07 mars, 2010

...og hefst nú stóryrðaspuninn.

Það er ekki laust fyrir að ég kvíði næstu dögum og vikum, þegar svokallaðir stjórnmálaforingar, álitsgjafar og besserwisserar landsins hefja upp raust sína til að segja okkur hvað þjóðin var að segja í þessum stórundarlegu kosningum sem nú eru afstaðnar. Ég óska þess helst að þeir geri það ekki, en veit að mér verður ekki að ósk minni.
Hvað munu þeir segja að þjóðin hafi sagt? Það er líka allt mjög fyrirsjáanlegt:
- Þjóðin hafnaði lögunum sem forsetinn neitaði að skrifa undir - sigurvegari forsetinn.
- Þjóðin hafnaði lögunum sem ríkisstjórnarflokkarnir börðu í gegnum þingið - sigurvegarar Knold og Tot.
- Þjóðin hafnaði því að borga skuld við tvær margnefndar þjóðir með okurvöxtum - sigurvegari ?
- Þjóðin segist ekki eiga að borga nokkurn skapaðan hlut. - sigurvegari ?
- Þjóðin lýsti vanþóknun sinni á því hvernig stjórnmálamenn eru búnir að klúðra þessu ísbjargarmáli - sigurvegari ?

Ég veit að þeir sem er hvað frjósamastir í að lesa í vilja þjóðar út frá þeim hagsmunum sem þeir berjast fyrir, eru nú þegar tilbúnir með sinn spuna. Oftar en ekki tengist hann persónum, sem til áhersluauka eru uppnefndar (eins og ég geri hér fyrir ofan), og sem jafnframt eyðileggur spunann og viðheldur umræðunni á víðáttuvitlausu plani,

Ég kalla eftir því, að niðurstaða þessarar þjóðarathvæðagreiðslu verði til þess að okkar ágætu stjórnmálamenn hætti í pissukeppninni og hefji samvinnu fyrir hagsmunum þjóðarinnar, þar sem þeir líta út fyrir sjálfa sig og flokkana sína og til þjóðarinnar sem þeim er svo tamt að tala um, af því það hljómar svo vel.

Þessi margjaskaða þjóð er orðin dauðþreytt á því að vera reið á hverjum degi og krefst þess að málum verði lent þannig að ásættanlegt sé. Þess vegna sagði hún nei (þetta var minn spuni). Ég tel að þessi atkv. greiðsla hafi hreint ekki snúist aðallega um ísbjörgu - heldur hafi þetta verið útrás þjóðarinnar fyrir reiðina sem ólgar.


1 ummæli:

  1. Ég er svo sammála að mér verður illt.
    Ekki gat ég kosið því ég vissi að alveg sama hvað ég kysi þá vissi ég varla um hvað og auk þess yrði það síðan túlkað út og suður og alls ekki í lausnarátt.
    Lausnin virðist eki vera markið, heldur að ná völdum og geta haldið áfram að hjakkast í hinum sem voru líka ráðnir til að gæta hagsmuna þjóðarinnar.
    Svo ætla ég að fara fordæmi Ciceros: auk þess legg ég til að skuldir mínar verði afskrifaðar.

    Á ekki eitt einasta orð sem tjáð gæti tilfinningar mínar við þessari arfavitlausu hringekjuferð (með spiladósina á fullu)

    Kvæðalaus hirðkveðill

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...