03 júlí, 2010

Skemmtilegt kaffihús á landsbyggðinni (1)

Það vor 4 erlendir ferðamenn sem stóðu við afgreiðsluborðið þegar við fD gengum inn í fyrrverandi barnaskóla, sem nú hafði verið breytt í kaffihús. Okkur langaði í kaffibolla. Afgreiðslumanneskjan, sem var kona á tæplega miðjum aldri, skolhærð með hárið fest í lauslegan hnút, með gleraugu með þykkum, dökkum umgjörðum og dálítið óvenjuleg í fasi, sem raunar skiptir engu máli í þessari umfjöllun, auðvitað, stóð fyrir innan afgreiðsluborðið og brást við spurningum ferðalanganna með einhverjum hætti sem ég heyrði ekki, en þar sem hún benti þeim á kæliskáp, merktan gosdrykkjafyrirtæki, þar sem sjá mátti kökusneiðar á diskum, sem búið var að setja filmuplast yfir, virtist ljóst að þeir höfðu í hyggju að fá sér kaffi og með því.  Þeir stóðu um stund fyrir framan kæliskápinn og bentu á hina og þessa diska, og spurðu einhvers, sem konan svaraði. Meðal annars heyrði ég að einn þeirra, í það minnsta vildi fá sér capuccino, enda blasti vél til þess arna við fyrir aftan afgreiðsluborðið. Ég hafði einmitt hugsað mér að fá mér capuccino. Nei, því miður var vélin biluð. Þarna voru kökur valdar og síðan benti  hópurinn út og gaf þannig til kynna að þau vildu sitja utandyra við að njóta kaffis og kakna. Gengið frá málum og hinir erlendu gestir gengu út til að njóta veðurs og útsýnis.
Upp að innganginum í gamla skólahúsið lágu tröppur, ein 10 þrep og í þeim, til beggja handa, hafði verið komið fyrir steinum sem höfðu verið málaðir með einhverjum fígúrumyndum. Í skoti fyrir neðan tröppurnar var tjaldstæðisborð þar sem hægt var að sitja í góðu veðri. Þegar inn var komið tók á móti manni nokkuð vistlegur salur, vönduð húsgögn og á veggjum ljósmyndir, aðallega af eldgosunum tveim, sem voru til sölu á 20 til 30 þúsund. Mér þótti ljóst að þarna væri eiginmaður konunnar að selja myndir sýnar. Gæti svo sem alveg eins verið bróðir hennar. Hvað veit ég?  Á miðju gólfi var stórt borð þar sem gestabók dró að sér mesta athyglina, að öðru leyti var þar að finna eitthvert handverk, sem var til sölu. 
Þegar erlendu gestirnir voru farnir út hófst konan handa við að útbúa pöntun þeirra, en þá fannst mér strax að ýmsu mætti hagræða betur til að afgreiðslan gengi vel fyrir sig. Það fór meiri tími í að ganga fram og til baka og snúast í hringi, en að drífa í að græja pöntunina með markvissum hætti.
Ekki gerði konan sig líklega til að sinna okkar þörfum, en nú vorum við þarna ein með henni innandyra. Þar kom þó að við vorum búin að skoða allar eldgosamyndirnar og tókum okkur sæti við stórt borð við hliðina á öðru stóru borði þar sem fólk hafði lokið við að snæða og var farið, en diskar með matarleifum höfðu ekki verið fjarlægðir.
Loks kom konan til okkar eins og út úr miðjum einum hringsnúningnum og tók pöntun okkar, náði í kaffibolla, mjólkurkönnu og molakar og setti á borðið fyrir framan okkur. Svo leið og beið og hún hélt áfram að tína kökudiska út úr kæliskápnum og setja inn fyrir stóra lúgu bak við afgreiðsluborðið. Fyrir innan lúguna, sem var um það bil 1,50 á breidd og 60 cm hátt, blasti eldhúsið við, þar sem allt virtist vera talsvert óskipulagt: diskastaflar við eldhúsvask og pottur á rafmagnshellu, greinilega lítið laust borðpláss fyrir innan lúguna, því konan þurfti þó nokkrar tilfæringar við að kom kökudiskunum 4 fyrir.
Þar kom að það heyrðist uppáhellingarlokahljóð frá kaffikönnu í eldhúsinu og skömmu síðar fengum við kaffi í bollana. Alveg ágætis kaffi sem tók í. 
Þegar hér var komið voru liðnar um 10 mínútur frá því útlendingarnir fóru út. Kökurnar komnar úr kæli og framundan næsti liður aðgerðarinnar. Milli þess sem hún snérist, setti konan hvern kökubitann af öðrum í örbylgjuofn til að taka úr þeim mesta kuldann. Því næst hófst hún handa við að fjarlægja filmuplastið að diskunum og senn 15 mínútur frá því pöntunin var gerð.

Það var hérna sem upphófst sérkennilegasti hluti afgreiðsluferlisins. Við fD sátum með kaffið okkar og fylgdumst nokkuð grannt með því sem fram fór.

Frásögn af því bíður næsta hluta.
--------------------------------------------------

Það skal tekið skýrt fram, að ég er ekki að gera lítið út staðnum eða konunni sem þar vann. Hér var tiltölulega nýbúið að opna nýjan stað og því etv byrjendabragur á hlutunum. Með fleiri gestum slípast þetta og agnúar verða sniðnir af. Samt sem áður er gaman að velta sér úpp úr þessu af illgirni sinni.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...