Sýnir færslur með efnisorðinu fD. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu fD. Sýna allar færslur

24 desember, 2012

"Þessi er sterk"

 Nú er upp runninn aðfangadagur, rétt eina ferðina. Ég er óendanlega árrisull nú sem aðra morgna, og er reyndar löngu búinn að átta mig á því, að slíku háttalagi fylgja margir kostir (ég nefni ekki gallana á degi sem þessum).
Fyrst það er kominn aðfangadagur þá var auðvitað Þorláksmessa í gær. Hún hefur undanfarin, allmörg ár falið í sér að fD og gamli unglingurinn hafa átt saman ágæta stund þar sem fjallað hefur verið um hvernig skatan væri það árið og síðan hafa þau sameinast í að gera þessu skemmda sjávardýri skil með sínum hætti. Minn hlutur og flestra þeirra sem einnig hafa tekið þátt í þessu borðhaldi, hefur verið sá,að snæða aðrar tegundir fiska með fullum skilningi á sérviskulegu skötuátinu og þar með höfum við leyft gegnsýrandi ilminum að leika um lyktarfærin allt um kring þessa átveislu þeirra félaganna í skötudýrkun.

Í gær var sá gamli fjarri góðu gamni.

Í aðdragandanum var fD í talsverðum vafa um hvort hún færi að standa í að sjóða skötu fyrir sig eina, en ég hvatti hana til þess að láta vaða með óljósu loforði um að ég kynni að freista þess að láta af skötubindindinu þó í litlu yrði. Það var keypt skata (eða "það var versluð skata" eins og þeir sem mæla á nútíma íslensku vilja hafa það). Henni var svo skellt í pottinn þegar leið að kvöldverði. Til vara, og fyrir eina Kvisthyltinginn auk okkar, sem heima var, voru þrjár aðrar fisktegundir á boðstólnum.  Innra með mér var ég búinn að búa mig undir það að takast á við að reyna einu sinni enn að aðlaga mig því að koma ofan í mig þessum ókræsilega mat. (Fyrir utan það, að lyktin er síður en svo aðlaðandi þá sér maður nú varla neitt ókræsilegra á borðum en nýsoðna skötu). Ég lagði mig fram um að sýnast svalur þar sem ég settist að borðinu.

"Úff, þessi er sterk" fD gefur skötu ávallt styrkleikaeinkunn og þar með hafa þau gamli maðurinn getað tengst í umfjöllun um ákveðið málefni. Nú þurfti hún að segja þetta upp úr eins manns hljóði, þar sem ég beið litla stund áður en ég tók þá stóru ávörðun að skella mér á barð. Setti það á diskinn minn og fékk síðan leiðbeiningar frá reynsluboltanum um hvernig best væri að aðskilja það sem maður setur ofan í sig frá hinu sem er síður ætt. Að því búnu skellti ég vel af kartöflum og vel af hamstólg yfir og allt um kring. Því næst tók við það sem átti að verða samstöðuát. Ég, sem sagt, skellti í mig fyrsta bitanum.

Ég held að það sé engum manni hollt, og allra síst á aðfangadegi jóla, að þurfa að lesa um það sem þessu fylgdi. Fyrsti þáttur þess átti sér stað þar sem ég bar gaffalinn upp að opnum munni og gerði þau stóru mistök að anda að mér um leið. Þeir sem borða skötu vita örugglega hvað ég er að tala um. Ég gafst ekki upp þrátt fyrir þá hnökra sem þarna urðu í byrjun. Gegnum þykkt og þunnt var ég ákveðinn í að sýna samstöðu með fD, sem annars hefði í einsend svitnað yfir þessum uppáhalds mat sínum. Eftir fjóra bita, sem ég naut engan veginn, voru líkamleg áhrif orðin of mikil til að áfram yrði haldið. Mér hafði láðst að setja vatn í glas til að skola "matnum" niður með, en mér hafði ekki láðst að bera á borð tiltekna framleiðslu frá Álaborg (til að sýna Kvisthyltingum sem þar búa alla jafna, samstöðu. Ég er á fullur í allskonar samstöðu um þessar mundir) sem kom beint úr frystinum. Það var af þessum sökum, einnig, sem allt stefndi í óefni undir máltíðinni. Álaborgardrykkinn notaði ég til að skola skötunni niður, hann virkaði algerlega bragðlaus og átti ekki séns í skötuna þegar kom að því að kyngja. Mér hafði bara láðst að setja á borð nægilega stórt glas og því þurfti ég  að hella alloft í glasið (var orðið skítkalt á hægri hendinni).

Þarna varð sá hluti máltíðarinnar sem sneri að þessum brjóskfiski, eins og sjá má af framansögðu, fremur endasleppur. Það var ekki þannig hjá fD, sem með glampa í augum, dásemdarorð á vörum og svitaperlur á enni, skóflaði dýrindismatnum í sig eins og enginn væri morgundagurinn.
Aðrar fisktegundir voru alveg ágætar.
-------------------
Ég læt mér í léttu rúmi liggja þótt einhver ykkar sem þetta lesið, líti viðhorf mín til skötuáts hornauga og telji afstöðu mín þar til bera vott um aumingjaskap eða gikkshátt. Ég hef lagt  mig fram um að sýna samstöðu og það er fyrir mestu.
-------------------
Með því að nú er framundan jólahátið þykir mér við hæfi að senda tryggum lesendum þessara stopulu bloggskrifa, bestu óskir mínar um að jólin verði þeim sem allra indælust. 
Við hugsum til barnanna, tengdadætranna og barnabarnanna í Hjaltadalnum og Ástralíu og hlökkum mikið til að sameinast um áramótin.

08 desember, 2012

Háski á hálum ís

Það leit nú ekkert illa út með færið þegar við fD lögðum af stað heim úr vinnunni í gær og hugðumst hafa viðkomu í höfuðstað Suðurlands til að fylla á fyrir næstu viku. En það átti eftir að fara öðruvísi.

Laugarvatnsvegurinn var svo sem fremur óskemmtilegur til aksturs enda hafði snjóað  og myndast krapi. Sjókoman var við það að breytast í rigningu þegar hér var komið. Eins og oft er við slíkar aðstæður lagði fD fljótlega í þessari ferð til, að kaupstaðarferð yrði frestað og þess frekar freistað að komast heima í öryggið. Ég tók nú lítt undir þær vangaveltur - var frekar á því að ljúka þessu verki af - við skyldum sjá til hvort ekki léttist á veginum. Þegar við mættum síðan snjóruðningstæki við Apavatn styrktist ég í þeirri ákvörðun að ljúka því sem að var stefnt. Segir ekki af ferðinni fyrr en við náðum Svínavatni án þess að fleira yrði til tíðinda. Farkosturinn var framhjóladrifin japönsk fólksbifreið á heilsársbörðum, sem þýðir auðvitað það að engir voru naglarnir. Við Svínavatn virtist koma í ljós, að Biskupstungnabraut væri bara greið og því lá beint við að stefna niður úr.
Það var ekki löngu eftir að sá hluti ferðarinnar hófst, að farþeginn fór að gefa til kynna, bæði með krampakippum, sem birtust sem högg í farþegadyrnar innanverðar og í hægri upphandlegg minn, og sem lágværar upphrópanir eins og ÚFF! eða AAAH!. Ég áttaði mig auðvitað ekki á ástæðum þessa, svo upptekinn var ég við aksturinn. Þetta var á þeima kafla sem er milli Svínavatns og Borgar, en hann var í góðu lagi miðað við aðstæður að öðru leyti. Það sama má segja um "Torg hinnar stóru Borgar", með stórborgarlegu yfirbragði sínu.

Þegar þarna var komið þurfti að ákveða hvort haldið skyldi áfram, eða tekinn 360° hringur á í torginu. Fyrri kosturinn var valinn, sem ég verð, eftir á að hyggja, að viðurkenna, að var nokkurt glapræði.
Frá Stóru-Borg blasti við allt önnur mynd.

Framundan var hágljáandi vegurinn og minnsta snerting mín við stýrið myndaði ákveðna keðjuverkun: örlitla og vart merkjanlega hliðarhreyfingu farartækisins, og í beinu framhaldi mikið umrót í farþegasætinu. Við vorum ekki komin langt inn á gljáann, þar sem fyrsti gír var nánast ónothæfur vegna þess hve hraðinn var mikill, þegar sú einróma ákvörðun var tekin, að snúa við við fyrsta tækifæri. Það var síðan ekki síst fD sem skannaði vegkantinn og nágrenni í leit að mögulegum stað til að snúa við. Hún sá hlíð, lengst út í móa og mátti telja líklegt að þar væri þá afleggjari af aðalveginum, sem svo reyndist ekki vera þegar við brunuðum framhjá í inngjafarlausum fyrsta gír. Það var svo ekki fyrr en við vegamótin þar sem Kiðjabergsvegur mætir Biskupstungnabraut, að unnt virtist að snúa við. Það var nákvæmlega með það í huga, og til þess að þurfa ekki að bakka neitt og þar með taka áhættuna af að komast ekki af stað aftur, sem ég tók góðan sveig inn á afleggjarann og hugðist þannig snúa við án þess að þurfa að stoppa. Þegar öðrum farþegum (farþega, reyndar) varð ljóst að þetta var ætlun mín, var mér umsvifalaust skipað að stöðva þá þegar, jafn vel þó bíllinn væri nú kominn út á miðjan veg og aðrir bílar sáust nálgast óþægilega hratt. Ég lét þessar skipanir sem vind um eyru mér þjóta og hélt mínu striki, fálmlaust og fumlaust. Allt gekk þetta eins og upp var lagt með. Sama leið ekin til baka af rólegri yfirvegun, þar til við komum að "Torgi hinnar himnesku Borgar". Eftir það voru allir vegir færir og enn fæ ég ekki nógsamlega þakkað þeim sem söltuðu veginn frá Brúará að Laugarási fyrir nokkru.

Ég hef ekki sagt margt um bílstjórann í þessari ferð, enda málið skylt. Ég vil samt geta þess að aldrei bar skugga á eindæma færni hans við að stýra ökutækinu í gegnum þann háska sem okkur var búinn. Ég læt einnig hjá líða að fjalla mikið um það að fyrir hálfum mánuði þurfti þessi sami bílstjóri að nýta sér þá staðreynd að bifreið hans er kaskótryggð.
-------
Það er rétt að taka fram að það er varasamt að reikna  með að allt sem sagt er hér að ofan sé fullkomlega í sátt við sannleikann. Kjarninn er réttur - annað kallast skáldaleyfi, nú eða að færa í stílinn.

19 júlí, 2012

Sérstök gleraugnakímnigáfa

Ég veit svo sannarlega ekki hvort það er við hæfi að fjalla um það sem hér fer á eftir, á þessum vettvangi, en þar sem lesendahópurinn er ekki stór, hef ég ákveðið að láta slag standa, og þar með að taka áhættuna af  hugsanlegum eftirköstum.

Það er á vitorði margra sem þekkja til Kvisthyltinga, að höfundur deilir að mörgu leyti ekki kímnigáfu með, í það minnsta hluta þeirra. Þarna telst með þetta stórundarlega fyrirbæri, sem felst í því að setja upp gleraugu og ráða sér þar með varla fyrir hlátri. Mig grunar að þetta sé til komið með þeim hætti að fD hafi flutt það til barnanna í frumbernsku.
Hvað um það þá hefur það fylgt þeim alla tíð, meira að segja svo, að ekki má minnast á það að taka af þeim mynd öðruvísi en þar þurfi gleraugu að koma við sögu.
Þá er mikið gert til að bera þessa gleraugnagleði til nýjustu kynslóðarinnar.

Fyrir skömmu hittust allir Kvisthyltingar í einu, en það gerðist síðast í desember árið 2007. Af því tilefni þótti við hæfi að mynda fólk í bak og fyrir, þar með voru Kvistholtsbörnin mynduð sérstaklega. Með gleraugum (sem þau tíndu saman með aðstoð móðurinnar) og án.

Hér er ein skárri gleraugnamyndanna


07 apríl, 2012

Ástand í áætlunarflugi


"Við förum ekki úr þessari flugvél fyrr en ég er búin að finna veskið mitt!"

Hér var fD að sjálfsögðu að lýsa yfir aðgerðaáætlun í framhaldi þess, að í upphafi flugs frá Keflavík til Kaupmannahafnar fyrir nokkru, missti hún, með einhverjum hætti sjónar á peningaveskinu sínu, sem var sannarlega bagalegt, eins og hver maður getur ímyndað sér. 
Flugtíminn milli Keflavíkur og Kaupmannahafnar var 2 klukkustundir og 40 mínútur. Á leiðinni setti ég upp heyrnartól (sem aldrei þessu vant höfðu ekki gleymst heima), valdi mér hasarmynd upp á 90 mínútur. Myndina setti ég af stað um 10 mínútum eftir flugtak og henni lauk í þann mund er flugvélin lenti í Kastrup, tveim og hálfum tíma seinna. Þetta þýðir, að klukkutími af ferðinni fór í annað en að horfa á myndina, auðvitað þurfti að panta eitthvað að snæða og slökkva þorstann, eins og gengur og gerist, í um það bil 20 mínútur. Þar með er hægt að reiknað það út að 40 mínútur hafi farið í annað. Þetta annað fólst aðallega í að taka þátt í endurteknum tilraunum fD til að finna veskið sitt: í handtöskunni sinni, í fríhafnarpokanum, í myndavélatöskunni minni, og fríhafnarpokanum uppi í hillu, í jakkanum sínum og í jakkanum mínum, undir sætinu fyrir framan sig, undir sætinu fyrir framan mig, undir sætinu fyrir framan undarlega náunganum í gluggasætinu, sem eyddi tímanum í að stafla pillum í allskyns regluleg mynstur. Og svo aftur, og aftur, með tilheyrandi pælingum um hvar veskið gæti nú verið, eða ekki verið, þannig að ég var auðvitað í sífellu að taka af mér heyrnartólin til að fylgjast með vangaveltum um mögulega staði, sem kannski var eins gott.

Þegar flugvélin nálgaðist Kastrup var bara eitt öruggt: Kvistholtshjónin færu ekki frá borði án veskis fD.  
Það var útbúin sérstök flétta til að undarlegi náunginn í gluggasætinu myndi standa upp og fara á undan okkur. Því næst myndum við fara aftur inn í sætin okkar og bíða af okkur brottför annarra farþega. Undarlegi náunginn í gluggasætinu reyndist meira en tilbúinn að fara fram fyrir okkur og ég gerði mig kláran í að smeygja mér aftur inn í sætið mitt. Það var þá sem fD tók sig til, þar sem hún stóð milli sætaraðanna og beygði sig niður, þannig að hún gat teygt sig undir sætið sem hún hafði setið í. Þaðan kom hún með veskið týnda. Hún hafði ekki hátt um fundinn, ég sá bara veskið og hætti við að smeygja mér inn í sætið mitt. Við fórum síðan út í réttri röð eins og maður á að gera þegar maður gengur út úr flugvél.

31 mars, 2012

Fer FI212 eða ekki?

"Við erum nú ekkert að fara af stað á næstunni" sagði fD snemma í morgun, en hélt samt áfram að taka til í töskuna. "Flugið er horfið af textavarpinu".
Þetta var upphafið að talsverðri krísu sem nú er loks til lykta leidd. Flugfélagið sem eitt sinn var allra landsmanna og er nýverið orðið stundvísasta flugfélagið komst ekki vel frá þessu máli.

Örlitlu efafræi var reyndar sáð í huga mér í gærkvöldi þegar ég ákvað að innrita okkur á netinu. Á brottfararspjaldinu stóð réttur flugtími, er þar kom fram að BOARDING væri 5 tímum seinna. Þetta afgreiddi ég nú bara sem einhver tölvumistök.

Í morgun kom síðan yfirlýsing fD.
- Textavarpið hafði hent fluginu út.
- Airport.is greindi frá seinkun um 5 tíma.
- Ekkert símanúmer fannst til að fá staðfestingu.
- Kl. 8:17 var flugið aftur komið á réttan tíma á airport.is.

Verðandi flugfarþegar stukku til og hraðpökkun átti sér stað þar til tvenn smáskilaboð komu komu í símann minn, þar sem flugfélagið lýsti hryggð sinni yfir seinkun á fluginu um 5 tíma. Þar kom einnig þetta fram, nákvæmlega svona: Upplýsingar í sím  - sem sagt ekkert símanúmer.

Nú var staðan sú að sms greindi frá seinkun, airport.is var með flugið á áætlun og ekkert símanúmer fannst, sem hafa mætti samband við.

Þá hringdi ég í 118 og þar fékk ég uppgefið símanúmer IGS og var sagt að þar myndi fólk svara mér, sem það reyndist ekki gera - það hringdi bara út.

Enn var staðan óbreytt og klemman snérist um hvort trúa ætti textavarpinu og airport.is eða sms sendingunni. Ákveðið að treysta því fyrra og hraðpökkunin hélt áfram, enda að verða komið á áætluðum brottfarartíma frá Kvistholti.

Ég ákvað þó að reyna betur við 118 - kannski var til annað númer.
Nú setti ég þolinmóða konuna sem svaraði, alveg inn í málið. Hún fór á airport.is og sá þar, að flug FI212 var komið á áætlun 5 tímum síðar en upprunaleg áætlun hljóðaði upp á.

Með þessar upplýsingar í hendi, og í samræmi við sms og textavarp, var pökkun sett á bið; brottför úr sveitasælunni frestað um 5 tíma.

Auðvitað verður Kvistholt vel vaktað þá daga sem við fD sinnum erlendis búandi Kvisthyltingum í nokkra daga.

18 janúar, 2012

Mismunað á grundvelli stærðar og fótafjölda

"Framvegis verður þeim bara gefið uppi á borðinu!" segir fD um leið og hún skellir hurðinni út á pall, þar sem við erum búin að koma upp aðstöðu til að auka líkur á að fuglar himinsins lifi af harðan veturinn á voru ísakalda landi. Aðstaðan felst í borði sem við komum fyrir þarna úti með það í huga, að undir því gæti verið gott skjól fyrir greyin þegar ekki viðrar nægilega vel uppi á því.
"Ég kæri mig ekkert um að vera að fóðra þessi kvikindi  til að þau fari að búa sér til hreiður þarna og fjölga sér".  Það er sem sagt um það að ræða, að lítil mús hefur verið að laumast í kornið við og við. Hurðaskellurinn sem nefndur er hér efst var til kominn vegna þess að það sást til lítils ræfils gægjast út úr holu sinni í snjóbing, rétt við hliðina á gjafastaðnum.

Músin er ekki eina tegundin í þeirri fánu sem þrífst í Laugarási, sem er nokkurskonar persona non grata þegar fuglgæska fD er annarsvegar. Frekjan í starraskrattanum hrekur auðnu- og snjótittlingana á brott. Hann lemur þá frá sér og hámar svo í sig rándýrar fitukúlurnar. Þessi ódámur á ekkert með að vaða hér yfir allt og alla á lúsugum fjöðrunum! Þetta er svona endurorðað það sem sagt hefur verið um starrann síðustu vikur.

Það hafa komið kettir á gjafastaðinn - örugglega til að fá korn, enda útigangskettir, sem enginn ann eða ber ábyrgð á. Sannarlega er þeim vorkunn, eins og öðrum sem eiga ekki annars kost en að berjast fyrir lífi sínu í óblíðri veðráttuni á landinu bláa.
Ég hef gert mig sekan um að stugga við köttum.

Kannski er bara best að hætta að dreifa korni úti á palli, meðan ekki finnst aðferð til að greina í sundur þær lífverur sem mega og þær sem ekki mega.

24 desember, 2011

Jólakveðja úr skugga skötupotts.


Nú á aðfangadagsmorgni er lokasprettur, en þó enginn lokasprettur þar sem ég, í það minnsta, tek aðdragandann að jólum með mínum hætti að mestu. Hendi í Sörur, jú, og dreifi gleði til þeirra sem tekst að píra í gegnum skóginn á dýrðina sem stafar frá ljósakeðjunum gömlu og nýju.  Hefði sjálfsagt getað verið kappsamari við ýmislegt annað, en það er eins og það er, ennþá.
Þá er lokið Þorláksmessu
það eru að koma jól.
Siggi' er ekki' að sinna þessu
Solla á bláum kjól. 
Í gær var Þorláksmessa, eins og flestum ætti að vera kunnugt og þá er tekist á við margrædda Þorláksmessuhefð, en ég er, eins og einhverjum er kunnugt, ekki skötufíkill og hef lönngum haldið því fram að hér væri á ferð skemmd fæðutegund og að át á henni gæfi til kynna einhverja misskilda karlmennskustæla. Ég fékk talsvert góða staðfestingu á þessari skoðun minni, með því að í einum margra útvarpsþátta um skötu greindi viðælandi frá tilurð þessa siðar. Það var beinlínis markmimð fólks að leggja sér til munns skemmdan mat af einhverju tagi daginn fyrir veisluhöld jólanna, til að finna betur muninn á því sem ætt er og óætt. Vestfirðíngar höfðu skötuna, og Austfirðingar einhvern skemmdan fisk eða hákarlsúrgang, sem ekki hefur festst (jú það er hægt að skrifa þetta svona) jafn rækilega í þjóðarsálinni. Það góða við skötuna er, að það er auðvelt að tjá sig um hana.
Á Þorláksmessu þykist ég
þekkjast við barbarana
Skatan hún er skelfileg
skömm er að éta hana
 Nei, ekki vil ég berjast gegn hefðum þjóðarinnar, þessi hefðarmaður sem ég er.  Ég styð fD í því að fá sér skötubarð fyrir/á Þoddlák. Skatan var meira að segja lengi vel tilreidd hér innanhúss, með afleiðingum sem allir geta ímyndað sér. Nú síðustu allmörg ár hefur gamli unglingurinn tekið þátt í skötudýrðinni og jafnframt hefur suðan færst út fyrir hús, öllum hlutaðeigandi til gleði, þó misjafnlega hátt sé haft um það.
Á Þorláksmessu  þrái ég
að þefa af skötupotti.
"Skatan hún er skemmtileg,
skal ei höfð að spotti."
segi ég og glotti.
-----

Nú, meðan vindstyrkur eykst víða um land og fréttir berast að óendanlega forsjálum ökumönnum, sem sitja í bílum sínum á heiðum landsins, nálgast jólahátið.  Hana vér allir prýðum. Ljósin eru komin upp, búið að græja jólatréð: "Fella gervijólatré líka barrið?" var spurt þegar hafist var handa á þessum bæ í gærkvöld.

Allt að verða klárt. 

Ykkur, óþekktu einstaklingar, sem lesið skrif mín hér að jafnaði, og fjölskyldum ykkar, flyt ég hér með von mína um að við öll fáum að njóta gleði, góðs matar, friðar og kannski messu, einhverjir, næstu daga.

Talsverður hluti Kvisthyltinga dvelur erlendis um þessi jól. Til þessa hóps við ég telja 7 fullburða einstaklinga. Sannarlega söknum við fjögur, sem hér dveljum, samvistanna við þau, en með samskiptatækni nútimans verður þetta talsvert auðveldara en það hefði verið fyrir einhverjum áratugum.

Hjónunum í Görlitz og dætrum þeirra tveim og nýju hjónunum í Álaborg og syni þeirra flytur þessi síða bestu kveðjur úr þorpinu í skóginum.

(ef höfundar er ekki getið að meintum kveðskap, þá er hann frumortur og því við mig að sakast að því er varðar bragfeila og mér að hrósa ef tær snilldin lætur á sér kræla)

21 desember, 2011

Óskiljanlegur tími

"Nei, ekki eina ferðina enn!!!" 
Ég ætla ekki að segja að ég hafi sagt þetta þegar ég glaðvaknaði á sjöunda tímanum í morgun. Ég ætla hinsvegar ekki að sverja fyrir að ég hafi ekki hugsað það.
"Þetta er nú bara einhver streita.", er alltaf viðkvæðið hjá fD, og þar hefur hún auðvitað alrangt fyrir sér. Ég reyni að horfa á þessa stöðu talsvert jákvæðari augum.

Ég hef aldrei skilið hversvegna fólk leggur sig á daginn, og leyfir sér að dásama það þessi ósköp. Ég lít á svoleiðis nokkuð sem hreina sóun á dásemdum hins vakandi lífs. Það er á daginn sem allt gerist, öll skynfærin nema umhverfið: augun birtu jólaljósanna, eyrun Ómar Ragnarssona syngjandi jólalag, nefið greinir daufan keim af piparkökubakstri gærdagsins (ég lýg því reyndar), fingurgómarnir nema mýkt hnappanna á lyklaborðinu. Svefninn hefur ekkert af þessu. Það er helst að hann fari með mann um lendur sem eiga fátt sameiginlegt með raunveruleikanum - ég ástundaði í nótt samkennslu þriggja grunnskólabarna í íslensku ásamt öðrum kennara - og ég sé á samskiptasíðu að oddivtann dreymdi tvö eldgos.  Það má vel halda því fram, allavega til að rökstyðja það að maður fer á fætur í jólafríi klukkan hálf sjö. að svefn sé mjög ofmetið fyrirbæri. 

Þá kemur þetta upp í hugann:
"Macbeth does murder sleep, the innocent sleep,
Sleep that knits up the ravelled sleeve of care,
The death of each day's life, sore labor's bath,
Balm of hurt minds, great nature's second course,
Chief nourisher in life's feast" (2.2.35-39).
Shakespeare segir svefninn vera saklausan, hann leysi upp flækjur hins daglega lífs, hann sé dauði lífs hvers dags, langþráð baðið eftir erfiði dagsins, áburður á þungan hug, annar rétturinn í máltíð náttúrunnar (annar rétturinn er aðalrétturinn), aðal næringin í veislu lífsins.

Svefninn er þá, sem sagt, harla miklvægur.

Þar með held ég bara áfram að vaka - þar til ég fer aftur að sofa.

Meira af saklausum svefni

11 desember, 2011

Flatkökusörudagur

Ég ákvað fyrir nokkru, eftir að samstarfsmenn mínir, hins kynsins, sem gamli unglingurinn myndi kalla  "húslegar og gott að hafa bardúsandi í eldhúsinu" (sem ég myndi aldrei láta mig dreyma um að gera lífs míns og stöðu vegna), komu með kökur á kennarastofuna, svona í tilefni aðventunnar. Mér fannst þessar Sörur bara góðar og sannfærði sjálfan mig um, að þannig bakstur hlyti ég að ráða við, engu síður en þær sem þarna var um að ræða, Jónur, án þess þó að reykja jónur.  Þegar ég ákveð svona þá er allt eins líklegt að ég framkvæmi það og í dag var dagur framkvæmda, eftir kaupstaðarferð með lista yfir það sem til þurfti.

Ég er búinn að komast að því að Söruuppskriftir eru margar til, en aðal munurinn liggur þó í kreminu, eftir því sem ég hef komist næst.  Botninn, eða það eina sem er bakað, er yfirleitt eins, hver sem uppskriftin er.

Ég valdi eina þessara uppskrifta, sem innihaldslega séð gaf loforð um ljúfar Sörur.

Ég undirbjó og framkvæmdi þetta Sörumál, með sérlega fagmannlegum hætti að mínu mati. Í fyrra þurfti ég oftar að spyrja fD um hefðir og venjur í kökubakstri. Núna var þetta svona rétt til að tékka á hvort ég væri ekki örugglega á réttri leið.

Hér gefur að líta nokkrar myndir af Sörubakstrinum. Fegurstu Sörur, en enginn gat svo sem átt von á öðru.

Gullnir Sörubotnar

Lungamjúk fyllingin

Markmiðið var að búa til frjálslegar Sörur - og það tókst fullkomlega.


Úr því ég var byrjaður tók ég aðra tegund líka, með lítilsháttar aðstoð (muscle).

Add caption
Svo lauk þessu á samvinnuverkefninu "Flatkökur á pallinum".



Sunnudagur á aðventu.

04 desember, 2011

"Þau eru nú ekki að gera sig hjá þér, þessi jólaljós!"

Þessi árstími kallar fram afskaplega misvísandi tilfinningar. Jú, jú, jólafríið framundan (ein þriggja meginástæðna þess að maður sækir í svona starf eins og mitt, að sögn þeirra sem þar eru ekki innvígðir), en jafnframt þarf að gera ýmislegt, og þeir sem hér hafa fylgst með, vita að mér finnst betra að una við aðstæður þar sem ekki þarf að vera að gera eitthvað, sérstaklega ef það er eitthvað sem ég vildi gjarnan vera án.


Undanfarin ár hef ég smám sanan verið að eflast í kaupum á og uppsetningu á jólaseríum utan dyra. Þessu sinni byrjaði ég óvenju senmma, á laugardeginum fyrir fyrsta sunnudag í aðventu, sem þykir eðlilegur tími á Laugarvatni, en út í hött í mínu umhverfi.  Ég fékk fljótlega smáskilaboð, þar sem látin var í ljós undrun vegna þessa tiltækis míns. Í þessari fyrstu atrennu skellti ég nú bara upp tveim yfirlætislausum jólaseríum - varla að þetta sæist. Ég hef hinsvegar verið að huga að aukningu bæði  á seríufjölda og fjölbreytni í ljósavali og því var það nú, að ég bætti við tveim talsvert öflugum seríum, sem ég síðan er nú nýbúinn að skella upp, af einstakri natni og metnaði. Ég lagði það á mig að fara úr í norðan garrann og gaddinn til að undirbúa með þeim hætti hátíð ljóss, árs og friðar. Þrátt fyrir að við lægi kali, lét ég það ekki á mig fá - barðist áfram, staðfastur og einbeittur í því sem gera þurfti og ég vildi gera.

Síðan fórum við, heimaverandi Kvisthyltingar í gönguferð. Þegar heim var komið sagði hinn þau orð sem mynda fyrirsögnina þessu sinni. Viðbrögð mín voru engin í fyrstu, en þarna var um að ræða, að mínu mati, ótrúlega lítilsvirðingu við allt það sem ég hafði lagt á mig, bæði að því er varðar fjárútlát og vinnu. Það leið nú svo sem ekki á löngu áður en fD lauk við athugasemd sína, sennilega vegna viðbragðaleysis míns. Hún hafði, sem sé, tekið eftir því (ég reyndar líka) að jólaljósin sjást hreint ekki frá þjóðveginum, vegna trjágróðurs í vetrardvala. 

Nú má spyrja: 
- Er ég að standa í þessu fyrir einhverja sem aka framhjá, segja kannski: "Jaaáááúú, ok", áður en þeir bruna áfram inn í nóttina?
- Er ég að þessu fyrir Laugarásbúa, sem rölta framhjá við og við í heilsbótargöngu? 
- Er ég að þessu fyrir mig og mína (bara tvö, enn sem komið er, en það stendur til bóta), til að varpa ljósi á myrkrið þannig að birtan ein ríki í hjörtunum?

Auðvitað er gaman þegar einhverjir utanaðkomandi tjá aðdáun sína á einhverju sem maður gerir, það vita nú allir, en ég held að það sem ræður mestu, þegar ég tek mig til í seríumálum, er þetta síðastnefnda. Auðvitað verð ég að viðurkenna, að jólaseríurnar mínar sjást ekki innan úr húsinu, en ég veit að þær eru þarna - sé þær þegar ég fer í vinnu að morgni og síðan aftur þegar þegar ég kem
heim að kvöldi. Þannig er tilganginum náð.

22 nóvember, 2011

Kvisthyltingar heimsækja 101 þar sem Harpa er


Þá er best að ljúka þessum greinaflokki með því að gera lítillega upp einn megintilgang ferðar okkar fD til höfuðborgarinnar um síðustu helgi.

Tónlistarhúsið Harpa er margrætt á ýmsum vettvangi. Við komum inn í það hús, enda nauðsynlegt þar sem þar er sýnd þessa dagana Töfraflautan eftir hann Mozart. Við fyrstu sýn virkar þessi bygging ágætlega á mig, að innanverðu þó mér finnist rýmið fyrir utan salina vera ógnarstórt og undirlagt tröppum sem síðan reynast varla duga til að flytja fólksfjöldann sem er að koma af sýningu. Það var allavega talsverður tappi þegar leið lá niður af þriðju hæð.
Eldborgarsalurinn er ógurlega fínn og öll var þessi óperureynsla ágæt. 
Tenórar sýningarinnar áttu þó aldrei séns. Það vissi ég nú fyrirfram. Hér á bæ er bara um að ræða einn tenór sem telst sæmilega boðlegur. Ég reyndi að vísu að taka framlagi tenóranna opnum huga, en þeir náðu ekki því flugi sem ég hefði viljað sjá. 
Aría næturdrottningarinnar var afar glæsileg hjá Diddú. 
Bassinn, Sarastro,  fannst mér eiga í nokkru braski með dýpstu tónana - kannski voru þeir fyrir neðan það tíðnisvið sem heyrn mín ræður orðið við. 
Papageno var nokkurn veginn eins og hann á að vera - hæfilega kómískur. 
Þóra Einarsdóttir hefur afskaplega fallega rödd, en hún var Pamina. 
Sviðsetningin var mjög skemmtilega útfærð. 

Ég er með þessum skrifum ekki að þykjast vera einhver gagnrýnandi - það er nóg af þeim. Ég er bara svona að dufla við að vera gagnrýnandi.

21 nóvember, 2011

Kvisthyltingar heimsækja 101 pöbbana

Það er ekki svo sjaldan sem maður heyrir fólk tala um að það hafi farið á pöbbarölt og þá yfirleitt sem eitthvað jákvætt að mikilvægt þegar fólk heimsækir 101 um helgar.
Það var eitt markmið heimsóknar okkar fD að fara á svokallað pöbbrölt, allavega eins og okkar skilningur var á því orði: rölta á milli pöbba, kíkja inn hér og þar, renna úr bjór og halda síðan áfram. Þetta hljómar afskaplega skemmtilega eitthvað.

Þegar Töfraflautunni var lokið hafði veður breyst þó nokkuð: það var komið hvassviðri og rigningarhraglandi. Þar með var hugmyndin um rölt fyrir bí, nú snérist þetta meira um að drífa sig á milli pöbba (PÖBBADRÍF), eða réttara sagt, að drífa sig á milli pöbba sem fD tók í mál að fara á. T.d. vildi hún ekkert með Monte Carlo, taldi sig hafa heyrt eitthvað misjafnt um þann stað. 
Hún vildi ekki heldur fara inn á einhvern stað sem er á efstu hæð strætóhússins fyrrverandi á Lækjartorgi, hún vildi heldur sem minnst vita af því sem kynni að vera að finna í nýuppgerðum brunarústunum á sama torgi.
  Það var hún sem hafði frumkvæði að því að fyrsti pöbbinn sem ráðist var inn í ber nafnið B5 (frumlegt nokk) sem er á Bankastræti 5. Staður þessi var ekki fjölsóttur. Þarna inni, í frekur kuldalegum húsakynnum, þar sem var óþægilega hátt til lofts, innréttingarnar voru óaðlaðandi og engin tónlist, var eitthvað sem virtist vera samstarfsmannahópur ca. 8 manns, 8 StarWarsnördalegir karlmenn um þrítugt, og síðan einhver 3-4 pör fákunnandi útlendinga. Í stórmennsku minni bauð ég fD  upp á bjór, sem var þegið, ég pantaði, fékk og greiddi - hálfur lítri á mann. Þarna varð strax ljóst að úr þessu yrði ekki um að ræða neitt sem héti pöbbarölt - eða pöbbadríf - kannski pöbbaslag eða pöbbaskríð (æ, þetta er nú bull). Það tók langan tíma að ljúka þessu bjórglasi, ekki síst þar sem ég get ekki drukkið þennan vökva svo vel sé. Það er með engu móti hægt að halda því fram að þessi staður hafi hentað okkar aldri - hefðum getað verið foreldrar allra sem þarna voru.  Sá tími sem við eyddum þarna inni var ekki nýttur í neitt annað en að ljúka við bévítans bjórinn, sem tók nú tímann sinn. Tókst þó og ég uppþembdur.

Ekki taldist rétt að drífa sig á næsta pöbb fyrr en að lokinni hvíld í lúxusíbúðinni. Hvíldin gekk vel. Aftur héldum við fD út á lífið. Nú lá leiðin á pöbb sem kallast Ölstofa Kormáks og Skjaldar. Á þessari ölstofu eru ekki gluggar þannig að ekki vissum við hvað tæki við þegar inn var komið. Ég gekk ákveðnum skrefuð að útdyrunum og opnaði. Þarna var ekkert anddyri, maður var umsvifalaust kominn inn þar sem all var sem var. Þarna var mikll fólksfjöldi miðað við stærð húsnæðisins, sem er þannig hannað að á miðju gólfi er bar, sem er ótrúlega stór í hlutfalli við annað. Við veggina voru síaðn stólar og einhverjar borðnefnur og stólar. Milli útveggja og bars eru svona um það bil 1,5 metrar. Það getur verið að þarna sé eitthvað meir, en við fD gengum þarna einn hring í kringum barinn í gegnum kraðak fólks sem, enn og aftur hefði getað verið börnin okkar. Þarna eyddum við um það bil 5 mínútum. Þarna lauk pöbbaröltinu/drífinu.

Niðurstaða mín þessi eftir þessa reynslu:
Pöbbarölt er ofmetið - í það minnsta fyrir það fólk og aðstæður allar, sem hér var um að ræða.

20 nóvember, 2011

Kvisthyltingar heimsækja 101

Á meðan helbláir fréttamenn lögðu útvarp allra landsmanna undir frásagnir af hverju einasta prumpi skoðanabræðra og systra sinna í Laugardalshöllinni, héldum við fD í höfuðborgina í þeim tilgangi að slá fimm flugur í einu höggi:
1. Dvelja á hóteli eina nótt.
2. Finna góðan veitingastað og snæða þar.
3. Fara á pöbbarölt
4. Líta augum innviði nýja tónlistarhússins okkar.
5. Sjá "Töfraflautuna"
Hver og einn þeirra þátta sem þarna er nefndur verðskuldar sannarlega, a.m.k. eins og eina færslu á þessu svæði, en ég reikna ekki með að ég nenni að standa í því. Þar fyrir utan var sumt það sem þarna gerðist ekki þess eðlis að það eigi erindi inn á svo víðlesið svæði og hér er um að ræða.

Ætli sé ekki svona rúm vika síðan ég fann íbúðahótel í miðborginni sem borgaði nánast með sér. Mér fannst að það hlyti að vera maðkur í mysunni. Um leið og ég var búinn að bóka og borga fór ég að ímynda mér allskyns hrylling um þetta hótel, sem ber nafnið "Room with a view". Bara það, að hótel skuli ekki bera íslenskt nafn, er í sjálfu sér ávísun á að eitthvað spúkí sé í gangi. Var kannski ekkert salerni í íbúðunum? Snéru herbergisgluggarnir út að aðaldyrum skemmtistaðar? Ætli vantaði kannski dýnur í rúmið?
Ég lét auðvitað ekkert á neinum svona pælingum bera við fD. Hún  vissi bara um glæsilegt íbúðahótel í sama húsi og Mál og Menning í hjarta höfuðborgarinnar, neðarlega á Laugavegi, í göngufæri frá Hörpunni.
Í gær var síðan brunað í bæinn. Niður Laugaveginn var ekið á eins til tveggja kílómetra hraða á klukkustund og þegar við loks komumst á hornið hjá M&M, þar sem átti að beygja upp til vinstri upp Vegamótastíg, þá ætlaði það nú varla að ganga vegna fólksfjöldans  Ég þarf nú ekki að taka það fram að það var ekkert um að ræða, að leggja bíl við Laugaveginn. Hótelið lofaði hinsvegar á síðunni sinni, að íbúð fylgdi frítt bílastæði. Bakvið hús M&M fann ég bílastæði hótelsins, sem gaf nú ekki beinlínis fyrirheit um glæsileika. Þetta var svona svæði á bakvið, eins og slík svæði eru. Þarna voru ruslatunnur, moldarhrúgur, hellubrot, stillansar, veggjakrot og fleira óaðlaðandi og pláss fyrir 5-6 bíla, eftir því hvernig lagt var. Og, viti menn, þarna var laust stæði, sem ég renndi inn í. Þarna bakvið húsið voru engin önnur merki um íbúðahótelið en lítið skilti þar sem þess var getið að þetta væri bílastæði þess. Því hófst  leit að "Room with a view". Við fD gengum niður á Laugaveg og inn í verslun M&M til að spyrjast fyrir um hvar væri helst að leita að dyrum. Búðin var, eins og aðrir hlutar Laugavegs, í kreppunni, full af fólki að skoða og kaupa bækur. Allir starfsmenn uppteknir og ég vildi ekki vera að ryðjast inn í spekingslegar umræðurnar með spurningu hvernig ég gæti fundið hótel sem var í þessu sama húsi.
Þar kom þó að mér tókst að ná sambandi við starfsmann á milli kúnna. Hann sagði að þegar við kæmum úr færum við til hægri þar til við kæmum að dyrum sem væru merktar hótelinu. Fyrir innan þær væri hægt að sjá möttökuna, en það þyrfti kóða til að komast inn. 
KÓÐA til að komast inn á hótel!!?? Mér var nú að verða hætt að lítast á blikuna.


Út fórum við og til hægri. Sviplaus framhlið húsanna þarna gaf lítið til kynna um að þarna væri hótelinngangur. Við nánari athugun gat ég greint nafn hótelsins í glerinu á dyrum þess. Þegar við rýndum í gegnum glervegginn mátti sjá möttökuna, langt inni í iðrum hússins. Við hliðina á dyrunum var síðan takkaborð, væntanlega til að slá inn áðurnefndan kóða. Þar mátt ennfremur sjá spjald þar sem bent var á að það þyrfti að slá inn töluna 11 til að ná sambandi við móttökuna. Það gerði ég og umsvifalaust opnuðust rennidyrnar og við gengum inn í 2007-lega móttökuna, sem reyndist svo forsmekkurinn að því sem beið okkar í íbúð 512. (slatti af myndum úr henni) 


Það reyndust ekki vera neitt afskaplega miklar ýkjur  sem segir á vefsíðunni:

Luxury Apartment Hotel in Reykjavik city center


Íbúðin reyndist hin flottasta og þegar við bætist síðan verðið sem við greiddum fyrir herlegheitin var þetta bara nánast stórfenglegt. Gluggar snéru frá Laugavegi, þannig að ekki urðum við vör að hliðarverkanir skemmtanalífsins. Við blöstu bæði Hallgríms- og Landakotskirkja auk ýmissa minnismerkja um bóluna.
Nú ættu þeir hjá "Room with a view" að huga að nafnbreytingu. Mér finnst t.d. nafnið. 
"Íbúð með útsýni" 
koma vel til greina. 

16 október, 2011

Út: hellur og túba - inn: keramik og led (2)


Hún var nú búin að þjóna okkur vel og dyggilega svo lengi sem ég treysti mér til að muna, líklega í ein 20 ár í það minnsta. Það voru á henni 4 hellur, en tvær þeirra virkuðu eiginlega aldrei. Það var komin sprunga í þá þriðju, sem þó virkaði enn. Það var með öðrum orðum eftir ein hella sem var sæmilega nothæf, að því er talið var. Það varð ekki undan því vikist að gera eitthvað í málinu.

Til að eitthvað gerist þarf eitthvert afl að koma til, sem hreyfir við því með einhverjum hætti. Sú var raunin hér. Mér hefur alltaf þótt tilhugsunin um að flytja stóra og þunga hluti þess eðlis, að rétt sé að fresta og sjá til. Það kunna að koma upp þær aðstæður sem leysa þannig flutninga með einhverjum öðrum hætti en beinni aðkomu minni. Það var hinsvegar orðið ljóst þegar hér var komið að beinnar aðkomu minnar væri þörf.

Það þarf ekkert að fjölyrða um kaupin sem slík - lokapunktur þeirra átti sér stað í vel földu vöruhóteli við Sundahöfn. Þarna kom í ljós að nútíma eldunartæki eru talsvert léttari en þau sem eldri eru. Svo létt var þessi nýja, að það vafðist ekki fyrir okkur fD að vippa henni upp þröngan stiga þegar heim var komið. En til þess að hún hæmist á sinn stað þurfti að fjarlægja þá gömlu.

Hún tilheyrði þeim hópi eldavéla sem taldar voru afar vandaðar, og það endurspeglaðist í því að hún bjó yfir tilteknum massa. Ég minnist þess frá árum áður, að tæki sem voru þung í sér, voru í mínum huga traust tæki. Segulbandstæki sem voru þung, miðað við stærð, voru bara einfaldlega góð, meðan aftur á móti létta draslið fól í sér gæðaleysið. Það þurfti ekki að skoða frekar.

Nú eru aðrir tímar, að því er virðist. Létt er gott - sama hvaða þá er verið að fjalla um.  
Mér tókst að koma gömlu eldavélinni út úr innréttingunni og okkur tókst að drösla henni út úr eldhúsinu, en ekki mikið lengra.  Sú nýja og fína, small á sinn stað, tengingar græjaðar á afar fagmannlegan hátt. Stungið í samband. Á endanum kom ljós sem gaf til kynna að nú streymdi orkan um alla þræði. 
Auðvitað á eftir að læra á ýmsa nýja fídusa, en það er ekki viðfangsefnið hér að fjalla um hvernig það hefur gengið.
Það er hinsvegar viðfangsefnið hér að fjalla í örfáum orðum um það hvað tók við. Það beið gamall túbusjónvarpshlunkur eftir að leggjast til hinstu hvílu og nú hafði bæst við áratuga gömul eldavélin, sem var komin á stað sem nauðsynlega þurfti að nota til annars.

Við þessar aðstæður fór ég að segja, hátt og í hljóði, setningarnar sem 1. hluti byrjar á. Enn ætla ég að halda fram miklvægi þess að hugsa öll skref áður en verk er hafið. Vegna þess að ég hafði tekið mér tíma til að hugsa út hvert einasta skref, gekk flutningurinn á Sony og Siemens eins og í lygasögu. Þau hvíla nú á biðstað við hæfi - bíða þess að verða flutt á einhvern stað þar sem þau munu verða leyst  eða brotin í sundur; hætta að vera til.  
Þau þjónuðu vel og eru vel að þeim örlögum komin sem bíða þeirra.

15 október, 2011

Út: hellur og túba - inn: keramik og led (1)

"Það þarf að fara að koma þessu á gámastöðina".
"Það þarf að fá lánaða kerru."
"Það þarf að fá trillu til að koma þessu út".

Nú er líklegt að það fyrsta sem þeir sem til þekkja, og hafa kíkt að síðurnar hjá mér undan farin ár, hugsi með sér sem svo: "Jæja, er fD nú farin að ýta við kallinum enn eina ferðina?"

Ekki þykir mér slæmt að lýsa því yfir, að ofangreindar setningar hef ég sjálfur haft yfir, bæði hátt og í hljóði, að undanförnu. Ástæðan? Í rauninni einföld, en samt með vott af  (dass af) tilfinningu fyrir því að  setningarnar sem tilgreindar eru hér efst, geti verið væntanlegar þá og þegar hvort sem er og þá í flutningi fD. Hafi svo verið, nú þá var ég bara á undan þessu sinni að segja það sem segja þurfti.

Sem svar við því hvert tilefni ofangreindra setninga er, er hægt að færa fram stutt svar eða langt svar. Gallinn við stutta svarið er, að með því gætu lesendur farið að fá í höfuð sín hugmyndir um okkur Kvisthyltinga, sem eru ekki réttar. Því ætla ég að láta langa svarið duga.

Litasjónvarpstæki tóku við af þeim svart/hvítu fyrir afskaplega löngu síðan. Heimildir mínar segja, að sjónvarpsútsendingar í lit hafi hafist árið 1975. Í allmörg ár eftir það  létum við okkar svart/hvíta tæki duga, enda hvorki peningar til, til uppfærslu, né heldur börn sem þóttust hafa vit á því hvort væri betra svart/hvítt eða litur. 
Ég giska á að fyrsta litatækið hafi komið á bæinn kannski tveim árum eftir að ég var farinn að vinna. Það átti sinn tíma eins og svona dót, en nýtt var ekki keypt fyrr en það gamla dó. 
Það var líklega um það leyti, sem ég las um það einhversstaðar, að framtíðin fælist í sjónvarpstækjum sem hægt væri að hengja á vegg eins og myndir. Í því sambandi ákvað ég að næsta sjónvarp sem ég myndi kaupa yrði veggsjónvarp. Þau voru reyndar ekki komin enn þegar að næstu endurnýjun kom. 

Tækjaminni mitt er afskaplega vont og mér þykir það hreint ekki slæmt. Ég man, s.s. ekki hvort síðasta túbutækið (sem gaf ekki upp öndina og var í fínu standi, fyrir utan það að maður gat ekki orðið fylgst með markatölunni í handboltaleikjum) var það sem tók við þarna, eða hvort annað kom í millitíðinni. Það skiptir í raun engu máli. Það sem skipti máli á þeim tímapunkti sem um ræðir, og átti sér stað í aðdraganda síðustu jóla var, að ég taldi einfaldlega að sú stund væri upprunnin þegar ég uppfyllti um það bil 25 ára gamalt fyrirheitið um veggsjónvarp (og hana nú - ég sagði það). Annar rökstuðningur fyrir þessum kaupum vafðist ekkert fyrir mér.  Nefni hér bara þrjár góðar og gildar ástæður:
a.  LED tæki, eins og hér er um að ræða, ku næstum framleiða orku. 
b. Gamalt túbutæki gæti sprungið þá og þegar og brennt húsið til kaldra kola.
c. Kaup af þessu tagi stuðla að auknum hagvexti og manni er sagt að hann sé grundvöllur alls hins góða sem hægt er að ætlast til af lífiinu.

Gamla túbutækið var sett til hliðar. Þar sem það var í rauninni í fínu standi, enda gott merki, þá ól ég þá von í brjósti, að einhver myndi vilja taka það af höndum mér. Gallinn við þá pælingu var augljóslega sá, annarsvegar, að við auglýstum gripinn með engum hætti og hinsvegar, að líklega eru þeir Íslendingar teljandi á fingrum annarrar handar, sem myndu láta sér nægja túbusjónvarp og 10-15 ára gamalt þar að auki. 

Tækið var sett til hliðar um síðustu jól, og kom ekki við sögu Kvisthyltinga eftir það, nema þá þannig, að ef til vill varð ég var við lítilsháttar sting við og við þegar ég átti leið um kjallarann, vegna þess óleysta sjónvarpsmáls, eða þá í óorðuðum skilaboðum frá fD um að það væri nú kannski skynsamlegt að fara að koma tækinu á einhvern þann stað sem það endaði tilveru sína sem sæmilegum sóma.

Það sem síðan gerði eiginlega útslagið, átti sér síðan stað fyrir nokkrum dögum, en frásögn af því bíður þar til næst.,

30 september, 2011

Gyllinæðarkremið

Það breytir engu í því samhengi sem hér er um að ræða, en ég verð samt að nefna það, þar sem það skýrir það sem skýra þarf. 
Þannig er mál með vexti, að hásin hefur verið að plaga mig um alllangt skeið. Þetta er auðvitað afskaplega hvimleitt og mér hefur verið talsvert í mun að leita leiða til að óþægindin sem þessu fylgja, hverfi.

Það var svo í heimsókn okkar fD til Álaborgarfjölskyldunnar í byrjun ágúst að ég bar mig upp undan þessu við Kvisthyltinginn sem allt á að vita um svona hluti, að mínu mati. Hann greindi mér þá frá því, að þegar hann dvaldi í Ástralíu um eins árs skeið fyrir nokkrum árum, hafi hann einmitt lent í því að fá eymsl í hásin. Að fyrirmælum læknis hafi hann, fimm nætur í röð, borið blöndu af Voltaren geli og gyllinæðarkremi á hásinina og síðan vafið filmuplasti yfir allt saman. Hann kvað þetta hafa virkað vel.

Með þessa vitneskju yfirgaf ég Álaborg og gisti landið bláa á ný með minn hásinarvanda.

Þar kom að ég hélt á fund læknis til að freista þess að fá hann til að skrifa út lyfseðil á Voltaren og gyllinæðarkrem. Hann þráaðist nú við, glotti og kvaðst aldrei hafa heyrt um svona lækningaaðferðir, en var á endanum til að gefa mér færi á að prófa. Ef árangurinn yrði jákvæður gæti þetta haft áhrif á framþróun læknavísina á Íslandi.

Fram til þessa hafði umræðan um gyllinæðarkremið ávallt farið fram í samhengi við hásinarbólgu og því aldrei reynt á hin óorðanlegu viðhorf og hugrenningatengsl sem fara af stað þegar þetta samhengi er ekki fyrir hendi.

Með útskrift lyfseðilsins hvarf þetta samhengi og framundan var að fara í apótekið og leysa út kremin tvö. Þar sem ég bý í fámennu samfélagi, til þess að gera, þekki ég auðvitað apótekarann, úr barnaskóla, kórstörfum og hinu og þessu gegnum áratugina. Án þess að ég vildi fór ég að velta fyrir  mér hvaða hugsanir færu í gegnum höfuð hans þegar hann fengi gyllinæðarkremslyfseðilinn í hendur.
"Jæja, er karlinn bara kominn með gyllinæð, he he. Ræfils tuskan."

Ég var staðfastur í, að þrátt fyrir að möguleikinn á ofangreinri hugsun apótekarans væri fyrir hendi, skyldi ég með engu móti láta sjá það með svipbrigðum mínum, látbragði, eða orðum að þarna væri á ferðinni eitthvað annað en hið eðlilegasta mál - sem það var auðvitað, nú fyrir utan það, vissulega, að þarna var verið að prófa ástralska lækningaaðferð í fyrsta skipti á Íslandi - en ég minntist ekki á það, enda myndi það bara hljóma sem afsökun til útskýringar á gyllinæðarkreminu. 

Ég stóðst með prýði kremkaupin, og apótekarinn auðvitað líka  -  bara spjallað um daginn og veginn meðan verið var að prenta notkunarleiðbeiningar á miðann. Borgað, burt.

Þegar heim var komið skellti ég kremunum bara á eldhúsborðið. Það var allt í lagi þar sem ekki var nú um að ræða aðra í húsinu en mig og fD, sem var vel heima í hásinarumræðunni og því með rétt stillt viðhorf til málsins.

Þá kom fólk í heimsókn - svona vel rúmlega miðaldra hjón sem hafa ýmsa fjöruna sopið. 
Þau settust við eldhúsborðið áður en mér tókst að skanna það fyrir hlutum og/eða efnum sem þar hefðu ef til vill ekki átt að vera. Á borðinu var gyllinæðarkremið og reyndar líka Voltaren gelið, en nákvæmlega það bjargaði því að ég þyrfti að fara í einhverja sérstaka vörn. Konan er ekki þekkt af því að spyrja ekki, ef hana vantar svör. Þessvegna:
"Hvaða krem er þetta?  Doloproct rektal creme??"  
Þarna skellti ég nú bara fram, blátt áfram, eins og ekkert væri eðlilegra, forsögunni, algerlega vandræðalaust, með þessum viðbrögðum:
"Já, gyllinæðarkrem. Maður þekkir það nú vel."
Þar með var það bara afgreitt.

Um kvöldið tók ég mig til og blandaði í einhverjum hlutföllum, kremunum tveim, bar þau í talsvert þykku lagi á hásinina endilanga og vafði síðan filmuplasti rækilega yfir allt saman. Fór svo bara að sofa og vaknaði aftur morguninn eftir eins og hlýtur að vera, því annars væri ég ekki að skrifa þetta.

Breytingin var nú ekki mikil, nema sú, að mér fannst að þessi kröftugu bólgueyðandi krem hefðu fjarlægt allar bólgur svo rækilega, að hælbeinsliðurinn skrölti svona eins og þegar bremsur eru járn í járn. Það lagaðist þó, og ég hélt áfram að bera þessi krem samviskusamlega í 5 nætur, án þess að þau sönnuðu sig sem tímamótaframfarir í læknavísindum á Íslandi.

Hvort sem lesendur trúa því eða ekki þá hef ég,  í gegnum þetta gyllinæðarkrem, fyrsta sinni aflað mér upplýsinga um hvaða fyrirbæri þessi gyllinæð er, og þar komst ég meðal annars að því, að nafnið er ekki gegnsætt, en lýsir sakleysislegasta fyrirbæri, ef grannt er skoðað.

24 september, 2011

IE: Allt önnur hlið

Ég og fD áttum leið til Kaupmannahafnar með Iceland Express í byrjun ágúst s.l. og sú reynsla varð til þess að ég sá mig knúinn til að lýsa henni hér. Þetta var ekki fögur lýsing, en rétt, á þeim tímapunkti.

Ég og fD áttum leið til Berlínar með Iceland Express þann 19. september með heimkomu þann 23. Þetta flugfélag var ekki valið vegna góðrar reynslu úr fyrri ferðum - sannarlega ekki.

Reynslan þessu sinni svo aldeilis allt önnur en í hið fyrra sinnið og ástæðurnar eru þessar:

1. Við fengum miða á afskaplega góðu verði, sem auðvitað segir ekkert um gæði þjónustunnar, en er nefnt til samanburðar við verð á flugi til Álaborgar í ágúst s.l., sem ekki var farið vegna ótrúlegs verðlags.

2. Flugið frá Keflavík átti að hefjast kl 08:55. Það var tekið á loft kl. 08:55. Fagmennska áhafnarinnar var með miklum ágætum og við lentum einum 20 mínútum á undan áætlun í Berlín.

3. Flugið frá Berlín kom okkur enn meira í opna skjöldu, en 40 mínútum  fyrir áætlaða brottför lentum við fD í því að verða síðust farþega um borð í vélina, sem síðan varð að bíða á vellinum vegna reglna flugvallarins um brottfarir fyrir áætlaðan tíma.  Starf áhafnar var manneskujulegt og fagmannlegt og gerði ekkert nema bæta reynsluna. Flugfreyja sem hefur öðlast einhvern innri ljóma hins reynda einstaklings, stóð sig af stakri prýði í okkar hluta vélarinnar. Æskan er ágæt að mörgu leyti, en hana vantar bara svo margt.

Þarna umpólaðist ég í afstöðu minni til Iceland Express. Ef þetta flugfélag heldur svona áfram á það fullt erindi í samkeppni um flug yfir hafið. Stóri bróðir má vara sig.

Þetta segi ég, en er ekki þar með að lýsa því að eignarhald félagsins sé mér að skapi.

04 september, 2011

Val og ekkival

"Veldu bara einhverjar," segir fD, eftir að hafa skrollað yfir upplýsingar um leiksýningar vetrarins í stærstu leikhúsunum tveim.

Menningarleysi, eða kannski skortur á athafnasemi þegar menningarneysla er annarsvegar, hefur verið eitt af áhyggjuefnunum á þessum bæ undanfarin ár. Því hefur sú hugmynd skotið upp höfðinu á hverju hausti, að fjárfesta í áskriftarkortum leikhúsanna. Aldrei hefur umræðan um slíka fjárfestingu komist lengra en á þessum morgni í upphafi september. Ég var nú áðan kominn inn á svæði þar sem lítið var annað að gera en smella á leikverk sem ég kysi að sjá. Ég gerði það ekki.

Það er sannarlega góð hugmynd (í ljósi þess hvernig ég er innréttaður) að fara að stunda menningarviðburði vegna þess að ég er búinn að borga fyrir. Auðvitað er það vitlaus forsenda fyrir slíku, en gæti orðið til þess að efla þennan tvímælaust mikilvæga þátt mennskunnar.

Hversvegna smellti ég ekki á leikverkin áðan?
Jú, fyrir því eru nokkrar ástæður, sem ég er staðráðinn í að líta framhjá þegar ég læta vaða í málið á eftir:
a. Hvort á ég að velja Borgarleikhúsið eða Þjóðleikhúsið? Hvaða fyrirframhugmyndir hef ég um þessar stofnanir? Finnst mér að Þjóðleikhúsið sé meira svona "mitt" leikhús, sem landsbyggðarmanns? Finns mér Borgarleikúsið kannski hafa fram að færa áhugaverðari sýninga svona heilt yfir? Er ég hreinlega fordómafulllur í garð annars hússins?

b. Það þarf að kaupa tvö kort og alltaf á sömu sýningarnar (ég sé okkur fD ekki fara að kaupa áskriftarkort á mismunandi sýningar). Í sambandi við það heyrði ég setninguna sem er hér efst. Ég veit nú alveg hvernig það verður - eða þykist vita það.
Ég smelli á einhverjar sýningar.
"Nú, valdirðu þessa? Mig langar nú eiginlega ekkert að sjá hana."
Kannski er ég að mála skrattann á vegginn, en maður þarf að hugsa hlutina til enda, þegar kemur að því að festa fé sitt í einhverju.

c. Reglurnar um kaup á þessum leikhúskortum hljóða upp á að maður þurfi að velja 4 sýningar af tilteknum lista. Þetta kallar auðvitað á rannsóknarvinnu af minni hálfu. Sum verkin er verið að sýna áfram frá fyrra leikári, önnur eru splunkuný. Það er komin tiltekin reynsla á þau fyrrnefndu - þau eru sýnd áfram vegna þess að þau voru sótt á síðasta vetri, hljóta þar með að vera nokkur góð. Þau síðarnefndu eru ný og ég hef ekkert nema það sem sagt er um þau í kynningarritum, en þar er eðlilega ekkert verið að draga úr hástemmdum lýsingarorðum um ágæti þessara verka. Kannski maður endi á einhverri blöndu, t.d. 2 ný og 2 sem eru í framhaldssýningu.

d. Það er þetta með sýningardaga. Við kaup á kortinu þarf ég að velja sýningarnúmer. Val af þessu tagi hlýtur nú að verða harla handahófskennt, enda liggja sýningardagar ekki fyrir og maður verður að fylgjast með hvenær viðkomandi sýningarnúmer verður á dagskrá og raða síðan lífi sínu umhverfis það. Vissulega er hægt, ef þannig stendur á, að finna nýjan dag með aðstoð miðasölunnar.

Það er að mörgu að hyggja ef maður ætlar í vegferð af þessu tagi.
Megi leikhúsárið verða gefandi og vel skipulagt.

14 ágúst, 2011

Hlutlaus frásögn af flugferð

Það er miðvikudagsmorgunn, 3. ágúst 2011. Klukkan er rétt rúmlega átta að morgni í rananum á Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þarna ganga þau fD og hP með handfarangur sinn sem leið liggur út að hliði 15 þar sem þeirra bíður flugvél á vegum IE, sem er 'on time' eins og það heitir á flugmáli, og sem á að hefja sig á loft kl. 08:40 frá Keflavík og lenda í Kaupmannahöfn kl. 13:40 að staðartíma. Þau fD og hP eiga síðan tengiflug með Norwegian flugfélaginu sem fer frá Kaupmannahöfn kl 15:25 að staðartíma, til Álaborgar. Þarna er sem sagt klukkutími og fjörutíu og fimm mínútur milli þess sem vél IE á að lenda  og vél Norwegian á að taka á loft. Þá ber þess að geta að þar sem um innanlandsflug er að ræða, er frestur til innritunar þar til hálftíma fyrir flug.

Þetta eru aðstæðurnar miðað við að allt sé samkvæmt áætlunum.

Kl. 0825 - Farþegum er hleypt úr biðsal niður í annan biðsal. Fyrir utan stendur farkosturinn.
Kl. 0835 - Farþegar fá að ganga út í vélina (5 mín í áætlaðan brottfarartíma).
Kl. 0850 - Farþegar í stórum dráttum komnir í vélina - (fD og hP sitja þannig að þau heyra vel orðaskipti flugþjóna sín í milli.) Enn vantar 2-10 farþega - talningarmanneskjan var ekki viss, svo talning var framkvæmd aftur.
Kl. 0905 - Vel slompaður eldri karlmaður kemur í vélina. Annað gerist ekki.
Kl. 0925 - Flugstjóri tilkynnir að beðið sé eftir pappír vegna hleðslu vélarinnar og segir að þegar hann er kominn, sé ekkert að vanbúnaði að leggja í hann.
Kl. 0945 - Flugstjórinn tilkynnir að nú sé pappírinn að koma og það sé ekkert annað en skella sér í loftið. Maður kemur inn í vélina með pappír í hönd og fer fram í flugstjórnarklefann, síða út aftur. Vélinni er lokað. Ekkert frekar gerist.
Kl. 0955 - vélinni er ýtt frá flugstöðinni og er síðan ekið alllanga leið þar til tekið er á loft um kl 10:00. Í flugtaki tekur að leka vatn yfir hP þar sem hann situr og veltir fyrir sér hvernig bregðast skuli við þessari stöðu sem upp er komin. Bráðfyndinn flugþjónn segir að sturtan sé bara bónus.

Þetta ferli hafði það óhjákvæmilega í för mér sér að ekki er flogið frá Kaupmannahöfn kl 15:25, enda voru þau fD og hP þá að bíða eftir töskum á færibandi.
Álaborgarbúandi Kvisthyltingurinn fór í að breyta flugmiðum. Breytingin kostaði DKK1240, sem var þá  beint fjárhagslegt tap vegna seinkunar á brottför IE frá Keflavík.

Hér er auðvitað hægt að upphefja hávaða, en tilgangur með slíku væri fyrst og fremst að losa sig við einhverjar frústrasjónir - annað hefði það ekki í för með sér.
Það virðist ljóst að farþegar hjá IE eru búnir að aðlaga sig því að vélar þess fari bara einhverntíma af stað, sem er auðvitað erfitt fyrir þá sem kjósa að halda sig við þær tímasetningar sem farið er af stað með.

Flugið með Norwegian til og frá Álaborg var eins og best verður á kosið - tímasetningar stóðust og vélarnar voru nýjar og gott fótapláss. Ég get mælt með því flugfélagi.

25 júlí, 2011

Líklega árið 2036 næst

Nei, sannarlega er ég ekki að gera því skóna, að næsta fjöldamorð sem raunveruleikafirrtur öfgahægrimaður fremur, muni eiga sér stað á þessu ári. Ég er búinn að vísa til margra öfgafullra ummæla undanfarin ár - ummæla sem ástæða er til að hafa áhyggjur af.


Ég kýs að fjalla ekki um það sem gerðist í Noregi s.l. föstudag umfram það sem ég gerði hér. Þetta er ekki vegna kaldlyndis, heldur hef ég bara ekki þörf fyrir að lýsa því fyrir lesendum hve sorglegt mér þykir þetta allt saman. Það er eitthvað sem þarf ekki að segja frá, við þessar aðstæður. Þar fyrir utan eru þeir nógu margir, að mínu mati, sem freista þessa að raða saman árifaríkum orðum af þessu tilefni og ekkert slæmt um að að segja.


Nóg um það.

Ég giska á að árið 1986 hafi verið reistur skjólveggur sá í Kvistholti, sem hér má sjá á mynd. Hlutverk hans var, og er, að tryggja það að svokallað hringrok hefði sem allra minnst áhrif á möguleika sóldýrkandi Kvisthyltinga. Þessu hlutverki hafði skjólveggurinn gegnt í um 25 ár, talsvert lengur en hægt var að ætlast til af honum, enda ástand hans orðið slíkt undir það síðasta, að þegar fD skellti á hann viðarvörn s.l. sumar mátti á köflum varla á milli sjá hvað væri hárin í penslinum og hvað timbrið í skjólveggnum. Af þessum sökum taldi ég ekki undan því vikist lengur, að endurnýja timbrið í skjólveggnum góða.

Ég held, að þó svo ég hefði harla gaman af því að lýsa í smáatriðum aðdraganda ofangreindrar endurnýjunar, láti ég það að mestu leyti ekki eftir mér: efnismælingarnar, pöntunin, óþarflega snögga afhendingu - þetta verður bara að eiga sér stað í hugarheimi mínum áfram.

Það þarf auðvitað enginn að fara í grafgötur um, að sem fyrr, þar sem verklegar framkvæmdir í Kvistholti eru annarsvegar, er ég betri en enginn. Enn á ný kom í ljós að það er grunnt á hæfileika sem ég reyni að fela sem allra mest.

Ekki fjölyrði ég um skipulag og framkvæmd. Slík umfjöllun gæti bent til þess að ég beri og mikið traust til sjálfs mín þegar verklegar framkvæmdir eru annars vegar.
Skjólveggurinn fór upp á sama stað og sá gamli, en til þess að endurtaka ekki hönnun gamla veggjarins ákvað ég að fara nokkuð nýja leið í hönnuninni. Nýja útlitið mun sóma sér vel sem verðugur minnisvarði um verkkunnáttu Kvisthyltinga (fD var betri en enginn við framkvæmdirnar).

Myndasería í heild sinni.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...