Sýnir færslur með efnisorðinu fD. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu fD. Sýna allar færslur

07 júlí, 2011

Systrasel í heiði

Lengi hefur blundað með dætrum Þorvalds, óskin um að leita uppi fæðingarstað föður síns. Reyndar fórum við fD þessa ferð fyrir einum 10 árum, en tókst með óskiljanlegum hætti að finna ekki fæðingarstaðinn - vorum þó auðvitað réttum stað, en vantaði bara staðfestingu á að rétt væri.

Fjórar eru systurnar, ef grannt er talið

Það var svo í byrjun árs að Frónbúandi dætur hófu skipulagningu ferðar austur á bóginn, nokkurskonar pílagrímsferðar. Fyrst átti hér að vera um að ræða talsverða ferð, svona tveggja til þriggja daga með fínum aðbúnaði, en eftir því sem nær dró týndust gistingarfjaðrirnar af og eftir stóð dagsferð austur á Kirkjubæjarklaustur og nágrenni, með mig sem bílstjóra. Þrjár voru dæturnar sem í ferðina fóru og tvö viðhengin. Fjórða dóttirin var með í andanum, að því er sagt var, og ekki er útilokað að sú nærvera eigi sér einhverjar birtingarmyndir.
Allt gekk þetta vel fyrir sig og áætlanir stóðust.

Heiðarsel í fjarskanum

Staðurinn sem leitað var heitir Heiðarsel á Síðu. Til að komast að honum er ekið upp hjá Hunkubökkum, veginn þann sem ekinn er til að komast í Laka. Eftir um 5 km akstur blasir Heiðarsel við í dalverpi, ekki amalegt umhverfi á þessum árstíma, en að sama skapi erfitt á vetrum, að sögn kunnugra.

Augljóslega voru byggingarnar á jörðinni ekki frá þeim tíma er Þorvaldur, faðir dætranna, fæddist þar og sleit barnsskónum. Hann fæddist 4. janúar, 1920 þarna í heiðinni, og hafa dæturnar komist yfir frásögn af  því þegar sögumaður ver sendur í Heiðarsel í byrjun janúar til að líta til með húsmóðurinni sem þá var ný orðin léttari. Ræddu þær þessa frásögn mikið, fram og til baka, meðan stansað var í Heiðarseli, en svo illa vildi til að sjálfur textinn hafði orðið eftir heima og því margskonar túlkun komin af stað í umræðunni, sem við viðhengin tókum ekki mikinn þátt í.
Sko - þær voru þarna allar - fv. fS, fP, fA og fD

Staðreyndir í sögunni segja að fjölskyldan hafi flutt frá Heiðarseli 1934. Engin staðfest bygging frá þeim tíma fannst í pílagrímsferðinni, en ímyndunaraflið látið ráða þar sem staðreyndum eða sannleika sleppti.
Þær byggingar sem þarna eru uppistandandi eru að mestu leyti frá um 1950, en nú er ekki föst búseta þarna, en jörðin er samt nytjuð og er í eigu bænda í Landbroti.

Eftir kaffisopa (sumir reyndar meira) í Systrakaffi, í grennt við Systrastapa, Systrafoss og systra-hitt og systra-þetta, var þeyst í vesturátt undir kvöld.

Góður var kvöldverðurinn í Árhúsum á Hellu.

26 júní, 2011

Svensson fær hlutverk

Hann var þarna með fleiri löndum sínum á bæjarhátíð í Hveragerði í gær, þegar við fD áttum þar leið um. Það æxlaðist svo, að við tókum tal saman og þá kom í ljós að hann heitir Alf Svensson og er frá smábæ í Smálöndunum í Svíðþjóð sem heitir Orrefors. Þar hafði hann búið frá fæðingu, en var nú kominn á óræðan aldur. Aðspurður um ástæður þess að hann var hingað kominn með félögum sínum, sagði hann skrýtna sögu.
Þannig mun hátta til í Orrefors, að svo langt sem augað eygir er allt þakið skógi, en þar á milli er ræktarland, en það sem kannski er markverðast við bæinn er, að það er víðfræg glerverksmiðja. Á hverju vori er haldin mikil bæjarhátíð þarna, þar sem hápunkturinn er litríkur dans í kringum Maístöngina.

Svensson tók auðvitað þátt í þessu öllu með hinum íbúum bæjarins, sem eru ríflega 700 að tölu. Hann sagði að þessi hátíð væri í rauninni það eina merkilega sem gerðist í Orrefors á ári hverju og hann hefði alltaf þurft að berjast við þunglyndi í kjölfar hennar. Af þessum sökum hefði hann verið farinn að skvetta meira og meira í sig á hátíðinni. Það var einnig svo á hátíðinni í vor. Það sem var með öðrum hætti í vor, hinsvegar var, að eftir að hann og félagar hans höfðu skemmt sér ótæpilega í aðdraganda hátíðarinnar, var svo komið að þeir voru búnir að missa raunveruleikatengingu. Það síðasta sem Svensson segist muna frá hátíðinni var, þegar þeir félagrnir voru farnir að skora hver á annan að gera hitt og þetta. Síðan man Svensson ekkert fyrr en hann vaknaði um borð í flugvél á leið til Íslands. Því varð ekki breytt og þarna enduðu þeir á bæjarhátíð á Íslandi.

Svensson vill ekki fara aftur til Orrefors og vill helst dvelja á Íslandi í einhver ár. Hann spurði hvort hann gæti kannski fengið að setjast upp hjá okkur í Kvistholti.

Auðvitað tókum við þessu vel, tvö í kotinu. Hann er nú kominn Í Laugarás og virðist una sér vel. Hann mun í engu trufla tilveru okkar fD og er ekki þungur á fóðrum.

Svensson er dálítið sérkennilegur útlits; afar smávaxinn með skotthúfu á höfði. Augun eru skásett og endurspegla depurð hans í kjölfar vorhátíðarinnar í Orrefors. Hann virkar talsvert aldraður, en þó er ómögulegt að geta sér til um aldur hans.

Ég reikna með að næstu árin muni hann dvelja meira og minna á pallinum í Kvistholti, sem einhvers konar verndargripur - hann hefur fengið hlutverk.





--------------------------

Ég bið alvörugefna lesendur að afsaka þessa léttúðugu færslu.

08 maí, 2011

Opnað fyrir sólina

Allt í veröldinni á sinn líftíma, sennilega einnig veröldin sjálf, en hér er nú ekki á ferðinni umfjöllun á svo víðum grundvelli. Þetta hófst með því að horfa að kennslumyndband á þútúbunni þar sem nákvæmlega var farið í hvernig staðið skyldi að verkinu svo ekki færi illa. Þar áður hafði reyndar átt sér stað óhemjumikil pæling þar sem reynt var að sjá fyrir sér hvert einasta hænufet í ferlinu, meira að segja var þar tekist á við spurninguna um hvort aðgerðin ætti rétt á sér, í ljósi þess að síðast þegar ráðist var í samsvarandi verk á þessum bæ, kallaði það á ramakvein suður um alla Evrópu.

Hvað um það.

Þegar andlegum undirbúningi var lokið þannig að mér sýndist að verkið yrði mér ekki ofviða, hafði ég sambandi við stoltan eiganda hins sérhæfða tækis sem ég þurfti að halda. Hann tók beiðni minni um lán á  græjunni afar vel, en hún hafði reyndar ekki verið hreyfð síðan síðastliðið sumar, svo það gæti tekið á að koma henni í stand. Með vísindalegri blöndunarnákvæmni minni og útreikningum tókst mér að finna út hvað þyrfti mikið af olíu í bensínblönduna. Ég blandaði, hellti á tankinn og fylgdi síðan leiðbeiningum um gangsetningu. Viti menn, innan ekki svo ógurlega margra tilrauna hrökk tækið í gang og malaði að mestu hnökralaust. Þá var það í höfn.

Þar sem fD hafði séð það fyrir sér að það gæti verið sniðugt að skilja eftir 2ja metra bút af stofninum til að nýta hann í einhverjum tilgangi, þurfti ég að finna ástand, og þá rifjaðist upp fyrir mér, að það ætti að vera til. Var mikið notað þegar paprika var ræktuð í Kvistholti. Ástandið fannst, hálfgerð ryðhrúga að fyrir utan þá hluta sem voru úr áli. Ég dröslaði þessu upp fyrir hús, þar sem grenitréð sem dæmt hafði verið til dauða, stóð.

Ég hef nú reyndar ekki gert mikið að því að beita vélsög á trjágróður - hafð reyndar aldrei gert það áður - og þess vegna ákvað ég að æfa mig á ómerkilegri gróðri. Etir að hafa komist að því að vélsögin lék í höndum mér, stillti ég ástandinu upp við grenitréð sem var farið að hafa óþægilega mikil áhrif á sólardýrkunarmöguleika á bænum. Ég vippaði mér léttilega upp á ástandið vopnaður söginni og hóf að gangsetja hana. Hvort það var vegna þess að æðri máttarvöld litu á þetta príl sem óásættanlegt eða bara vegna einhverrar vanstillingar, þá fór sögin bara ekki í gang. Eftir margítrekaðar tilraunir prílaði ég ofan og ákvað að reyna aftur síðar.


Löngu síðar reyndi ég aftur. Sögin fór í gang eins og ekkert hefði í skorist.

Þarna stóð ég á ástandinu, vonaður vélsög og undirbjó vandasamt verkið. Ég ætlaði á láta tréð falla í tiltekna átt, þannig að það ylli ekki skaða við fallið. Til að svo mætti verða þurfti ég, samkvæmt sérfræðingnum á þútúbu, að saga með tilteknum hætti, flís á tilteknum stað og þannig tryggja að tréð félli eins og vera bar. Sérfræðingurinn hafði líka lagt áherslu á að flóttaleiðir yrðu að vera klárar ef, þrátt fyrir öruggan undirbúning, tréð félli í aðra átt en lagt var upp með. Ég reiknaði út í huganum hvernig ég stykki, ef tréð félli þangað, og hvernig ég stykki ef það félli hingað. Allt var klárt og fD fylgdist með, þess fullviss að allt færi þetta vel eftir svo vandaðan undirbúning. Allavega lét hún ekki annað í ljós.


Vélsögin kyssti stofninn og tennurnar sörguðu sig í gegnum börkinn. Fyrst tók ég láréttan skurð tiltekna vegalengt inn í stofninn og síðan 70° skurð sem endaði þar sem fyrri skurðurinn hafði endað. Þetta var nú reyndar ekki alveg eins og á myndbandinu, því þegar hér var komið sögu var ég næstum búinn að saga alla leið í gegnum tréð og veit raunar ekki hvernig það fór að því að standa þetta af sér. Ákvað að saga ekki skurðinn á móti, eins og ég átti að gera, heldur vippaði mér niður og náði í kaðalband sem ég batt við grein. Henti mér aftur niður og beitti, með snilldarlegum hætti, "toga-slaka" aðferðinni, með þeim afleiðingum, að grenitréð féll á nákvæmlega þann stað sem ég hafði æðlað því að falla á.


Ég neita því ekki, að nú tel ég mig vera færan í flestan sjó þegar skógarhögg er annars vegar. Reyndar sit ég uppi með stirða liði, rispaða handleggi og tognaða vöðva, en að öðru leyti bara sprækur.

24 apríl, 2011

Afleiðingar þess að taka frumkvæði

"Ef þú ætlar að gera þetta þá þarftu að fara að taka brauðið úr kistunni" sagði fD upp úr hádeginu.

Undanfari þessara orða er orðinn talsvert langur.

Mér hafa gegnum tíðina þótt brauðtertur nokkuð góðar við hátíðleg tækifæri. Ég hefði þó vilja sjá meiri þróun á þessu sviði í veislum, en svo lengi sem ég man eftir mér hafa bara verið á borðum tvær tegundir: þessi með rækjunum og þessi með skinkunni. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, að það hlyti að vera hægt að búa til góðar brauðtertur sem væru uppbyggðar með einhverjum öðrum hætti, en ég hef nú ekki aðhafst neitt það sem yki líkur á að ég fengi að bragða eitthvert slíkt góðgæti - fyrr en í páskainnkaupaferðinni.

Þarna vorum við á ferð um stórlágvöruverðsverslunina. Skyndilega bar fyrir augu mér nýbakað brauðtertubrauð og eftir að hafa borið kaup á því lítillega undir fD með ekkert sérlega neikvæðum viðbrögðum, ákvað ég að skella einu í körfuna. Ég vissi það, reyndur maðurinn, að með þeirri aðgerð var verðandi brauðterta alfarið á mína ábyrgð. Því var það að ég hélt áfram brauðtertuhugsuninni:


"Ég er að spá í að hafa eitthvað óvenjulegt í henni."
"Já, þú ræður því bara." (enda er þetta þín brauðterta)

Með þetta í farteskinu fór ég að skoða mig um í versluninni í leit að óvenjulegum brauðtertugrunnefnum: Þarna fann ég rauðrófur, radísur, sveppi, papriku og til að hafa kjötmeti með, valdi ég skinku, sem er reyndar dálítið stílbrot miðað við þá stefnu sem ég lagði upp með. Ég reiknaði með, að að öðru leyti myndi ég finna annað sem til þyrfti þegar þar að kæmi.

Já, við áminninguna sem sjá má efst skellti ég mér auðvitað strax í að ná í brauðið í frystinn, bjó helminginn undir þiðnun, en pakkaði hinum hlutanum aftur í frostið. Svo þiðnaði brauðið á meðan ég tók mig til við að undirbúa hráefnið. Ég átti auðvitað aldrei von á öðru en að það yrði kökusneið (piece of cake) að sneiða efnið niður í litla teninga svo auðvelt yrði að skera kökuna. Allt gekk það eftir. Það var bara til öryggis, að ég spurði:


"Kva, blandar maður þessu svo bara saman við mæjónesið áður en það er sett á brauðið?"
"Já, það er auðveldara að dreifa því þannig." hljóðaði svarið.

Þetta var eina spurningin sem ég varpaði fram í öllu ferlinu.


Ég hrærði öllum teningunum saman við olíusósuna og bætti lítilsháttar mjólk út í, annarsvegar til að taka mestu skerpuna út því og hinsvegar til að blandan yrði auðvinnanlegri. Vegna rauðrófunnar varð úr þessu sérlega fögur, bleik blanda, sem ég smurði á neðsta brauðlagið, setta því næst næsta brauðlagið ofan á og dreifði síðan afgangi blöndunnar þar á, og setti loks þriðja brauðlagið efst. Þessu næst smurði ég brauðtertuna með léttmæjónesi og skreytti eftir kúnstarinnar reglum, "rustic style".

Ég þarf auðvitað ekki að segja frá því, en ég veit, áður en ég smakka þessi nýju brauðtertutegund, að hér er á ferðinni nýjung, sem ég er sannfærður um að mun ná fótfestu í veislum framtíðar.

18 apríl, 2011

Jákvætt viðhorf


Ekki skil ég í því fólki sem bölvar því að enn skuli snjóa - það sé kominn miður apríl og vorblíða eigi að vera farin að einkenna veðurfarið.
Þessu er ég ósammála að ýmsu leyti.
Vorinu fylgir ýmislegt sem mér finnst að geti verið gott að eiga inni til síðari tíma. Hér má til dæmis nefna það sem ég lét út úr mér í dag:


"Og ég sem var búinn að hugsa mér að fara að klippa trjágróðurinn, Æ, æ:"

Viðbrögð fD voru þessi:


"Já, það er nú lágmarkið að það sé ekki snjór. Það er bara spáð svona fram yfir páska!"

Já, blessaður snjórinn.

15 janúar, 2011

Tærður fittings

Það var í janúar á síðasta ári, sem ógæfa dundi yfir í Kvistholti, sem nokkuð rækileg grein var gerð fyrir í fjórum eftirminnlegum færslum undir heitinu JANÚARKRÍSA 1-4.
Það var í gær sem ég fékk símtal, sem ég vildi hreint ekkert fá:
"Hitalögnin í efra plasthúsinu hjá þér er sprungin. Ég var þarna á gangi með hundana og heyrði hávaðann."
Ég þakkaði auðvitað fyrir að hundaeigandinn skyldi láta mig vita af þessu. Settist síðan niður og hugsaði minn gang. Fyrsta hugsunin var auðvitað, eins og venjulega þegar svona tilvik koma upp: Ég vil bara að þetta vandamál hverfi! Sannarlega gerði það það ekki. Mér var nauðugur einn kostur að athuga hvernig staðan var. Það var myrkur, enda komið kvöld í janúar. Þá uppgötvaði ég, maðurinn sem á nánast allt, að ég á ekki vasaljós. Sem betur fer var útihitinn tæpar þrjár gráður í plús og því var það, að ég tók ákvörðun um að fresta málinu, fara bara út og skrúfa fyrir - kíkja svo á málið þegar birti.  Þegar ég kom út heyrði ég, svo ekki varð um villst, að eitthvað hafði sprungið í efra plasthúsinu.  Ég stóð fast við fyrri ákvörðun mína og fór niður í gróðurhús þar sem hægt er að skrúfa fyrir hita í bæði plasthúsin. Það gerði ég síðan og svo sem ekkert meira um það að segja. Í skímunni frá götuljósum fikraði ég mig síðan að efra plasthúsinu, en út úr því gaus mikill gufumökkur. Þetta leit ekki vel út. Ég stóð við fyrri ákvörðun mína um frestun frekari aðgerða. Fór aftur inn í hlýjuna og á vedur.is þar sem ég fékk von mína uppfyllta um frostlausa nótt.
Í hönd fór síðan rólegheita nótt þar sem iðkaður var, með réttu eða röngu, svefn hinna réttlátu.

Þegar fór að birta aftur reikaði hugurinn í plasthúsið. Hvað skyldi bíða mín þar? Var kannski allt meira og minna frostsprungið? Hvernig færi ég að því við slíkar aðstæður, að hleypa bara hita á neðra plasthúsið?

Það varð hreinlega ekki undan því vikist að rölta niðureftir og öðlast þannig vitneskju um það sem gerst  hafði. Í gúmmískóna, vopnaður myndavél (augljóslega myndi hún ekki gera neitt gagn, eins og hver maður getur sagt sér).

Af ótrúlegri yfirvegun lagði ég leið mína inn í efra plasthúsið, sem bara var þarna í sakleysi sínu eins og ekkert hefði skeð. Það sem við blasti þegar inn var komið hafði tvennskonar áhrif - aldeilis af báðum pólum mannlegra tilfinninga; önnur kallaði fram í hugann (auðvitað ekki upphátt) ANDSKOTINN SJÁLFUR!, en hin framreiddi hugsunina GUÐI SÉ LOF!

Fyrir 15 árum voru plasthúsin byggð og þá var var plastinu á þeim gefinn 5 ára líftími, en vegna veðurfars í Laugarási sér ekki á því enn. Í húsin var sett miðstöð - af vanefnum, og allir vita að að því hlýtur að koma að mannanna verk gefa sig. Þarna hafði ég, sem sagt sett hitalögn þannig, að lagt var í plasti að húsunum og plastið síðan tengt við hitarörin inni í húsunum. Það var á þeim samskeytum sem  svart hné hafði gefið sig (svart, þýðir að það er ekki galvaniserað og getur því ryðgað), hafði orðið tæringunni að bráð. Á þetta hné var komið gat sem var tæpur fersentimetri að stærð.

Ég tók myndir af hnénu (hversvegna, verður hver að svara fyrir sig). Að því búnu fór ég aftur inn og átti símtal við hG sem hefur haft garðyrkjuhluta Kvistholts á leigu undanfarin ár. Hann kom síðan. Leit á aðstæður. Fór síðan og kom aftur með fittings (fittings, fyrir þá sem ekki vita, eru allskyns bútar með skrúfgangi. Þarna getur verið um að ræða hné, té, skrúfbúta, minnkanir, stækkanir o.þ.u.l.). "Ég geri bara við þetta til bráðabirgða", sagði hG. Með því var mér auðvitað stórlétt. Engin stórframkvæmd framundan. Allt í gúddí, nema auðvitað enginn handbolti í sjónvarpinu í kvöld!

17 desember, 2010

Svo jólakortin springi ekki!

Hjónin sem hér um ræðir eru nafnlaus, en samtalið átti sér stað þegar þau áttu leið í kaupstað skömmu fyrir jól. Í farteskinu voru jólakortin sem send skyldu vítt og breytt til vina og ættingja. Klukkan varð að nálgast 4, en þá er pósthúsinu yfirleitt lokað.

"Ég þarf að fara með kortin á pósthúsið áður en það lokar."

"Af hverju seturðu kortin bara ekki í póstkassann?"

"Ef hann er kannski ekki tæmdur fyrr en í fyrramálið?! Kemur ekki til greina!"

"Það er þá sem sagt hætta á að kortunum verði kalt?"

"Maður veit aldrei hvað getur gerst. Maður er alltaf að heyra af því að það sé verið að sprengja upp póstkassa. Ég er búin(n) að hafa fyrir að útbúa kortin og ætla sko ekki að taka sénsinn á að setja þau í póstkassa!"

Fleira var ekki sagt. 
Ekið á pósthúsið þar sem jólakortin komust inn í hlýjuna, og þeim stafaði engin hætta af  því að verða sprengd í loft upp.

Jól í nánd.

10 desember, 2010

Stemmningsbræla



Það er eins með flatkökur og epli: í gamla daga voru þær ekki á borði manns hversdags. Hinsvegar var móðir mín mikill flatkökubaksturssnillingur og var komin út í heilmikinn bísness við að framleiða fyrir Verslun G. Sæland. Fram til þess tíma, að hóf var á flatkökubakstri, eða meðan hún bakaði aðeins fyrir heimilið, var þeim skellt á eldavélarhellu til bökunar. Þetta hafði í för með sér mikla brælu sem fór um allt hús. Mér fannst þessi bræla reyndar alltaf ágæt. Þegar framleiðslan fór að aukast átti sér stað þróun í framleiðslutækni. Hún fólst því að koma upp aðstöðu frammi í þvottahúsi. Þarna var komið fyrir bökunarplötu og fjárfest í gasbrennara sem tengdur var við kút. Með þessu móti hvarf brælan og það var hægt að hafa betri stjórn á bökuninni. Ég tók talsverðan þátt í að baka flatkökur með þessum hætti með henni, á tímabili.
Það hefur nú ekki komið oft fyrir, að við fD höfum skellt okkur í flatkökubakstur, ekki síst vegna þess, að það er svo auðvelt að kaupa þær úti í búð, fjöldaframleiddar í bakaríum. Þar er meira að segja hægt að fá hreint ágætar flatkökur sem þannig eru til orðnar.  Vandinn er bara sá, að þær eru orðnar daglegt brauð og því lítil tilbreyting.
Það var eiginlega þess vegna sem ég tók því ekki illa þegar fD stakk upp á að VIÐ skelltum okkur í flatkökubakstur á þessum hlýja desemberdegi á aðventu. Bökunaraðferðin sem varð fyrir valinu, þar sem ekki reyndist kostur á öðrum, var eldavélarhella. Það tók nokkrar kökur áður en hæfileg stilling á þykkt og helluhita náðist, en brælan sem gaus upp vakti upp gamlar minningar. Smám saman náðist talsverð leikni við virkið.

Uppskriftin að flatkökunum kemur úr fórum móður minnar, en gallinn við það er sá sami og með kleinuuppskrift sem hún lét í té, að aðferðir hennar við baksturinn voru orðnar svo þróaðar, að efnahlutfallið sem  notað var og aðferðirnar sem beitt var, byggðust alfarið á tilfinningu. Grammafjöldi af hinu og þessu sagði ekki alla söguna; það vantaði punktinn yfir i-ið, eins og sagt er - tötsið.

Kökur dagsins virðast hafa heppnast með ágætum, en þó svo þær hafi kannski ekki náð þeim flokki sem sóst er eftir, þá skilja þær eftir indælis bökunarilminn.

13 nóvember, 2010

Frá eyju til eyjar


Allt var fólkið hjálpsamt og vingjarnlegt, veðurfarið ljúft, aðstæður allar hinar þægilegustu, meira að segja á mælikvarða ofdekraðra Vesturlandabúa. Það fór hinsvegar ekki fram hjá manni, að það kraumar undir; það er ýmislegt óuppgert: frá því Tyrkir gerðu innrás 1974 virðist ekki hafa gróið um heilt og ekki varð vart við að reynt væri að dylja andúðina, jafnvel hatrið, á hernáminu.  Skólabörnin tóku meira að segja þátt í að tjá þessi viðhorf. Ef maður horfir á landfræðilega staðsetningu virðist ekkert eðlilegra en að Tyrkir fari með yfirráðin, enda örstutt þangað. Þarna er hinsvegar á bak við saga sem ég treysti mér ekki til að fjalla um. Veit það, að vegna legunnar er ekki við öðru að búast en að ýmsar valdamiklar þjóðir hafi haft áhuga á að ráða þarna ríkjum. 
Eftir frelsisbaráttu kom að því, að yfirráðum Breta lauk, og lýst var yfir sjálfstæði. Það er samt enn ekið á vinstri vegarhelmingi. Það var ekki að sjá á landslaginu að mikið væri ræktað. Aðal atvinnuvegurinn er ferðaþjónusta og mest er flutt inn af þeim vörum sem þarf. Þarna búa um 860000 manns. Mikill fjöldi innflytjenda, að stórum hluta frá fyrrverandi Sovétríkjunum fluttist þangað á ákveðnu tímabili. einhver sagði þá vera um 15% þjóðarinnar.
Það eru ekki nema 240 km loftlína til höfuðborgar Líbanon, sem eitt og sér gefur til kynna, að þarna er heitt í fleiri en einum skilningi.
---------------------------------                                                       

---------------------------------
Ástæða ferðar til Kýpur, er ákvörðun sem við Laugvetningar tókum fyrir tveim árum: að sækja ráðstefnu ESHA (Evrópusamtök skólastjórnenda) í Limassol á Kýpur í nóvember 2010. Þarna fórum við fD áramt 26 skólastjórnendum og mökum í 6 daga ferð til þessarar mögnuðu Miðjarðarhafseyju. Það var flogið héðan til Manchester á Englandi og þaðan var 4 tíma flug til Larnaca flugvallar (með millilendingu, sem ekki var í upphaflegri ferðaáætlun) þar sem beið ríflega 50 km akstur til áfangastaðarins. Þá tók við ráðstefna hjá mér í tvo og hálfan dag þar sem áhersla var á að fjalla um húmaníska nálgun að skólastarfi, en fD gat flatmagað á meðan í blíðunni. Kl 2 að nóttu var síðan lagt af stað til Íslands aftur, með millilendingu og bið á Heathrow í London. Það er aðallega þetta flugstand allt saman sem ég hef að athuga við svona ferðalag - endalaus biða og biðraðir - annað eins gott og á verður kosið.

Undir stjörnuhimni, með tærnar upp í loft.

Á undanförnum mánuðum hef ég heyrt talsvert um það að sjósund séu allra meina bót og hef nú litið að það sem einhverskonar karlagrobb (já, ég sagði það). Það síðasta sem ég heyrði af þessum vettvandi var yfirlýsing þess efnið að það væri ólýsanleg dásemd að liggja á bakinu í 2,4° heitum sjó og horfa á stjörnurnar.
Ástæða þess, hver vel upplýstur ég er um sjósundsiðkun, er fyrst og fremst óskiljanlega ástríðuþrungnar frásagnir frænku minnar, einnar, af þessu fyrirbæri. Það kann að vera, að það hafa hvarflað að mér, við og við, að það gæti nú verið viturlegt af afgreiða fyrirbærið ekki alveg si svona. Það gæti líka verið að ég hafi bara prófað þetta sjálfur: að liggja í sjónum í nóvember og láta öldurnar gæla við kinn.
Já, það skyldi þó aldrei vera..........

17 október, 2010

Mælingin

"Það er nú allt í lagi að hafa þetta á hreinu", hugsaði ég með mér, auk þess sem ég tjáði fD hvað ég var að hugsa, um leið og ég stillti kílómetramælinn á 0, á sama tíma og ferðin til höfuðborgarinnar hófst.
"Þú verður að halda takkanum inni" sagði fD þegar 0-ið birtist ekki strax, en auðvitað vissi ég hvað ég var að gera, og það koma að því að það birtist og ferðin gat hafist.


Þarna hafði ég s.s. ákveðið að mæla vegalengdina frá Laugarási til Reykjavíkur eftir tveim mismunandi leiðum. Til "borgar dauðans", eins og sumir kjósa að kalla höfuðborg lýðveldisins, ókum við sem elið lá niður Skeið, og síðan yfir Hellisheiði. Þegar ekið var yfir  brúna þar sem Vesturlandsvegur og Suðurlandsvegur mætast var mælisstaðan tekin: 93.2 km.
Vegna þess að ég var í mælingastuði lék mér forvitni á að vita hve mikið yrði ekið innan borgarinnar og setti því mælinn aftur á 0. 
Við ókum fram og til baka um borgina: það vantaði liti, það þurfti á nálgast afmælisbarnið, það þurfti að komast á veitingastað (ein besta piparsteik sem ég hef fengið), það þurfti að nálgas miða í kvikmyndahús, það þurfti að nálgast málningarramma, það þurfti að útrétta hitt og þetta fleira, það þurfti að skjótast í heimsókn á æskuheimili, það þurfti að skella sér í kvikmyndahús ( Brim, er sérlega góð mynd - dálítið sérstök, en vel gerð að mínu mati), það þurfti að skila fólki til síns heima. Þegar upp var staðið höfðu verið eknir 40.8 km, þvers og kruss um höfuðborgarsvæðið.

Enn var kílómetramælirinn stilltur á 0 og enn fékk ég leiðbeiningar fD, auðvitað þrátt fyrir að ég vissi hvað ég var að gera. Þarna var lagt af stað frá svæði sem samsvaraði því að við værum á brúna á mótum Vesturlands- og Suðurlandsvegar. Síðan var stefnan tekin á Mosfellsheiði, ekið um Þingvöll og eftir nýjum Lyngdalsheiðarvegi í yfirmáta óskaplegri rigningu og hvassviðri. Þegar við renndum í hlað í Kvistholti sýndi mælirinn 94.2 km.

Þetta þýðir einfaldlega að það er uppi ákveðinn vandi í framtíðinni. Í kílómetrum talið er hér um að ræða nánast nákvæmlega jafnlangar leiðir, en þær eru hinsvegar ólíkar.

Kostir þess að aka um Skeið og Hellisheiði snúa fyrst og fremst að því að maður getur komið við í höfuðstað Suðurlands, ef því er að skipta og einnig, að hér er um að ræða beinan veg þar sem fátt er til tafa (hámrkshraði alla leið). Þegar tvöföldun um Hellisheiði er lokið verður þessi leið enn álitlegri kostur.
Helsti ókostur þessarar  leiðar er sú lífshætta sem maður setur sig í við að aka um Ölfusið og heiðina, bæði vegna hálf vitskertra ökumanna sem þar virðast oft eiga leið um og vegna umferðarþungans, sérstaklega þá þegar höfuðborgarbúar eru að skella sér í sunnudagsbíltúra sína (eiginlega sami ókostur og sá sem fyrr var nefndur).
Helsti kostur þess að fara um Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði er sá, að þar er (enn sem komið er) tiltölulega lítil umferð og lífshætta því minni. Auk þess verður það að teljast kostur, aðallega fyrir farþega, að umhverfið er ólíkt skemmtilegra.
Stærsti ókostur þessarar leiðar er hinsvegar sá að það tekur lengri tíma að fara þessa leið vegna flöskuhálsins í gegnum þjóðgarðinn, en þar er 50 km hámarkshraða á um það bil 10 km kafla. Til þess að þessi leið verði varanlegur og raunverulegur valkostur fyrir Laugarásbúa er ekki um annað að ræða en leggja nýjan veg um þjóðgarðinn, beinan og breiðan 90-km veg. Það er næsta krafa.
Umhverfisfólkið (sá hluti þess sem vill helst að Ísland verði lokað öðrum en fólki sem gengur Laugaveginn eða Fimmvörðuháls, reglulega) má auðvitað ekki heyra minnst á svona brjálæðislega mengandi hugmyndir, en ég tel að því styttri tíma sem það tekur ökutæki að fara um þjóðgarðinn, því betra. Því oftar sem ökumenn þurfa að stíga á bremsur, hægja á sér og auka hraðann, því minni verður mengunin af umferðinni.

Samantekt:
Valkostur 1:  91.2 km: Laugarás - Grímsnes - Ölfus - Hellisheiði - Reykjavík
Valkostur 2:  93.2 km: Laugarás-Skeið -Ölfus - Hellisheiði - Reykjavík
Valkostur 3:  94.2 km: Laugarás - Lyngdalsheiði - Mosfellsheiði - Reykjavík

Valkostir taka mið af því, að umferð sé nokkuð eðlileg.
-------------------
Það er samt ástæða til að óska uppsveitamönnum til hamingju með nýja veginn. Hann var fyrst settu á stefnuskrá H-listans í framboði til sveitarstjórnar í Biskupstungnahreppi fyrir um 15 árum.

12 október, 2010

Innrás av flogmýs í Føroyum - eða því tengt

- það sem hér fer á eftir kann að virðast hin undarlegustu skrif, en við það verður að una - 

Hér var fjallað um atvik sem mér þótti vera ágætis umfjöllunarefni, en var með sama hætti ekki alfarið ágætt. Það er nefnilega svo, að ef eitthvað skýst hratt í nágrenni við þig þá getur það haft heilmiklar afleiðingar í för með sér. Annað sem getur kallað fram viðbrögð í líkingu við þau sem þarna áttu sér stað, eru hugrenningatengsl. Til að útskýra hvað við er átt ætla ég að taka orðið MÚS. Ef einhver einstaklingur hefur með einhverjum hætti þróað með sér óhóflega andúð á einni dýrategund sem heitir, að einhverju leyti þessu nafni, þá má reikna með, að önnur dýr sem hafa þetta nafn sem hluta heitis síns falli í sama flokk.
Ég geri hér nánari grein fyrir því sem ég á við.

Flugmús (lánuð mynd af vef Dimmalætting)
Í dag bárust fregnir af því að leðurblökur væru farnar að gera sig heimakomnar hjá frændum okkar í Færeyjum. Bara það, að heyra þessa frétt kallaði fram talsverðan ónotahroll hjá aðstoðarmanninum í síðustu færslu. Það má reikna með að hluti ástæðunnar fyrir því hafi verið sá, að á færeysku heitir leðurblaka einmitt FLOGMÚS (flugmús upp á íslensku) - það má velta því fyrir sér í þessu samhengi, hvers vegna þetta ágæta, litla dýr heitir LEÐURBLAKA á ástkæra.  Ég get jafnframt upplýst, að það sem olli atburðarásinni sem vísað er til hér að ofan, var ekki flugmús. Ég hugsa ekki einu sinni til enda hvað þá hefði átt sér stað.

MÚÚS (lánuð mynd)
Á öðru erlendu máli er til dýr sem kallast MÚS, reyndar er Ú hljóðið ívið lengra, en þegar fjallað er um litlu dýrin með þessu heiti á íslensku. Samkvæmt kenningunni ætti þetta dýr að kalla fram samsvarandi hughrif, þó ég teysti mér ekki til að fullyrða um að sú yrði raunin.  Ég upplýsi hér með, að ekki var um að ræða dýr af þessu tagi í atburðarlýsingu.




Nú, mús auðvitað (lánuð mynd)
Þriðji möguleikinn, sem reyndar var nefndur þegar ofangreindu atviki var lýst, er að hreinlega hafi verið um að ræða mús, hagamús eða húsamús. Þá hefði ég skilið viðbrögðin sem lýst var, afar vel. Ég get hinsvegar upplýst hér, að ekki var um þessi dýr að ræða.







Þá er í raun bara eftir eitt músartengt fyrirbæri, sem var einmitt það sem um var að ræða í þessu tilviki. Það skaust framhjá aðstoðarmanninium þegar hann ætlaði að ganga gegnum útidyrnar, og inn í hús.













Músarrindill (lánuð mynd)

Meistarinn, sem fjallað var lítillega um í síðustu færslu gekk til húss og rakst þar á þennan litla ræfil úti í glugga. Áður fyrr, við sambærilega aðstæður, mátti treysta því að músarrindlar héldu sig í þeim glugga sem þeir voru í og því voru þeir auðfangaðir. Það sama gerðist ekki í þessu tilviki. Annað hvort er um að ræða, að músarrindlastofninn hefur þróast að viti, eða þá að sá sem þarna reyndi að fanga rindilinn hafði misst eitthvað af snerpu sinni.
Það sem fram fór eftir þetta, verður ekki fjölyrt um, en ljóst þykir að ræfillinn komst til baka út í frelsið, óskaddaður á sál og líkama. 




11 október, 2010

Haustópið


Októberblíðan, hljóðlaust lognið og ómenguð haustsólin umvefja verklegar framkvæmdir á hlaðinu fyrir framan hús. Það er verið að leggja lokahönd á meistaraverk. Einungis eftið að beita suðandi borvélinni á nokkrar skrúfur til viðbótar. Það vantar eitthvað lítilræði, sem er inni í húsi og það kemur í hlut aðstoðarmanns meistarans að skreppa eftir því. Á meðan einbeitir smiðurinn sér að því að snurfusa og festa lausa enda.

Hann hrekkur upp úr aðdáunarhugsunum sínum á eigin verkum þegar haustkyrrðin er skyndilega rofin af nístandi skelfingarópi. Þar sem hann lítur upp í átt að útidyrunum, sér hann hvar aðstoðarmaðurinn kemur á stökki út um dyrnar með svip sem minnir á hrollvekjandi atriði út Hitchcock mynd eða Anaconda. Það sem meistaranum dettur fyrst í hug að hafi gerst er, að hitalögn sé sprungin í húsinu eftir yfirhalningu hitakerfisins, sem er nýlokið, eða að eldur sé laus í þvottahúsinu þar sem þurrkarinn var að vinna skömmu áður. Varahugsun snýst um að líklegt sé að mús sé komin í hús.

Ekkert af þessu reynist vera tilfellið, en þegar mesta skelfingarástandið er frá greinir aðstoðarmaðurinn frá því sem gerðist.

Það var eftirfarandi.....

Ætli framhald frásagnar af atburðum þeim sem í kjölfarið fylgdu, bíði ekki um stund.

08 október, 2010

Sorp-/ruslatunnuskýli/geymsla (3)

framhald

Mig minnti að á æskuheimilinu hefði verið til heilmikil vélsög sem hét ELU og hélt því þangað, en það var ekki ferð til fjár, þó svo mér hefði verið boðin til láns Europriskeypt bútasög, sem hM hafði fjárfest í vegna pallasmíða í kringum heitan pott sinn og sem þannig myndi henta vel þegar kæmi að því að búta niður pallaefnistimbur sorptunnuskýlisins. Ég setti hana bakvið eyrað.


ELU sögin mikla var til og talið líklegt að hún væri til húsa í gamla fjósinu uppi á Hæð, í umsjá hB, sem reyndist vera og ég kom heim með sög á endanum. Það var vissulega galli, að þessi sög gat ekki sagað nema 80mm þykkt efni, en staurinn sem ná þurfti í sundur var 95mm. Hvað um það, góð sög með rétt stillt blað átti að fara létt með, í góðum höndum, að ná þessum staur í sundur þannig að úr yrðu fjórir hornstaurar.

Allt klárt og fD kom út í suddann til að halda undir staurinn meðan ég beitti ELU, fagmannlega. Ég þarf auðvitað ekki að nefna fagmennskuna frekar, en sundur fór staurinn á endanum á þrem stöðum. ELU er einhverra áratuga gömul vélsög og það hefur líklega verið aldurinn sem olli því að blaðið var ekki fyllilega rétt, með þeim afleiðingum, að endarnir sem voru fagmannlega sagaðir í hvívetna, reyndust ekki verða fyllilega réttir. Við þær aðstæður varð mér, fyrsta sinni á, að tala um að þetta væri nú bara ruslatunnuskýli. Það stóð einnig til að skella þar til gerðum höttum á staurendana og því skipti útlit þeirra ekki öllu máli.  Þar með voru 4 hornstaurar tilbúnir til þurrkunar, sem, sem betur fór þurftu nú að vera þar óhreyfðir í nokkra daga, áður en fD gæti borið á þá viðeigandi efni, eins og áður hefur verið nefnt.

Svo var það dag einn þegar ég kom heim, að það var nánast liðið yfir mig þegar ég opnaði útidyrnar. Áburði var lokið. Við gátum bæði verið sammála um að það væri eins gott að Kvistholtsanginn frá Danmörku var ekki kominn, en hans var von ásamt foreldraeintökum sínum, skömmu seinna.
Það var allavega allt orðið klárt fyrir sögun. Ég man ekki einu sinni hvernig mér tókst að humma fram af mér að hefja það verk, líklega var það blanda af þreytu minni eftir krefjandi vinnudaga og væntanleg koma Dananna okkar. Allavega var það ekki fyrr en hÞ fór að hafa orð á því, upp úr þurru, hvort við ættum kannski að fara að saga þetta niður, að mér varð ljóst, að fD hafði ekki látið deigan síga. Þegar hér var komið var fátt um afsakanir, enda komin helgi og veðrið nokkuð þolanlegt. Við þessar aðstæður skellti ég mér í Hveratún og fékk þar lánaða áðurnefnda Europrisbútasög. Flutti hana heima og stillti upp á stéttina og mældi réttar lengdir. Svo var bara farið að saga. Fyrst sagaði ég og hÞ hélt við, svo sagaði hÞ og ég hélt við, þá sagaði hÞ og fÁH hélt við, þar til yfir lauk.


All gekk þetta áfallalaust utan að stilling Europrisgræjunnar fór úr skorðum á tímabili svo endarnir fjarlægðust það nokkuð að vera 90°, en því var kippt í liðinn með þeim orðum, að þetta væri nú bara ruslatunnuskýli.
Allt efnið niðursagað og tilbúið fyrir samsetningu, og ég taldi þetta vera orðið gott dagsverk.

18 september, 2010

Þvottasnúruklemman

Þetta er dagurinn sem Kvistholtsbóndinn tók sig til og fór gönguferð um landareign sína. Veðrið? Því verður nú best lýst með orðum fD: "Það er bara sólbaðsveður!"
Vissulega fer það ekki framhjá mér, að það er komið haust, þótt seint sé, en blíðan er með eindæmum og kjörin til að fara í lítinn skógartúr til að kanna hvernig gróðurinn hefur verið að þróast frá því síðasta ferð af þessu tagi var farin fyrir einum 4-5 árum.
Fyrst lá leiðin inn í Sigrúnarlund, en þar veður furan áfram í kapphlaupi við sjálfa sig. Inni í lundinum næst sama tilfinning og þegar gengið er í skógi, merkilegt nokk.
Ég gekk út úr lundinum til suðurs í átt að landamærum Kvistholts og Lyngáss, eftir Ingibjargarleið svokallaðri. Ingibjargarleið hefur verið lokuð frá því nýir nágrannar settust að í Lyngási, sem breytir svosem ekki miklu þar sem engin eru skólabörnin lengur á bænum til að stytta sér leið í skólabílinn. Sem ég geng þarna í suðurátt sem fyrr segir, blasir auðvitað við mér girðingin mikla sem reist var fyrir nokkrum árum, en nú var orðin breyting á. Kvistholtsmegin við girðinguna, sem sagt inni á landi Kvistholts, var nú komin þvottasnúra nágrannans, sem ég hef reyndar aldrei séð. Við þessa sjón snarstansaði ég og umsvifalaust hófust vangaveltur mínar um hvernig brugðist skyldi við. Átti ég að grípa til þess sama og um daginn þegar Pólverjarnir voru mættir í Kvistholtsland til sveppatínslu og ég fór út og kom þeim í skilning um að þeir væru á 'prævit proppertí'? Eða átti ég að halda áfram könnunarleiðangri mínum um Kvistholtsland?
Það sem mælti með því að ég gerði hið fyrrtalda var auðvitað sú grundvallarstaðreynd, að nágranninn var farinn að nýta mína landareign í eigin þágu, án þess að biðja um leyfi, hvað þá greiða leigu fyrir afnotin. Þarna mátti velta fyrir sér hvað kynni að gerast í framhaldinu. Mátti ég búast við því, t.d. að hann færi að koma fyrir þarna öðru því sem hann vildi ekki að sæist frá pallinum hjá sér? Var þetta bara byrjunin á frekari innrás hans?
Það sem mælti með því að ég gerði ekkert að svo stöddu var, að það við svona aðstæður er hægt að velta fyrir sér hvaða máli það skiptir að verja land sitt með kjafti og klóm með öllu því veseni sem það kann að leiða af sér. Þá velti ég fyrir mér hverju það breytti fyrir mig, að þarna væri komin þvottasnúra ókunnugra inn á þann hluta landareignarinnar sem ekki sést frá pallinum og sem ég ken sárasjaldan á.

Niðurstaðan: Jú, það er vissulega óþægilegt að einhver taki sig til og skelli þvottasnúru inni á landi sem telst tilheyra mér. Það er verið að fara inn á mína einkalóð, með ákveðnum hætti og í leyfisleysi. Hinsvegar má líta þannig á, að þetta breyti engu fyrir mig til eða frá, ef frá er talið að þarna er um að ræða ákveðið virðingarleysi. Að fara að gera eitthvert mál úr þessu þætti mér frekar smásálarlegt og kannski gera minna úr mér, en nágrannanum.

Ég ákvað því, á þessu stigi máls, að gera ekkert frekar í málinu, og hélt könnunarleiðangri mínum um landareignina áfram. Ég uppgötvaði að gróðurinn er að spjara sig vel og síðustu sumur hafa stuðlað að því að á köflum er landið orðið erfitt yfirferðar fyrir þéttum trjágróðrinum. Það blasir hinsvegar við, að framundan er að planta miklu meira af trjám efst á holtinu. Þar hafa afkvæmin á góðri stund, rætt um að koma sér upp sumarhúsi á norðurslóð, en eins og staðan er nú, virðist það nokkuð fjarlægt.

"Þú verður bara að skrifa honum", sagði fD þegar hún frétti af þvottasnúrunni.

16 ágúst, 2010

Bílaleigubílsakstursævintýri (3)


..framhald


Þó svo ég hafi, þegar hér var komið, verið orðinn talsvert öruggur með sjálfan mig þegar um var að ræða akstur erlendis, vantaði enn nokkuð upp á að ég væri tilbúinn að keyra bara si svona inni í einhverri borg sem ég hafði aldrei komið til áður. Það gæti alltaf komið upp sú staða sem GPS græjan gæti ekki bjargað mér út úr. Þessu stóð til að breyta áður en leigutími BMW-sins væri úti.
Næsta skref tók ég fljótlega, þegar ferð okkar og Görlitzanna lá til Dresden, í um 100 km fjarlægð. GPS-inn var bara stilltur á sænsku húsbúnaðarverslunina í þeirri borg og síðan var keyrt af stað. Auðvitað lauk ferðinni á áfangastað, nákvæmlega eins og til stóð. Mér leið eins og ég væri orðinn ósigrandi í borgarakstri erlendis, en það dugði þó ekki til þess að ég tæki að mér að aka niður í glæsilega miðborg (gömlu borgina (reyndar endurbyggða, enda vita flestir að Dresden var lögð gjörsamlega í rúst í lok seinni heimsstyrjaldar)). Ég afréð hinsvegar að sjá um aksturinn til baka, auðvitað eins og ég hefði aldrei gert neitt annað - enn orðinn öflugri bak við stýrið.

Nú var svo komið, að ég nánast hlakkaði til 700 kílómetra akstursins sem framundan var, en hann var þannig til kominn, að um var að ræða ódýrustu aðferðina til að komast til ríkis Danadrottningar. Upprunalega var áætlunin sú, að skila bílnum í Berlín, sem var, svona eftir á að hyggja, harla vanhugsað. Því var skilastaðnum breytt yfir í Flensburg, rétt fyrir sunnan landamærin að áðurnefndu konungsríki.

Dagurinn kom, þegar Görlitz og Kvistholtstengdir íbúar hennar/þess voru kvaddir og við fD héldum í norðausturátt, á BMW jeppatryllitækinu. Hvað sem upp á kynni að koma yrðum við að leysa sjálf. Allt traust var sett á GPS-inn og BMW-inn og - auðvitað mig (og auðvitað fD). Stysta leiðin sem staðsetningartækið fann hljóðaði upp á 682 km. Mér var svo sem ekkert ljóst hver þessi leið var, utan það að hún hófst á því að keyra til baka sömu leið og við höfðum komið frá Berlín.

Fyrsti hluti ferðarinnar, sveitavegurinn út á hraðbrautina, fól í sér sömu flækju og áður og lausnin fólst enn í því að ögra GPS-num með því að keyra bara eitthvert út í buskann. Eftir það bar fátt til tíðinda fyrr en GPS-inn tilkynnti að innan einhverra kílómetra væri mér ætlað að skipta um hraðbraut. Allt í lagi með það. Það fór hinsvegar aðeins um mig þegar mér varð ljóst að þessi nýja braut beindi okkur beint í norðaustur með skilti sem vísuðu á Frankfurt and der Oder - sem er við landamærin að Póllandi. Hér var um að ræða svakalega fína, þriggja akreina braut. Mér til léttis leið ekki á mjög löngu áður en brautin tók að sveigjast meira til norðurs, síðan norðvesturs og loks alveg í vestur. Þegar síðan birtust skilti sem bentu til að Berlín væri ekki allfjarri, til suðurs, var orðið ljóst að GPS-inn var bara að fara með okkur framhjá umferðartöfum í kringum Berlín.  Meðan á þessum óvissutíma stóð hafði ég haldið nokkuð aftur af mér, að því er varðaði aksturshraða, en í fullvissu þess, að nú værum við örugglega á réttri leið, leyfði ég bensínfætinum að nálgast gólfið æ meir.
"Þú ert kominn á 142 kílómetra hraða!"
Fram til þessa hafði fD ekki fjallað mikið um hraðamálin, enda hafði hún smám saman vanist því að bílar væru frekar að fara fram úr BMW-inum en öfugt. Ég skynjaði að það var ekkert sérlega mikil skelfing sem fólst í þessari yfirlýsingu, þannig að ég hélt uppteknum hætti hvar sem hægt var. Það var bara á einhverjum illþolandi tengivegum (eins og þjóðvegur 1) sem ég neyddist til að slá af ferðinni. 

Ég ætla ekki að skafa utan af því, en þarna fæddist ég sem fullþroskaður hraðbrautaökumaður og fann ótvírætt fyrir því hvernig aðrir ökumenn á brautinni fylltust lotningu þegar ég nálgaðist í baksýnisspeglum þeirra, og viku umsvifalaust til að hleypa mér fram úr. Ef þeir hefðu nú bara vitað að þarna var á ferð miðaldra íslenskur sveitamaður!?

Það þarf ekki að fjölyrða um framhaldið, allt gekk eins og í sögu, utan það að mér var ætlað að skila BMW-inum með fullan tank af eldsneyti. Þarna vorum við að renna inn í Flensburg, sem við höfðum aldrei heimsótt áður, og þurftum að finna bensínstöð áður en GPS-inn leiddi okkur upp að dyrum hjá bílaleigunni SIXT. Auðvitað mundi ég þá eftir fídusnum á GPS-græjunni sem hjálpar manni að leita að ýmsu í nánasta umhverfi sínu. Viti menn, hann fann bensínstöð í 700 m fjarlægð (tók reyndar 1,5 km að keyra þangað). 
Með fullan tank renndum við inn á bílaleiguna og það var með blendnum tilfinningum að ég setti lyklana í næturhólfið. Þær breyttust þó fljótt, því þarna á hlaðinu biðu Danirnir okkar þrír og þeir brunuðu með okkur norður á bóginn til heimabæjar síns við Litlabelti.

Ég tel víst að það verði ekki löng bið eftir því að þessi Kvisthyltingur bruni um evrópskar hraðbrautir á ný.


Myndirnar á þessari síðu eru frá Dresden, en vegna spenningsins í tengslum við aksturinn sem framundan ver, gleymdist EOS-inn heima. Þess í stað notaði ég bara Nokiuna. 

15 ágúst, 2010

Bílaleigubílsakstursævintýri (2)


Til þess að tryggja það, í það minnsta, að ég færi ekki að villast á vegum Evrópu, hafði ég sem sagt fest kaup á, væntanlega með ólögmætum hætti, svokallað GPS tæki. Auðvitað fór ég ekkert að kaupa neitt drasl. Fyrir valinu varð tæki með stórum skjá, því ekki var tekin áhætta af því að ég sæi ekki auðveldlega allt sem það leiðbeindi mér með. Hér má sjá græjuna (1490T):


Fyrsti akstur minn á erlendri grund gekk vel á umræddum sunnudagsmorgni, enda leiðin harla einföld, nánast bara ein beygja alla leiðina og umferðin nánast engin. Þarna ók ég á bílaleiguna og aftur til baka án þess að gera nokkur akstursleg mistök, enda umferðarreglur samsvarandi því sem gerist hérlendis.

Vaskur hópur fyllti á vöruflutningabílinn og það var haldið af stað til Görlitz. Danska fjölskyldan hélt heimleiðis eftir að snætt hafði verið á veitingastað sem ég horfi yfirleitt framhjá, en þarna var mikilvægara að aka auðveldar leiðir en að finna viðurkennda veitingastaði. Berlínarfjölskyldan mannaði vöruflutningabílinn og við fD fylgdum í humátt á eftir, margtryggð fyrir mistökum af einhverju tagi: með vanan ökumann í vöruflutningabíl á undan og glæsilegt GPS tæki sem sagði til um það með bæði myndrænt og með hljóði, hvar og hvenær hitt og þetta gerðist eða ætti að gerast. Þetta var allavega fyrirkomulagið meðan ekið var út úr Berlín.

Hraðbrautin í suð-suð-austur frá Berlín var framundan. Ekki var laust við örlítinn kvíðasting í tengslum við tilhugsunina um að hefja akstur á takmarkalausum hraða, en á hraðbrautum Þýskalands er algengara en ekki, að engin séu hraðatakmörkin. Það þarf nú ekkert að fjölyrða um það, en innkeyrslan á hraðbrautina gekk eins og í sögu: við stöðugt í humátt á eftir vöruflutningabílnum, annars vegar til að tryggja að rétt væri ekið og hinsvegar til að vera viss um að GPS tækið vísaði okkur rétta leið. Eftir aksturinn út úr Berlín þótti mér það orðið ljóst, að GPS tækið virkaði eins og til stóð og því þótti mér ekki líklegt annað, en að það myndi koma okkur hina réttu leið á áfangastað. Þá er það einnig svo, að vöruflutningabílar eru ekki hannaðir til hraðaksturs af því tagi sem þarna var. Þegar ég var búinn að aka á eftir vöruflutningabílum allgóða stund, á hægri akgrein og aldrei nema í 5 gír, fór mér smám saman að aukast þor, sem eðlilegt var, því þarna var umferðarhraðinn með talsvert öðrum hætti en maður á að venjast. Á eftir vöruflutningabílnum fór hámsrkshraðinn nánast ekki yfir 110 km/klst, en það þótti bílstjóranum í farþegasætinu heldur mikið og tjáði það svo ekki varð misskilið.
Þar kom, að ég tók þá afdrifaríku ákvörðun að skella mér fram úr vöruflutningabílnum, við misgóðar undirtektir annarra farþega. Að hluta til var ákvörðunin tekin þar sem ég er mikill ævintýramaður í eðli mínu og langaði að njóta óvissunnar sem hraðbrautin framundan bæri í skauti sér. Hinsvegar fannst mér ótækt, að athuga ekki hvernig færi ef BMW-inn væri settur í sjötta gír.
Ég sveiflaði tækinu yfir á vinstri akgrein og þá varð ekki aftur snúið. Sett í sjötta gír og hraðamælirinn sýndi stöðugt aukinn hraða. Ég lét ekki segjast þó svo setningar eins og "Ég vil benda þér á að þú ert kominn í 120" eða "Er þetta nú ekki að verða alveg nóg?" bærust mér til eyrna með reglulegu millibili.
Í stuttu máli gekk aksturinn glimrandi vel eftir hraðbrautinni, en framundan var síðan það sem þarna er kallað: sveitavegur, sem er sambærilegt við þjóðveg 1 á Íslandi. Allt gekk eftir og ekkert mál reyndist að skella sér af hraðbrautinni yfir á sveitaveginn. Þegar þarna var komið fannst okkur ekki úr vegi, að  æja á einhverjum góðum veitingastað til að skella í okkur eins og einum kaffibolla. Það gekk vel og fyrsta sinni hlýddi ég ekki fyrirmælum GPS tækisins um að aka áfram. Hvíldin var vel þegin og kaffið gott. Vöruflutningabíllinn var löngu horfinn úr baksýnisspeglinum, en þar sem við sátum í makindum við þjóðveginn, kom að því að hann ók framhjá með Berlínarfjölskylduna innanborðs.

Það sem eftir var leiðarinnar til Görlitz gekk hreint ágætlega fyrir utan tvennt:
1. Það lá tré þvert yfir veginn á einum stað. Þessu hafði GPS græjan ekki gert ráð fyrir og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að fá uppgefna aðra leið krafðist hún þess að tekin skyldi U-beygja svo fljótt sem auðið væri og farin sama leið.  Það var ekki fyrr en sú ævintýralega ákvörðun var tekin, að hunsa græjuna alveg og keyra bara einhvern veg, að hún leiðbeindi okkur eftir nýrri leið.
2. fD hafði misreiknað í huga sér þær vegalengdir sem um var að ræða og hafði um það orð.

Við renndum síðan í hlað á Biesnitzerstrasse númer 31, á undan vöruflutningabílnum, sem reyndist hafa þurft að taka á sig lengri krók vegna trésins á veginum.

Nú var sú staða orðin uppi að mér fannst lítið mál að aka bifreið á evrópskum vegum, og var rétt að byrja.

10 ágúst, 2010

Bílaleigubílsakstursævintýri (1)

Það lá fyrir s.l. vetur, að ekki yrði hjá því komist, miðað við tilhögun og skipulag Evrópuferðar okkar fD, að ég æki bíl á evrópskum vegum. Til þessa hef ég komið mér hjá þessu, heldur aldrei verið nauðsyn á, þar sem ferðir hafa verið skipulagðar miðað við engan akstur minn. 
Ég held að ég hafi nú samt alltaf séð fyrir mér, að að þessu hlyti að koma, enda búinn að fá mér nýtt, samevrópskt ökuskírteini fyrir nokkrum árum. Samkvæmt því er mér heimilt að aka risastórum vöruflutningabíl með tengivagn um Evrópu þvera og endilanga, ef ég svo kýs (væri nú gaman að láta á það reyna einhverntíma).
Nú var það, sem sagt uppi, að Berlínarfjölskyldan stefndi á flutning strax eftir tónleikana sem ég er búinn að fjalla um í þrem pistlum. Áfangastaðurinn var bær, austast í Þýskalandi, á landamærunum við Pólland, sem Görlitz kallast, í ríflega tveggja klukkustanda akstursfjarlægð frá Berlín. Berlínarbóndinn hugðist taka á leigu vöruflutningabíl og aka honum sjálfur með búslóðina á áfangastað. Við fD höfðum tekið að okkur að aðstoða eftir mætti við aðgerðina, en þá var strax ljóst, að það yrði ekki pláss fyrir okkur í vöruflutningabílnum, heldur yrðum við að koma okkur á öðrum bíl, með farangur, þangað austur eftir. Ekki var um það að ræða, að fD kærði sig um að sjá um aksturinn, þannig að fyrir lá, með nokkurra mánaða fyrirvara hvert stefndi með málið. Það varð úr, að ég fól Berlínarmanninum að taka á leigu bíl vegna þessa. Ákvað með sjálfum mér, að þetta færi bara einhvernveginn þegar að því kæmi.
Aðspurður hvernig bíl ég vildi leigja, taldi ég nauðsynlegt að hann væri með gott skott til flutninga, kannski jeppi bara, kannski bara Nissan Xtrail - ég hafði heyrt að nýjustu árgerðir af þeim bíl væru nokkuð rúmgóðar (ástæðan var auðvitað ekki sú, að ég ætti slíkan bíl og væri því vanur honum). Það heyrði ég á Berlínarmanninum, að ekki þótti honum valið viturlegt, taldi vélina ekki nógu öfluga fyrir þýskar hraðbrautir, þar sem enginn væri hámarkshraðinn. Hann taldi betra að taka bíl með öfluga vél, sem ætti séns, auk þess sem hann eyddi minna eldsneyti vegna minni snúningshraða vélarinnar. Hvað um það, ákveðið var að taka á leigu Nissan Xtrail.
Ekki ætla ég að fjölyrða um hugrenningar mínar síðustu mánuðina, að því er bílaleigumálið varðar. Margt hugsaði ég, eðlilega og kynnti mér þýskt vegakerfi eftir föngum.


Sá dagur kom, að við komum til Berlínar og þá kom í ljós, að ekki höfðum við fengið Xtrail, eins og óskað hafði verið eftir, heldur kolsvartan jeppa af gerðinni BMW X3 með dísilvél; 6 gíra tryllitæki. Mig grunar nú, að B-maðurinn hafi bara ákveðið að segja mér að hinn hafi ekki verið á lausu. Fyrstu dagana kom ég mér auðveldlega undan því að taka í gripinn, en stundin nálgaðist óðum. Fyrirhugað var að ná í vöruflutningabílinn á sunnudagsmorgni, inn í miðja Berlín. Þá varð þetta ekki umflúið lengur. Ég sá fyrir mér Þjóðverjana hrista höfuð sín af krafti yfir vitleysislegum akstursmáta mínum, en varð þó að viðurkenna að betri tími til að hefja borgaraksturinn væri ekki hægt að hugsa sér.

Sunnudagurinn rann upp og hópur fólks kominn til að bera búslóðina út í vöruflutningabílinn. Ég tók að mér (ekki aðrir valkostir) að aka á bílaleiguna þar sem hann skyldi sóttur.  

Ég hafði, sem forsjáll maður, gripið til ráðstafana sem myndu auðvelda nokkuð þá nýju reynslu, sem hér blasti við.

04 júlí, 2010

Skemmtilegt kaffihús á landsbyggðinni (2)

Kökusneiðarnar fjórar voru komnar á borðið eftir að hafa verið hitaðar í örbylgjuofninum. 15 mínútur liðnar frá pöntun. Konan tók, eftir nokkrar vífilengjur við þessar aðstæður, fram rjómasprautu (svona þrýstikútssprautu), hristi hana nokkuð áður en hún mundaði hana til að setja rjóma á kökudiskana.
Allt byrjaði það vel: brublubrrrstbrublets - þeyttur rjóminn lagðist á diskinn við hlið fyrstu kökusneiðarinnar, og síðan hinumegin við hana einnig. Þá var komið að næstu sneið: brublubrrrtissbrub tisstissbrutisstisístisssssss - eitthvað var farið að minnka í sprautunni. Hér hóf konan að hrista hana og reyndi aftur: brutissbrtissssssssssssssss - hristi áfram: brtisssssssssssss - og áfram: btisssssssssssssssssssss. Hún hristi svo rækilega að allur líkaminn tók þátt í því, þannig að hárið var farið að losna úr hnútnum og lagðist  fyrir andlitið: tiss tiss tisssssssssssssss. Sprautan galtóm og gasþrýstingurinn fjaraði smám saman út.
Nú tók við allnokkur tími sem fór í að snúast í hringi og ganga, að því er virtist stefnulaust fram og til baka.
"Þið megið ekki gleyma að skrifa í gestabókina", sagði hún allt í einu upp úr eins manns hljóði. 
"Nei, nei" við héldum nú ekki.
Nú upphófst aðgerðin nýr-rjómi-og-gas-í-sprautuna. Hún var lengri og fjölþættari en svo, að ég geti farið að lýsa henni nákvæmlega. Í stuttu máli hellti konan nýjum rjóma í sprautuna og síðan setti hún þrýstihylkið á og skrúfaði þar til þrýstingurinn úr því fyllti sprautuhylkið. Þessu fylgdu ýmsar hliðaraðgerðir. Hér var að verða hálftími liðinn frá því útlendingarnir fjórir pöntuðu sér 4 kökusneiðar með kaffinu. Þar kom að einn þeirra kom upp tröppurnar, augljóslega til að athuga hvort einhver von væri til að kökurnar kæmu.  Í þann mund er hann kom inn í kaffihúsið var konan að ljúka við að festa þrýstihylkið á sprautuna og hóf að hrista hana af svo miklum ákafa að mér datt í hug hvort þrýstihylkið væri bara ekki alveg óþarft. Hárið var nú allt komið í óreiðu og sviti perlaði á enni. Gleraugum höfðu sigið, skökk, neðar á nefið. Við að upplifa þessar aðstæður virðist útlenska kökukaupandanum verða ljóst, að það var verið að vinna hörðum höndum í afgreiðslunni og sneri aftur út án þess að segja orð.
"Má ekki bjóða ykkur ábót?" sagði konan, en við vildum ekki fara að flækja líf hennar með slíku óþarfa vafstri, enda dugði okkur alveg einn bolli af ágætu kaffinu.
Þegar nóg hafði verið hrist, fór konan að vaski í eldhúsinu til að prófa hvort rjóminn væri þeyttur. Sem betur fer virtist svo vera og hún hófst handa við að setja rjóma með kökunum þrem sem eftir voru. Nú var þrýstingurinn hins vegar heldur mikill svo rjóminn lagðist helldur ólögulega með sneiðunum - í stóra, klessulega bingi, en hvað um það, svona skyldi þetta vera. Kökudiskarnir voru lagðir einn af öðrum á afgreiðsluborðið og súkkulaðispæni dreift yfir. Þessu næst tók konan tvo diska og bar þá út til gestanna, kom upp aftur og fór með hina tvo sömu leið. Hér voru liðnar nálægt 40 mínútur frá því fjórir útlendingar höfðu lagt inn pöntun á  fjórum kökusneiðum.
Konan varð léttari í fasi þegar diskarnir höfðu verið afhentir. Við sáum ekki ástæðu til að dvelja þarna lengur, enda kaffið búið og tilgangnum þar með náð. Risum á fætur og skráðum nöfn okkar skilmerkilega í gestabókina, gerðum upp skuldir okkar og gengum út í sumarið. Fyrir framan kaffihúsið var fjaran þar sem æðarfuglar lágu með höfuð undir væng. Fjórir kaffilausir útlendingar með rjómasprautaðar kökusneiðar fyrir framan sig, sátu undir húsveggnum og ræddu sín á milli. Hvert umræðuefnið var, skal ekki fjölyrt um.
Okkar beið ferð á næsta áfangastað sumarferðarinnar.

------------------------------
Það skal tekið skýrt fram, að ég er ekki að gera lítið út staðnum eða konunni sem þar vann. Hér var tiltölulega nýbúið að opna nýjan stað og því etv byrjendabragur á hlutunum. Með fleiri gestum slípast þetta og agnúar verða sniðnir af. Samt sem áður er gaman að velta sér úpp úr þessu af illgirni sinni.

03 júlí, 2010

Skemmtilegt kaffihús á landsbyggðinni (1)

Það vor 4 erlendir ferðamenn sem stóðu við afgreiðsluborðið þegar við fD gengum inn í fyrrverandi barnaskóla, sem nú hafði verið breytt í kaffihús. Okkur langaði í kaffibolla. Afgreiðslumanneskjan, sem var kona á tæplega miðjum aldri, skolhærð með hárið fest í lauslegan hnút, með gleraugu með þykkum, dökkum umgjörðum og dálítið óvenjuleg í fasi, sem raunar skiptir engu máli í þessari umfjöllun, auðvitað, stóð fyrir innan afgreiðsluborðið og brást við spurningum ferðalanganna með einhverjum hætti sem ég heyrði ekki, en þar sem hún benti þeim á kæliskáp, merktan gosdrykkjafyrirtæki, þar sem sjá mátti kökusneiðar á diskum, sem búið var að setja filmuplast yfir, virtist ljóst að þeir höfðu í hyggju að fá sér kaffi og með því.  Þeir stóðu um stund fyrir framan kæliskápinn og bentu á hina og þessa diska, og spurðu einhvers, sem konan svaraði. Meðal annars heyrði ég að einn þeirra, í það minnsta vildi fá sér capuccino, enda blasti vél til þess arna við fyrir aftan afgreiðsluborðið. Ég hafði einmitt hugsað mér að fá mér capuccino. Nei, því miður var vélin biluð. Þarna voru kökur valdar og síðan benti  hópurinn út og gaf þannig til kynna að þau vildu sitja utandyra við að njóta kaffis og kakna. Gengið frá málum og hinir erlendu gestir gengu út til að njóta veðurs og útsýnis.
Upp að innganginum í gamla skólahúsið lágu tröppur, ein 10 þrep og í þeim, til beggja handa, hafði verið komið fyrir steinum sem höfðu verið málaðir með einhverjum fígúrumyndum. Í skoti fyrir neðan tröppurnar var tjaldstæðisborð þar sem hægt var að sitja í góðu veðri. Þegar inn var komið tók á móti manni nokkuð vistlegur salur, vönduð húsgögn og á veggjum ljósmyndir, aðallega af eldgosunum tveim, sem voru til sölu á 20 til 30 þúsund. Mér þótti ljóst að þarna væri eiginmaður konunnar að selja myndir sýnar. Gæti svo sem alveg eins verið bróðir hennar. Hvað veit ég?  Á miðju gólfi var stórt borð þar sem gestabók dró að sér mesta athyglina, að öðru leyti var þar að finna eitthvert handverk, sem var til sölu. 
Þegar erlendu gestirnir voru farnir út hófst konan handa við að útbúa pöntun þeirra, en þá fannst mér strax að ýmsu mætti hagræða betur til að afgreiðslan gengi vel fyrir sig. Það fór meiri tími í að ganga fram og til baka og snúast í hringi, en að drífa í að græja pöntunina með markvissum hætti.
Ekki gerði konan sig líklega til að sinna okkar þörfum, en nú vorum við þarna ein með henni innandyra. Þar kom þó að við vorum búin að skoða allar eldgosamyndirnar og tókum okkur sæti við stórt borð við hliðina á öðru stóru borði þar sem fólk hafði lokið við að snæða og var farið, en diskar með matarleifum höfðu ekki verið fjarlægðir.
Loks kom konan til okkar eins og út úr miðjum einum hringsnúningnum og tók pöntun okkar, náði í kaffibolla, mjólkurkönnu og molakar og setti á borðið fyrir framan okkur. Svo leið og beið og hún hélt áfram að tína kökudiska út úr kæliskápnum og setja inn fyrir stóra lúgu bak við afgreiðsluborðið. Fyrir innan lúguna, sem var um það bil 1,50 á breidd og 60 cm hátt, blasti eldhúsið við, þar sem allt virtist vera talsvert óskipulagt: diskastaflar við eldhúsvask og pottur á rafmagnshellu, greinilega lítið laust borðpláss fyrir innan lúguna, því konan þurfti þó nokkrar tilfæringar við að kom kökudiskunum 4 fyrir.
Þar kom að það heyrðist uppáhellingarlokahljóð frá kaffikönnu í eldhúsinu og skömmu síðar fengum við kaffi í bollana. Alveg ágætis kaffi sem tók í. 
Þegar hér var komið voru liðnar um 10 mínútur frá því útlendingarnir fóru út. Kökurnar komnar úr kæli og framundan næsti liður aðgerðarinnar. Milli þess sem hún snérist, setti konan hvern kökubitann af öðrum í örbylgjuofn til að taka úr þeim mesta kuldann. Því næst hófst hún handa við að fjarlægja filmuplastið að diskunum og senn 15 mínútur frá því pöntunin var gerð.

Það var hérna sem upphófst sérkennilegasti hluti afgreiðsluferlisins. Við fD sátum með kaffið okkar og fylgdumst nokkuð grannt með því sem fram fór.

Frásögn af því bíður næsta hluta.
--------------------------------------------------

Það skal tekið skýrt fram, að ég er ekki að gera lítið út staðnum eða konunni sem þar vann. Hér var tiltölulega nýbúið að opna nýjan stað og því etv byrjendabragur á hlutunum. Með fleiri gestum slípast þetta og agnúar verða sniðnir af. Samt sem áður er gaman að velta sér úpp úr þessu af illgirni sinni.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...