25 júlí, 2011

Líklega árið 2036 næst

Nei, sannarlega er ég ekki að gera því skóna, að næsta fjöldamorð sem raunveruleikafirrtur öfgahægrimaður fremur, muni eiga sér stað á þessu ári. Ég er búinn að vísa til margra öfgafullra ummæla undanfarin ár - ummæla sem ástæða er til að hafa áhyggjur af.


Ég kýs að fjalla ekki um það sem gerðist í Noregi s.l. föstudag umfram það sem ég gerði hér. Þetta er ekki vegna kaldlyndis, heldur hef ég bara ekki þörf fyrir að lýsa því fyrir lesendum hve sorglegt mér þykir þetta allt saman. Það er eitthvað sem þarf ekki að segja frá, við þessar aðstæður. Þar fyrir utan eru þeir nógu margir, að mínu mati, sem freista þessa að raða saman árifaríkum orðum af þessu tilefni og ekkert slæmt um að að segja.


Nóg um það.

Ég giska á að árið 1986 hafi verið reistur skjólveggur sá í Kvistholti, sem hér má sjá á mynd. Hlutverk hans var, og er, að tryggja það að svokallað hringrok hefði sem allra minnst áhrif á möguleika sóldýrkandi Kvisthyltinga. Þessu hlutverki hafði skjólveggurinn gegnt í um 25 ár, talsvert lengur en hægt var að ætlast til af honum, enda ástand hans orðið slíkt undir það síðasta, að þegar fD skellti á hann viðarvörn s.l. sumar mátti á köflum varla á milli sjá hvað væri hárin í penslinum og hvað timbrið í skjólveggnum. Af þessum sökum taldi ég ekki undan því vikist lengur, að endurnýja timbrið í skjólveggnum góða.

Ég held, að þó svo ég hefði harla gaman af því að lýsa í smáatriðum aðdraganda ofangreindrar endurnýjunar, láti ég það að mestu leyti ekki eftir mér: efnismælingarnar, pöntunin, óþarflega snögga afhendingu - þetta verður bara að eiga sér stað í hugarheimi mínum áfram.

Það þarf auðvitað enginn að fara í grafgötur um, að sem fyrr, þar sem verklegar framkvæmdir í Kvistholti eru annarsvegar, er ég betri en enginn. Enn á ný kom í ljós að það er grunnt á hæfileika sem ég reyni að fela sem allra mest.

Ekki fjölyrði ég um skipulag og framkvæmd. Slík umfjöllun gæti bent til þess að ég beri og mikið traust til sjálfs mín þegar verklegar framkvæmdir eru annars vegar.
Skjólveggurinn fór upp á sama stað og sá gamli, en til þess að endurtaka ekki hönnun gamla veggjarins ákvað ég að fara nokkuð nýja leið í hönnuninni. Nýja útlitið mun sóma sér vel sem verðugur minnisvarði um verkkunnáttu Kvisthyltinga (fD var betri en enginn við framkvæmdirnar).

Myndasería í heild sinni.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...