05 mars, 2010

ÉG KANN EKKI Á TÖLVU!

Fyrirsögnin felur í sér talsvert afgerandi yfirlýsingu og þarfnast því lítilsháttar útskýringa, eða kannski ekki.
Hverjum kemur það svo sem við hvort ég kann á tölvu?
Hver getur yfirleitt haft áhuga á að vita það?

Í gegnum árin hefur það oftar en ekki lent á mér í vinnunni sem ég stunda, að aðstoða samstarfsmenn og nemendur sem kunna minna en ég, við hitt og þetta sem tengist tölvum. Oftar en ekki tekst mér á einhvern óútskýranlegan hátt að bjarga viðkomandi, þó svo ég sé óþreytandi við að láta vita af því að ég kunni ekkert umtalsvert í þessum málum. Þarna hefur sannast málshátturinn: Í landi hinna blindu er það sá eineygði sem er kóngur.

Staða mín, þegar tölvur eru annars vegar er sú, að það fer af mér það orð, að ég kunni sitthvað fyrir mér, með þeim afleiðingum, að oftar en ekki sit ég uppi með vanda sem leysa þarf. Vegna þess hvernig ég er innréttaður - einstakt gæðablóð sem ekkert aumt sjá - þá fæ ég ekki af mér að þverskallast við óskum sem lúta að tæknimálum. Það er nefnilega svo, að orðspor mitt snýst ekki eingöngu um tölvur orðið, heldur um tæknimál almennt.

Dæmi um það sem ég hef þurft að taka að mér á því sviði er að þegar ekkert hljóð heyrðist frá kvikmyndinni sem var verið að sýna, var kallað á mig til að snúa takkanum sem er notaður til að hækka og lækka. Í öðru tilviki var um að ræða að stinga skjávarpa í samband við tölvuna þegar engin mynd birtist á tjaldinu.

Svona er þetta bara.

Ég tek þessu öllu ljúflega og ég neita því ekki, að þegar mér tekst vel upp við svona björgunarstörf í fullri stofu af fólki, þá er gott að finna aðdáunaraugnaráðið sem fylgir mér á leiðinni út úr stofunni aftur.

Ég kann samt ekkert á tölvu.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...