04 júlí, 2010

Skemmtilegt kaffihús á landsbyggðinni (2)

Kökusneiðarnar fjórar voru komnar á borðið eftir að hafa verið hitaðar í örbylgjuofninum. 15 mínútur liðnar frá pöntun. Konan tók, eftir nokkrar vífilengjur við þessar aðstæður, fram rjómasprautu (svona þrýstikútssprautu), hristi hana nokkuð áður en hún mundaði hana til að setja rjóma á kökudiskana.
Allt byrjaði það vel: brublubrrrstbrublets - þeyttur rjóminn lagðist á diskinn við hlið fyrstu kökusneiðarinnar, og síðan hinumegin við hana einnig. Þá var komið að næstu sneið: brublubrrrtissbrub tisstissbrutisstisístisssssss - eitthvað var farið að minnka í sprautunni. Hér hóf konan að hrista hana og reyndi aftur: brutissbrtissssssssssssssss - hristi áfram: brtisssssssssssss - og áfram: btisssssssssssssssssssss. Hún hristi svo rækilega að allur líkaminn tók þátt í því, þannig að hárið var farið að losna úr hnútnum og lagðist  fyrir andlitið: tiss tiss tisssssssssssssss. Sprautan galtóm og gasþrýstingurinn fjaraði smám saman út.
Nú tók við allnokkur tími sem fór í að snúast í hringi og ganga, að því er virtist stefnulaust fram og til baka.
"Þið megið ekki gleyma að skrifa í gestabókina", sagði hún allt í einu upp úr eins manns hljóði. 
"Nei, nei" við héldum nú ekki.
Nú upphófst aðgerðin nýr-rjómi-og-gas-í-sprautuna. Hún var lengri og fjölþættari en svo, að ég geti farið að lýsa henni nákvæmlega. Í stuttu máli hellti konan nýjum rjóma í sprautuna og síðan setti hún þrýstihylkið á og skrúfaði þar til þrýstingurinn úr því fyllti sprautuhylkið. Þessu fylgdu ýmsar hliðaraðgerðir. Hér var að verða hálftími liðinn frá því útlendingarnir fjórir pöntuðu sér 4 kökusneiðar með kaffinu. Þar kom að einn þeirra kom upp tröppurnar, augljóslega til að athuga hvort einhver von væri til að kökurnar kæmu.  Í þann mund er hann kom inn í kaffihúsið var konan að ljúka við að festa þrýstihylkið á sprautuna og hóf að hrista hana af svo miklum ákafa að mér datt í hug hvort þrýstihylkið væri bara ekki alveg óþarft. Hárið var nú allt komið í óreiðu og sviti perlaði á enni. Gleraugum höfðu sigið, skökk, neðar á nefið. Við að upplifa þessar aðstæður virðist útlenska kökukaupandanum verða ljóst, að það var verið að vinna hörðum höndum í afgreiðslunni og sneri aftur út án þess að segja orð.
"Má ekki bjóða ykkur ábót?" sagði konan, en við vildum ekki fara að flækja líf hennar með slíku óþarfa vafstri, enda dugði okkur alveg einn bolli af ágætu kaffinu.
Þegar nóg hafði verið hrist, fór konan að vaski í eldhúsinu til að prófa hvort rjóminn væri þeyttur. Sem betur fer virtist svo vera og hún hófst handa við að setja rjóma með kökunum þrem sem eftir voru. Nú var þrýstingurinn hins vegar heldur mikill svo rjóminn lagðist helldur ólögulega með sneiðunum - í stóra, klessulega bingi, en hvað um það, svona skyldi þetta vera. Kökudiskarnir voru lagðir einn af öðrum á afgreiðsluborðið og súkkulaðispæni dreift yfir. Þessu næst tók konan tvo diska og bar þá út til gestanna, kom upp aftur og fór með hina tvo sömu leið. Hér voru liðnar nálægt 40 mínútur frá því fjórir útlendingar höfðu lagt inn pöntun á  fjórum kökusneiðum.
Konan varð léttari í fasi þegar diskarnir höfðu verið afhentir. Við sáum ekki ástæðu til að dvelja þarna lengur, enda kaffið búið og tilgangnum þar með náð. Risum á fætur og skráðum nöfn okkar skilmerkilega í gestabókina, gerðum upp skuldir okkar og gengum út í sumarið. Fyrir framan kaffihúsið var fjaran þar sem æðarfuglar lágu með höfuð undir væng. Fjórir kaffilausir útlendingar með rjómasprautaðar kökusneiðar fyrir framan sig, sátu undir húsveggnum og ræddu sín á milli. Hvert umræðuefnið var, skal ekki fjölyrt um.
Okkar beið ferð á næsta áfangastað sumarferðarinnar.

------------------------------
Það skal tekið skýrt fram, að ég er ekki að gera lítið út staðnum eða konunni sem þar vann. Hér var tiltölulega nýbúið að opna nýjan stað og því etv byrjendabragur á hlutunum. Með fleiri gestum slípast þetta og agnúar verða sniðnir af. Samt sem áður er gaman að velta sér úpp úr þessu af illgirni sinni.

2 ummæli:

  1. brrrrrisssssitiss og tissibrisssss
    bráðum kemu rjóminnn (fliss)
    gott að konan góða var
    glöð til staðar -sem og bar-

    tissitriss í rjómarissibrissi


    Ósköp virtust ágætar
    enda sjálfsagt fágætar
    kökur þær sem komu nú
    og kankvís lagði á borðið frú
    bullsveitt,enda barist hafði stórum
    að bjarga hingað kökusneiðum fjórum

    Hirðkveðill yrkir um kaffihús og kökur; rjómasprautur og aðra nútímatækni.

    SvaraEyða
  2. Þetta hefur verið skörunglegur kvennmaður að verki. kveðja SS

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...