14 desember, 2025

Costa Rica (4) - Nágrennið

FRAMHALD AF ÞESSU
Þegar til átti að taka morguninn eftir pg umhverfið blasti við í dagsbirtu, að ég uppgötvaði, mér til allmikillar hrellingar, að venjulega myndavélarlinsan mín (EFS 17-85mm) var biluð - föst í upphafsstillingu. Þetta setti ýmislegt úr skorðum. Ég hafði tekið með mér báðar linsurnar mínar í handfarangri og varla sleppt af þeim  augunum yfir höf og lönd. Sem betur fer reyndist hin linsan (EF 100-400mm USM) virka eins og skyldi.  Það þýddi ekkert að æðrast yfir þessari stöðu, stóra linsan fengi þá bara víðtækara hlutverk.

Morgunverðurinn

Þessi 3ji dagur ferðarinnar, sunnudagurinn 16. nóvember, hófst með morgunverði á veitingastaðnum. Honum var þannig háttað, að ákveðin tegund morgunverðar var innifalinn í dvölinni og ef þú vildir eitthvað umfram það, var hægt að panta það og greiða fyrir.  
Grunnmorgunverðurinn fólst í tveim tegundum af brauðsneiðum (sem hægt var að rista) með smjöri og hlaupsultu, einum þrem tegundum af ávöxtum og tveim til þrem tegundum af sætum kökum af einhverju tagi. Svo var ávaxtasafi og kaffi einnig á boðstólnum. Ég lét mér þetta bara vel líka, enda laus við valkvíða gagnvart stórum morgunverðarhlaðborðum. Það átti ekki við um alla og einhverjir keyptu sér líklega annarskonar morgunverð.  Þetta mál þróaðist þannig, að fararstjórarnir okkar, áhyggjufullir yfir mögulegum próteinskorti ferðalanganna, komu því svo fyrir að við gátum pantað okkur, úr þeirra vasa, eggjahræru (scrambled eggs) til viðbótar við grunnmorgunverðinn. Ekki varð ég var við að morgunverðurinn þennan fyrsta morgun, kæmi niður að getu hópsins í átökunum sem framundan voru þennan daginn.

Gangan að fossinum

Megin viðfangsefni þessa dags var gönguferð. Vandi minn og mögulega annarra í hópnum var, að ég áttaði mig engan veginn í hvaða átt var haldið frá  bækistöðinni. Bæði vegna þess, að við vorum á kafi í skógi og þar með engin sjáanleg kennileiti og svo var sólin, þegar hún birtist milli skýjanna, það hátt á lofti að hún hjálpaði lítið. 
Hvað um það, við mættum til brottfarar fljótlega eftir morgunverðinn og hafði verið bent á að búnaður okkar skyldi taka mið af því að við gætum skellt okkur í sund undir fossi. Við fD ákváðum að láta mögulegar sundferðir eiga sig að þessu sinni. Ég hugðist bara einbeita  mér að myndatökum.
Svo kom þarna 12 manna sendibíll og flutti helming hópsins á tiltekinn stað. Sá helmingur beið svo þar með Alejandro, þar til bíllinn kæmi aftur með hinn hluta hópsins. Við fD vorum í fyrri hlutanum sem beið.  Alejandro beið þarna með okkur og sá allskyns dýr og benti okkur á. 
Ég varð oft undrandi á því í ferðinni yfir því hvernig honum tókst að greina fugla, eða önnur dýr, hvort sem var í trjátoppum eða á jörðu niðri. Það má kannski skoða það sem ástæðu, að þú lærir á minnstu smáatriði í umhverfinu sem þú býrð alla jafna við. Þarna var ég stöðugt að rýna í trjáþykknið, en sá sjaldnast nokkuð, jafnvel ekki þó Alejandro reyndi að benda á það.  
Dæmi um hvað hann var naskur á umhverfið átti sér stað meðan mið biðum þarna eftir seinni hópnum. Þá benti hann okkur allt í einu á maur á trjástofni, sem ég átti fullt í fangi þeð að sjá í fyrstu, eiginlega ekki fyrr en maðurinn benti á hann með greinarstúf. 


Hér fyrir neðan er svo stækkuð mynd af maurnum. Því miður var ég bara með biluðu linsuna og varð því að fara eins nærri maurnum og ég þorði:


Alejandro tjáði okkur að þessi maur væri varasamur. Hann kallðist "Bullet-ant"- um 3 cm langur (held að það sé rétt munað hjá mér). Stunga hans er eins og maður fái í sig skot úr byssu, sem sagt frekar sársaukafullt líklega. Bólga í stungusárinu og sársauki getur varið í meira en einn dag. Það var, sem sagt ástæða fyrir því að ég hætti mér ekki nær til myndatöku.

Fyrri hluti hópsins bíður eftir þeim seinni og hlustar andaktugur á Alejandro.

Þegar seinni hluti hópsins  kom var haldið af stað í göngu upp með á sem ég reyni að vera viss um að heiti Río Azul, eða Bláá. Nafnið er augljóslega til komið vegna bláma vatnsins í henni, en það á rætur að rekja til eldfjallasvæðisins sem hún kemur frá, full af steinefnum, sem sagt.
Myndir segja meira um gönguna upp með ánni, svo ég læt þær duga fyrst um sinn. (bara smella á þær til að fá stærri útgáfu (þetta vita nú allir)









Þetta var ævintýralegt umhverfi og fagurt. Þar kom að hópurinn kom að fossi, sem ég hygg að sé kallaður Las Choreras vef Kúbuferða. Þennan foss hef ég ekki fundið á Google maps og þar með varð erfiðara hjá mér að átta mig á áttum á þessu svæði, ekki það að það hafi neitt breytt upplifuninni.
Þarna var kominn fossinn þar sem fólki gafst færi á að fækka fötum og skella sér ofan í tjörn undir fossinum og það gerðu flestir.





Ég var bara eitthvað að dunda mér með myndavélina með biluðu linsunni. Og rakst þá meðan annars á leðurblökur í skýli sem þarna var. 

Fossbaðinu lauk og 12 manna bíllinn flutti okkur aftur í bækistöðvarnar, þar sem við nýttum það sem eftir lifði dags við að kanna umhverfið aðeins betur og fara í heita pottinn.





13 desember, 2025

Costa Rica (3) "Blue River Resort" í myrkri

FRAMHALD AF ÞESSU

Malarvegurinn til áfangastaðarins, sem kallast "Blue River Resort & Spa" benti eindregið til þess að okkar biðu einhverskonar skógarkofar þar sem búnaður væri allur hinn frumstæðasti. Carlos bílstjóri gerði allt sem í hans valdi stóð til að mjór og holóttur malarvegurinn  færi eins vel með okkur og kostur var, meðan sólin hraðlækkaði á lofti. Beggja vegna vegarins var annaðhvort þéttur frumskógur eða húsbyggingar, sem aldrei hefðu farið í gegnum bygginganefnd á Íslandi. Ég var nú reyndar ekki lengi að komast að því, fyrir sjálfan mig, hversvegna, enda kom í ljós að við vorum þarna komin í heimshluta, þar sem ekki rignir lárétt - heimshluta, þar sem þak er í rauninni alveg nóg og þar með útveggir nánast aukaatriði.

Það var komið myrkur þegar við renndum í hlað, eftir nokkrar tafir, þar sem kröpp beygja að mjórri brú, olli nokkrum töfum. Á móti okkur tók starfsfólk og úthlutaði lyklum að vistarverum. Ég set hér kort af þessu "resorti", sem má útleggja sem: "afmarkað svæði með hóteli, sundlaug og einhverri afþreyingu". Ékki kannast ég við orð á íslensku sem nær yfir þetta hugtak, set hér inn mynd af þessu svæði til útskýringar:


Þetta kort er reyndar ekkert sérlega nákvæmt, ef út í það væri farið. Okkur fD tókst að villast í rannsóknaleiðangi um svæðið síðar, en það er annað mál. Kortið sýnir svæðið þó, í stórum dráttum. Þarna má sjá bílastæðið í rauða hringnum, bústaði hópsins og veitingahúsin í miðjunni. Ég setti gulan kassa um hús okkar fD.

Frá bílastæðinu renndum við farangrinum, með leiðbeiningum starfsmanna, enda vissi maður varla hvað snéri upp eða niður þarna í myrkrinu. Það tók alveg tíma að komast á leiðarenda, en augljóslega tókst það. Bústaður nr. 104 tók við okkur og reyndist eitthvað allt annað en ég hafði búist við. Myndir sanna það.

Þegar inn var komið, tók við okkur risastórt herbergi, eða salur með tveim tvöföldum rúmum. Inn af þessum sal tók við annar salur, þar sem var að finna fataherbergi, snyrtingu, baðsal, og salerni. 


Það þurfti nú smá tíma til að komast yfir þessa dásemd, en að því búnu lá leið til kvöldverðar og þangað þurfti að rata, sem var alls ekki sjálfgefið, en hafðist á endanum - eins og nærri má geta. 
Matarminni mitt er ekkert sérstakt, en ég tel að maturinn hafi samanstaðið af hrísgrjónum, svartbaunum og einhverju kjöti. Stundum, í ferðinni, gátum við valið á milli silungs, svíns og kjúklings, en ég er ekki viss hvernig þessu var háttað þarna. Maturinn var allavega alveg ágætur, eins og hann var reyndar í allri ferðinni.
Það sem mér þótti sérlega áhugavet þarna á veitingastaðnum var, að það voru engir veggir. Þetta var síðan oftar ekki raunin.

Íslensk líkamsklukkan  kallaði á svefn og því engu nætulífi til að dreifa eftir matinn. Í draumaheimi dvöldum við til svona rúmlega kl. 3 eða 4 um morguninn, aldeilis klár í að takast á við þau undur sem biðu okkar.

Þetta er húsið okkar og gatan fyrir framan það, þegar birti af degi.



Framhald 

12 desember, 2025

Costa Rica (2) - Leiðin til Bláár (Río Azul)

FRAMHALD AF ÞESSU

Það er varla í frásögur færandi, en þegar búið var að endurnýja vegabréfið, verða sér úti um einhverskonar vegabréfsáritun til Kanada (ETA), greiða uppsett verð fyrir ferðina, pakka í slatta af töskum, fá nágranna til að kveikja á jólaljósum á svölunum á tilsettum tíma, skvetta smá vatni á gróðurinn sem kominn var í vetrardvala, velta vöngum yfir hvort borgarastríð skylli kannski á í landi hinna frjálsu og þetta og hitt og hitt og þetta, lá leið okkar fD til Keflavíkur og við full af þakklæti fyrir að þurfa ekki að vakna um miðja nótt til að komast í flug. Ef það er eitt sem dregur úr manni löngun til ferðalaga, þá er það einmitt svefnleysið á ferðardegi. Við þurftum bara að vera komin á völlinn um tvöleytið til að taka flug með Icelandair til Toronto sem hóf sig til flugs rétt rúmlega klukkan fimm síðdegis. 
Carlos og Guðni

Flugið var bara svona flug eins og flug eru, en því verður ekki neitað, að það var þægilegt að vita til þess að með í för frá upphafi ferðar og allt til enda hennar voru þeir félagarnir, eigendur Kúbuferða/2GOIceland, Guðni og Carlos. Þeir áttu svo eftir að leiða hópinn, nánast eins og andamömmur, svo aldrei fundust hnökrar á. Guðni var mest svona í framlínunni gagnvart hópnum, en Carlos var í bakvinnslunni og sá um að allt gengi smurt, gagnvart heimafólki í Costa Rica. Svona blasti það alla vega við mér.

Toronto

Það var sem sagt millilent í Toronto og "gist" eina nótt á Alt-hotel, sem er nánast við flugvöllinn. "Gist", já. Ekki varð nú mikið úr svefni, enda 5 tíma munur á Íslandi og Toronto. Á venjulegum svefntíma á Íslandi, var klukkan í Toronto ekki nema um 17.30. Þarna var, sem sagt, allt kvöldið eftir og svefndrungi færðist yfir. Við reyndum að vinna að jafnvægi og því gengið til náða á nánast óguðleum Kanadatíma, með þeim afleiðingum að við urðum afskaplega árrisul.
Baráttan við kaffivélina

Hygg það klukkan hafi verið sem næst 3 þegar við spruttum á fætur og ég fór að reyna að berjast við kaffikönnuna. Reyndar vissi ég, að kaffikönnur í hótelherbergjum hljóta að vera þannig hannaðar, að hvaða manneskja, með hálfa hugsun, ráði við að fá sér kaffi. Ég fann samt ekki leiðina fyrr en ég var nánast búinn að gefast upp. Þegar ég fann loksins lausnina, varð ég mest undrandi á hálfvitaskapnum í sjálfum mér.

Morguninn eftir, kl. 9+, hóf svo flugvel frá West Jet sig til flugs frá Pearson flugvelli, suður á bóginn. Kannski rétt að halda því til haga, að þarna var klukkan orðin vel ríflega 14 á Íslandi og einmitt þannig var líkamsklukkan stillt. 
Toronto
Það gerðist nú ekkert frásagnarvert að ráði í þessu fimm og hálfs tíma flugi í suð-suð-vestur, um eitt tímabelti. Það má svo sem nefna það, að nokkru eftir að flugið hófst og við vorum komin yfir land hinna frjálsu, átti sér stað allmikil ókyrrð sem orsakaði ekkert umtalsvert, en hugurinn leitaði skýringa í meintri umhyggju þess appelsínugula, umsvifalaust. Jæja .. svona var þetta.
Þar sem við vorum farin að nálgast Costa Rica, sástá jörðu niðri, keilulagað fjall úti í vatni. Allt bendir til að þarna hafi verið um að ræða eldfjallið Conception í Nicaragua. Þetta fjall gaus síðast í maí 2024 og reykurinn úr toppi þess var þá væntanlega bara eftirhreytur af því gosi - án þess ég viti neitt um það.

Liberia 

Alejandro og Carlos
Þarna flugum við á flugvöllinn í Liberiu, sem er stærsta borgin í Guanacaste héraði og er, eftir því sem ég kemst næst, næststærsta borg landsins. Það er ekki margt að segja um þessa borg, enda gerðum við ekki annað þar en fara í gegnum flugstöðina og út í rútuna sem varð ferðamátinn okkar það sem eftir var ferðarinnar. Þarna hittum við leiðsögumanninn okkar, Alejandro og bílstjórann Juan Carlos,  en þeir reyndust báðir heldur betur starfi sínu vaxnir. Þetta þýddi, að 22 manna hópurinn var alla ferðina um Costa Rica, umvafinn 4 körlum, þar sem hver hafði sitt hlutverk. 
Leiðin frá Liberiu til Blue River Resort.
Ofar á kotinu má sjá eldfjallið Conception

Til "Blue River" - Río Azul

Rútan sem beið okkar í Líberiu tók 50 manns, þannig að það var heldur betur rúmt um okkur. 
Ferðin til fyrsta dvalarstaðar okkar í þessu hitabeltislandi hófst með því ókum um "The Pan-American highway", sem mun vera um 30.000 km. langur frá suður-til norður Ameríku. Þessi vegur var nú svo sem ekkert ólíkur venjulegum vegi, ekki einusinni hraðbraut, þó hann sé merktur á kortum sem þjóðvegur nr. 1.


Ekki var nú um það að ræða að leiðin til dvalarstaðar okkar, The Blue River Resort, væri malbikuð, Þegar vikið var út af þjóðvegi 1, tók fljótlega við venjulegur íslenskuskotinn malarvegur og sá naut nú ekkert sérstaks viðhalds og eftir því sem við nálguðumst ferðalok þennan daginn, hneig sólin smám saman niður fyrir sjóndeildarhringinn og það var orðið almyrkvað þegar við loks renndum í hlað. Hvað beið okkar þar, átti eftir að koma á óvart, en það er efni framhalds þessarar sögu.






11 desember, 2025

Costa Rica (1) - Inngangur

INNGANGUR
Janúar er venjulega frekar leiðinlegur mánuður. Ljósadýrð jóla og áramóta frá og ekki lengur lifandi spurningin um að skella sér á þorrablót. Þannig var staðan þann 15. janúar s.l.  Þar sem ég sat fyrir framan tölvuna mína (eins og stundum) og dundaði eitthvað, birtist mér póstur frá Kúbuferðum. Hann greindi meðal annrs frá því, að nú væri hægt að bóka sig í ferð á þeirra vegum til Costa Rica, þann 14. nóvember. Það skipti engum togum, eftir jákvæð viðbrögð fD, að ég skráði okkur í þessa ferð. Fékk einnig afar jákvæð viðbrögð frá fyrrum ferðafélaga okkar í ferð með Kúbuferðum, í mars 2019, sem dreif einnig í að panta sæti, sem hann afpantaði reyndar síðar.
Með þessari aðgerð vorum við búin að redda janúar og febrúar. Það er nefnilega þannig, að þegar við blasir eitthvað áhugavert og spennandi í á tilteknum tíma í framtíðinni, er eins og myrkur hinna dimmu og drungalegu mánaða ársins hverfi eins og dögg fyrir sólu. Að nokkrum mánuðum liðnum, myndum við fljúga til áfangastaðar okkar í Mið-Ameríku: Costa Rica. 
Þarna er ekki um að ræða eitt þessara landa sem maður veit eitthvað umtalsvert um og þessvegna gafst færi, í aðdraganda ferðarinnar, á að afla sér smávegis upplýsinga um það ágæta land.


Ferðaáætlunin gerði ráð fyrir flugi til Toronto í Kanada. Þar skyldi gist eina nótt áður en flogið yrði til Liberia á Costa Rica. Þetta var samskonar ferðafyrirkomulag og í Kúbuferðinni.

Costa Rica er eitt svokallaðra Mið-Ameríkuríkja. Næstu nágrannar landsins eru Nicaragua að norðanverðu og Panama fyrir sunnan. Það liggur að Karíbahafi í austri og Kyrrahafi í vestri.

Í hringnum á myndinni hafa verið að eiga sér stað ógnandi tilburðir vanstilltra ráðamanna
í "landi hinna frjálsu", sem var nokkurt áhyggjuefni.


Costa Rica er um 51,2 ferkílómetrar að stærð, eða um helmingur af stærð Íslands. Íbúarnir eru rúmlega 5 milljónir og búa flestir í, eða í nágrenni við höfuðborgina, San José. Eins og mörg önnur ríki á þessum slóðum var landið nýlenda Spánverja til 1821 og spænska er aðal tungumálið. 
1838 lýsti landið yfir sjálfstæði.
Það var háð stutt borgarastyrjöld þarna í mars og apríl 1948 og eftir að henni lauk, 1949, var samþykkt ný sjórnarskrá, sem meðal annars fól í sér að landið yrði herlaust og svo hefur verið síðan.  Landinu er stjórnað af forseta, sem er kosinn til fjögurra ára og sem má ekki bjóða sig fram til næsta kjörtímabils. Forsetinn velur fólk til setu í ríkisstjórn.
Núverandi stjórn landsins er ansi höll undir stjórnvöld í Bandaríkjunum og það hefur skapað allmiklar deilur meðal landsmanna. Kjörtímabil þessarar stjórnar rennur úr næsta vor og binda ýmsir vonir við að næsti forseti standi fyrir aðra stefnu í utanríkismálum. 

Tæplega 84% íbúa þessa lands eru hvítir eða blandaðir afkomendur Spánverja (Evrópumanna) og frumbyggja (Mestizo). Tæp 7% eru blandra svartra og hvítra (Mulatto) og aðrir, tæp 10% eru frumbyggjar, (sem búa margir á sérstökum svæðum sem stjórnvöld hafa úthlutað þeim (reservations)), svartir eða af öðrum kynstofnum.
Í landinu er skólaskylda til 14 ára aldurs og menntun ókeypis, í það minnst upp í háskóla. Það fé sem áður var notað í herinn er nú nýtt til mennta- og heilbrigðismála.

Ég get tínt til margt til viðbótar um þetta land, sem framundan var að heimsækja, en ætli megi ekki segja að herleysið hafi vakið mesta athygli mína. Næsti nágranni, Panama, lagði herinn af árið 1990. 
Þetta herleysi er skiljanlegt að því leyti, að þessi tvö lönd mynda mjóa ræmu milli norður og suður Ameríku og hernaðarbrölt þeirra gæti skapað ýmis vandamál umfram þau sem þegar eru fyrir hendi milli ríkjanna norðan og sunnan við þau. Það má kannski líta á þessi tvö lönd sem einskonar stuðpúða. Vegalengdin milli Kyrrahafs og Karíbahafs er um það bil 120 km. þar sem styst er.

-------------------
Ætli sé ekki best að láta hér staðar numið í þessum inngangi að ferð okkar fD til Costa Rica, en fara þess í stað að freista þess að gera grein fyrir ferðinni sem hófst þann 14. nóvember og lauk að morgni þess 26.  Það verður bara að koma í ljós hvernig það gengur, enda aðventa, jól og áramót ekki rólegasti tími ársins. Allt kemur þetta í ljós. Þetta kemur þegar það kemur.







18 október, 2025

Leikdeild Umf. Biskupstungna: 39 og ½ vika

Þegar kynslóðirnar mætast í sameiginlegu verkefni, verður til einhver galdur. Maður eflist í þeirri trú, að  framtíðin feli ekki bara í sér dauða og djöful, heldur heim, þar sem mannfólkið sinnir uppbyggilegri verkefnum en þeim sem efst eru á baugi í veröldinni þessi árin.  Það kallar fram einhverja sannfæringu um að það hljóti að vera bjart framundan, að setjast niður fyrir framan leiksviðið í Aratungu eina kvöldstund og njóta samþættingar kynslóðanna, ekki síst þegar umfjöllunarefnið er tilurð lífsins, allt frá sameiningu tveggja frumna, til lífsdansins sem fylgir þeirri sameiningu.
  
Jæja, þetta var nú kannski heldur háfleyg byrjun, en þá er bara að taka því. 

Ég var viðstaddur frumsýningu Leikdeildar Ungmennafélags Biskupstungna í Aratungu, á leikritinu/gamanleiknum/farsanum 39 og ½ vika, eftir Hrefnu Friðriksdóttur, sem þarna var viðstödd. Sýningin fjallar um aðdraganda barneigna og ýmis vandamál og misskilning sem því ferli tengjast. Þetta fer allt fram í farsakenndum stíl þar sem tilurð, meðganga og úrvinnsla nokkurra barna er umfjöllunarefnið. Sviðið er annars vegar skrifstofa félagsráðgjafa, þar sem félgsráðgjafinn er mikið til í fríi, en námsmaður í Landbúnaðarháskólanum leysir hann af stærstan hluta verksins.  Á hinum helmingi sviðsins er svo biðstofa  og inngangur í fæðingastofu. Að öðru leyti er efnið þess eðlis, að fólk verður bara að skella sér í leikhús til að fá botn í þær flækjur allar. Ég er enn að reyna að fá í þetta endanlegan botn og sé ekki betur en þetta gangi allt upp, með einhverjum hætti.

Vissulega er það bara eitt skrifborð sem bjargar því, að ekki þurfti að taka fyrir augun á saklausum börnum og sannarlega er orðfærið ekki alltaf við hæfi viðkvæmra einstaklinga, en samhengið gerir þetta allt svo sjálfsagt. Ég neita því ekki, að stundum varð mér hugsað til þess hvernig t.d. frú Anna hefði brugðist við, en gerði mér jafnframt grein fyrir því, að nú eru aðrir tímar.

Það gildir auðvitað það sama um Leikdeild Umf. Bisk. og aðra leikhópa áhugafólks, að hún á alla mína aðdáun fyrir að halda úti, ár eftir ár metnaðarfullum leiksýningum, sem sannarlega geta tekið á alla aðstandendur sýningarinnar á undirbúningstímanum (svo ekki sé minnst á aðstandendur aðstandendanna).  Það sem kemur á móti, er hinsvegar ómetanlegt, fyrir þátttakendurna, sveitungana og aðra sem njóta þess að eyða kvöldstund í leikhúsi.  Ég finn til ákveðinnar skyldu að sækja sýningar af þessu tagi, ekki síst hreinlega til að samgleðjast aðstandendum sýningarinnar, sem eru komnir í mark, eftir mikla vinnulotu og fórnir. Ég má þó alveg vera duglegri við þetta, svo því sé haldið til haga.

Þessi sýning rennur vel og hiklaust og lausnir leikstjórans trúverðugar. Það er helst, einstaka sinnum, heldur mikið kraðak á biðstofunni, eða biðstofan heldur lítil, þegar allt er á fullu, en það kemur ekkert að sök.

Auðvitað er það svo, að leikararnir eru áhugafólk og maður gerir þá ekkert endilega ráð fyrir að allt sé upp á punkt og prik. 
Það hvílir mikið á Þorsteini Pétri Manfreðssyni Lemke í hlutverki afleysingamannsins, en hann leysir hlutverk sitt vel af hendi; skapar trúverðuga mynd af vandræðagangi námsmannsins, sem berst við að reyna að komast að hvað gerðist eða gerðist ekki á sveitahátíðinni.
Sigurjón Sæland er gamalreyndur í leikstarfi í Tungunum og nýtur sín vel í hlutverki harðsoðna kvennabósans, sem reynist svo uppgötva aðra hlið hlið á sjálfum sér.
Runólfur Einarsson fer vel með hlutverk húsvarðarins, sem á sér leyndarmál. Vissulega dansar hann einstaka sinnum á línunni, en þannig á hann bara örugglega að vera. 

Ég get ekki látið hjá líða, að nefna unga fólkið sem mætir til leiks í sýningunni. 
Róbert Þór Bjarndal Ívarsson er einkar sannfærandi sem verðandi faðir í fyrsta sinn, með geislandi látbragði í túlkun á gleði og sorg. Róbert deilir hlutverkinu með Bergi Tjörva Bjarnasyni, sem leysir það örugglega líka vel af hendi á sýningunum sem framundan eru.
Adda Sóley Sæland fer ansi vel með hlutverk verðandi móður, sem hefur meiri áhuga á öðru en barnastandi. Hún deilir hlutverkinu með Vigdísi Fjólu Þórarinsdóttur, sem mun vísast standa sig vel þegar hennar tími kemur.

Aðrir leikarar í sýningunni stóðu vel fyrir sínu. Hinar verðandi mæðurnar, eru í höndum þeirra Kristínar Ísabellu Karlsdóttur og Unnar Malínar Sigurðardóttur. Þær túlka ástandið hreint ágætlega.  
Íris Blandon, verðandi langamman í verkinu, með kristalkúluna sína, hefur marga fjöruna sopið í leiklistinni og bregst ekki frekar en fyrri daginn.

Verðandi amma og afi eru í höndum þeirra Eyrúnar Óskar Egilsdóttur og Skúla Sæland. Það ganga dálítið skotin  á milli þeirra, vegna ákveðinnar hjónabandsþreytu, sem ekki fer framhjá neinum. Hlutverkum sínum skila þau af sóma.
Aðalheiður Helgadóttir, margreynd á sviðinu, leikur hlutverk félagsráðgjafans af öryggi og innlifun, en ráðgjafinn sá er í fríi stærstan hluta sýningarinnar, meðan landbúnaðarskólaneminn leysir hann af.
Lilja Össurardóttir, fer snyrtilega með lítið, en afgerandi hlutverk.





















Leikstjóri þessarar sýningar er Ólöf Sverrisdóttir. Hún er borin og barnfædd í Hrosshaga, og var því á heimavelli, þannig séð. Að langstærstu leyti virðist mér hún hafa leyst það flækjustand sem verkið felur í sér, vel af hendi og það rann hnökralaust í gegn.

Fjölmargir leikhúsgestir skemmtu sér hreint ágætlega, enda var við öðru að búast. 
Takk fyrir skemmtilega kvöldstund. Þessi sýning á skilið að fólk fjölmenni framundir jól 😎


Ég tók nokkrar myndir, sem hér fylgja, en aðstæður til myndatöku hefðu nú getað verið betri og  afraksturinn er í samræmi við það.

26 ágúst, 2025

Suðurnes: sjötti hluti: Brimketill og búið


Það var vissulega heilmargt áhugavert þarna á svæðinu í kringum Reykjanesvita, en að því kom að ferðinn var framhaldið og nú í austurátt, upp hælinn og að hásininni. Ekki hafði fundist neitt sérstakt á leiðinni milli Reykjanesvita og Grindavíkur, nema fyrirbæri sem kallast Brimketill. Þangað lá leiðin, eins og við mátti búast. Heppni okkar með veðrið þennan dag mátti einnig kalla hina mestu óheppni, því hafið lék ekki beinlínis listir sínar fyrir okkur.  

Brimketill er sérkennileg laug í hrauninu í Staðarbergi, milli Grindavíkur og Reykjanesvita. Gerður hefur verið stígur yfir hraunið ásamt útsýnispalli þar sem laugin blasir við. 
Magnús Hlynur (MHH) gerði frétt um feðga sem lögðust til sunds í Brimkatli árið 2020. Ég reikna með, að þar með vitið þið sem þetta lesið, allt um þennan skemmtilega ketil, sem sýndi okkur svo sem ekkert sérstakt.  það var nú samt gaman að koma þarna og virða klettótta ströndina fyrir okkur. Enn blasti Eldey við í fjarska.

Brimketill

Vestan við Brimketil



Austan við Brimketil

Ströndin austur af Brimkatli.

Eldey blasir við hvar sem maður fer um Reykjanesið.

Franskur ferðamaður stillir sér upp til myndatöku í svörtum klettum.

Til gamans - og helstu staðir sem við komum á, í þessari
ferð um vestasta hluta Reykjaness.

ENDIR

Costa Rica (8) Himinblá á og tré

FRAMHALD AF ÞESSU Ég hef áður minnst á það, að ég vissi í rauninni ekkert hvernig leið okkar lá um Costa Rica, utan, auðvitað, að kort af le...