Fólkið á myndinni er sannarlega sprækt, en óþekkt að öðru leyti. |
Heimaþjónusta og heimahjúkrun fyrir þá sem dvelja heima
Öldruðum skal gert kleift að lifa eðlilegu heimilislífi eins lengi og kostur er með því að bjóða þeim ýmis konar stuðning og þjónustu. Annars vegar er um að ræða félagslega heimaþjónustu og hins vegar heimahjúkrun.
Félagsleg heimaþjónusta
Markmiðið með félagslegri heimaþjónustu er að aðstoða þá sem geta ekki hjálparlaust annast dagleg heimilisstörf. Þjónustan getur verið tímabundin eða til lengri tíma eftir aðstæðum.
Óski einstaklingur eftir heimaþjónustu á hann að snúa sér til velferðar-/félagsþjónustu síns sveitarfélags. Umsóknareyðublöð eru á vefjum margra sveitarfélaga.
Misjafnt er eftir sveitarfélögum hvers konar heimaþjónusta er veitt en hún getur verið:Gjald fyrir heimaþjónustu fer eftir gjaldskrá hvers sveitarfélags.
- almenn heimilishjálp,
- félagsráðgjöf,
- heimsending matar,
- heimsókn og samvera svo sem gönguferðir, lestur dagblaða og fleira,
- yfirseta í veikindum,
- garðvinna og snjómokstur,
- persónuleg umhirða sem ekki er í verkahring heimahjúkrunar og
- akstur.
Þeir sem ekki hafa aðrar tekjur en ellilífeyrisgreiðslur almannatrygginga fá heimaþjónustu sér að kostnaðarlausu.
Allt er þetta gott og blessað, en, er mögulega munur á því sem fram kemur í lögum, reglugerðum eða leiðbeiningum og því hvernig orðunum er fylgt eftir? Þarna stendur að þjónustan sé misjöfn eftir sveitarfélögum, sem þýðir að þau geta stjórnað því sjálf hvað þjónusta er veitt og hvenær. Þar er líklegast unnið eftir einhverjum verklagsreglum. Hvert sveitarfélag áætlar tiltekna upphæð til málaflokksins og því þarf að koma til mat á því hvort, eða við hvaða aðstæður, einstaklingur á rétt á þjónustu. SÞað er væntanlega sveitarfélagið sem ákveður hver mörkin eru og þau geta verið misjöfn.
Svo ég víki nú aftur að þeim hópi fólks sem býr eitt, en getur alveg séð um sig og fyrir sér sjálft. Þetta er kannski fólk sem er rétt skriðið á áttræðisaldurinn.
Hvaða þjónustu veita sveitarfélögin þessu fólki? Mig grunar að hún sé nú ekki stórfengleg og allavega ekki af því tagi sem uppfyllir andlegar þarfir að neinu umtalsverðu leyti. Þetta fólk getur þrifið íbúðina, sjálft sig, þvegið af sér og skellt í þurrkarann, farið í búð, eldað ofan í sig og kveikt á sjónvarpinu án þess að ruglast á tökkum. Að þessu leyti þarf svona fólk ekki aðstoð frá samfélaginu og kannski bara enga aðstoð, sem ég að held nú allajafna raunin.
Það blasir við, að mikilvægur þáttur virðist verða útundan.
Mannskepnan er félagsvera og nærist á samskiptum við annað fólk. Mér virðist blasa við, að með ofuáherslu á að fólk dvelji heima hjá sér eins lengi og kostur er, sé verið að auka hættuna á félagslegri einangrun.
Sannarlega er það bara einfaldast að vera bara heima, í sínu. Svo líða dagarnir, vikurnar og mánuðirnir og áður en við er litið er skorturinn á félagslegum samskiptum farinn að hafa áhrif á líkamlega líðan og einstaklingur á á hættu að þurfa að fara á hjúkrunarheimili fyrr en ella hefði verið, með meiri kostnaði fyrir samfélagið.
Ég gleymi því seint, þegar ég fékk skammir frá félagsþjónustu fyrir að sækja um á dvalarheimili fyrir níræðan föður minn, þar sem hann taldist ekki vera nógu veikburða og hjálparlaus. Þarna voru forsendurnar fyrir dvalarplássi bara settar nógu hátt til að hægt væri að útiloka annað fólk en það, sem var orðið algerlega bjargarlaust. Gamli maðurinn gat bjargast sjálfur heima, gat fengið sendan heim mat, gat fengið þrif á stærðar einbýlishúsinu, gat fengið aðstoð við böðun, en lítið af þeirri andlegu örvun, sem væri líkleg til að stuðla að því að hann ætti kost á að njóta lífsins sem lengst.
Jæja, þá er ég kominn að tilganginum með þessum vaðli:
Það vantar inn í alla þessa umræðu, finnst mér, áherslu á að eldra fólk eigi kost á að njóta þess að eiga í félagslegum samskiptum eins lengi og kostur er. Ég er alveg sannfærður um, að með möguleikanum á því, myndi þörfin fyrir stöðugt fleiri og flottari hjúkrunarheimili minnka, en vissulega verða þau að vera fyrir hendi.
Ég veit, að víða er að finna nokkur pláss, þar sem fólk hefur tækifæri til þess arna, en þeim þarf að fjölga og með því ynnist ýmislegt.
Það þarf að byggja, eða stofna nokkurskonar sambýli með litlum íbúðum, þar sem væri eldhúskrókur og snyrting fyrir einstaklinga og einnig litlar íbúðir fyrir hjón eða pör. Þessar íbúðir væru seldar eða leigðar. Fyrir utan íbúðirnar, í sama klasa, væri síðan að finna matsal/mötuneyti og ýmisskonar félagsaðstöðu: setustofur, kaffistofu, íþróttasal og annað það sem ætla má að hvetji til félagslegra samskipta og líkamlegrar hreysti. Heilbrigð sál í hraustum líkama og allt það.
Fólkið sem þarna ætti eða leigði íbúð væri fært um að sjá um sig sjálft. Það gæti valið að eyða tímanum í eigin íbúð, en síðan tekið þátt í því sem í boði væri fyrir utan. Þarna myndi fólk lifa sínu sjálfstæða lífi, væri kannski með bíl og færi allra sinna ferða, í bíó eða tónleika, eða hvaðeina.
Svona sambýli myndi hugsanlega ekki henta stórum hluta fólks, en mig grunar að margir sem nú búa einir, myndu taka svona valkosti opnum örmum (ætli það hafi verið kannað, hve stórum hópi þessa myndi henta?). Með því myndu losna íbúðarhús, sem nýttust betur barnafjölskyldum en einstaklingum.
Ég vonaði um tíma, að nýja, glæsilega, hringlaga byggingin, sem hefur hlotið nafnið Móberg, yrði af þeim toga sem ég er hér búinn að lýsa, en þar verður um að ræða hjúkrunarheimili.-----------------------------
"Jæja, er hann nú orðinn gamall, karlinn?", kann einhver að spyrja, hátt eða í hljóði (ég get séð nokkra fyrir mér), við þennan lestur. Svar mitt við slíkri spurningu er einfalt.
"Það styttist í að ég nái sjötugu, rétt er það, og framundan eru vonandi fleiri ár, sem ég myndi vilja njóta sem best.
Hinsvegar er ég sjálfur ekki kveikjan að þessum pælingum, heldur fólk sem ég hef aðeins kynnst frá því við fluttum hingað á Selfoss. Þar á meðal er fólk, eins og ég lýsti hér fyrir ofan, fólk sem langar að hafa eitthvað fyrir stafni, annað en sitja fyrir framan sjónvarpið, eða prjóna sokka á barnabarnabörnin. Jafnvel hef ég heyrt um fólk, sem keypti sér bangsa til að hafa einhvern til að tala við á matmálstímum, til að búa til ástæðu til að matbúa, yfirleitt."
Það, sem sagt, vantar meiri áherslu á þrepið milli heimilisins og hjúkrunarheimilisins. Þannig er það.