Sýnir færslur með efnisorðinu Snilld mín. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Snilld mín. Sýna allar færslur

21 apríl, 2011

Það sem er, en er samt ekki

Þessi mynd fD felur kannski í sér tilvísun í þennan tíma árs. Það er farið að örla á
grænum lit, en enn er þó nokkuð í land. Þarna er jafnvel einstaka snemmsprottið blóm, 
vætan er að byrja að hafa áhrif á það sem koma mun. 
Er eðlan að reyna að koma í vegfyrir framrás vorsins,eða er hún þarna til að örva og hvetja? 
Kannski er hún táknmynd þjóðarsálarinnar þessi árin. Hver veit.

Sól felur sig vissulega á bak við skýjafjöld,
en ég veit hún er þarna og það er nóg.
Bleytuslabbinu get ég svo sem bölvað,
en veit að skúrir í apríl boða blómin í maí.

Það er mér alveg ljóst, að svona værðarvæll
er ekki alveg það sem ég þykist standa fyrir,
en líklegast er allt í lagi, svona við og við
að láta eftir sér að búa til þessi hughrif í sjálfum sér.

Þó að orrustur séu nú háðar um völd og fé
bæði í bakherbergjum og háreistum sölum,
er miklvægt að leggja hatur og vanþóknun 
til hliðar svona dag og dag, eða stund og stund.

Sannlega fylgir oft annatími hvíldardögum;
verkefnabunki, sem minnkar eiginlega aldrei.
Það má ekki láta það sem framundan skyggja á
það sem er hér og nú, heldur njóta stundarinnar.

Hvernig sem allt veltist þá fer það einhvernveginn
þó maður telji oft að svo verði ekki. 
Bak við skýin er alltaf sólarhnötturinn
og bíður þess að skýin vinni sitt þarfa verk.

Birtist síðan í samræmi við spár veðurfræðinga
og baðar regnvotan gróður lífsvekjandi ljósi.

Megi komandi sumar verða þolinmóðum lesendum allt það sem þeir vilja að fylgi þeim árstíma. 
Þakkir sendi ég þeim sem litið hafa inn á liðnum vetri.

27 janúar, 2011

Furðuskafi

"Ég fékk Arnald" sögðu menn. "Ég er að lesa Arnald" segja menn. "Ég er að lesa Arnald" segi ég. Það kom þannig til, að ég rakst á bók Arnaldar á náttborði fD og fór að lesa. Ég var búinn að heyra umfjöllun um bókina í Kiljunni, þar sem henni var hælt nokkuð og þess meðal annars getið, að nú færi hann aðrar leiðir með Erlend; austur á land á æskuslóðir hans þar sem hann gerði með einhverjum hætti upp við fortíð sína. Það kvæði við nýjan tón hjá Arnaldi þessu sinni og að hann væri að feta sig inn á svið alvöru bókmennta. Allt í lagi með það.
Síðustu allmörg kvöld er ég síðan búinn að vera að lesa Arnald. Þegar ég nálgaðist miðja bók og hann var lítið farinn að hugsa sér til hreyfings austur, byrjaði ég að velta fyrir mér hvernig söguþráðurinn sem ég var að lesa gæti leitt til þess að hann hyrfi frá líklegum glæpamálum í miðjum klíðum til að heimsækja æskuslóðirnar. Lesnum köflum fjölgaði jafnt og þétt án þess að fararsnið væri á Erlendi. Ég hugsaði með mér, að þetta hlyti að verða afar snörp og eftirminnileg ferð þegar að henni kæmi, úr því bókmenntafræðingarnir höfðu fjallað svo mikið um þann þátt sögunnar.

Svo varð það í gærkvöld, áður en ég hóf lestur, og átti eftir 11 blaðsíður, án þess að í sjónmáli væru miklir atburðir fyrir austan, að ég spurði fD upp úr eins manns hljóði: 
"Hvenær fer hann austur eiginlega?"
"Hver?"
"Nú, Erlendur."
"Hvaða Erlendur?"
"Erlendur þarna í Arnaldi."
"Hann fer ekkert austur."
"Fer ekkert austur. Bölvuð della. Það var fjallað um það í Kiljunni!"
"Já, en þar var verið að tala um nýjustu bókina - hún heitir Furðustrandir. Þú ert að lesa Harðskafa
Ég ætla ekki að segja frá því hvernig viðbrögð fD við þessu öllu voru  í framhaldinu.

Ég er hinsvegar hugsi.

15 janúar, 2011

Tærður fittings

Það var í janúar á síðasta ári, sem ógæfa dundi yfir í Kvistholti, sem nokkuð rækileg grein var gerð fyrir í fjórum eftirminnlegum færslum undir heitinu JANÚARKRÍSA 1-4.
Það var í gær sem ég fékk símtal, sem ég vildi hreint ekkert fá:
"Hitalögnin í efra plasthúsinu hjá þér er sprungin. Ég var þarna á gangi með hundana og heyrði hávaðann."
Ég þakkaði auðvitað fyrir að hundaeigandinn skyldi láta mig vita af þessu. Settist síðan niður og hugsaði minn gang. Fyrsta hugsunin var auðvitað, eins og venjulega þegar svona tilvik koma upp: Ég vil bara að þetta vandamál hverfi! Sannarlega gerði það það ekki. Mér var nauðugur einn kostur að athuga hvernig staðan var. Það var myrkur, enda komið kvöld í janúar. Þá uppgötvaði ég, maðurinn sem á nánast allt, að ég á ekki vasaljós. Sem betur fer var útihitinn tæpar þrjár gráður í plús og því var það, að ég tók ákvörðun um að fresta málinu, fara bara út og skrúfa fyrir - kíkja svo á málið þegar birti.  Þegar ég kom út heyrði ég, svo ekki varð um villst, að eitthvað hafði sprungið í efra plasthúsinu.  Ég stóð fast við fyrri ákvörðun mína og fór niður í gróðurhús þar sem hægt er að skrúfa fyrir hita í bæði plasthúsin. Það gerði ég síðan og svo sem ekkert meira um það að segja. Í skímunni frá götuljósum fikraði ég mig síðan að efra plasthúsinu, en út úr því gaus mikill gufumökkur. Þetta leit ekki vel út. Ég stóð við fyrri ákvörðun mína um frestun frekari aðgerða. Fór aftur inn í hlýjuna og á vedur.is þar sem ég fékk von mína uppfyllta um frostlausa nótt.
Í hönd fór síðan rólegheita nótt þar sem iðkaður var, með réttu eða röngu, svefn hinna réttlátu.

Þegar fór að birta aftur reikaði hugurinn í plasthúsið. Hvað skyldi bíða mín þar? Var kannski allt meira og minna frostsprungið? Hvernig færi ég að því við slíkar aðstæður, að hleypa bara hita á neðra plasthúsið?

Það varð hreinlega ekki undan því vikist að rölta niðureftir og öðlast þannig vitneskju um það sem gerst  hafði. Í gúmmískóna, vopnaður myndavél (augljóslega myndi hún ekki gera neitt gagn, eins og hver maður getur sagt sér).

Af ótrúlegri yfirvegun lagði ég leið mína inn í efra plasthúsið, sem bara var þarna í sakleysi sínu eins og ekkert hefði skeð. Það sem við blasti þegar inn var komið hafði tvennskonar áhrif - aldeilis af báðum pólum mannlegra tilfinninga; önnur kallaði fram í hugann (auðvitað ekki upphátt) ANDSKOTINN SJÁLFUR!, en hin framreiddi hugsunina GUÐI SÉ LOF!

Fyrir 15 árum voru plasthúsin byggð og þá var var plastinu á þeim gefinn 5 ára líftími, en vegna veðurfars í Laugarási sér ekki á því enn. Í húsin var sett miðstöð - af vanefnum, og allir vita að að því hlýtur að koma að mannanna verk gefa sig. Þarna hafði ég, sem sagt sett hitalögn þannig, að lagt var í plasti að húsunum og plastið síðan tengt við hitarörin inni í húsunum. Það var á þeim samskeytum sem  svart hné hafði gefið sig (svart, þýðir að það er ekki galvaniserað og getur því ryðgað), hafði orðið tæringunni að bráð. Á þetta hné var komið gat sem var tæpur fersentimetri að stærð.

Ég tók myndir af hnénu (hversvegna, verður hver að svara fyrir sig). Að því búnu fór ég aftur inn og átti símtal við hG sem hefur haft garðyrkjuhluta Kvistholts á leigu undanfarin ár. Hann kom síðan. Leit á aðstæður. Fór síðan og kom aftur með fittings (fittings, fyrir þá sem ekki vita, eru allskyns bútar með skrúfgangi. Þarna getur verið um að ræða hné, té, skrúfbúta, minnkanir, stækkanir o.þ.u.l.). "Ég geri bara við þetta til bráðabirgða", sagði hG. Með því var mér auðvitað stórlétt. Engin stórframkvæmd framundan. Allt í gúddí, nema auðvitað enginn handbolti í sjónvarpinu í kvöld!

22 nóvember, 2010

Eigi er þetta til eftirbreytni

Það var dálítið óvenjulegt veður sem beið manns í morgun á þessum slóðum. Frostið var svona 7-8° í stillunni. Það er alveg hægt, svo seinnipartinn að klæða svona veðurfar í einhver rómatísk orð, þannig að maður sjái fyrir sér ævintýraheim, þar sem það skíðlogar í arni og rjúkandi heitt kakóið bíður manns þegar maður kemur heim eftir að vera búinn að skokka 10 kílómetrana sína, rjóður í kinnum með fullnægjuglampa í augum.

Það er sannarlega hægt að taka þennan pól í hæðina við þessar aðstæður - það er líka hægt að taka annan.

Svefndrukkinn staulast maður fram í eldhús og gjóar augunum á hitamælinn eftir að vera búinn að koma gleraugunum á nefið. Það er 8° frost úti. Fyrsti hluti dagsins ónýtur, þar sem maður veit hvað bíður. Fyrir utan stendur jepplingurinn/slyddujeppinn/jepplíkið hulið hnausþykku hrími. Það sést meira að segja á áferðinni að þarna er um að ræða það sem ég kalla "seigt hrím". Seigt hrím er þannig, að þegar maður reynir að skafa það af er eins og það vilji frekar klístrast á rúðuna en bara fara einfaldlega og áreynslulaust af.  Þeir einir skilja mig um þetta sem reynt hafa.
Þetta varpar ljósi á hugrenningar meðan neytt er lágmarks morgunverðar. Framundan er að koma sér 25 km leið í vinnuna, eftir að hafa skafið af rúðum eins og vera ber.

Það er víst ekkert val um að koma sér af stað. Út í froststilluna liggur leið, engin vandamál með að opna bíldyrnar, þreifað inn eftir skárri sköfunni, sem ekki finnst. Skafa er nefnilega ekki sama og skafa. Það er ekki um annað að ræða en grípa þá lélegu, slitnu, sem margoft hefur mistekist að sinna hlutverki sínu. Sköfunni er beitt á framrúðuna, en það er varla að far sjáist í frosthjúpinn seiga. Auðvitað gengur það ekki að láta við svo búið standa. Það verður að skafa meira og reyna fleiri aðfallshorn. Smám saman fer að glitta í gler, en það sést fyrst og fremst á því, að það myndast smám saman dökkur flötur. Þegar loksins er búið að búa til 10-15 cm op sem hægt er að sjá í gegnum og tíminn líður og klukkan tifar, er tekin sú afdráttarlausa ákvörðun að láta staðar numið. Óorðaðar forsendur ákvörðunarinnar eru þær að framundan sé akstur eftir vegi sem ekinn hefur verið kvölds og morgna síðan 1986. Hvað ætti svo sem að koma á óvart? Þar fyrir utan er nánast engin umferð á þessum tíma dags. Hver ætti svo sem að fara að leggja það á sig að skafa bílinn sinn nema tilneyddur?
Af stað.
Bakkað eftir minni. Ekki möguleiki að neitt óvænt sé þar fyrir, enda reynist það svo vera. Þegar komið er niður á veg er sagt sem svo, að maður hljóti að sjá bílljós gegnum hrímið á hliðarrúðunum, en samt mjakar maður sér fremur varlega inn á veginn til að gefa hugsanlegum, aðvífandi vegfarendum færi á að forða sér. Þá tekur við beinn vegur sem sést í gegnum gatið í framrúðunni, svona sæmilega fyrst, en síðan minna og minna. Það er nefnilega eðli hríms að byrja að myndast aftur meðan óbreytt hitastig er fyrir hendi. Þetta sleppur þó til. Eftir 5 km er hitablásturinn kominn í plús og smám saman léttist sýn í gegnum gatið. Á gatnamótum við Brúará þarf aftur að taka áhættuna á að aka inn á veg án þess að vita 
af fullkomnu öryggi hvað bíður. Eftir það er þetta ekkert mál. 

Auðvitað á maður ekki einu sinni að ýja að því að svona hagi maður sér, ábyrgur maðurinn. Á hinn bóginn er á það að líta, að eðli mannsins er að leita leiða til að velja hina einföldu leið að marki sínu svo lengi sem hann kemst upp með það. Þetta er dálítið eins og nemandinn sem sparar sér vinnu við heimaverkefnið og stelur verkefni samnemanda sín og skilar sem sínu, í trausti þess að kennarinn fatti það ekki. Ef hann kemst upp með það, þá er það bara fínt. Ef ekki? Den tid den sorg.

13 nóvember, 2010

Undir stjörnuhimni, með tærnar upp í loft.

Á undanförnum mánuðum hef ég heyrt talsvert um það að sjósund séu allra meina bót og hef nú litið að það sem einhverskonar karlagrobb (já, ég sagði það). Það síðasta sem ég heyrði af þessum vettvandi var yfirlýsing þess efnið að það væri ólýsanleg dásemd að liggja á bakinu í 2,4° heitum sjó og horfa á stjörnurnar.
Ástæða þess, hver vel upplýstur ég er um sjósundsiðkun, er fyrst og fremst óskiljanlega ástríðuþrungnar frásagnir frænku minnar, einnar, af þessu fyrirbæri. Það kann að vera, að það hafa hvarflað að mér, við og við, að það gæti nú verið viturlegt af afgreiða fyrirbærið ekki alveg si svona. Það gæti líka verið að ég hafi bara prófað þetta sjálfur: að liggja í sjónum í nóvember og láta öldurnar gæla við kinn.
Já, það skyldi þó aldrei vera..........

10 október, 2010

Sorp-/ruslatunnuskýli/geymsla (4)

framhald

Það liggur nú við að það fari meiri tími í að skrifa um framkvæmdirnar í kringum blessað tunnuskýlið en að sinna framkvæmdunum sjálfum. 




Það hefur komið skýrt fram, að líklegt er að framkvæmdir hefðu frestast eitthvað ef ekki hefði komið til aðstoðarfólk úr öðru landi. Þar sem sú var staðan átti ég ekki um að velja annað en taka fullan þátt í að hefja samsetningu skýlisins.  

Vinnan hófst innan dyra og fluttist síðan út þegar það var metið tímabært. Það var ljóst að hÞ taldi nauðsynlegt að halda samsetningarvinnunni áfram fram að brottfarartíma fjölskyldunnar til að auka líkur á að framhald yrði á verkinu.  Þegar fjölskyldan hélt síðan áleiðis til síns heima í Álaborg, var staða byggingarinnar þessi.


Af nokkrum ástæðum reyndist óhjákvæmilegt að fara aftur í kaupstað til að nálgast ýmislegt sem vantaði til að verkið gæti orðið fullkomnað:
1. Teikningin reyndist vitlaus með því að það vantaði upp 4 veggspýtur.
2. Það þurfti að bæta við efni í sökkla undir bygginguna.
3. Kaupa þurfti keðju og fylgihluti vegna lokunar skýlisins að framan.
Allt þetta ferli gekk eins og til var ætlast og ég fékk efnið niðursagað mér að kostnaðarlausu.

Það var svo um langþráða fríhelgi, sem nú stendur yfir, að framkvæmdunum var haldið áfram, ekki með neinum asa þó. Eftir fyrri vinnudaginn var staðan þessi.






Í dag réðust síðan allir (tveir) sem vettlingi gátu valdið í að ljúka verkinu.

Það hefur komið í ljós, enn eina ferðina, eins og ég hef áður fjallað um, að ég er snillingur þegar kemur að verklegum framkvæmdum. Enn hefur bæst við gimsteinn í safn óðalsins að Kvistholti.

Myndir segja meira en mörg orð.






08 október, 2010

Sorp-/ruslatunnuskýli/geymsla (3)

framhald

Mig minnti að á æskuheimilinu hefði verið til heilmikil vélsög sem hét ELU og hélt því þangað, en það var ekki ferð til fjár, þó svo mér hefði verið boðin til láns Europriskeypt bútasög, sem hM hafði fjárfest í vegna pallasmíða í kringum heitan pott sinn og sem þannig myndi henta vel þegar kæmi að því að búta niður pallaefnistimbur sorptunnuskýlisins. Ég setti hana bakvið eyrað.


ELU sögin mikla var til og talið líklegt að hún væri til húsa í gamla fjósinu uppi á Hæð, í umsjá hB, sem reyndist vera og ég kom heim með sög á endanum. Það var vissulega galli, að þessi sög gat ekki sagað nema 80mm þykkt efni, en staurinn sem ná þurfti í sundur var 95mm. Hvað um það, góð sög með rétt stillt blað átti að fara létt með, í góðum höndum, að ná þessum staur í sundur þannig að úr yrðu fjórir hornstaurar.

Allt klárt og fD kom út í suddann til að halda undir staurinn meðan ég beitti ELU, fagmannlega. Ég þarf auðvitað ekki að nefna fagmennskuna frekar, en sundur fór staurinn á endanum á þrem stöðum. ELU er einhverra áratuga gömul vélsög og það hefur líklega verið aldurinn sem olli því að blaðið var ekki fyllilega rétt, með þeim afleiðingum, að endarnir sem voru fagmannlega sagaðir í hvívetna, reyndust ekki verða fyllilega réttir. Við þær aðstæður varð mér, fyrsta sinni á, að tala um að þetta væri nú bara ruslatunnuskýli. Það stóð einnig til að skella þar til gerðum höttum á staurendana og því skipti útlit þeirra ekki öllu máli.  Þar með voru 4 hornstaurar tilbúnir til þurrkunar, sem, sem betur fór þurftu nú að vera þar óhreyfðir í nokkra daga, áður en fD gæti borið á þá viðeigandi efni, eins og áður hefur verið nefnt.

Svo var það dag einn þegar ég kom heim, að það var nánast liðið yfir mig þegar ég opnaði útidyrnar. Áburði var lokið. Við gátum bæði verið sammála um að það væri eins gott að Kvistholtsanginn frá Danmörku var ekki kominn, en hans var von ásamt foreldraeintökum sínum, skömmu seinna.
Það var allavega allt orðið klárt fyrir sögun. Ég man ekki einu sinni hvernig mér tókst að humma fram af mér að hefja það verk, líklega var það blanda af þreytu minni eftir krefjandi vinnudaga og væntanleg koma Dananna okkar. Allavega var það ekki fyrr en hÞ fór að hafa orð á því, upp úr þurru, hvort við ættum kannski að fara að saga þetta niður, að mér varð ljóst, að fD hafði ekki látið deigan síga. Þegar hér var komið var fátt um afsakanir, enda komin helgi og veðrið nokkuð þolanlegt. Við þessar aðstæður skellti ég mér í Hveratún og fékk þar lánaða áðurnefnda Europrisbútasög. Flutti hana heima og stillti upp á stéttina og mældi réttar lengdir. Svo var bara farið að saga. Fyrst sagaði ég og hÞ hélt við, svo sagaði hÞ og ég hélt við, þá sagaði hÞ og fÁH hélt við, þar til yfir lauk.


All gekk þetta áfallalaust utan að stilling Europrisgræjunnar fór úr skorðum á tímabili svo endarnir fjarlægðust það nokkuð að vera 90°, en því var kippt í liðinn með þeim orðum, að þetta væri nú bara ruslatunnuskýli.
Allt efnið niðursagað og tilbúið fyrir samsetningu, og ég taldi þetta vera orðið gott dagsverk.

06 október, 2010

Sorp-/ruslatunnuskýli/geymsla (2)

framhald

Fyrir valinu varð annað stórfyrirtækið í byggingavörubransanum, sem þarna hefur aðsetur. Þessa mánuðina virðist nú ekki vera mikið að gera þarna, eins og við má búast. Því náði ég strax sambandi við mann í timburafgreiðslu, rétti honum miðann og sagði: "Ég ætla að fá svona, Er það eitthvað vandamál?" Hann hélt nú ekki, utan það, að ekki yrði hægt að saga þetta niður fyrir mig samdægurs. Því tók ég bara vel, þar sem þar með vann ég einhvern tíma. Hann kvaðst myndu senda mér tilboð í þetta þegar hann væri búinn að taka allt saman, en hann yrði að reikna lítilsháttar kostnað vegna sögunar á timbrinu í réttar stærðir, samkvæmt teikningunni. Ekkert vandamál - ég kvaðst vera pollrólegur, - sem ég var.
Ekki eigin mynd

Segir ekki frekar af kaupstaðarferðinni. 

Það næsta sem gerðist var símtal frá þessum starfsmanni nokkrum dögum seinna. Tilgangurinn með því var að bera undir mig hvort ég vildi fá timbrið sagað, sem ég taldi hafa verið frágengið. 
"Við erum búnir á slá á þetta og verðum að reikna einn klukkutíma á þetta í söginni. Klukkutíminn kostar 22.000 krónur." Áður en ég hafði hugsað málið til enda sló ég snarlega á það að til greina kæmi að ég færi að greiða þessa upphæð fyrir að láta saga nokkrar spýtur fyrir mig! Auðvitað fékk ég bakþanka síðar, en það er annað mál. 
"Ef við sleppum því að saga þá verða þetta 48.500 krónur. Á ég ekki bara að senda þér tilboðið í tölvupósti?"
Mér blöskraði, en sagði honum að gera það, engu að síður.
Tölvupósturinn kom með virðulegu tilboði upp á kr. 48.500. Ég grandskoðaði þetta tilboð og komst fljótt að því, að blessaður maðurinn hafði tvíreiknað timburmagnið! Ástæðan fyrir vitleysunni varð mér fljótt ljós, en eins og áhugasamir geta séð hér, þá er á uppskriftinni talað um EFNISLISTA, þar fyrir neðan er fyrst kafli sem ber titilinn KEYPT EFNI, en þar er tilgreint allt það efni sem þarf í skýlið. Svo kemur annar kafli sem heitir: NIÐURSAGAÐ EFNI, sem er sama efnið og keypt er, nema bara niðursagað í tilteknar lengdir. Þetta hafði afgreiðslumaðurinn í byggingavöruversluninni bara talið sem meira efni í skýlið. 
Ég hringdi aftur og benti honum á mistökin, og honum varð ekkert mikið um, en kvaðst skyldu minnka pöntunina sem þessu næmi og endurreikna tilboðið.

Ekki eigin mynd

Það næsta sem gerðist var að bílstjóri frá flutningafyrirtæki hringdi og spurði hvort mér lægi á að fá sendinguna í dag, við hverju ég brást með því að kveðjast vera alveg rólegur, ekkert lægi á. Ég meinti það.
Það var svo tveim dögum seinna, að timburfarmurinn birtist á hlaðinu í Kvistholti, í rigningarsudda.
Það kom mér ekkert illa, því rætt hafði verið um að fD bæri pallaolíu á timbrið áður en alvöru framkvæmdir hæfust. Það þýddi, að efnið varð að bera inn í hús og leyfa því að þorna í einhverja daga. 
Efnið var borið inn, allt nema það sem var í lengdum sem voru meiri en svo, að það kæmist inn, miðað við að hægt væri að loka útihurðinni. Það sem verra var, að hér var um að ræða staur sem var 480 cm á lengd og 95x95 á breidd og þykkt. Ekki var um annað að ræða en að bjarga því með einhverjum hætti, þó svo ég gæti hugsað mér að gera eitthvað annað. Því var það, að ég hélt af stað til að útvega mér stóra sög.

04 október, 2010

Sorp-/ruslatunnuskýli/geymsla (1)

Það var ljóst frá upphafi, að það kæmi einhverntíma að því að ruslatunnunum tveim sem sveitarfélagið úthlutaði okkur Kvisthyltingum, rétt eins og öðrum íbúum, yrði að finna varanlegan samastað. Fram til þessa hafa þær verið á heldur óæskilegum stað, ef horft er til þarfa eða óska fD: óbundnar, beint fyrir utan opinn gluggann á vinnustofu hennar (fyrir nú utan það að þær skyggja á vegglistaverk undirritaðs). 

S.l. vetur komu nokkrum sinnum veður sem feyktu tunnunum af stað, sem varð til þess að það þurfti að fergja þær með tiltækum, þungum hlutum. Oftar en ekki minnti fD mig á að svona væri ekki boðlegt að fara inn í næsta vetur; það yrði að tryggja tunnunum varanlegan samastað. Ég taldi nú að sumarið myndi nýtast vel til að verða sér úti um viðeigandi umbúnað, en mér varð brátt ljóst, að það virðist vera svo, að framleiðendur skýla af þessu tagi virðast ekki sjá neitt efni til þessa nema járnbent steinsteypuskýli sem kosta hátt í 200000 krónur íslenskar. Ég vil ekki steinsteypt skýli og ég vil ekki greiða upphæð sem jafnast á við bílverð, fyrir svo lítilmótlegt fyrirbæri.  

Þarna var ég kominn í klemmu: annarsvegar var fD, sem ekki var ódugleg að minna á þörfina sem var fyrir hendi og hinsvegar blasti við sú staðreynd, að ég gat ekki fengið keypt viðeigandi skýli á viðunandi verði. Ekkert virtist blasa við (fyrir utan það að draga lappirnar í lengstu lög) nema það að ég færi út í að hanna og byggja skýli í ofangreindum tilgangi. 
Sorptunnuskýli er auðvitað hægt að hanna og smíða með ýmsum hætti. Það getur verið allt frá því að vera einfalt og ljótt, upp í að vera flókið og flott. Ég vildi ekki einfalt og ljótt, en var alveg tilbúinn til málamiðlana að öðru leyti.
Ég veit að það getur enginn trúað því hve mikið mál það getur verið að setjast niður til að hanna skýli af þessu tagi. Mér er alveg sama þó þessi trú sé ekki fyrir hendi hjá fólki. Ég reyndi það á sjálfum mér.

Sumarið leið í útstáelsi; Evrópuferðum og fleiru - sennilega stysta sumarleyfi frá upphafi. En sorptunnugeymslan gleymdist ekki. Í ágúst tóku mér að berast meldingar um að framundan væri vetur með vályndum veðrum og að það væri ekki valkostur að ruslatunnur fengju að fjúka fram og til baka um allt Kvistholtsland og víðar.
Enn settist ég við tölvuna og gúglaði - reyndi ýmsar útgáfur og orðum yfir fyrirbærið sem mig vantaði: sorptunnugeymsla, sorptunnuskýli, ruslatunnugeymsla, ruslatunnuskýli, o.fl. o.fl. Það reyndist til nægt úrval að þessu fyrirbæri, sem fyrr, en þar var um að ræða steinsteypukumbalda á uppsprengdu verði, nema hér.
Þarna virtist kominn ákveðin lausn, en gallinn við hana var, í mínum huga, sá, að ég þurfti að standa í því að panta efnið og skrúfa það saman. Þetta varð til þess að ég lagðist í pælingar, eins og ég geri yfirleitt þegar verkefni eru framundan, og þá sérstaklega ef verkefnin eru ekki á áhugasviði mínu, eins og var í þessu tilfelli. Það var ekki svo að hæfileikarnir væru ekki fyrir hendi, heldur dálítið annað, sem ég kýs að tilgreina ekki.

Það kom að því óhjákvæmilega: þrýstingur óx, ekki kannski með orðum  beinlínis, en hann fór vaxandi og þar kom að ekki varð um frekari frestun að ræða.  Það var því haldið í höfuðstað Suðurlands, með útprentun á gögnum vegna innkaupa.

28 ágúst, 2010

Háloftasvíinn

Nú, þegar ágústmánuði er að ljúka, tel ég við hæfi að fara að ljúka hugarmyndasýningu minni frá Evrópuferð okkar fD, sem lauk um síðustu mánaðamót. Allt fór í þessari ferð eins og lagt var upp með við áætlanagerð. Það vil ég nú þakka ýmsum, ekki síst sjálfum mér, sem las fyrirugaða ferð sérlega vel og skipulagði í framhaldi af því, auk þess sem ég ögraði sjálfum mér talsvert (og fD líka) með því að takast á við nýjar áskoranir. Aðrir þeir sem gerðu sitt til að allt færi vel og að við nytum alls sem fyrir augu og eyru bar, fá hér enn þakkir fyrir höfðingsskap og elskusemi.
-----------------------------
Það er hreint ekki svo að ég ætli mér að enda þessa mánaðarlöngu syrpu á neitt jákvæðum nótum, þvert á móti tileinka ég hana íslenskum manni um þrítugt sem hér eftir verður kallaður "Svíinn" og sem við vorum svo óheppin að vera samferða í flugvél sem flutti okkur til baka eftir Evrópuævintýrið.
Fljótlega eftir að við vorum sest í flugvélinni kom Svíinn inn ásamt, líklega 7 ára dóttur sinni, að því er ætla mátti. Þau settust í sæti sín, tveim sætaröðum fyrir framan okkur og við urðum fljótt vör við að hann talaði afskaplega mikið við dótturina, sagði henni allt sem nöfnum tjáir að nefna í sambandi við flugvélina, áhöfnina, reglur sem flugfarþegar eiga að fylgja o.s.frv. Það var ekki laust við að ég dáðist að því hve góður faðir var hér á ferð, hugulsamur og fræðandi. En hann talaði stanslaust, og var ekki beint að hvísla, en það var svo sem ekkert til ama.

Hvað um það, flugvélin tók á loft og þá þurftu allir farþegar að vera bundnir eins og reglur gera ráð fyrir, og sem Svíinn gerði dótturinni ítarlega grein fyrir. Í sætaröðinni fyrir framan okkur var kona með tvö börn á svipuðum aldri og dóttirin. Í sætaröðinni fyrir framan Svíann og dótturina var síðan enn eitt ca 7 ára barnið. Sem sagt þarna voru á svæðinu  fjögur ca 7 ára börn.
Öryggisbeltaljósið var ekki fyrr slokknað en Svíinn stóð á fætur og kom sér fyrir á ganginum. Hann reyndist vera með bjórdós í hönd og þá skýrðist nokkuð það sem á undan var gengið. Það reyndust verða þó nokkrar bjórdósir sem hann tæmdi áður en þessari ferð lauk. 
Þar sem hann stóð á ganginum og skannaði umhhverfið í átt til okkar, kom hann auga á börnin í sætaröðinni fyrir framan okkur. Það skipti engum togum, að hann fór að ræða við börnin um allt milli himins og jarðar, meðal annars um ástæður þess að hann var þarna staddur, en hann hafði farið til Svíþjóðar fyrir sex mánuðum til að vinna að einverju mikilvægu verkefni og var nú á leið heim í heimsókn. Hann tók til við að kenna börnunum fjórum sænsku, en þau stóðu smám saman einnig upp og hjálpuðu honum að teppa ganginn. Þau fóru fljótlega að taka meiri og meiri þátt í samkomunni. Ef þetta hefði staðið yfir í 20 mínútur til hálftíma, hefði ég ekki farið að eyða andans orku minni í að reyna að orða það sem þarna fór fram, en það var ekki fyrr en um klukkutími var eftir af fluginu, sem flugþjónum tókst loks að fá Svíann til að skilja að það voru ekki allir jafnhrifnir og börnin fjögur, af frægðarsögum hans. Þetta þýddi að hann hélt miðhluta flugvélarinnir í heljargreipum í tvo klukkutíma með ótrúlegu bulli sem valt út úr talfærum hans. Þeir sem gátu fluttu sig í laus sæti aftast, en þangað komust nú bara tiltölulega fáir.  Það keyrði um þverbak, þegar eitt barnanna í aðdáendahópnum fann sænskan peyja á sama aldri aftar í vélinni. Þá skipti auðvitað engum togum, að Svíinn stormaði þangað með skarann á eftir sér. Við önduðum léttar - nú væri komið að öðrum að þurfa að þola þetta. Það leið þó ekki á löngu áður en vinurinn kom til baka með allan skarann og þann sænska líka. Svíinn sveiflaði um sig með sænskunni sinni, sem var aldeilis ekkert mjög lík sænsku - blanda af íslensku, dönsku og ensku, með íblönduðum sænskri framburði inn á milli. Þarna margfaldaðist samtalið með því að Svíinn varð túlkur milli barnanna auk þess sem hann kom sjálfum sér skilmerkilega á framfæri.

Það varð fljótt ljóst, að flugþjónarnir höfðu nokkurn ama af Svíanum og hirð hans, enda tepptu þau ganginn og farþegar voru farnir að kvarta yfir kjaftæðinu. Þeir voru margbúnir að biðja manninn að setjast, en hann taldi samneytið við börnin vera það heilagt að ekki væri ástæða til að sinna slíku. Það var ekki fyrr en einn þeirra tók á sig rögg og sagði hátt og skýrt, svo foreldrar barnanna heyrðu, að hann yrði að hætta því það væri þarna fólk sem væri að reyna að hvílast, að börnin voru kölluð í sæti sín og maðurinn stóð einn eftir, ekki kominn á það stig enn að halda bara áfram og tala við sjálfan sig. Hann kom sér þar með í sæti sitt og sat þar síðasta klukkutíma ferðarinnar, þegjandi. Flugferðin eftir það var hin ánægjulegasta.
-------------------------------
Nú þegar ég er búinn að koma þessu frá, get ég með góðri samvisku hent þessari leiðinda reynslu aftur fyrir mig og haldið áfram með lífið. 

Hér með lýkur þessari, að hluta til, geðvonskulegu færslu, og þar með umfjöllun um ævintýri sumarsins.


16 ágúst, 2010

Bílaleigubílsakstursævintýri (3)


..framhald


Þó svo ég hafi, þegar hér var komið, verið orðinn talsvert öruggur með sjálfan mig þegar um var að ræða akstur erlendis, vantaði enn nokkuð upp á að ég væri tilbúinn að keyra bara si svona inni í einhverri borg sem ég hafði aldrei komið til áður. Það gæti alltaf komið upp sú staða sem GPS græjan gæti ekki bjargað mér út úr. Þessu stóð til að breyta áður en leigutími BMW-sins væri úti.
Næsta skref tók ég fljótlega, þegar ferð okkar og Görlitzanna lá til Dresden, í um 100 km fjarlægð. GPS-inn var bara stilltur á sænsku húsbúnaðarverslunina í þeirri borg og síðan var keyrt af stað. Auðvitað lauk ferðinni á áfangastað, nákvæmlega eins og til stóð. Mér leið eins og ég væri orðinn ósigrandi í borgarakstri erlendis, en það dugði þó ekki til þess að ég tæki að mér að aka niður í glæsilega miðborg (gömlu borgina (reyndar endurbyggða, enda vita flestir að Dresden var lögð gjörsamlega í rúst í lok seinni heimsstyrjaldar)). Ég afréð hinsvegar að sjá um aksturinn til baka, auðvitað eins og ég hefði aldrei gert neitt annað - enn orðinn öflugri bak við stýrið.

Nú var svo komið, að ég nánast hlakkaði til 700 kílómetra akstursins sem framundan var, en hann var þannig til kominn, að um var að ræða ódýrustu aðferðina til að komast til ríkis Danadrottningar. Upprunalega var áætlunin sú, að skila bílnum í Berlín, sem var, svona eftir á að hyggja, harla vanhugsað. Því var skilastaðnum breytt yfir í Flensburg, rétt fyrir sunnan landamærin að áðurnefndu konungsríki.

Dagurinn kom, þegar Görlitz og Kvistholtstengdir íbúar hennar/þess voru kvaddir og við fD héldum í norðausturátt, á BMW jeppatryllitækinu. Hvað sem upp á kynni að koma yrðum við að leysa sjálf. Allt traust var sett á GPS-inn og BMW-inn og - auðvitað mig (og auðvitað fD). Stysta leiðin sem staðsetningartækið fann hljóðaði upp á 682 km. Mér var svo sem ekkert ljóst hver þessi leið var, utan það að hún hófst á því að keyra til baka sömu leið og við höfðum komið frá Berlín.

Fyrsti hluti ferðarinnar, sveitavegurinn út á hraðbrautina, fól í sér sömu flækju og áður og lausnin fólst enn í því að ögra GPS-num með því að keyra bara eitthvert út í buskann. Eftir það bar fátt til tíðinda fyrr en GPS-inn tilkynnti að innan einhverra kílómetra væri mér ætlað að skipta um hraðbraut. Allt í lagi með það. Það fór hinsvegar aðeins um mig þegar mér varð ljóst að þessi nýja braut beindi okkur beint í norðaustur með skilti sem vísuðu á Frankfurt and der Oder - sem er við landamærin að Póllandi. Hér var um að ræða svakalega fína, þriggja akreina braut. Mér til léttis leið ekki á mjög löngu áður en brautin tók að sveigjast meira til norðurs, síðan norðvesturs og loks alveg í vestur. Þegar síðan birtust skilti sem bentu til að Berlín væri ekki allfjarri, til suðurs, var orðið ljóst að GPS-inn var bara að fara með okkur framhjá umferðartöfum í kringum Berlín.  Meðan á þessum óvissutíma stóð hafði ég haldið nokkuð aftur af mér, að því er varðaði aksturshraða, en í fullvissu þess, að nú værum við örugglega á réttri leið, leyfði ég bensínfætinum að nálgast gólfið æ meir.
"Þú ert kominn á 142 kílómetra hraða!"
Fram til þessa hafði fD ekki fjallað mikið um hraðamálin, enda hafði hún smám saman vanist því að bílar væru frekar að fara fram úr BMW-inum en öfugt. Ég skynjaði að það var ekkert sérlega mikil skelfing sem fólst í þessari yfirlýsingu, þannig að ég hélt uppteknum hætti hvar sem hægt var. Það var bara á einhverjum illþolandi tengivegum (eins og þjóðvegur 1) sem ég neyddist til að slá af ferðinni. 

Ég ætla ekki að skafa utan af því, en þarna fæddist ég sem fullþroskaður hraðbrautaökumaður og fann ótvírætt fyrir því hvernig aðrir ökumenn á brautinni fylltust lotningu þegar ég nálgaðist í baksýnisspeglum þeirra, og viku umsvifalaust til að hleypa mér fram úr. Ef þeir hefðu nú bara vitað að þarna var á ferð miðaldra íslenskur sveitamaður!?

Það þarf ekki að fjölyrða um framhaldið, allt gekk eins og í sögu, utan það að mér var ætlað að skila BMW-inum með fullan tank af eldsneyti. Þarna vorum við að renna inn í Flensburg, sem við höfðum aldrei heimsótt áður, og þurftum að finna bensínstöð áður en GPS-inn leiddi okkur upp að dyrum hjá bílaleigunni SIXT. Auðvitað mundi ég þá eftir fídusnum á GPS-græjunni sem hjálpar manni að leita að ýmsu í nánasta umhverfi sínu. Viti menn, hann fann bensínstöð í 700 m fjarlægð (tók reyndar 1,5 km að keyra þangað). 
Með fullan tank renndum við inn á bílaleiguna og það var með blendnum tilfinningum að ég setti lyklana í næturhólfið. Þær breyttust þó fljótt, því þarna á hlaðinu biðu Danirnir okkar þrír og þeir brunuðu með okkur norður á bóginn til heimabæjar síns við Litlabelti.

Ég tel víst að það verði ekki löng bið eftir því að þessi Kvisthyltingur bruni um evrópskar hraðbrautir á ný.


Myndirnar á þessari síðu eru frá Dresden, en vegna spenningsins í tengslum við aksturinn sem framundan ver, gleymdist EOS-inn heima. Þess í stað notaði ég bara Nokiuna. 

15 ágúst, 2010

Bílaleigubílsakstursævintýri (2)


Til þess að tryggja það, í það minnsta, að ég færi ekki að villast á vegum Evrópu, hafði ég sem sagt fest kaup á, væntanlega með ólögmætum hætti, svokallað GPS tæki. Auðvitað fór ég ekkert að kaupa neitt drasl. Fyrir valinu varð tæki með stórum skjá, því ekki var tekin áhætta af því að ég sæi ekki auðveldlega allt sem það leiðbeindi mér með. Hér má sjá græjuna (1490T):


Fyrsti akstur minn á erlendri grund gekk vel á umræddum sunnudagsmorgni, enda leiðin harla einföld, nánast bara ein beygja alla leiðina og umferðin nánast engin. Þarna ók ég á bílaleiguna og aftur til baka án þess að gera nokkur akstursleg mistök, enda umferðarreglur samsvarandi því sem gerist hérlendis.

Vaskur hópur fyllti á vöruflutningabílinn og það var haldið af stað til Görlitz. Danska fjölskyldan hélt heimleiðis eftir að snætt hafði verið á veitingastað sem ég horfi yfirleitt framhjá, en þarna var mikilvægara að aka auðveldar leiðir en að finna viðurkennda veitingastaði. Berlínarfjölskyldan mannaði vöruflutningabílinn og við fD fylgdum í humátt á eftir, margtryggð fyrir mistökum af einhverju tagi: með vanan ökumann í vöruflutningabíl á undan og glæsilegt GPS tæki sem sagði til um það með bæði myndrænt og með hljóði, hvar og hvenær hitt og þetta gerðist eða ætti að gerast. Þetta var allavega fyrirkomulagið meðan ekið var út úr Berlín.

Hraðbrautin í suð-suð-austur frá Berlín var framundan. Ekki var laust við örlítinn kvíðasting í tengslum við tilhugsunina um að hefja akstur á takmarkalausum hraða, en á hraðbrautum Þýskalands er algengara en ekki, að engin séu hraðatakmörkin. Það þarf nú ekkert að fjölyrða um það, en innkeyrslan á hraðbrautina gekk eins og í sögu: við stöðugt í humátt á eftir vöruflutningabílnum, annars vegar til að tryggja að rétt væri ekið og hinsvegar til að vera viss um að GPS tækið vísaði okkur rétta leið. Eftir aksturinn út úr Berlín þótti mér það orðið ljóst, að GPS tækið virkaði eins og til stóð og því þótti mér ekki líklegt annað, en að það myndi koma okkur hina réttu leið á áfangastað. Þá er það einnig svo, að vöruflutningabílar eru ekki hannaðir til hraðaksturs af því tagi sem þarna var. Þegar ég var búinn að aka á eftir vöruflutningabílum allgóða stund, á hægri akgrein og aldrei nema í 5 gír, fór mér smám saman að aukast þor, sem eðlilegt var, því þarna var umferðarhraðinn með talsvert öðrum hætti en maður á að venjast. Á eftir vöruflutningabílnum fór hámsrkshraðinn nánast ekki yfir 110 km/klst, en það þótti bílstjóranum í farþegasætinu heldur mikið og tjáði það svo ekki varð misskilið.
Þar kom, að ég tók þá afdrifaríku ákvörðun að skella mér fram úr vöruflutningabílnum, við misgóðar undirtektir annarra farþega. Að hluta til var ákvörðunin tekin þar sem ég er mikill ævintýramaður í eðli mínu og langaði að njóta óvissunnar sem hraðbrautin framundan bæri í skauti sér. Hinsvegar fannst mér ótækt, að athuga ekki hvernig færi ef BMW-inn væri settur í sjötta gír.
Ég sveiflaði tækinu yfir á vinstri akgrein og þá varð ekki aftur snúið. Sett í sjötta gír og hraðamælirinn sýndi stöðugt aukinn hraða. Ég lét ekki segjast þó svo setningar eins og "Ég vil benda þér á að þú ert kominn í 120" eða "Er þetta nú ekki að verða alveg nóg?" bærust mér til eyrna með reglulegu millibili.
Í stuttu máli gekk aksturinn glimrandi vel eftir hraðbrautinni, en framundan var síðan það sem þarna er kallað: sveitavegur, sem er sambærilegt við þjóðveg 1 á Íslandi. Allt gekk eftir og ekkert mál reyndist að skella sér af hraðbrautinni yfir á sveitaveginn. Þegar þarna var komið fannst okkur ekki úr vegi, að  æja á einhverjum góðum veitingastað til að skella í okkur eins og einum kaffibolla. Það gekk vel og fyrsta sinni hlýddi ég ekki fyrirmælum GPS tækisins um að aka áfram. Hvíldin var vel þegin og kaffið gott. Vöruflutningabíllinn var löngu horfinn úr baksýnisspeglinum, en þar sem við sátum í makindum við þjóðveginn, kom að því að hann ók framhjá með Berlínarfjölskylduna innanborðs.

Það sem eftir var leiðarinnar til Görlitz gekk hreint ágætlega fyrir utan tvennt:
1. Það lá tré þvert yfir veginn á einum stað. Þessu hafði GPS græjan ekki gert ráð fyrir og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að fá uppgefna aðra leið krafðist hún þess að tekin skyldi U-beygja svo fljótt sem auðið væri og farin sama leið.  Það var ekki fyrr en sú ævintýralega ákvörðun var tekin, að hunsa græjuna alveg og keyra bara einhvern veg, að hún leiðbeindi okkur eftir nýrri leið.
2. fD hafði misreiknað í huga sér þær vegalengdir sem um var að ræða og hafði um það orð.

Við renndum síðan í hlað á Biesnitzerstrasse númer 31, á undan vöruflutningabílnum, sem reyndist hafa þurft að taka á sig lengri krók vegna trésins á veginum.

Nú var sú staða orðin uppi að mér fannst lítið mál að aka bifreið á evrópskum vegum, og var rétt að byrja.

10 ágúst, 2010

Bílaleigubílsakstursævintýri (1)

Það lá fyrir s.l. vetur, að ekki yrði hjá því komist, miðað við tilhögun og skipulag Evrópuferðar okkar fD, að ég æki bíl á evrópskum vegum. Til þessa hef ég komið mér hjá þessu, heldur aldrei verið nauðsyn á, þar sem ferðir hafa verið skipulagðar miðað við engan akstur minn. 
Ég held að ég hafi nú samt alltaf séð fyrir mér, að að þessu hlyti að koma, enda búinn að fá mér nýtt, samevrópskt ökuskírteini fyrir nokkrum árum. Samkvæmt því er mér heimilt að aka risastórum vöruflutningabíl með tengivagn um Evrópu þvera og endilanga, ef ég svo kýs (væri nú gaman að láta á það reyna einhverntíma).
Nú var það, sem sagt uppi, að Berlínarfjölskyldan stefndi á flutning strax eftir tónleikana sem ég er búinn að fjalla um í þrem pistlum. Áfangastaðurinn var bær, austast í Þýskalandi, á landamærunum við Pólland, sem Görlitz kallast, í ríflega tveggja klukkustanda akstursfjarlægð frá Berlín. Berlínarbóndinn hugðist taka á leigu vöruflutningabíl og aka honum sjálfur með búslóðina á áfangastað. Við fD höfðum tekið að okkur að aðstoða eftir mætti við aðgerðina, en þá var strax ljóst, að það yrði ekki pláss fyrir okkur í vöruflutningabílnum, heldur yrðum við að koma okkur á öðrum bíl, með farangur, þangað austur eftir. Ekki var um það að ræða, að fD kærði sig um að sjá um aksturinn, þannig að fyrir lá, með nokkurra mánaða fyrirvara hvert stefndi með málið. Það varð úr, að ég fól Berlínarmanninum að taka á leigu bíl vegna þessa. Ákvað með sjálfum mér, að þetta færi bara einhvernveginn þegar að því kæmi.
Aðspurður hvernig bíl ég vildi leigja, taldi ég nauðsynlegt að hann væri með gott skott til flutninga, kannski jeppi bara, kannski bara Nissan Xtrail - ég hafði heyrt að nýjustu árgerðir af þeim bíl væru nokkuð rúmgóðar (ástæðan var auðvitað ekki sú, að ég ætti slíkan bíl og væri því vanur honum). Það heyrði ég á Berlínarmanninum, að ekki þótti honum valið viturlegt, taldi vélina ekki nógu öfluga fyrir þýskar hraðbrautir, þar sem enginn væri hámarkshraðinn. Hann taldi betra að taka bíl með öfluga vél, sem ætti séns, auk þess sem hann eyddi minna eldsneyti vegna minni snúningshraða vélarinnar. Hvað um það, ákveðið var að taka á leigu Nissan Xtrail.
Ekki ætla ég að fjölyrða um hugrenningar mínar síðustu mánuðina, að því er bílaleigumálið varðar. Margt hugsaði ég, eðlilega og kynnti mér þýskt vegakerfi eftir föngum.


Sá dagur kom, að við komum til Berlínar og þá kom í ljós, að ekki höfðum við fengið Xtrail, eins og óskað hafði verið eftir, heldur kolsvartan jeppa af gerðinni BMW X3 með dísilvél; 6 gíra tryllitæki. Mig grunar nú, að B-maðurinn hafi bara ákveðið að segja mér að hinn hafi ekki verið á lausu. Fyrstu dagana kom ég mér auðveldlega undan því að taka í gripinn, en stundin nálgaðist óðum. Fyrirhugað var að ná í vöruflutningabílinn á sunnudagsmorgni, inn í miðja Berlín. Þá varð þetta ekki umflúið lengur. Ég sá fyrir mér Þjóðverjana hrista höfuð sín af krafti yfir vitleysislegum akstursmáta mínum, en varð þó að viðurkenna að betri tími til að hefja borgaraksturinn væri ekki hægt að hugsa sér.

Sunnudagurinn rann upp og hópur fólks kominn til að bera búslóðina út í vöruflutningabílinn. Ég tók að mér (ekki aðrir valkostir) að aka á bílaleiguna þar sem hann skyldi sóttur.  

Ég hafði, sem forsjáll maður, gripið til ráðstafana sem myndu auðvelda nokkuð þá nýju reynslu, sem hér blasti við.

04 júlí, 2010

Skemmtilegt kaffihús á landsbyggðinni (2)

Kökusneiðarnar fjórar voru komnar á borðið eftir að hafa verið hitaðar í örbylgjuofninum. 15 mínútur liðnar frá pöntun. Konan tók, eftir nokkrar vífilengjur við þessar aðstæður, fram rjómasprautu (svona þrýstikútssprautu), hristi hana nokkuð áður en hún mundaði hana til að setja rjóma á kökudiskana.
Allt byrjaði það vel: brublubrrrstbrublets - þeyttur rjóminn lagðist á diskinn við hlið fyrstu kökusneiðarinnar, og síðan hinumegin við hana einnig. Þá var komið að næstu sneið: brublubrrrtissbrub tisstissbrutisstisístisssssss - eitthvað var farið að minnka í sprautunni. Hér hóf konan að hrista hana og reyndi aftur: brutissbrtissssssssssssssss - hristi áfram: brtisssssssssssss - og áfram: btisssssssssssssssssssss. Hún hristi svo rækilega að allur líkaminn tók þátt í því, þannig að hárið var farið að losna úr hnútnum og lagðist  fyrir andlitið: tiss tiss tisssssssssssssss. Sprautan galtóm og gasþrýstingurinn fjaraði smám saman út.
Nú tók við allnokkur tími sem fór í að snúast í hringi og ganga, að því er virtist stefnulaust fram og til baka.
"Þið megið ekki gleyma að skrifa í gestabókina", sagði hún allt í einu upp úr eins manns hljóði. 
"Nei, nei" við héldum nú ekki.
Nú upphófst aðgerðin nýr-rjómi-og-gas-í-sprautuna. Hún var lengri og fjölþættari en svo, að ég geti farið að lýsa henni nákvæmlega. Í stuttu máli hellti konan nýjum rjóma í sprautuna og síðan setti hún þrýstihylkið á og skrúfaði þar til þrýstingurinn úr því fyllti sprautuhylkið. Þessu fylgdu ýmsar hliðaraðgerðir. Hér var að verða hálftími liðinn frá því útlendingarnir fjórir pöntuðu sér 4 kökusneiðar með kaffinu. Þar kom að einn þeirra kom upp tröppurnar, augljóslega til að athuga hvort einhver von væri til að kökurnar kæmu.  Í þann mund er hann kom inn í kaffihúsið var konan að ljúka við að festa þrýstihylkið á sprautuna og hóf að hrista hana af svo miklum ákafa að mér datt í hug hvort þrýstihylkið væri bara ekki alveg óþarft. Hárið var nú allt komið í óreiðu og sviti perlaði á enni. Gleraugum höfðu sigið, skökk, neðar á nefið. Við að upplifa þessar aðstæður virðist útlenska kökukaupandanum verða ljóst, að það var verið að vinna hörðum höndum í afgreiðslunni og sneri aftur út án þess að segja orð.
"Má ekki bjóða ykkur ábót?" sagði konan, en við vildum ekki fara að flækja líf hennar með slíku óþarfa vafstri, enda dugði okkur alveg einn bolli af ágætu kaffinu.
Þegar nóg hafði verið hrist, fór konan að vaski í eldhúsinu til að prófa hvort rjóminn væri þeyttur. Sem betur fer virtist svo vera og hún hófst handa við að setja rjóma með kökunum þrem sem eftir voru. Nú var þrýstingurinn hins vegar heldur mikill svo rjóminn lagðist helldur ólögulega með sneiðunum - í stóra, klessulega bingi, en hvað um það, svona skyldi þetta vera. Kökudiskarnir voru lagðir einn af öðrum á afgreiðsluborðið og súkkulaðispæni dreift yfir. Þessu næst tók konan tvo diska og bar þá út til gestanna, kom upp aftur og fór með hina tvo sömu leið. Hér voru liðnar nálægt 40 mínútur frá því fjórir útlendingar höfðu lagt inn pöntun á  fjórum kökusneiðum.
Konan varð léttari í fasi þegar diskarnir höfðu verið afhentir. Við sáum ekki ástæðu til að dvelja þarna lengur, enda kaffið búið og tilgangnum þar með náð. Risum á fætur og skráðum nöfn okkar skilmerkilega í gestabókina, gerðum upp skuldir okkar og gengum út í sumarið. Fyrir framan kaffihúsið var fjaran þar sem æðarfuglar lágu með höfuð undir væng. Fjórir kaffilausir útlendingar með rjómasprautaðar kökusneiðar fyrir framan sig, sátu undir húsveggnum og ræddu sín á milli. Hvert umræðuefnið var, skal ekki fjölyrt um.
Okkar beið ferð á næsta áfangastað sumarferðarinnar.

------------------------------
Það skal tekið skýrt fram, að ég er ekki að gera lítið út staðnum eða konunni sem þar vann. Hér var tiltölulega nýbúið að opna nýjan stað og því etv byrjendabragur á hlutunum. Með fleiri gestum slípast þetta og agnúar verða sniðnir af. Samt sem áður er gaman að velta sér úpp úr þessu af illgirni sinni.

03 júlí, 2010

Skemmtilegt kaffihús á landsbyggðinni (1)

Það vor 4 erlendir ferðamenn sem stóðu við afgreiðsluborðið þegar við fD gengum inn í fyrrverandi barnaskóla, sem nú hafði verið breytt í kaffihús. Okkur langaði í kaffibolla. Afgreiðslumanneskjan, sem var kona á tæplega miðjum aldri, skolhærð með hárið fest í lauslegan hnút, með gleraugu með þykkum, dökkum umgjörðum og dálítið óvenjuleg í fasi, sem raunar skiptir engu máli í þessari umfjöllun, auðvitað, stóð fyrir innan afgreiðsluborðið og brást við spurningum ferðalanganna með einhverjum hætti sem ég heyrði ekki, en þar sem hún benti þeim á kæliskáp, merktan gosdrykkjafyrirtæki, þar sem sjá mátti kökusneiðar á diskum, sem búið var að setja filmuplast yfir, virtist ljóst að þeir höfðu í hyggju að fá sér kaffi og með því.  Þeir stóðu um stund fyrir framan kæliskápinn og bentu á hina og þessa diska, og spurðu einhvers, sem konan svaraði. Meðal annars heyrði ég að einn þeirra, í það minnsta vildi fá sér capuccino, enda blasti vél til þess arna við fyrir aftan afgreiðsluborðið. Ég hafði einmitt hugsað mér að fá mér capuccino. Nei, því miður var vélin biluð. Þarna voru kökur valdar og síðan benti  hópurinn út og gaf þannig til kynna að þau vildu sitja utandyra við að njóta kaffis og kakna. Gengið frá málum og hinir erlendu gestir gengu út til að njóta veðurs og útsýnis.
Upp að innganginum í gamla skólahúsið lágu tröppur, ein 10 þrep og í þeim, til beggja handa, hafði verið komið fyrir steinum sem höfðu verið málaðir með einhverjum fígúrumyndum. Í skoti fyrir neðan tröppurnar var tjaldstæðisborð þar sem hægt var að sitja í góðu veðri. Þegar inn var komið tók á móti manni nokkuð vistlegur salur, vönduð húsgögn og á veggjum ljósmyndir, aðallega af eldgosunum tveim, sem voru til sölu á 20 til 30 þúsund. Mér þótti ljóst að þarna væri eiginmaður konunnar að selja myndir sýnar. Gæti svo sem alveg eins verið bróðir hennar. Hvað veit ég?  Á miðju gólfi var stórt borð þar sem gestabók dró að sér mesta athyglina, að öðru leyti var þar að finna eitthvert handverk, sem var til sölu. 
Þegar erlendu gestirnir voru farnir út hófst konan handa við að útbúa pöntun þeirra, en þá fannst mér strax að ýmsu mætti hagræða betur til að afgreiðslan gengi vel fyrir sig. Það fór meiri tími í að ganga fram og til baka og snúast í hringi, en að drífa í að græja pöntunina með markvissum hætti.
Ekki gerði konan sig líklega til að sinna okkar þörfum, en nú vorum við þarna ein með henni innandyra. Þar kom þó að við vorum búin að skoða allar eldgosamyndirnar og tókum okkur sæti við stórt borð við hliðina á öðru stóru borði þar sem fólk hafði lokið við að snæða og var farið, en diskar með matarleifum höfðu ekki verið fjarlægðir.
Loks kom konan til okkar eins og út úr miðjum einum hringsnúningnum og tók pöntun okkar, náði í kaffibolla, mjólkurkönnu og molakar og setti á borðið fyrir framan okkur. Svo leið og beið og hún hélt áfram að tína kökudiska út úr kæliskápnum og setja inn fyrir stóra lúgu bak við afgreiðsluborðið. Fyrir innan lúguna, sem var um það bil 1,50 á breidd og 60 cm hátt, blasti eldhúsið við, þar sem allt virtist vera talsvert óskipulagt: diskastaflar við eldhúsvask og pottur á rafmagnshellu, greinilega lítið laust borðpláss fyrir innan lúguna, því konan þurfti þó nokkrar tilfæringar við að kom kökudiskunum 4 fyrir.
Þar kom að það heyrðist uppáhellingarlokahljóð frá kaffikönnu í eldhúsinu og skömmu síðar fengum við kaffi í bollana. Alveg ágætis kaffi sem tók í. 
Þegar hér var komið voru liðnar um 10 mínútur frá því útlendingarnir fóru út. Kökurnar komnar úr kæli og framundan næsti liður aðgerðarinnar. Milli þess sem hún snérist, setti konan hvern kökubitann af öðrum í örbylgjuofn til að taka úr þeim mesta kuldann. Því næst hófst hún handa við að fjarlægja filmuplastið að diskunum og senn 15 mínútur frá því pöntunin var gerð.

Það var hérna sem upphófst sérkennilegasti hluti afgreiðsluferlisins. Við fD sátum með kaffið okkar og fylgdumst nokkuð grannt með því sem fram fór.

Frásögn af því bíður næsta hluta.
--------------------------------------------------

Það skal tekið skýrt fram, að ég er ekki að gera lítið út staðnum eða konunni sem þar vann. Hér var tiltölulega nýbúið að opna nýjan stað og því etv byrjendabragur á hlutunum. Með fleiri gestum slípast þetta og agnúar verða sniðnir af. Samt sem áður er gaman að velta sér úpp úr þessu af illgirni sinni.

13 maí, 2010

Aldrei nógu gott

Það er í eðli okkar (má reyndar deila um það) að vera aldrei fyllilega ánægð með það sem við höfum. Við ákveðum einhverja stefnu í lífinu, en sjáum þá yfirleitt fljótt að stefna einhverra annarra er líklegast betri. Reynum við síðan þeirra leið, er allt eins líklegt að sú sem við völdum í upphafi hafi hreint ekki verið svo galin, þegar allt kemur til alls.
Það er einmitt vegna þessa þáttar í sálarlífi okkar mannanna sem hægt er að selja okkur hluti af ýmsu tagi; farsíminn sem okkur hefur dreymt um lengi, veitir ekki þá fullnægju sem hann átti að gera, því við höfum séð einhvern vinanna með síma sem hlýtur að vera miklu flottari og betri.

Nú langar mig, samkvæmt því sem hér hefur verið sagt, í nýja myndavél. Ég á svo sem fína vél, EOS400, sem dugir auðvitað. Hinsvegar hef ég verið að taka myndir á EOS550 undanfarið, með þeim afleiðingum, að mér finnst að ég þurfi að fá mér slíka græju. 


Þó fD telji að ég eigi að láta það eftir mér, í stað þess að vera að safna upp í arf handa eftirkomendunum, þá er eitthvað í eðli mínu sem segir að maður eigi ekki að vera að eltast við allt sem er nýtt og betra. Það á síðan í átökum við annað sem segir, svo ekki verður misskilið, að þetta verði hreinlega að gerast.

Á þessari stundu hef ég ekki ákveðið hvað verður úr.
Myndin er úr EOS550 - tekin af vatnsslag á Laugarvatni.

17 apríl, 2010

Björgunaraðgerð



Gos í Eyjafjallajökli um hádegisbil í dag - séð frá Laugarási

Hvernig gæti ég hafa ímyndað mér að það ætti fyrir mér að liggja, að bjarga tveim Norðmönnum í vanda, á þessum sólríka laugardegi? Það varð hinsvegar raunin, þó svo endanleg ninðurstaða þessarar aðgerðar liggi ekki endanlega fyrir enn.

Það kom símtal frá Kvisthyltingnum danska, sem nú er staddur á ráðstefnu í þeirri merku borg Nottingham, þar sem Hrói höttur gerði garðinn frægan. Í dag hyllir undir ráðstefnulok og hugað er að heimferð. Þá kemur babb í bátinn, eins og flestum hlýtur að vera ljóst.

Þetta símtal fól í sér að fela mér að leita uppi mögulegar ferðaleiðir frá Englandi yfir á meginland Evrópu. Þar var nefnd til sögu hafnarborgin Harwich á austurströndinni. Þaðan eru ferjusiglingar til ýmissa borga. Ég hóf leit að fari og komst brátt að því, að þar er fátt um fína drætti. Næsta ferja sem ekki er fullbókuð fer til Esbjerg á föstudaginn kemur, 26. apríl. Ég leitaði því eftir fari til einhvers staðar sem kallast Hook of Holland, en þangað er rúmlega 6 tíma sigling. Fyrsta ferð þangað, þar sem enn var laust, reyndist vera að morgni þriðjudags næstkomandi.

Þetta tjáði ég Kvisthyltingnum símleiðis. Hann ákvað að taka þetta far þar sem ekkart annað var í kortunum. Að því sögðu fór hann þess á leit við mig að ég bókaði einnig tvo samráðstefnugesti hans í umrædda ferð. Þetta voru þeir Vegard Ölstörn og Bo Haugen, örugglega miklir öndvegismenn, norskir.

Ég komst í gegnum bókunarferlið og nú eru þeir félagarnir þrír bókaðir í ferju Stena Line frá Harwich til Hook of Holland, n.k. þriðjudag kl. 9:00 að morgni. Hvernig þier ætla sér síðan að komast til Norðurlandanna þaðan er eitthvað sem ekki liggur enn ljóst fyrir, en samkvæmt áreiðanlegum upplýsingum frá Fyrrelunden eru og verða allar almenningssamgöngur í Evrópu fullbókaðar eins lengi og séð verður.


Nú bíð ég spenntur eftir fregnum af því, hvort bókun mín reynist verða sú björgun sem endanlega leiðir til þess að tveir Norðmenn og einn Kvisthyltingur komast til síns heima áður en langt um líður.

04 apríl, 2010

Páskasól


Það er ekki laust við að maður sé skominn á það stig að óska þess að gula augað á himni taki sér hvíld um stund og víki þannig fyrir hlýjum sunnanvindum sem ná að vekja líf af vetrardvala. Mér liggur við að segja að það sé sólin sjálf sem er birtingarmynd páskahretsins hér sunnanlands. Vissulega má láta sig hafa það að fara út fyrir hússins dyr um hádaginn án þess að vera kappklæddur, en þar fyrir utan nær hitinn varla að skríða yfir úr frosti. Sem sagt, þessu má alveg fara að linna.


Ef manni tekst að líta framhjá því, að með sól á þessum árstíma fylgir oftast fremur svöl norðanátt, þá er sú gula hreint ekki alslæm. Hún hamast við að lofa því að vetrardrunginn hverfi brátt. Það er reyndar ekki hægt að segja að það hafa svo sem verið vetur yfirleitt.


Í tilefni af því að fD er nú farin til messu, sannarlega í trúarlegum tilgangi, sendi ég hér kveðju til lesenda, nær og fjær, til sjávar og sveita; kveðju sem flytur ósk þeim til handa um gleði og bjartsýni, sól í sinni og sumarsýn.


03 apríl, 2010

En fór ég þangað eftir allt saman?

Það er svona með þetta eldgos.
Það var kannski ekki vegna þess að ég skammaðist mín fyrir að segja frá því, að ég sagði frá því síðast, að ekki skyldi leið mín liggja á þær slóðir sem jörðin notar nú til að losa sig við angur sitt. Ástæðan er miklu nær því að vera sú, að til þess að koma því nægilega skýrt til skila til lesenda þyrfti ég að geta borið fram óvéfengjanlegar sannanir fyrir fyrir því að ég hefði verið á staðnum. Þær liggja nú fyrir og birtast sjónum ykkar hér fyrir neðan. Ég stóðst ekki mátið, eftir gengdarlausa áeggjan fjölmiðla og nágranna, að sitja bara einn eftir, hafandi ekki farið að sjá gosið.
Ferðin var farin í fyrradag og leiðin lá upp á Mýrdalsjökul og þaðan niður að gossvæðinu. Ýmsir aðrir voru með í för, en ég ætla ekkert að greina nánar frá því hverjir það voru, né heldur hvernig farartæki flutti mig þarna upp eftir. Miklu meira máli skiptir sú óraunverulega reynsla sem ég varð fyrir.
Á myndinni, sem að stærstum hluta var tekin af Hverstúnsbóndanum, er ég að ná mér í sýni af nýgosnu gosefni, sem nú prýðir stofuhillu í Kvistholti. Þarna var nokkuð heitt eins og glöggt má sjá. Ástæða þess að ég er þarna umlukinn gráleitum reyk er sú, að gúmmíið í skónum mínum var farið að bráðna svo um munaði. En hraunmolanum náði ég.

... eða ekki

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...