Frásögnin hefst hér
FRAMHALD AF ÞESSU Það bar eðlilega margt nýstárlegt fyrir augu á göngunni að fossinum, sem tæpt var á í síðasta kafla, og þar á meðal voru bleikir bananar, en fleira bar fyrir augu eftir að aftur var komið í bækistöðina á Blue River.
Eins og áður er nefnt notuðum við síðdegið til að kanna aðeins nánar aðstæður á staðnum. Þar voru allskyns stígar, þvers og kruss og alls ekki auðratað fyrir fólk af okkar tagi, enda fór svo að við villtumst af réttri leið, en fundum hana svo á ný. Þetta er stórt svæði og margt hægt að gera. Þarna voru leirböð og náttúrugufubað, krókódílatjörn, fiðrildahús, og spa, svo eitthvað sé nefnt. Við fundum heita potta, sundlaugar, leirböðin og gufubaðið, fóðurstöð fyrir kólibrífugla, grasagarðinn og fleira, en ýmislegt fundum við aldrei, enda ekki tími til mikillar leitar.
Skoðunarferðin hófst með því við skelltum okkur í ágætan heitan pott:
![]() |
| Mynd af vef. |
![]() |
| Leirböðin. Þar makaði maður sig í leir úr leirpotti. Svo var bara farið í útisturtu á eftir. Hvað leirinn átti að gera manni, veit ég ekki, þó ég hafi nú aðeins makað á mig. |
![]() |
| Leirpotturinn |
![]() |
| Þarna fjærst er gufubaðið, sem er ansi magnað þegar inn er komið, en ekki fann ég leið til að mynda þar innan dyra - vegna gufu. |
Það næsta sem við sáum svo af kólibrí var, þegar Carlos hafði bjargað einum úr sjálfheldu, þannig að við gátum virt hann fyrir okkur í návígi.
Alejandro sat ekki heldur auðum höndum og áður en við var litið var hann búinn að koma auga á letidýr í trjátoppi. Ég held að mér hafi tekist að koma auga á það, en er ekki viss. Alejandro var búinn að stilla upp sjónaukanum sínum, á þrífæti og þar í gegn gátum við virt letingjann fyrir okkur. Svo tók A. þessa mynd á símann minn í gegnum sjónaukann.
Þetta mun hafa verið ungt dýr og mig minnir að sérfræðingurinn okkar hafi sagt að um kvendýr væri að ræða. Það fylgdi sögunni, að letidýr héldi sig að mestu í trjákrónum, en um það bil vikulega klifraði það til jarðar til að sinna frumþörfum.
Þarna var ég bara með litlu, biluðu linsuna á myndavélinni og lét því þessa duga, en verð að viðurkenna að hún er bara ansi góð og fæ ekki betur séð en dýrið hugsi sem svo, með nokkrum þóttasvip: "Reyniði bara að ná mér, manndýrin ykkar!"
Þetta er orðið frá þessum sunnudegi, 16. nóvember. Framundan var að búa sig undir að vakna fyrir allar aldir daginn eftir til að fara í fuglaskoðun með stóru linsuna klukkan 6. Eitt augnablik hvarflaði að mér, hvort ég ekki kannski að láta símann vekja mig. Það var áður en það rann upp fyrir mér, að þá yrði klukkan 12 á hádegi á Íslandi, svo ég hætti snarlega við. Enda kom í ljós, að við vorum bæði sprottin á fætur um 3.30 og trúðum því að aðlögun okkar að tímamuninum væri komin vel á veg.


















































