19 september, 2008

Aldurinn færist yfir

Það ber ekki á líta á fyrirsögnina, sem ég hef valið þessu sinni, sem eitthvert gamalmennavæl. Vissulega er það svo, að árunum fjölgar og ég fæ að vita af því með ýmsum hætti, yfirleitt þannig að árafjöld teljist fremur draga úr hæfileikum eða getu til að takast á við líf nútímamannsins. Ég hef vissulega nokkrum sinnum komið inn á það á þessum síðum að sú veröld sem æskan hleypur um nú til dags sé, á margan hátt fremur gölluð, en hef fundið fyrir því jafnskjótt að þeir sem yngri eru líta á það svona eins og gamalmennaraus. Hér vísa ég t.d. til umræðu minnar um aumingjavæðinguna og annað af svipuðum toga.

Fyrir nokkrum dögum komst ég að því að árin segja að kennluskylda mín lækki um 1 tíma á viku, sem þýðir, fyrir leikmenn, að í stað þess að kenna 24 kennslustundir á viku til að teljast vera í fullu starfi, þá þarf ég hér eftir að kenna 23 til að fá sömu laun. Eins og menn geta ímyndað sér, þá skiptir þetta geypilega miklu máli, eða þannig. Viðbrögð mín við uppgötvuninni snéru ekki að því, að nú þyrfti ég ekki að vinna jafn mikið til að fá sömu laun, en upplifði ég þetta sem áminningu um að núna færi að styttast í þessu, en því er ég hreint ekki tilbúinn að kyngja, eins og nærri má geta. Körin verður að bíða enn um sinn.
Svona til þess að sanna það fyrir sjálfum mér að þetta væri bara rétt að byrja, skellti ég mér í morgun, árla, í höfuðborgina til að sitja tíma í Háskóla Íslands, og þar með ljúka ákveðnum áfanga, sem ég hóf  fyrir 2 árum. Hingað til hefur mér dugað að sitja við tölvuna heima hjá mér til að fylgjast með fyrirlestrum, en í þetta sinn verð ég að aka vikulega til að drekka í mig spekina.  Þarna mætti ég, sem sagt í morgun, sprækur að vanda, til að sitja umræddan fyrirlestur í námskeiði sem kallast 'Almannatengsl'. Ég neita því ekki, að þegar æskublóminn streymdi í salinn, klyfjaður tölvunum sínum og fór að emmessenna á fullu og svara tölvupóstum og vafra um internetið, þá fann ég fyrir lítilsháttar .......(ég veit ekki einusinni hvaða orð hentar best). Svo gekk fyrirlesarinn í salinn, yngri en elsta afkvæmi mitt og hóf að segja mér hvernig almannatengslum skuli háttað og hversu mikilvæg þau eru í samtímanum. Sjálfsagt er hér um mikil og mikilvæg fræði að ræða, en einhvernveginn virkaði framsetningin flöt á mig, sem er auðvitað mitt vandamál.  Þá var það dálítið sérstök reynsla að sitja þarna í tvo klukkutíma með glósutakkahljóð frá öllum tölvunum í eyrunum. 
Unglingaranir þarna voru af sama sauðahúsi og þeir sem ég umgengst dags daglega, verðandi erfingar þjóðlegra gersema, bæði veraldlegra og menningarlegra. Mér varð hugsað til þess hvernig okkur hefur tekist að tryggja það að þessi kynslóð tileinki sér þau gildi sem þjóðin hefur löngum hreykt sér af (þar með er ég ekki að leggja mat á þessi gildi).
Nú er framundan að vinna hópverkefni með einhverju af þessu ágæta fólki, og það verður væntanlega eins og það verður.
Ég mun mæta með Dellinn minn í næsta skipti og taka þátt í takkaslættinum.

Fleira varð til að minna mig á árin sem eru að safnast upp, því Domus Medica var næst á dagskrá. Ég fjölyrði hinsvegar ekki um erindi mitt þangað að öðru leyti en því, að það var aldurstengt. 

Í ferðinni komst ég hinsvegar að því að ég bý yfir því, sem allir í réttum flokki geta nýtt sér, óháð aldri, jafnt ungabörn sem gamalmenni (hvað skyldi það nú vera?) þannig að bæjarferðin varð síður en svo til að draga niður í mér, bráðungum manninum.

Kör mun vísa leið til karar
kreppir þá að lífsneistanum.
Ekki veldur sá er varar
von er enn hjá skaparanum.

ÚFF!

4 ummæli:

  1. Jamm þetta er fáránlegt. Fólk sem veit ekki neitt um neitt veit allt í einu allt um allt!! Og þeir sem vita allt í einu allt hafa enga lífsreynslu eða tilfinningu fyrir því hvað það er að vita hvernig hlutirnir eru í raun og veru. Þetta er skrítið, og óþægilegt.

    Ég veit ekki neitt en veit samt fullt!! Krakkar sem kunna ekki mikið 4-5 árum yngri en ég eru byrjuð að kenna söng!!! Ég veit ekki einusinni hvað það er ennþá!! En samt gæti ég hugsanlega gert það! Er þetta rugl eða er maður bara eftirá? Jahh! það veit engin!

    Bis später,
    Egill

    SvaraEyða
  2. Pall minn - þú ert rosa ungur :-)

    SvaraEyða
  3. Hann kom þarna góður og glaður
    hinn gegnheili réttsýninsmaður
    en fann þar svo út
    í sorg og með sút.
    að sjötíu prósent var blaður.

    Bloggskapur um námskeið í mannlega þættinum

    (af talsverðri samkennd)

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...