta á að myndin sem verður máluð með styttra námi í framhaldsskólum verð jafn brotakennd.

Í stuttu máli:
Ég vil 4 ára námí framhaldsskóla þar sem náminu lýkur með því að nemandinn geti lýst allri myndinni sem hann er búinn að vera að mála undanfarin 20 ár. 

Þá er hann tilbúinn til að halda áfram.

11 desember, 2010

5,49

Alltaf er nú jafn skemmtilegt og gefandi að fara yfir blessuð prófin, ekki síst vegna tilfinningarinnar sem hellist yfir mann að því verki loknu.
Ég er nú búinn að ljúka mínum þætti í slíku verki á þessari haustönn.

Þannig er með einkunnagjöf í framhaldsskólum, að kennurum ber að gefa einkunnir í heilum tölum, þ.e. 3,4,5,6.... o.s.frv. Ég segi nemendum mínum, að þegar endaleg einkunn lendir einhversstaðar mitt á milli heilla talna þá leyfi ég mér að horfa á nemandann, ekki bara út frá þeirri hæfni eða hæfnisskort sem hann sýnir í greininni, heldur þeim eiginleikum öðrum sem hann býr, eða býr ekki yfir. Þarna koma til athugunar svo ófrumlegir þættir sem tímasókn, framkoma, viðhorf, holning, skipulag á námsgögnum, og margt annað sem ekki verður upp talið hér, en fellur undir huglægt mat mitt. 
Því miður kemur það ekki oft fyrir, að lokaniðurstaðan, þegar allt hefur verið reiknað saman, lendir á þessum óskastað mínum á einkunnaskalanum. Það kemur þó fyrir. Við þær aðstæður lendi ég oftar en ekki í þeim klassísku aðstæðum kennarans, að fara að vorkenna ræflinum, eftir að hafa haft í heitingum með sjálfum sér, aftur og aftur, að meta niður frekar en upp ef aðstæðurnar yrðu þannig.

Skyldi ég nú hafa fengið langþráð tækifæri til að færa nemanda niður samkvæmt þessum viðmiðum?
Skyldi ég hafa gert það með góðri samvisku?
Skyldi mér bara líða nokkuð vel með það?

Jah, ætli maður verði ekki, í ljósi meðferðarinnar sem sálfræðilektorinn fékk þegar hann lét í ljós frústrasjónir sínar á fésbók, vegna óþolandi lélegrar námsvinnu verðandi sálfræðinga, að láta lesendum eftir að giska á hver niðurstaða mín varð.

13 nóvember, 2010

Frá eyju til eyjar


Allt var fólkið hjálpsamt og vingjarnlegt, veðurfarið ljúft, aðstæður allar hinar þægilegustu, meira að segja á mælikvarða ofdekraðra Vesturlandabúa. Það fór hinsvegar ekki fram hjá manni, að það kraumar undir; það er ýmislegt óuppgert: frá því Tyrkir gerðu innrás 1974 virðist ekki hafa gróið um heilt og ekki varð vart við að reynt væri að dylja andúðina, jafnvel hatrið, á hernáminu.  Skólabörnin tóku meira að segja þátt í að tjá þessi viðhorf. Ef maður horfir á landfræðilega staðsetningu virðist ekkert eðlilegra en að Tyrkir fari með yfirráðin, enda örstutt þangað. Þarna er hinsvegar á bak við saga sem ég treysti mér ekki til að fjalla um. Veit það, að vegna legunnar er ekki við öðru að búast en að ýmsar valdamiklar þjóðir hafi haft áhuga á að ráða þarna ríkjum. 
Eftir frelsisbaráttu kom að því, að yfirráðum Breta lauk, og lýst var yfir sjálfstæði. Það er samt enn ekið á vinstri vegarhelmingi. Það var ekki að sjá á landslaginu að mikið væri ræktað. Aðal atvinnuvegurinn er ferðaþjónusta og mest er flutt inn af þeim vörum sem þarf. Þarna búa um 860000 manns. Mikill fjöldi innflytjenda, að stórum hluta frá fyrrverandi Sovétríkjunum fluttist þangað á ákveðnu tímabili. einhver sagði þá vera um 15% þjóðarinnar.
Það eru ekki nema 240 km loftlína til höfuðborgar Líbanon, sem eitt og sér gefur til kynna, að þarna er heitt í fleiri en einum skilningi.
---------------------------------                                                       

---------------------------------
Ástæða ferðar til Kýpur, er ákvörðun sem við Laugvetningar tókum fyrir tveim árum: að sækja ráðstefnu ESHA (Evrópusamtök skólastjórnenda) í Limassol á Kýpur í nóvember 2010. Þarna fórum við fD áramt 26 skólastjórnendum og mökum í 6 daga ferð til þessarar mögnuðu Miðjarðarhafseyju. Það var flogið héðan til Manchester á Englandi og þaðan var 4 tíma flug til Larnaca flugvallar (með millilendingu, sem ekki var í upphaflegri ferðaáætlun) þar sem beið ríflega 50 km akstur til áfangastaðarins. Þá tók við ráðstefna hjá mér í tvo og hálfan dag þar sem áhersla var á að fjalla um húmaníska nálgun að skólastarfi, en fD gat flatmagað á meðan í blíðunni. Kl 2 að nóttu var síðan lagt af stað til Íslands aftur, með millilendingu og bið á Heathrow í London. Það er aðallega þetta flugstand allt saman sem ég hef að athuga við svona ferðalag - endalaus biða og biðraðir - annað eins gott og á verður kosið.

24 júní, 2010

Ósamræmd sumargleði

Það er komið undir lok júnímánaðar og allt í einu stend ég frammi fyrir því að vera kominn í sumarleyfi. Það er ekki laust við að öfund geri vart við sig í garð þeirra kollega minna sem áttu þess kost að yfirgefa vinnustaðinn eins og kýr á vori fyrir mánuði síðan, en það er væntanlega til lítils að vera að velta sér upp úr því. Undanfarnir dagar hafa verið einkennileg blanda af ánægju með mikla aðsókn og depurð vegna þess að við þurftum að vísa talsverðum fjölda umsókna frá. Þessu hafa síðan fylgt símtöl áhyggjufullra foreldra: "En er ekki einhver möguleiki á að gera undantekningu?"
Það þýðir heldur ekkert að vera að velta sér upp úr því. Hver sagði svo sem að maður eigi rétt á að fá allt sem maður vill? Hver sagði að lífið væri dans á rósum?

Eitt það versta við inntökuferlið er ef til vill óvissan um hve mikið er að marka þær tölur sem fylgja umsækjendum frá grunnskólum. Er nemandi með 6,5 frá þessum skóla kannski bara betri í stærðfræði en nemandin frá hinum, sem er með 9, vegna þess að kennarinn í þeim fyrrnefnda gerir meiri kröfur en kennarinn í þeim síðarnefnda?

Samræmt próf voru lögð af, af ýmsum ástæðum. Ein þeirra var sú að þau sköpuðu álag fyrir nemendur. Álag og áhyggjur er eitthvað sem börnin okkar eiga ekki að þurfa verða fyrir. Þau skulu vernduð fyrir öllu illu hvað sem tautar og raular.  Önnur ástæða var sú, að síðasti bekkur grunnskólans fór eingöngu í undirbúning fyrir þessi vondu próf. Það var náttúrulega val skólanna, með hagsmuni nemenda ða leiðarljósi. Er það bara ekki orðið svo nú, að með hag nemenda að leiðarljósi, gefa skólanir þeim háar einkunnir til að auka líkur þeirra á að komast inn í "góða" bóknámsframhaldsskóla til þess að þau geti orðið stúdentar?

Mér finnst vitleysan í þessum málum vera að aukast og vil fá samræmd próf aftur. Það er hreint ekkert að því að 15 ára fólk þurfi að taka einhverja ábyrgð á sjálfum sér. Samræmd próf væri vel hægt að hafa þannig að ekki sé eitthvert tiltekið námsefni að baki. Hversvegna ætti þetta að vera eitthvað meira mál hér en í öðrum löndum þar sem samræmd próf eru lögð fyrir nemendur. Það liggur við að ég gangi svo langt að halda því fram að við séum að ala upp kynslóðir sem halda að það muni alla tíð verða þannig að einhver komi þeim til hjálpar þegar eitthvað bjátar á.  Ég geri það hinsvegar ekki þar sem ekki er ólíklegt, lesendur góðir, að einhver ykkar muni líta á það sem ólíðandi sleggjudóma.

Þar með held ég að ég loki þeim kafla sem liðinn vetur hefur verið og snúi mér að því að vinda ofan af mér í rólegheitum. Þetta byrjar allt aftur í byrjun ágúst.

15 maí, 2010

Fjörutíu árum seinna

Þessari helgi verður að mestu eytt í að rifja upp lif eða líferni sem átti sér stað fyrir 10 árum minna en hálfri öld. Eftir veturlangan undirbúning skólafélaga í Héraðsskólanum á Laugarvatni, veturinn 1969-70, mun á fjórða tug fyrrverandi unglinga koma saman á Laugarvatni til að rifja upp liðnar mótunarstundir.
Hlutverk mitt í þessum undirbúningi hefur verið tvennskonar:
A. -  að sjá til þess að hópurinn fái tækifæri til að skoða sig um innandyra í Héraðsskólahúsinu og
B. - að tryggja að "pöbbarölt" geti átt sér stað.
Þessum ábyrgðarmiklu hælutverkum hef ég að sjálfsögðu reynt að sinna af kostgæfni, en það verður síðan að koma í ljós hve vel hálfsextugur hópur fyrrverandi skólafélaga lætur að stjórn.
Í hópnum afar minnisgott fólk, og það er ekki laust við að nokkurrar tilhlökkunar gæti, þegar það hefur upp raust sína: "Já, í þá daga gerðist nú margt eftirminnilegt, og það held ég nú. O, jamm og já."

- myndina á, og tók Karl Skírnisson - 

Skólanum stýrði á þessum tíma hinn litríki Benedikt Sigvaldson, ásamt konu sinni (geri ég ráð fyrir) Öddu Geirsdóttur.

------------------------------------------

Leturstærð á bloggskrifum mínum hef ég valið m.t.t. .þess, að lesendahópurinn er að líkindum kominn af léttasta skeiði í sjónarlegu tilliti. Þetta met ég ekki síst þar sem ég sjálfur þarf í sífellu að stækka letrið sem lesa þarf, eins og t.d. hér.
_______________________________

13 maí, 2010

Aldrei nógu gott

Það er í eðli okkar (má reyndar deila um það) að vera aldrei fyllilega ánægð með það sem við höfum. Við ákveðum einhverja stefnu í lífinu, en sjáum þá yfirleitt fljótt að stefna einhverra annarra er líklegast betri. Reynum við síðan þeirra leið, er allt eins líklegt að sú sem við völdum í upphafi hafi hreint ekki verið svo galin, þegar allt kemur til alls.
Það er einmitt vegna þessa þáttar í sálarlífi okkar mannanna sem hægt er að selja okkur hluti af ýmsu tagi; farsíminn sem okkur hefur dreymt um lengi, veitir ekki þá fullnægju sem hann átti að gera, því við höfum séð einhvern vinanna með síma sem hlýtur að vera miklu flottari og betri.

Nú langar mig, samkvæmt því sem hér hefur verið sagt, í nýja myndavél. Ég á svo sem fína vél, EOS400, sem dugir auðvitað. Hinsvegar hef ég verið að taka myndir á EOS550 undanfarið, með þeim afleiðingum, að mér finnst að ég þurfi að fá mér slíka græju. 


Þó fD telji að ég eigi að láta það eftir mér, í stað þess að vera að safna upp í arf handa eftirkomendunum, þá er eitthvað í eðli mínu sem segir að maður eigi ekki að vera að eltast við allt sem er nýtt og betra. Það á síðan í átökum við annað sem segir, svo ekki verður misskilið, að þetta verði hreinlega að gerast.

Á þessari stundu hef ég ekki ákveðið hvað verður úr.
Myndin er úr EOS550 - tekin af vatnsslag á Laugarvatni.

05 mars, 2010

ÉG KANN EKKI Á TÖLVU!

Fyrirsögnin felur í sér talsvert afgerandi yfirlýsingu og þarfnast því lítilsháttar útskýringa, eða kannski ekki.
Hverjum kemur það svo sem við hvort ég kann á tölvu?
Hver getur yfirleitt haft áhuga á að vita það?

Í gegnum árin hefur það oftar en ekki lent á mér í vinnunni sem ég stunda, að aðstoða samstarfsmenn og nemendur sem kunna minna en ég, við hitt og þetta sem tengist tölvum. Oftar en ekki tekst mér á einhvern óútskýranlegan hátt að bjarga viðkomandi, þó svo ég sé óþreytandi við að láta vita af því að ég kunni ekkert umtalsvert í þessum málum. Þarna hefur sannast málshátturinn: Í landi hinna blindu er það sá eineygði sem er kóngur.

Staða mín, þegar tölvur eru annars vegar er sú, að það fer af mér það orð, að ég kunni sitthvað fyrir mér, með þeim afleiðingum, að oftar en ekki sit ég uppi með vanda sem leysa þarf. Vegna þess hvernig ég er innréttaður - einstakt gæðablóð sem ekkert aumt sjá - þá fæ ég ekki af mér að þverskallast við óskum sem lúta að tæknimálum. Það er nefnilega svo, að orðspor mitt snýst ekki eingöngu um tölvur orðið, heldur um tæknimál almennt.

Dæmi um það sem ég hef þurft að taka að mér á því sviði er að þegar ekkert hljóð heyrðist frá kvikmyndinni sem var verið að sýna, var kallað á mig til að snúa takkanum sem er notaður til að hækka og lækka. Í öðru tilviki var um að ræða að stinga skjávarpa í samband við tölvuna þegar engin mynd birtist á tjaldinu.

Svona er þetta bara.

Ég tek þessu öllu ljúflega og ég neita því ekki, að þegar mér tekst vel upp við svona björgunarstörf í fullri stofu af fólki, þá er gott að finna aðdáunaraugnaráðið sem fylgir mér á leiðinni út úr stofunni aftur.

Ég kann samt ekkert á tölvu.

30 janúar, 2010

Enn fallast mér hendur

Eins og aðrir Íslendingar átti ég þess kost að ganga í gegnum íslenska skólakerfið, fékk meira að segja að byrja í undirbúningsskóla hjá Sigurbjörgu, konunni hans Braga dýralæknis, ásamt nokkrum félögum í Laugarási, árið áður en haldið var til náms í barnaskólanum í Reykholti.

Þegar ég hafði lokið námi til fyrsta háskólaprófs varð það úr, að ég hóf störf við Reykholtsskóla haustið 1979, hvar ég síðan starfaði til 1986.

Stjórnmálaskoðanir þorra Biskupstungnamanna voru þá, eins og líklega núna og væntanlega eins og í flestum dreifbýlissveitarfélögum landsins, þannig, að fólk var annaðhvort sjálfstæðis- eða framsóknarmenn.

___________________________________

Þetta er einkennilegur formáli að umfjöllunarefninu, en helgast eingöngu af því að ég er ekki viss um hvort það sem ég vísa til gerðist þegar ég var nemandi í Reykholtsskóla (til 1966, líklega), eða á fyrstu árum mínum sem kennari þar.

Þarna var, sem sagt um að ræða tvo kennara. Annar þeirra var eitilharður sjálfstæðismaður, og þess vegna virtur þegn í samfélaginu, en hinn, einn af þessu fólki sem taldist af flestum samfélagslega varasamt, og gat því varla orðið annað en töskumanneskja í sveitinni.

Sjálfstæðismaðurinn var duglegur að halda fram þeim gildum sem sá flokkur stóð fyrir og hinn reyndi það líka, að sínu leyti. Þetta varð til þess að sá síðarnefndi þurfti að sæta því að vera sakaður um pólitískan áróður og fá sérstakt tiltal fyrir. Sá fyrrnefndi hafði "réttar" skoðanir, en sá síðarnefndi "rangar".

________________________________________

Þetta kom upp í huga minn í gærkvöld, þegar okkur, þessum RUV-eingöngu þegnum þessa lands var boðið upp á bandaríska kvíkmynd frá 1986, sem bar íslenska heitið: "Stúlkan sem kunni að stafa".
Af sjálfspíningarhvöt einni saman, lét ég mig hafa það að sitja undir þessum ósköpum.
Ég hef nú fengið að sitja undir mörkum vestanhafskvikmyndum gegnum árin, en fáar hafa jafnast á við þessa í grímulausum áróðri fyrir þeim gildum sem þar var (og er) haldið á lofti.
Þarna vantaði enga af þeim klisjum sem á okkur hafa dunið síðustu áratugina, aðallega í gegnum kvikmyndir, sem eiga að sýna risaveldið sem sæluríki.

Ég get ekki haldið öðru fram, en að þessi boðskapur hafi komist vel til skila til íslensku þjóðarinnar. Það er ekki að ástæðulausu sem við höfum verið kölluð litla Ameríka.

Ef hér hefði verið um að ræða sovéska mynd frá Stalínstímanum, um fyrirmyndarríki kommúnísmans þar eystra, ef slíkt ríki væri enn til, ér ég hræddur um að á þessum degi hefðu margir þörf fyrir að tjá sig.

_______________________________

Við erum nú í tiltekinni stöðu sem þjóð. Ég leyfi mér að halda því fram, að umtalsverður hluti af ástæðunni fyrir því, sé ótæpilegur skammtur að vestan af áróðri fyrir yfirborðsmennsku ásamt yfirgengilegri þjóðernisrembu sem er íklædd velgjuvaldandi væmni.

Erum við farin að leggja hönd á hjartastað þegar þjóðsöngurinn er sunginn?


05 desember, 2009

Alltaf skyldi maður hugsa framtíðina í nútíðinni

Það hef ég oft sagt nemendum mínum, að það er aldrei hægt að losna við söguna. Það sem þú gerir í dag, mun með einhverjum hætti hafa áhrif á framtíðina.
Því nefni ég þetta hér, að á einum sólarhring hef hef ég fengið staðfestingu þess á sjálfum mér.

Fyrra tilvikið átti sér stað í gærkvöld, á ágætu jólahlaðborði starfsfólks á mínum vinnustað.
Þar kvaddi sér hljóðs fyrrverandi húsbóndi á heimavist skólans þar sem ég dvaldi í 4 ár forðum. Hann fjallaði um ýmis samskipti sín við nemendur á þeim árum og gerði nokkuð úr því hve erfiðir þeir hefðu verið viðfangs. Ég veit það nú, að ég hefði ekki viljað að staða mála nú væri sú sama og var þá.
Þar kom í frásögn þessa fyrrverandi húsbónda á heimvist, að hann sagði frá því, að hann og skólameistari hefðu orðið ásáttir um það, á ákveðnum tímapunkti, að húsbóndinn skyldi skrifa hjá sér, í sérstaka, til þess ætlaða bók, allt það sem gerðist á heimavistinni og sem vék frá þolanlegri hegðun nemenda. Bókin var gerð klár og húsbóndi hélt út á vist á nemendaveiðar. Í anddyrinu mætti hann mér, einhverjum mesta sakleysingja sem þarna hefur stundað nám, með nýkeypt, óopnað glerílát, á leið inn á herbergi mitt til að koma því þar fyrir á öruggum stað. Þetta gerði húsbóndi upptækt, en sá aumur á mér og leyfði mér að njóta lítils brots af því sem ílátið geymdi. Afganginum segist hann hafa hellt í vaskinn, sem að mínu mati er ekki allskostar rétt, þar sem ég tel mig hafa nálgast téð ílát þegar skóla lauk að vori.
Þetta atvik skráði húsbóndi í bókina sína, en ekkert eftir það af athöfnum nemenda. En bókina geymdi hann með einni notaðri blaðsíðu. Af þessari blaðsíðu frétti ég síðan mörgum árum síðar, þegar sonur húsbóndans var nemandi minn, og hóf að tjá sig um innihald blaðsíðunnar.

Seinna tilvikið átti sér stað í dag, þegar ég, ásamt virðulegri frú undan Hlíðum lentum í fréttaviðtali sem reyndist, okkur báðum til mikillara undrunar, snúast um hæfileika ritstjóra Morgunblaðsins í sálmagerð.
Ég bíð nú og vona að viðtalið það verði ekki birt, þar eð það var frekar vandræðalegt.

Ef til vill tjái ég mig meira um þetta tilvik síðar.

----------

Þennan daginn eru hugir okkar Kvisthyltinga í höfuðborg Þýskalands, þar sem stúlka nokkur, okkur tengd, fagnar eins árs afmæli sínu.

22 nóvember, 2009

Memento mori?

Það er ekki svo, að ég geri mér ekki grein fyrir því að árunum sem ég hef lagt að baki, fjölgar. Hvert tilvikið á fætur öðru hjálpar mér við að halda þeirri hugsun lifandi. Tilefnið þessu sinni var eftirfarandi sem birtist á fésbókarstöðu eins vinar míns fyrir nokkrum dögum:




Hér ætlum við að reyna að safna saman Landsprófs og fjórðabekkjarnemendum frá vetrinum 1969-1970 til að halda einhverskonar samkomu vegna þess að 40 ár eru liðin frá því við sluppum burt þaðan.


Svona gerist þetta. Það eru elltaf einhverjir sem muna hvernig tíminn líður. Það hvarflaði aldrei að mér að svo væri komið í ævigöngunni sem raun ber vitni.

Þegar ég las þessa tilkynningu smellti ég auðvitað á hlekkinn og þá birtist síða og stofnandinn reyndist vera fullorðinn maður á sextugsaldri. Tveir aðrir á sama reki voru þá einnig búnir að gerast félagar í hópnum. Þarna mátti lesa heitingar um að hópurinn skyldi stefna að því að hittast í Héraðsskólanum á Laugarvatni á komandi vori. Síðan þetta var, eru liðnir nokkrir dagar og nú eru komnir 11, flestir að stíga sín fyrstu skref í þessum kima veraldarvefsins, aðrir reyndari. Mér þykir ekkert sérstaklega líklegt að meirihluti þeirra 43 (?) sem luku námi úr gagnfæðadeild og landsprófsdeild, vorið 1970, muni tilkynna sig þarna inn (kannski það þurfi að grípa til sendibréfa).
Í gegnum hugann tóku að fljúga myndir frá löngu liðnu tímabili ævinnar, sem hörðustu menn hafa guggnað á að fjalla um í rituðu máli (hér á ég við æskuvin og félaga sem hóf ritun ævisögunnar í skemmtilegum sprettum á fésbókinni. Skrifunum lauk þegar kom að því að hefja skólagöngu í HL).
Eins og má ímynda sér þá er það tímabil ævinnar sem hér um ræðir - á aldrinum 14-16 ára, sérlega viðkvæmt að mörgu leyti og erfitt að fást við svo vel sé, ekki síst vegna ýmissa pælinga og atvika sem þá eiga sér stað. Þarna fara nýjar kenndir á flug sem nokkurn tíma tekur að ná tökum á. Þarna fer unga fólkið að reyna vængina, ef svo má segja - svo ekki sé talað um ýmislegt annað. Þarna á sér stað margt sem ekki er rétt að fjalla ítarlega um opinberlega, en einnig margt sem nauðsynlegt er að halda til haga, meðan heilinn starfar enn nokkurn veginn eðllilega.

Það má kannski segja að minn akkilesarhæll sé, að fortíðin er mér huldari en mörgum öðrum. Vissulega fljúga myndir um höfuðið frá liðnum tíma, en það er oftar en ekki eitthvað sem ekki skiptir neinu máli.
Ég var ekki framhleypinn unglingur og tók ekki mikinn þátt í ýmsum þeim uppreisnartilburðum sem félagarnir gerðu sig gildandi í - kannski var það þess vegna, sem ég lenti aldrei upp á kant við skólastjórann, sem flestum hlýtur að vera ofarlega í minni. Kannski var ég bara músin sem læðist.
Ég reikna með, að það sem eftir lifir vetrar, muni hugurinn hverfa við og við til þeirra 3ja vetra ævinnar sem ég eyddi Í HL.

28 september, 2009

Ef þau hefðu vitað...... (4) - ferðarlok

Já, það var þá, undir lok borðhalds í Landnámssetrinu, að við, sem kusum hlaðborðið fórum að verða við einhvern óróa á súpuborðinu. Nafn var nefnt og það fylgdi með að viðkomandi hafi þurft að fara út. Meira heyrði ég ekki af þessu máli þar sem ég spurði ekki, vegna þess að ég er ekki forvitinn maður að eðlisfari.
Það var ekki fyrr en ég þurfti að skreppa út fyrir eftir að hafa troðið í mig af hlaðborðinu, í ótilgreindum erindagjörðum, að ég áttaði mig á hvað gerst hafði.
Undir klettasnös bograði manneskja og það varð fljótt ljóst að ekki gekk hún heil til skógar. Þarna fór góð súpa í grös undir klettasnös. Eftir stóð spurningin um hvað gæti hafa valdið þessum ósköpum. Ég var óðara kominn með 4 tilgátur í hugann og læt lesendur um að meta hver þeirra er nú líklegust:
a. Svæsin bardagaatriðin í Brák settu meltingarkerfið úr skorðum. Það var hugsanlegt á þeirri forsendu á hér væri um að ræða einu manneskjuna í hópnum sem var nægilega saklaus til að eiga erfitt með að takast á við Egil Skallagrímsson höggva mann í herðar niður.
b. Súpan var einnig mögulegur sökudólgur. Var þetta mögulega gömul Súpa Seiðkonunnar sem þarna hafði verið borin á borð. Það sem styður þessa kenningu, ef eitthvað er, er að hugsanlega hafi meltingarkerfi viðkomandi verið viðkvæmara en annarra súpumanna.
c. Eitthvað sem hefði gerst hvar sem viðkomandi manneskja var stödd þar sem eitthvað, sem ekki er rétt að nefna til sögunnar hér, þar sem þá myndi ég ganga of nærri farþegum mínum. Læt lesendur um að láta hugann reika og velta fyrir sér - þetta var nægilega óljóst.
d. Heimferðin sem framundan var. Ég var nokkuð fljótur að líta á hana sem líklegasta orsakavaldinn.

Hvað um það, það bráði lítillega af manneskjunni, svo það var ákveðið að leggja í hann. Ekki leist mér á blikuna þegar vélfararstjórinn komst að þeirri niðurstöðu, að best væri að manneskjan sæti frammí við hlið mér. Þannig gat ég átt von á hverju sem var, en það var nokkur huggun, að einhver hafði látið sér detta í hug, að láta hana fá stóran plastpoka, ef allt skyldi nú fara af stað áður en minnst varði.

Það var komið myrkur, það var hvasst og það haugrigndi í Borgarfjarðarhéraði og á Hvalfjarðarströnd. Áfram ók ég varlega til að eiga ekki á hættu að hljóðar athugasemdir bærust yfir öxl mér. Þetta hafði það í för með sér, að ég safnaði bílalest og leist ekki gæfulega á þann möguleika að þurfa í snarhasti að víkja út í kant með skömmum fyrirvara. Bílljós á móti blinduðu mig á meðan óþolinmóð bílljósin á eftir mér leituðu stöðugt leiða til að komast framúr. Ég var fastur í einhverju ferli sem ég gat með engu móti komið mér úr - að mér fannst. Ég varð stöðugt að hafa augun á mjóum veginum á sama tíma og ég þurfti að fylgjast með ljósunum fyrir aftan í baksýnisspeglinum veinstra megin, og ég þurfti að fylgjast með hvernig sjúklingnum hægra megin leið og reyna þannig að meta hvenær eða hvort ástand hans væri þannig, að ég gæti þurft að stansa úti í kanti í snarhasti. Á meðan sátu farþegarnir aftur í og gott ef vélfararstjórinn var ekki bara kominn aftast þar sem tilteknum kassa með tilteknu innihaldi hafði verið komið fyrir og sem hann nú nýtti sér nú ásamt öðrum sem þarna þurftu að auka sér kjark og kæruleysi.

Göngin voru framundan, öðru sinni. Ekki yrði það gæfulegt ef sjúklingurinn þyrfti að losna við meiri súpu þar niðri. Það varð því úr, þegar mjög nálgaðist göngin, að ég spurði:
"Heldurðu að þú hafir það af í gegn, eða á ég að stoppa einhversstaðar hérna?"
"Umm, umm, ööö - nei, ég held að þetta veri í lagi - oh oh æ"
Ég varð nokkuð feginn við þetta svar, því í myrkrinu, hvassviðrinu og rigningunni, með 10 bíla lest á eftir, leist mér ekkert á að reyna að leggja úti í kanti.

Aftur var auðvelt að borga og spennuþrungin ferðin niður í göngin hófst. Lesendum til mikillar undrunar, sjálfsagt, gekk sú ferð sérlega vel. Það æmti ekki í sjúklingnum og engin vafasöm tilvik litu þar ganganna ljós.

Uppúr komumst við og sjúklingurinn virtist vera hálfsofnaður þarna í framsætinu. Framundan var einn þáttur ferðarinar, sem þurfti að leysa og sem ég bar töluverðan kvíðboga fyrir: Ég þurfti að beygja til vinstri inn á bílastæði undir Esjurótum. Meða bílalestina á eftir og bílalest á móti og lélegar merkingar til að gefa til kynna hvar skyldi beygt í áðurnefndu veðri, var þetta fjarri því að vera tilhlökkunarefni. Ég vissi að bílastæðið nálgaðist, og nálgaðist. Myrkrið varð svartara, rigningin jókst og hvassviðrið færðist í aukana - ég pírði augun inn í sortann framundan í leit að vísbendinum um að bílastæðið nálgaðist.
Þarna birtist skilti sem tilkynnti að 200 m væru í beygjuna, allt í lagi, nema 50 m seinna birtist annað sem benti inn að stæðinu - það var þar sem átti að beygja. Nú varð ég að hugsa fljótt. Ég bremsaði nokkuð hraustlega svo kassainnihaldsnjótandi farþegarnir kipptust lítillega framávið án þess að þeir gerðu mikið veður úr því, um leið og ég skellti á stefnuljósi svo hálf vitifirrtir bílstjórarnir, sem ég hafði haldið fyrir aftan mig frá Borgarnesi, tækju ekki á það ráð að fara fram úr nákvæmlega þarna. Sem betur fer voru engir bílar að koma á móti svo ég snarbeygði inn á bílastæðissvæðið - nánast á tveim hjólum, því eins og ég hef áður greint frá, var þessi bifreið rækilega upphækkuð og því með þyngdarpunktinn mjög ofarlega. Við þetta köstuðust áðurnefndir aftursætameðreiðarmenn út í hægri hlið og síðan aftur til baka í þann mund er ég rétti kaggann af og stöðvaði síðan inni á planinu....................
Hjartað barðist við rifin, en svalinn og sjálfsöryggið geislaði af yfirborðinu.
Hér þustu 3 farþegar frá borði og áfram var haldið að Gljúfrasteini þar sem tveir til viðbótar kvöddu í flýti, en annar þeirra hafði ákveðið að ekki væri hættandi á þetta frekar - hann ætlaði að aka á eftir okkur að Laugarvatni. Lokaleggurinn hófst og ekkert það var í kortunum sem talið var að gæti orðið til trafala. en auðvitað varð það ekki svo.
Á Mosfellsheiði var svartaþoka, sem bættist ofan á myrkrið og rigniguna. Ég treysti því að ég myndi ekki grilla (borið fram eins og VILLA, sem er borið fram eins og TSJILLA) rollur sem hugsanlega væru að þvælast á veginum. Þegar nálgaðist Þingvelli létti þokunni. Nú var þetta örugglega komið, hugsaði ég um leið og ég tók eftir bílljósum í baksýnisspeglunum þrem: vinstra megin, hægra megin og í miðju. Þessi ljós nálguðust og ég reiknaði með, að brátt myndi bílstjórinn skella á lágu ljósunum svona til að auðvelda mér lífið, en það gerði hann sannarlega ekki og færðist nær og nær. Þar kom, að ég var eiginlega hættur að sjá hvað framundan var, vegna skjannabirtunnar úr speglunum þrem. (Þetta var orðið nánast eins og sviðsljósin í Seðlabankanum, ef einhver man eftir þeim). Ég tók á það ráð til að forða útafakstri, að hægja ferðina og við það versnaði ástandið svo, að ekki varð búið við lengur. Einhvers staðar í gegnum skjannabirtuna sem kom í veg fyrir að ég greindi veginn fram á við, sá ég skyndilega glitta í skilti sem benti að að við værum komin að þjónustumiðstöðinni. Ég tók áhættuna og beygði þar sem ég taldi að innkeyrslan væri og var heppinn. Ég átti von á að viðkomandi ökumaður héldi bara áfram með sín háu ljós, en af því varð ekki. Hann ók að hlið okkar og þá kom í ljós, að hér var kominn sá farþeganna, sem hafði farið úr fólkflutningabifreiðinni við Gljúfrastein. Í ljós kom, að hann hafði aldrei ekið þessa leið og vildi þessvegna koma í kjölfar okkar hinna.
Í sem skemmstu máli benti ég honum á að ef til vill væri rétt að aka með lágu ljósin það sem eftir var. Hann tók tilmælunum vinsamlega og áfram var haldið.

Eftir þetta bar ekkert til tíðinda, utan að vegna hratt vaxandi öryggis míns við aksturinn, ók ég heldur hraðar um holurnar á Gjábakkavegi en þegar lagt var af stað um morguninn. Við þetta hristist trukkurinn nokkuð og vélfararstjórinn, sem sat í aftasta sæti varpaði fram þeirri spurningu hvort ég ætlaði að hrista bílainn hans Gunna í sundur - sem auðvitað var aldrei ætlunin, enda gerðist það ekki.

Af fádæma öryggi renndi ég loks í hlað og skilaði þar af mér þeim farþegum sem eftir voru, alsælum eftir vel heppnaða ferð. Meira að segja sjúklingurinn æmti hvorki né skræmti alla leiðina, sem ég gat ekki skilið öðruvísi en svo, að aksturinn hefði verið óaðfinnanlegur.

Ef þau hefðu vitað...... já, ef þau hefðu vitað.

-----------------------------------------
Hér lýkur þessari frásögn.
Hún er byggð á ferð KEMEL og langflestar þeirra staðreynda sem til eru tíndar, eru réttar. Ég tók mér hinsvegar það bessaleyfi að túlka með mínum hætti það sem gerðist og bæta inn ýmsum viðhorfum og tilfinningum sem eiga, eða eiga ekki rétt á sér.

Í upphafi ætlaði ég að afgreiða þessa ferð snarlega, með einni færslu, en það fór eins og það fór,

Ég þakka þeim (ef einhverjir eru), sem hafa enst til að lesa þetta - ég hafði gaman af að skrifa það.

27 september, 2009

Ef þau hefðu vitað...... (3)

Eins og menn muna þá var komið að því að tína upp farþegana, þegar síðasta hluta lauk. Þar var ennfremur gefið í skyn, svo ekki verður misskilið, að það hefði ekki gengið eftir eins of til stóð. Þar var ekki of mikið sagt.

Það biðu tveir farþegar á tilteknum uppítökustað þegar til kom, en 3, misstressaðir, þ.m.t. fD, sem stóð með sínum og vélfararstjórinn, sem auðvitað gat ekki verið þekktur fyrir annað en sýna æðruleysi, voru þegar komnir í fólksflutningabifreiðina. Vélfararstjóranum varð ekki rótt við þetta og seildist inn á sig til að finna símanúmer þeirra sem ekki voru mættir eins og fyrir hafði verið lagt. Mér var rótt á yfirborðinu, en illur grunur var farinn að grafa um sig hið innra. Sá fyrsti sem hringt var í, kvaðst skyndilega hafa lagst veikur með kvef og hálsbólgu og höfuðverk (svona svipaðar afsakinir og maður þekkir svo vel úr aðalstarfinu). Sá næsti taldi sig vera kominn með svínaflensu, en áður en sú afsökun var borin fram, kvaðst hann alveg vera búinn að gleyma því, að ferðin væri þennan dag. Sá þriðji var ekki nægilega fljótur að finna sér sjúkdóm, þannig að ákveðið var að ná í hann heim til sín. Virkaði fremur órótt þegar í bílinn kom.

Þar með var haldið á örmjóan Gjábakkaveg með næsta viðkomustað að Gljúfrasteini. Gjábakkavegur var svona:

Það kom sér bara vel að vegurinn skyldi vera í þessu ástandi, því mér gafst þar færi á að kynnast hinum upphækkaða Ford Econoline, dísil, nokkuð - átta mig á elstu eiginleikum og stjórntækjum, fyrir utan það að nægur tími var til stefnu. Vélfararstjórinn hafði nefnilega gert ráð fyrir því í ferðaáætlun, að eitthvað gæti komið upp á - t.d. bílvelta eða árekstur. Hann hafði svo sem ekki sagt neitt um það, en mér fannst það augljóst.
Í gegnum þjóðgarðinn ók ég nokkuð yfir leyfðum hámarkshraða, enda er sá hraði bara ætlaður ökumönnum með 1 pro mill í blóðinu. Síðan tók við tiltölulega beinn og mjór vegur alla leið að Gljúfrasteini. Á þeirri leið gerðist þrennt, fyrir utan auðvitað hið augljósa: svalt, ytra öryggi mitt og innri ólgu og efasemdir.
1. Farþegarnir létu sig hafa það að kvarta yfir kulda. Voru reyndar orðnir krókloppnir, en höfðu ekki lagt í að biðja um að miðstöðin yrði sett í gang, væntanlega af ótta við að ég höndlaði það ekki, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Höfðu ekki áttað sig á hlutverki vélfararstjórans sem hafði svona hlutverk með hendi. Hann setti miðstöðina á blúss með þeim afleiðingum að þegar komið vara áfangastað voru allir í móki.
2. Vélfararstjórinn hringdi í námsráðgjafann (í námsleyfi) til að greina frá ferðatilhögun, en hún ásamt 3 öðrum áttu að koma til móts við okkur að Gljúfrasteini. Það fór nokkuð um mig þegar ég heyrði háværan hrossahláturinn í henni í gegnum símann þegar vélfararstjórinn greindi henni frá því hver væri ökumaður.
3. Stýrið á kagganum var þannig stillt, að ég sá ekki á hraðamælinn, en freistaði þess að aka alltaf á hóflegum og löglegum hraða (nema í gegnum þjóðgarðinn). Við og við kíkti ég þó yfir stýrið til að fylgjast með. Það gerði ég líka nokkru eftir hrossahláturssamtalið og uppgötvaði þá að tækið var komið á 120 km hraða.

Það var rennt í hlað að Gljúfrasteini, en þar sem þessi frásögn er ekki um þann stað, fjölyrði ég ekki um hann. Það er þó allt ágætt um heimsóknina að segja. Mér gafst þarna færi á að ná lítillega áttum fyrir næsta legg ferðarinnar, ekki síst þann hluta sem fól í sér að koma hátimbraðri bifreiðinni í gegnum Hvaðfjarðargöngin.

Síðustu farþegarnir voru teknir upp í á bílastæði undir Esjurótum, sem á eftir að koma nokkuð við sögu, en síðan lá leið þráðbeint að Hvalfjarðargöngunum. Ég fann fyrir stöðugt vaxandi svitaútstreymi og fannst farþegarnir vera grunsamlega hljóðir aftur í. Ég lét sannarlega ekki á neinu bera. Ávallt svalur.
Mig grunar að það hafi verið vegna þess að miðstöðin var enn á fullu, að einhverjir ferðalanganna tóku upp á því að leita að opnanlegum gluggum í afturhluta bílsins. Þeir fundu glugga og opnuðu hann upp á gátt, í þann mund er göngin birtust framundan. Skelfing var gangamunninn nú lítill.
Á tímabili var ég að því kominn að beygja inn Hvalfjörðinn, en hafnaði þeim kosti jafnharðan, þar sem þá myndi hópurinn verða af leiksýningu og kvöldveði, meira að segja þó enn hefði vélfararstjórinn áætlað feikilega rúman tíma til að komast frá Gljúfrasteint í Borgarnes.

Ég lét vaða í göngin.
Torfærufólksflutningabifreiði rakst ekki upp undir, en það var rétt með naumindum að mér tókst að mæta þeim sem á móti komu - átti allt eins von á því að strauja hægri hliðina. Ekki leist mér á blikuna þegar lengra var komið niður í göngin þegar mikil ólykt af útblæstri ótal ferðalanga sem þarna höfðu átt leið um, gerði vart við sig. Glugganum, sem opnaður hafði verið, var lokað í snarhasti, en það virtist engu breyta. Vélfararstjórinn leitaði leiða til að stöðva inntöku á óloftinu í gegnum mistöðina, en fann enga. Þegar ofan í botn ganganna var komið þótti mér sýnt orðið að þaðan kæmumst við aldrei upp vegna þess, að mér var orðið ómótt og taldi að næst myndi ég missa meðvitund vegna CO2 mengunar.
Ég tórði, og að því kom að mér fannst að ferðin upp á yfirborðið væri hafin aftur. Þetta fann ég þannig, að tryllitækið fór að erfiða æ meir. Mér var reyndar ekki farið að litast á blikuna í mesta brattanum, þegar sjálfskiptingin neitaði að skipta í lægri gír; bíllinn fór stöðugt hægar og hljóði benti til þess að það væri að drepast á honum sökum ofáreynslu. Ég prófaði loksins að sleppa olíugjöfinni og stíga síðan aftur á hana - viti menn: það var skipt í lægri gír og vélin æpti af létti, en mikið óskaplega gekk uppferðin hægt. Það koma loks að því að glæta sást í fjarska og ekki þarf að fjölyrða um léttinn.
Það er alltaf auðvelt að borga, þannig var það líka þessu sinni og eftir þetta gekk ferðalagið áfallalaust í ljómandi veðri hinumegin Hvalfjarðar. Eina sem ég þurfti að muna eftir á þeirri leið var hraðamyndavélin. Það gerði ég.
Í Borgarnes kom ég hópnum og ég sá ekki betur en talsverðum, kvíðablandnum létti lýsti af andlitunum. Léttirinn fólst í því að vera kominn í Borgarnes, kvíðinn orsakaðist af heimferðinni, sem var óhjákvæmileg.

Leiksýningin Brák var skemmtileg og maturinn sem fylgdi í kjölfarið slapp til.

Eftir að hafa treint dvölina í Landnámssetrinu eins lengi og unnt var, varð ekki hjá því komist að tygja sig heim á leið.

Það var þá sem..........

---------------------------------
Mér sýnist að með einum hluta enn muni þetta takast, svo fremi að mér takist að tjá með orðum það sem í hönd fór, rétt áður en heimferðin hófst og á meðan á henni stóð.




26 september, 2009

Ef þau hefðu vitað...... (2)

Þrátt fyrir fremur önugt veðurfar til ferðalaga, var sól í hjarta, ef frá er talinn lítilsháttar herpingur vegna þeirrar óhemju ábyrgðar sem hafði verið lögð mér á herðar. Vissulega hafði ég gengið frá því þegar samið var um málið að formaður KEMEL skyldi vera vélstjóri, en hann er einnig efnafræðingur og þrautreyndur fararstjóri, sem þýddi að ég þurfti í raun ekki að hafa áhyggjur af nema stjórntækjum. Vélstjórinn reyndist, meira að segja, vera búinn að læra að skipta um dekk. Auk þess að taka á sig ábyrgð vélstjórans var hann fararstjóri, sem þýddi auðvitað að ég þurfti ekki að velta fyrir mér hvert haldið skyldi hverju sinni, bara halda um stýrið og stíga hóflega á olíugjöfina (já, þetta var dísiltryllitæki), auk þess að vera tilbúinn að stíga létt á bremsuna eftir því sem þörf var á og setja þurrkurnar á og slá þær af eftir þörfum (þessi er með einar 5 harðastillingar á þurrkum, sem voru allar eins), gefa stefnuljós þegar við átti og hafa uppi hæfilegan ljósabúnað hverju sinni.

Að vanda var það hlutskipti okkar Kvisthyltinga að koma okkur á þann stað sem ferðin skyldi hefjast. Það er vegna þess, að Laugvetningar líta til Laugarvatns sem upphaf og endi alls. Ef maður kemur ekki þangað þá fer maður ekki með - sorrí.
Við lögðum í hann frá staðnum eina, sem auðvitað er Laugarás í okkar tilviki, tímanlega, til að mér tækist að átta mig á grundvallaratriðum þess, sem til þurfti til að koma fólksflutningabifreiðinni þangað sem ferðinni var heitið.

Vélstjórinn hafði tækið tilbúið til brottfarar, en ekki er laust við að mér hafi litist fremur illa á að þessi ferð færi vel, þegar ég leit gripinn. Mér þótti sýnt, að vegna þess hve mjög hann var upphækkaður (fagmál) væri þyngdarpunkturinn talsvert ofarlega, sem þýddi að lítið mátti út af bera til að hann ylti út í skurð.

Ég tek það fram hér, að gagnvart ferðalöngun kom ég ávallt fram eins og sá sem veit hvað hann er að gera, þó svo hið innra ólgaði efinn um að þetta myndi fara vel.

Það kom að því að klifra upp í farartækið, en eftir talsvert klifur tókst mér að setjast í bílstjórasætið. Það varð samkomulag um það að vélfararstjórinn settist í sætið við hlið mér, þar sem fD er vön að sitja og segja mér til. Hún var hinsvegar ekki af baki dottin og fann sér sæti beint fyrir aftan mig og hafði þar úrvals útsýni yfir stjórntækin, auk þess að með því fyrirkomulagi gafst henni engu síðra færi á að benda á það sem betur mætti fara, en með hefðbundnu fyrirkomulagi.

Það var kominn tími til að fara að tína upp farþegana, sem átti að gerast á tilteknum stað á Laugarvatni, nema hvað? Ég setti í gang - kunni að setja dísilbíl í gang eftir að hafa eki á slíku tæki um nokkurra ára skeið - vélin tók glæsilega við sér. Þessu næst færði ég skaftið í stýrinu þar til vísirinn lenti á R - sem sagt, ég þurfti að byrja á því að bakka! Það gerðist ekkert við þessa aðgerð - þó svo ég stigi létt á olíugjöfina. Það var ekki fyrr en ég steig fastar, að vart varð hreyfingar á ferlíkinu. Auðvitað endaði það á að hreyfast afturábak, eins og til stóð. Það var einstök lagni mín sem kom í veg fyrir að ég lenti utan í einkabifreið vélfararstjórnans - svitnaði bara inni í mér - lét á engu bera.
Eftir bakkið ssetti ég í D og kagginn skaust fram á við - ferðin var hafin hjá mér sem bílstjóra, en annað kom í ljós þegar kom að því að tína upp farþegana.

---------------------------------------------------------
Ég hafði ætlað mér að ljúka þessari spennusögu með þessum hluta, en undirbyggingin hefur reynst umfangsmeiri en til stóð. Ég hafði ímyndað mér að það gæti gerst og það var þessvegna sem ég óskaði hvatningar að fyrsta hluta loknum. Mér sýnist að ég gæti haldið áfram upp í 5 hluta, með þessu áframhaldi, en tel jafnframt, að ákveðnar líkur séu til þess, að þó svo framhaldið sé gegnsýrt óvæntum viðburðum og hættum, þá muni mér takast, með góðum vilja, að ljúka þessu í 3ja hluta. Hvenær það gerist á eftir að koma í ljós.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...