03 janúar, 2026

Costa Rica (12) Kaffi og kakó

Frásögnin hefst hér
FRAMHALD AF ÞESSU

Ef ég færi nú út í það að reyna að segja nákvæmlega allt, sem á dagana dreif, myndi það kannski nást um vorjafndægur, svo ég ætla að reyna að stilkla á stóru, þó ég sé hreint ekki viss um að það takist. Látum á það reyna.

Fimmtudaginn 20. nóvember brunaði rútan með hópinn til staðar sem mér sýnist að kallist Don Juan Tours og er skammt fyrir utan La Fortuna. Þarna var um að ræða sannkallaðan ferðamannastað, þar sem hópar geta pantað sér fræðsluferðir um kaffi og cacaoræktun í Costa Rica. Þarna komum við fyrst inn í móttökusal, þar sem við fD fengum kærkomið tækifæri til að varpa af okkur annars fremur virðulegri yfirbragði, með því að mynda hvort annað, svo afhjúpandi getur talist. Við hleyptum börnunum í okkur út, í lítið augnablik (sjá mynd) en settum síðan strax aftur upp fullorðinsgrímuna og héldum áfram þannig.

Þennan dag gekk á með úrhellisrigningu, en stytti alltaf upp á milli og það mátti heyra á leiðsögumönnunum og þeir voru þakklátir fyrir að sleppa við svona veður í frumskógargöngunni daginn áður. 
Í sem stystu máli tók þarna við okkur leiðsögumaður, sem leiddi okkur í gegnum ræktunar-, vinnslu- og notkunarferli á kaffi og cacao. Allt fór þetta fram á gönguleið sem tjaldað var yfir, en án hliðartjalda, þannig að fyrir utan blöstu við cacao- og kaffitré með viðeigandi berjum, eða aldinum, meira og minna í lóðréttri úrhellisrigningu.


Á loftmyndinni sem ég læt fylgja hér hægra megin (af Google  maps) má sjá fræðsluleiðina sem 
um var að ræða.
Þessi fræðsluferð var bara ansi áhugaverð og upplýsandi um tilurð neysluvaranna sem frá þessari ræktun koma. Kaffi, kakó og súkkulaði.  Það fólk sem vinnur við þessa ræktun og iðnaðinn sem fylgir fær ekki mikið fyrir sinn snúð, sérstaklega ber kaffibaunatínslufólkið lítið úr býtum, minnir mið að hafi komið fram. 

Hér fyrir neðan eru myndir úr gönguförinni.






CACAO: Ferli frá blómi til framleiðsluvara



Þrjár tegundir kaffibauna:
Robusta, Arabica og Liberica, hver með sína eiginleika.

KAFFI: Ferli frá blómi til framleiðsluvöru.


Eftir að við höfðum þarna farið í gegnum cacaoræktunina, beið okkar veggjalaus salur þar sem okkur gafst færi á að búa til okkar eigin súkkulaðistykki. Eftir að hreystimenni í hópnum voru búin að hakka baunirnar fékk hvert okkar súkkulaðigrunn, sem við síðan breyttum í fullbúið súkkulaðistykki, hvert eftir sínu höfði, með ýmsum tegundum efna. Afrakstrinum skiluðum við síðan til leiðsögumannsins, sem setti þau í kæli meðan við fengjum yfirferð yfir kaffimálin. 


Það er nú skemmst frá því að segja, að ekki tókst mér höndulega með súkkulaðiblönduna - alltof lítill sykur, salt og mjólkurduft - eða chili  - og svo framvegis. Maður hefði þurft aðeins meiri tilfinningu fyrir áhrifum íblöndurnarefnanna. Ég heyrði þó haft á orði í mínu umhverfi að mitt væri skárra, sem var huggun harmi gegn. Ekki hefur tekist að neyta súkkulaðistykkjanna til fullnustu og ég veit ekki einusinni hhvað varð um þau á endanum.

Kaffibaunir






Yfirferðinni yfir kaffimálin lauk með því að við fengum að smakka uppáhelling að hætti heimamanna, en þar var notuð ferðauppáhellingargræja. Pokinn er úr taui eins og við þekktum í gamla daga. Svona poka má ekki þvo. 
Að öðru leyti er kaffivélin samsett úr þrem viðarbútum sem festir eru saman með lömum. Þegar hún er ekki í notkun er hún bara lögð saman og þá fer ekkert fyrir henni. Snilldargræja og hægt að kaupa hana á Amazon fyrir ISK6.500. Einfalt og þægilegt.

Þessari fræðsluferð lauk svo í verslun, auðvitað, þar sem við gátum keypt allskyns kaffi, kakóduft og súkkulaðistykki, alveg eins og vil vildum. Það var nú aldeilis gaman.

Þegar þessari heimsókn lauk, má segja að hópurinn hafi tvístrast nokkuð, enda frjáls tími það sem eftir lifði dags. Ég veit að einhverjir fóru í hádegisverð einhversstaðar í La Fortuna og einhverjir ákváðu að renna sér á sviflínu (zipline). Ég velti því svo sem fyrir mér skamma stund, að skella mér í það, en ákvað, eftir skamma íhugun að láta það vera, þar sem ég reiknaði með, að þetta væri svona eitthvað sem tæki langan tíma á undan og eftir, en örkamma stund að öðru leyti.  Svo komst ég auðvitað að því á eftir, að þetta vera heldur meira en það. Þátttakendur munu hafa rennt sér niður einar 11 línur og haft gaman af. Hefði ég vitað þetta fyrir, er líklegt að ég hefði látið slag standa. Ekki efa ég að fD hefði verið meira en klár í svona adrenalínaukandi verkefni. Já, "hefði, ef ...." - það er allaf hægt að segja það.

Sundlaugasvæðið í Los Lagos (mynd af agoda.com)


Við fD ákáðum að taka því rólega það sem eftir lifði dags í sundlaugum og heitum pottum í Los Lagos. Þar var nóg úrval af slíku, en það tók talsverðan tíma að finna heitan pott sem reis undir nafni. Það fannst þó einn viðunandi. Það var afar ljúft að sitja í heitum potti í volgri, lóðréttri úrhellisrigningu.

Eftir ágætan kvöldverð var bara rólegt kvöld og við tók síðasta nóttin á La Fortuna svæðin. Næsta morgun tók við ferð til vesturstrandarinnar, til ferðamannabæjarins Tamarindo, þar sem við dvöldum síðustu þrjár næturnar á Costa Rica.
Meira um það næst - ef allt fer eins og áætlað er.

02 janúar, 2026

Costa Rica (11) Frumskógarævintýri

Frásögnin hefst hér
FRAMHALD AF ÞESSU

Þegar maður hefur alið allan aldur á Íslandi og aðallega upplifað frumskóga í gegnum kvikmyndir eða náttúrulífsmyndir, má alveg reikna með, að raunveruleg upplifun af þessu fyrirbæri kalli á talsverða tilhlökkun. Myndi þetta verða eins og örvæntingarfull barátta upp á líf og dauða, þar sem enga færa leið virtist vera að finna og villidýr biðu þess eins að gleypa mann með húð og hári? Væri þarna raunveruleg hætta á að villast? Gætum við treyst leiðsögumönnum okkar til að koma okkur heilum á húfi aftur til byggða? Ég taldi nú reyndar rétt að taka þann pól í hæðina, að ævintýrið sem framundan var, myndi nánast örugglega ekki fela í sér einhverjar hættur  í líkingu við það sem að ofan er nefnt. Þarna var um að ræða ferðamannahóp venjulegra Íslendinga undir öruggri leiðsögn, sem myndi tryggja að engin áhætta yrði tekin með líf eða limi.

Bú smávaxinnar býflugu,sem stingur ekki og ber 
fræðiheitið Tetragonisca angustula

Það var, sem sagt, lagt upp frá bænum La Fortuna og ekið í rútunni í um það bil hálftíma til áfangastaðarins Mistico Park. Bara nafnið á þessum stað benti nú ekki til annars en öllu yrði óhætt. Þetta var bara vinsæll ferðamannastaður, þar sem einu ráðstafanirnar sem þurfti að gera, áður en gangan um frumskóginn hófst fólust í, að þau okkar sem voru í sandölum, þurftu að undirrita yfirlýsingu þess efnis, að þau gerðu sér grein fyrir því, að í því gæti falist áhætta, sem staðurinn tæki ekki ábyrgð á. Hver þessi áhætta var, vissi ég svo sem ekki, en fljótlega kvisaðist eitthvað út um, að líklegast hefði Bandaríkjamaður á sandölum orðið fyrir einhverju slysi og farið í mál í framhaldinu. Ef áhættan af göngunni væri ekki meiri en þetta, þá var engu að kvíða.

Laufskurðarmaurar

Alejandro fór fyrir göngunni, stöðugt skimandi um skógarþykknið eftir áhugverðum lífverum. Einna fyrst varð á vegi okkar bú mjög smávaxinnar býflugu, en út úr búinu gekk einhverskonar rör, sem gegnir örugglega mikilvægu hlutverki. Þetta er allt útpælt.
Ekki löngu síðar, og svo aftur enn síðar urðu á vegi okkar laufskerandi maurar í endalausum röðum. Þeir munu safna laufafskurði í búið sitt og framleiða úr þeim einhverskonar sveppi (fungus). 

Ætli sé ekki rétt á þessum tímapunkti, að upplýsa um það sem var einna mest kvíðavaldandi við þessa ferð, fyrir suma þátttakendur, en það voru hengibrýrnar. Það háttar nefnilega þannig til, á þessum slóðum, að leiðin liggur ekki bara í gegnum frumskóg, heldur einnig yfir gil og gljúfur af ýmsu tagi. Þar hafa verið settar upp hengibrýr, til að auðvelda fólki að komast leiðar sinnar. Ég hefði ekki séð þennan hóp fyrir mér, príla niður í gljúfur í skógaþykkninu og síðan upp aftur, ítrekað. Þannig komu hengibrýrnar sér harla vel, en þær fólu samt í sér talsverðar ógnir fyrir fólk sem á erfitt með að sveiflast í 40-50 metra hæð yfir jörðu, með ótryggt skógarþykkni, fyrir neðan sig.  Það var nóg af hengibrúm að leiðinni sem þarna var gengin.

Leiðin um frumskóginn (gula línan). Flestir í hópnum fóru þessa leið, en nokkrir létu gott heita þar sem talan 7 er á kortinu og tóku fjólubláu leiðina til baka.

Almennt má segja að þessi gönguferð hafi verið ansi áhugaverð, þó ekki hafi nein hættuleg frumskógardýr orðið á leið okkar. Ég held að eina dýrið sem sást einu sinni lítillega í, hafi verð nefbjörn, eins og sá sem hafði komið í heimsókn til okkar í Los Lagos íbúðinni. Skýringin á dýraleysinu var talin sú, að á þeim tíma dags sem við vorum þarna - síðdegis - væru skógardýrin ekki mikið á ferðinni. 
Þessi varð á leið okkar, alls óhræddur.
Hann mun kallast breiðnefja Motmot og
tilheyrir platyhynchum ættinni- er þó ekki viss.

 Það get ég sagt um leiðina sem þarna var gengin, að það er með ólíkindum hve mikið hefur verið lagt í hana. Þetta var sérlega þægileg gönguleið, að stórum hlut lögð hellusteinum og hvarvetna girðingar til að varna því að fólk færi sér að voða. Mér kom í hug, Reynisfjara, eða skilti á brún þverhnípis, sem greinir þér frá að ef þú ferð út á brún, geturðu dottið fram af og beðið bana. Líklegast útbúið fyrir nágrannann í norðrinu.

Þá eru það hengibrýrnar. Sá háttur var hafður á við að fara yfir þær, að þeir göngumenn sem tókust á við lofthræðslu, gengu fyrstir yfir, enda þá minnstar líkur á að brýrnar sveifluðust. Mér kom það stundum í hug (ekki lofthræddur að ráði) að það gæti verið fróðlegt að sjá viðbrögð við því, að koma brúnum til að sveiflast þegar stærstur hluti hópsins væri kominn inn á þær. Mér kom þetta bara í hug, en gerði auðvitað ekkert í því. Hvað halda menn að ég sé?
Lengstu brýrnar voru næstum 100 metrar og fyrir neðan blasti við skógarþykkni ofan í einhverju gljúfri, sem gat verið 40-50 metra djúpt. 
Ég held að ég láti bara nokkrar myndir úr þessari gönguferð duga til að gefa hugmynd um aðstæðurnar, en þetta var bara ansi skemmtilegt.














Ekki vil ég nú halda því fram að við höfum ekki séð skóginn fyrir brúm, en vissulega voru þær það sem reyndist einna mest áberandi í gönguferðinni. Dýrin sem þarna hefðu hugsanlega getað verið, höfðu sig ekki í frammi, en skógarþykknið, sem blasti við fyrir utan stígana og brýrnar, geta alveg verið "MISTICO"  - falið í sér dulúð og leyndar hættur, ef við hefðum farið eitthvað að hætta okkur út fyrir stígana, svo ekki sé nú talað um brýrnar.  Þarna var ábyrgt fólk á ferð og öll komum við aftur í góðu lagi, meira að segja sandalafólkið.
Svo var nú bara haldið aftur til Los Lagos bækistöðvanna eftir góðan dag.

------------------------

Svo kemur líklega meira - því þetta var sko ekki búið. 😉

25 desember, 2025

Costa Rica (10) Fáninn, torgið og jólaskrautið

Frásögnin hefst hér
FRAMHALD AF ÞESSU

Áður en ég fer að fást við hengibrýr síðdegisins, læt ég viðfangsefnið snúast um jólatorgið í La Fortuna, en þar hófst miðvikudagurinn 19. nóvember.  Hópnum var sleppt lausum á torginu og naut þess að vera frjáls  í nokkurn tíma. Vð nýttum hann meðal annars til að rölta umhverfis jólaskreytingarnar, sem þarna var að finna og fannst þær nokkur ýktar, sumar hverjar, en þær voru líklega ágætar fyrir sinn hatt, þó fremur óíslenskar væru þær, ef maður leit þannig á.

Hér er umrætt torg:

Stærsta byggingin sem þarna er að finna er kirkja, Iglesia de La Fortuna de San Carlos, heilmikil bygging og þegar maður stendur fyrir framan hana blasir eldfjallið Arenal við í bakgrunnni, þ.e. þegar það sést í það á annað borð. Við fD eyddum tímanum sem þarna var til reiðu til að rölta þarna allt um kring, skoða jólaskreytingarnar, verslanirnar, veitingahúsin og krikjuna. 

Mér kom í hug, þar sem fáni landsins var talsvert áberandi þarna, að ég þyrfti að kynna mér eitthvað meira um hann, hann er talsvert yngri en íslenski fáninn, eða frá 1948. Landið varð lýðveldi árið 1949, eftir stutt borgarastríð. Áður var það hluti af Mið-ameríska sambandslýðveldinu, sem þá var hætt að virka sem slíkt. Hvað um það, fáninn ber sömu liti og sá íslenski og fleiri fánar, blár, hvítur og rauður.  
Fáni sambandslýðveldisins hafði verið blár-hvítur-blár, en þegar lýðveldið var stofnað á Costa Rica var rauða fletinum bætt við og átti hann að tákna siðmenningu aldarinnar og fyrstu geisla sólarinnar yfir nýfengið sjálfstæði, hlýju íbúanna og örlæti, ást þeirra á lífinu og blóð þeirra sem létust í baráttu fyrir frelsi þjóðarinnar.
Blái liturinn táknar himininn, tækifærin sem blasa við, vitsmuni, þrautseigju, óendanleikann, eilífðina og fleira.  Hvíti liturinn á að tákna skýra hugsun, hamingju, visku, kraft og fegurð himinsins og frumkvæði í vitleitninni til að leita nýrra leiða og frið í landinu.
Ég verð nú að segja, að mér finnst þetta nú vera dálítið flókið táknkerfi og datt strax í hug að blái liturinn hlyti að tákna höfin sitthvorumegin við landið, sá hvíti merkti hreinleikann og mögulega strandirnar, sá rauði eldfjöllin sem er að finna eftir því endilöngu. En ég er nú bara ég. 

Þarna vorum við sem sagt á skreyttu torginu og virtum fyrir okkur jólaskreytingarnar, gengum einn góðan hring og skoðuðum það sem fyrir augu bar, meðal annars kirkjuna.





Útsýni til Arenal frá veitingastað við torgið.

Ég vil halda því fram, að hér sé um að ræða
þjóðartré Costa Rica: Guanecaste tréð.

Sé inn eftir kirkjunni í La Fortuna.
Þegar við svorum svo búin að kynnast torginu og næsta nágrenni, var kominn tími til að hefja stærsta verkefni dagsins, sem fólst í því að renna með rútunni um það bil hálftíma akstur að miklu regnskógarsvæði sem kallast Mistico Park - dularfullt svæði og fólkið mishikandi við að takast á við það sem þar myndi bíða þess.

Costa Rica (15) Fen á fjöru

Frásögnin hefst  hér FRAMHALD AF  ÞESSU -------------------------------------- Fyrri heili dagurinn okkar í Tamarindo var ekkert skipulagður...