04 júlí, 2010

Kvartsýki? Já - Skiljanleg? Já (ef þér er ekki sama)

Þetta hef ég áður fjallað um á þessu svæði. Ég hef ekki bara kvartað, eins og hér, heldur einnig fagnað og þakkað fyrir eins og hér

Því skal ekki neitað að það mjakast í áttina að því að vera þolanlegt, ástand umhverfismála á opnum svæðum í Laugarási. Ég neita því ekki að ég var undrandi og glaður fyrir kosningar í vor þegar einhver tók sig til og keyrði mold í svæðið milli götunnar og nýju gangbrautarinnar gegnum Laugarás. Ekki minnkaði undrunin þegar ég komst síðan að því dag einn, að það átti að tyrfa yfir moldina, en ekki bara sá í þetta. Að vísu hef ég sjaldan séð önnur eins vinnubrögð við að leggja þökur, en þarna komu þær.  Já nú var greinilegt að hér stóð til að sinna umhverfinu eins og gert í öðrum þéttbýlisstöðum sveitarfélagsins.



Til að byrja með taldi ég að seinlætið við að byrja slátt á nýju þökunum væri faglegs eðlis: þær þyrftu að ná rótfestu (sem var nú varla tilfellið, þar sem þökunum hafði bara verið hent yfir moldina og ekkert hirt um að sjá til þess að samband myndaðist milli þeirra og moldarinnar sem undir var). Það var ekki fyrr en í vikunni fyrir þjóðhátíðardaginn að hér birtist hópur manna og sló allt þvers og kruss. Ekkert nema gott um það að segja, ef framhald hefði orðið á, eins og vonir stóðu til. Nú er kominn 4. júlí og gróður vex sem aldrei fyrr í blíðunni. Ég tók mig til og myndaði ástand mála á nýju þökunum, þar sem  nú spretta upp fíflar, njóli og annar gleðieyðandi gróður. Þótt mér þyki það miður þá verð ég að geta þess að þessi er ekki raunin í hin tveim þorpunum í Bláskógabyggð og velti því fyrir mér hversvegna svo er.  Það veit ég með vissu, að þegar fyrsti sláttur fór fram hér rétt fyrir 17. júni var þegar búið að slá þrisvar á Laugarvatni. Mér finnst hreint ekkert að því, ef það sama væri uppi á teningnum hér.

Nú kemur mér þetta svo sem ekkert meira við, en öðrum íbúum í þessu þorpi og veit ekki hvort þeir eru eitthvað að gera til að þrýsta á úrbætur í þessum efnum okkur til handa. Það verður bara að hafa sinn gang.
Ég sé ekki fram á annað en að ég verði að fara að óska eftir að sjá samning þann sem var gerður við sláttufyrirtækið í vor. Þar ætti þessi mismunun þorpa(ra)nna að birtast svart á hvítu.

Það er líka margt fallegt í Laugarási



1 ummæli:

  1. Já það færi fróðlegt að fá að sjá þennan samning sem snýr að slætti.
    Er þá ekki hægt að fara fram á að íbúarnir greiði 1/3 þess útsvars sem aðrir íbúar sveitafélagsins greiða? :D

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...