07 janúar, 2026

Costa Rica (14) Kyrrahafsströndin

Frásögnin hefst hér
FRAMHALD AF ÞESSU

--------------------------------------
Eins og maður gerir á ferðalögum, renndum við í hlað á 4 stjörnu glæsihóteli í Tamarindo, sem ber nafnið Tamarindo Diria Beach Resort  Maður eru vanur því að  taka farangurinn úr farartækinu, ganga inn og fá úthlutað herbergi og fara þangað með farangurinn. Vissulega tókum við við farangrinum úr rútunni, fengum lykil að herberginu, ekki inni reyndar, heldur nánast utandyra, þar sem engir veggir voru á anddyrinu. Síðan tók enn annar háttur við. Að streymdu starfsmenn hótelsins og báðu okkur að bera kennsl á farangurinn og númerið á herberginu. Töskurnar voru merktar herbergisnúmerinu og síðan hlóðu þeir þeim á vagna og hurfu á braut. Við fórum að horfa á sólarlagið, en síðan röltum við, eins og fínt fólk, að leita að herberginu, sem reyndist vera á annarri hæð, af þrem. Þegar inn í það var komið, biðu töskurnar okkar fyrir innan dyrnar. Þvílíkt!
Til glöggvunar á því sem síðar kemur, læt ég hér fylgja kort af staðnum sem við vorum þarna komin á.
Diria hótelið og örvar sem benda á helstu hluta þess.

Úr herberginu blasti Kyrrahafið við í ljósaskiptunum.
Það er, alla jafna ekki frá mörgu að segja frá hóteldvöl einhversstaðar. Þarna bar aðeins nýrra við, sem kryddaði tilveruna umfram þá stöðu, að úr herbergi okkar fD blasti Kyrrahafið við okkur, fyrsta sinni. Auðvitað reyndist það bara vera svona haf eins höf eru, en samt var tilfinningin önnur. Það má kannski líkja þessu við áramót, þar sem ári lýkur og nýtt tekur við. Það gerist í rauninni ekkert, en samt er það eins og nýtt upphaf.

Ég sagði að þarna hafi borið nýrra við og þar kom aðallega tvennt til. 
Fyrsta morguninn fórum við í morgunverð á veitingasvæðinu (sjá loftmynd) og þar var að finna svo óendanlegt úrval að maður bölvaði því að hafa ekki stærri maga. Eftir að röltum við aðeins um svæðið svona til að kynna okkur staðhætti og loks aftur í herbergið.
Þá bar svo við, að á dyrahúninn var búið að hengja skilti þar sem óskað var eftir að herbergið yrði ekki þrifið. Ekki ætla ég að fara nánar út í það sem fylgdi, en set þetta hér bara til minnis, með tilvísun í myndina hér til hægri, ef einhver nennir að velta fyrir sér aðstæðum sem þarna komu upp.

Annað, heldur áhugaverðara, gerðist í þessu herbergi okkar, eða réttara sagt fyrir utan það. Við verðum að hafa í huga, að þarna vorum við í umhverfi sem við þekktum ekki mikið til, og því meira á tánum gagnvart umhverfinu en á Austurveginum. Fyrsta morguninn var ég innan dyra, eitthvað að dunda mér við að fletta í gegnum fréttamðla á Íslandi, en fD sat við svipaða iðju, líklega, á svölunum. Ég vissi ekki fyrr til en hún stökk inn um svaladyrnar og lokaði þeim snöfurlega á eftir sér. Svo sagði hún farir sínar ekki sléttar. Hún hafði heyrt hrollvekjandi villidýrsöskur skammt frá svölunum og, skiljanlega, átt von á hinu versta. Ég kíkti út og sá engin villidýr, en við áttum sannarlega eftir að komast að hinu sanna í málinu. 
Eins og sjá má á loftmyndinni hér ofar, er sérstök ör sem bendir á þakið fyrir framan svalirnar hjá okkur. Eftir þessu þaki, milli trjáþyrpinganna við báða enda þess, gengu með reglubundnum hætti, tveir apakettir, karl og kerling. Rannsóknir leiddu í ljós, að þarna voru á ferð öskurapar. 





Hjúin áttu þarna reglulega leið um þann tíma sem við vorum þarna og annan morguninn þegar við komum út á svalir sátu þau í rólegheitum rétt fyrir utan svalahandriðið. Það sem mér fannst erfiðast að kyngja við þetta apamál var, að þau voru alltaf á ferð þegar ég var ekki tilbúinn með myndavél og rétta linsu. Myndirnar hér fyrir ofan eru þær einu sem mér tókst að ná af þeim. 
Þessi apategund kallast sem sagt öskurapi eða Howler monkey (Mantled howler, Alouatta palliata). 
Hér má heyra hvernig hljóð öskurapans er:


Það er karlinn sem öskrar og maður getur velt fyrir sér hvernig svona tiltölulega lítið dýr getur gefið frá sér svona hljóð. Karlinn er um 15 kg. meðan kerlingin er rúm 7 kg. 
Hvað sem þessu öllu líður þá voru þetta skemmtilegir gestir á þakinu. Þeir gerðu okkur þó ljóst, að við gátum átt von á villtum dýrum í þessu umhverfi, þó inni í miðjum ferðamannabæ væri. Þarna voru íkornar skoppandi og klifrandi í trjám, páfagaukar og ýmis önnur dýr.



Svo birtist kattardýr á þakinu eitt síðdegið. Það var bröndótt á lit og fetaði sig í nágrenni við svalirnar. Traust fD á dýrum á svæðinu var í lægri kantinum, þannig að hún fór umsvifalasut inn fyrir og lokaði. Dýrið lét staðar numið fyrr framan svalirnar og ég gerði svona "kis-kis" hljóð, til að athuga hvernig það brygðist við. Það brást við með því að stökkva inn á svalirnar og alveg til mín, fór að nudda sér upp við mig, en ég heyrði það þó ekki mala. Svo lagðist það við stólinn minn um stund og sá tími kom, að mér fannst að það ætti nú að halda áfram för sinni eftir þakinu. Það var þó ekki fyrr en það gekk að svaladyrunum og settist, væntanlega í von um bita, að ég taldi aðgerða þörf, tók það og skutlaði út á þakið (svona rúman metra) og með því lauk þessari heimsókn.

Ströndin fyrir framan hótelið er gríðarstór og þar dundar fólk sér við að vaða, synda, sigla, eða reyna sig á sjóbrettum. Það er heilmikill munur flóðs og fjöru, eða um 2-3 metrar. Við áttum eftir að reyna það síðar.

 Svo kemur kannski framhald...



05 janúar, 2026

Costa Rica (13) - Leiðin til Tamarindo

Frásögnin hefst hér
FRAMHALD AF ÞESSU

Á þessum degi, sem var föstudagurinn 21. nóvember, vorum við að gera okkur klár, þegar það bárust af því fregnir, að rútan væri biluð og við skyldum bara koma okkur vel fyrir og halda ró okkar. Nú, það var einmitt það sem við gerðum. Rútan komst í lag, en hvað var að henni, eða hvernig tókst að laga það, er ekki á mínu færi að segja frá.  Svo var bara lagt í hann. Hér fyrir neðan er leiðin sem ekin var þennan dag, um 210 kílómetrar. 



Fyrri hluti hennar lá eftir harla krókóttum vegi meðfram Arenal vatninu (Lago Arenal), sem er stærsta stöðuvatnið á Costa Rica, 85 km² að stærð, örlítið stærra en Þingvallavatn, sem mun vera 83,7 km². Dýpt þessa stöðuvatns er á bilinu 30-60 metrar.
Arenal vatnið var upphaflega lítið, náttúrulegt stöðuvatn, en með stíflu sem var lokið 1979, við Presa Sangregado (þar ókum við einmitt yfir þegar við skelltum okkur á hengibrýrnar í frumskóginum) fór allt land undir 550 m yfir sjávarmál undir vatn, en ríkið tók þetta land eignarnámi. Tveir bæir við vatnið, Arenal og Tronadora hurfu undir vatn og íbúunum komið  fyrir í nýjum bæjum í nágrenninu.
Vatnsaflsstöðvarnar sem urðu til við þetta framleiddu upphaflega 70% af orkuþörf landsins, en nú um 17%. Það má segja að orkuframleiðslan þarna sé drifkrafturinn í grænorkustefnu landins.

Eftir að hafa ekið hlykkjóttan veginn norðaustan vatnsins lá leiðin til vesturs og síðan í suður, þar sem áð var um stund, með útsýni yfir vatnið og eldri herramaður gerði sitt besta til að leiðbeina ökumönnum um hvar og hvernig þeir gætu lagt bifreiðum sínum.



Áfram var svo haldið í vesturátt, enn eftir fremur krókóttum vegi, allt þar til við komum í bæinn Cañas, en þar eru íbúar ríflega 30.000. Þar neytti hópurinn ágæts hádegisverðar á litlu veitingahúsi, áður en haldið var úr á hraðbrautina, Ctra. Interamericana N (Inter Amercan Highway) - sem liggur nánast eftir endilangri Ameríku, en hún sker þennan bæ í sundur. 
Ekki vorum við búin að aka lengi þegar komið var að aðaláningarstaðnum þennan daginn, en það var Centro de Rescate Las Pumas. Þarna er um að ræða einskonar björgunarmiðstöð og athvarf fyrir villt dýr. Þess ber að geta, að dýragarðar, eins og við skiljum það orð, eru bannaðir í Costa Rica. 



Svissnesk hjón, Werner Hagnauer og Lily Bodmer, fluttu til Costa Rica árið 1959 til að starfa hjá Hacienda La Pacífica í Cañas. Mér skilst að það hafi verið einhverskonar athvarf fyrir fugla.
1971 keyptu þau síðan  búgarð til að stunda sjálfbæra ræktun.
Þarna hóf Lily að taka á móti villtum dýrum sem voru í vanda af ýmsu tagi, sem of langt mál væri að fara yfir hér. 
1985 ákváðu hjónin að selja búgarðinn, en héldu eftir um 85 ha og stofnuðu það sem er í dag er þessi miðstöð sem við heimsóttum þarna. 
Verkefni miðstöðvarinnar er að bjarga, endurhæfa og sleppa villtum dýrum, eftir því sem hægt er.
Nú er það Hagnauer stofnunin sem heldur utan um þetta starf og það er fjármagnað með frjálsum framlögum og aðgangseyri gesta sem heimsækja stofnunina og njóta þess að sjá dýrin sem þar er að finna og lesa sögu þeirra, en við hvert risastórra búra sem dýrirn eru í, er að finna spjöld með nöfnum þeirra (já þau fá nöfn) og sögu, sem er sögð í fyrstu perónu. Ég leyfi mér að setja hér örfá dæmi:

MALEKU
JAGUAR (Panthera onca): Felidae

"Ég kom hingað í október, 2021. Maður kom með mig til dýralæknisins í kassa og það var talið að ég væri 2-3 mánaða gamall. Það er ekkert vitað um uppruna eða örlög móður minnar."






PEPE
SPIDER MONKEY (Ateles geoffroyi)
"Ég var gerður upptækur árið 2020 í Santa Cruz. Kona hafði drepið móður mína til að éta hana - meðan ég var enn ófæddur. Eftir að ég fæddist, héldu þau mér föngnum (bundnum) (sem er óleyfilegt)." 


LAMBI
WHITE-TAILED DEER (Odocoileus virginianus): Cervidae
"Ég kom hingað 2018 frá bagaces, þegar ég var tveggja mánaða. Fjölskylda hafði fundið, yfirgefinn, sennilega vegna þess að veiðimenn höfðu drepið mömmu. Aðlögun mín/endurhæfing hjá fjölskyldunni gekk ekki sem skyldi vegna þess að ég myndaði of mikil tengsl við mannfólkið og þess vegna var ekki hægt að sleppa mér út í náttúruna aftur."


ANASTACIA
SCARLET MACAW (Ara macao): Psitacidae
"Mér var haldið ólöglega í húsi í Cañas. Nágranni stökk yfir girðingu bakatil og tók mig og fófór með mig heim, en þá var ég bara með eina stélfjöður, engar aðrar fjaðrir á líkamanum. Hinir ararnir (macaw) hérna eru líka komnir úr svipuðum aðstæðum.


Vegna þess að dýrin voru flest inni í stórum búrum, tók ég harla fáar myndir þarna, en hér eru nokkrar.





Þetta var ansi áhrifamikil heimsókn og fróðleg, en áfram var haldið, eftir hraðbrautinni til vesturs í átt til Liberia (þar sem við lentum þegar við komum til landsins). 
Það átti ekki af Carlosi rútubílstjóra að ganga, en skömmu eftir að við lögðum upp í þennan legg, heyrðist einhver skellur þannig að hann stöðvaði farartækið úti í kanti til að athuga hverju sætti. Þá kom í ljós að einhver hlíf, fremst á rútunni, hafð dottið af og hún fannst ekki, og því var bara haldið áfram.
Við Liberia var svo haldið til suðurs í átt til Tamarindo. Mesta spennan snérist um það, hvort okkur tækist að sjá sólarlagið. Það tókst, eins og hér má sjá:


Svo bæti ég kannsi einhverju við um þriggja nátta dvölina á þessum stærsta ferðamannastað í ferðinni. Hún var nú ekkert slor.

03 janúar, 2026

Costa Rica (12) Kaffi og kakó

Frásögnin hefst hér
FRAMHALD AF ÞESSU

Ef ég færi nú út í það að reyna að segja nákvæmlega allt, sem á dagana dreif, myndi það kannski nást um vorjafndægur, svo ég ætla að reyna að stilkla á stóru, þó ég sé hreint ekki viss um að það takist. Látum á það reyna.

Fimmtudaginn 20. nóvember brunaði rútan með hópinn til staðar sem mér sýnist að kallist Don Juan Tours og er skammt fyrir utan La Fortuna. Þarna var um að ræða sannkallaðan ferðamannastað, þar sem hópar geta pantað sér fræðsluferðir um kaffi og cacaoræktun í Costa Rica. Þarna komum við fyrst inn í móttökusal, þar sem við fD fengum kærkomið tækifæri til að varpa af okkur annars fremur virðulegri yfirbragði, með því að mynda hvort annað, svo afhjúpandi getur talist. Við hleyptum börnunum í okkur út, í lítið augnablik (sjá mynd) en settum síðan strax aftur upp fullorðinsgrímuna og héldum áfram þannig.

Þennan dag gekk á með úrhellisrigningu, en stytti alltaf upp á milli og það mátti heyra á leiðsögumönnunum og þeir voru þakklátir fyrir að sleppa við svona veður í frumskógargöngunni daginn áður. 
Í sem stystu máli tók þarna við okkur leiðsögumaður, sem leiddi okkur í gegnum ræktunar-, vinnslu- og notkunarferli á kaffi og cacao. Allt fór þetta fram á gönguleið sem tjaldað var yfir, en án hliðartjalda, þannig að fyrir utan blöstu við cacao- og kaffitré með viðeigandi berjum, eða aldinum, meira og minna í lóðréttri úrhellisrigningu.


Á loftmyndinni sem ég læt fylgja hér hægra megin (af Google  maps) má sjá fræðsluleiðina sem 
um var að ræða.
Þessi fræðsluferð var bara ansi áhugaverð og upplýsandi um tilurð neysluvaranna sem frá þessari ræktun koma. Kaffi, kakó og súkkulaði.  Það fólk sem vinnur við þessa ræktun og iðnaðinn sem fylgir fær ekki mikið fyrir sinn snúð, sérstaklega ber kaffibaunatínslufólkið lítið úr býtum, minnir mið að hafi komið fram. 

Hér fyrir neðan eru myndir úr gönguförinni.






CACAO: Ferli frá blómi til framleiðsluvara



Þrjár tegundir kaffibauna:
Robusta, Arabica og Liberica, hver með sína eiginleika.

KAFFI: Ferli frá blómi til framleiðsluvöru.


Eftir að við höfðum þarna farið í gegnum cacaoræktunina, beið okkar veggjalaus salur þar sem okkur gafst færi á að búa til okkar eigin súkkulaðistykki. Eftir að hreystimenni í hópnum voru búin að hakka baunirnar fékk hvert okkar súkkulaðigrunn, sem við síðan breyttum í fullbúið súkkulaðistykki, hvert eftir sínu höfði, með ýmsum tegundum efna. Afrakstrinum skiluðum við síðan til leiðsögumannsins, sem setti þau í kæli meðan við fengjum yfirferð yfir kaffimálin. 


Það er nú skemmst frá því að segja, að ekki tókst mér höndulega með súkkulaðiblönduna - alltof lítill sykur, salt og mjólkurduft - eða chili  - og svo framvegis. Maður hefði þurft aðeins meiri tilfinningu fyrir áhrifum íblöndurnarefnanna. Ég heyrði þó haft á orði í mínu umhverfi að mitt væri skárra, sem var huggun harmi gegn. Ekki hefur tekist að neyta súkkulaðistykkjanna til fullnustu og ég veit ekki einusinni hhvað varð um þau á endanum.

Kaffibaunir






Yfirferðinni yfir kaffimálin lauk með því að við fengum að smakka uppáhelling að hætti heimamanna, en þar var notuð ferðauppáhellingargræja. Pokinn er úr taui eins og við þekktum í gamla daga. Svona poka má ekki þvo. 
Að öðru leyti er kaffivélin samsett úr þrem viðarbútum sem festir eru saman með lömum. Þegar hún er ekki í notkun er hún bara lögð saman og þá fer ekkert fyrir henni. Snilldargræja og hægt að kaupa hana á Amazon fyrir ISK6.500. Einfalt og þægilegt.

Þessari fræðsluferð lauk svo í verslun, auðvitað, þar sem við gátum keypt allskyns kaffi, kakóduft og súkkulaðistykki, alveg eins og vil vildum. Það var nú aldeilis gaman.

Þegar þessari heimsókn lauk, má segja að hópurinn hafi tvístrast nokkuð, enda frjáls tími það sem eftir lifði dags. Ég veit að einhverjir fóru í hádegisverð einhversstaðar í La Fortuna og einhverjir ákváðu að renna sér á sviflínu (zipline). Ég velti því svo sem fyrir mér skamma stund, að skella mér í það, en ákvað, eftir skamma íhugun að láta það vera, þar sem ég reiknaði með, að þetta væri svona eitthvað sem tæki langan tíma á undan og eftir, en örkamma stund að öðru leyti.  Svo komst ég auðvitað að því á eftir, að þetta vera heldur meira en það. Þátttakendur munu hafa rennt sér niður einar 11 línur og haft gaman af. Hefði ég vitað þetta fyrir, er líklegt að ég hefði látið slag standa. Ekki efa ég að fD hefði verið meira en klár í svona adrenalínaukandi verkefni. Já, "hefði, ef ...." - það er allaf hægt að segja það.

Sundlaugasvæðið í Los Lagos (mynd af agoda.com)


Við fD ákáðum að taka því rólega það sem eftir lifði dags í sundlaugum og heitum pottum í Los Lagos. Þar var nóg úrval af slíku, en það tók talsverðan tíma að finna heitan pott sem reis undir nafni. Það fannst þó einn viðunandi. Það var afar ljúft að sitja í heitum potti í volgri, lóðréttri úrhellisrigningu.

Eftir ágætan kvöldverð var bara rólegt kvöld og við tók síðasta nóttin á La Fortuna svæðin. Næsta morgun tók við ferð til vesturstrandarinnar, til ferðamannabæjarins Tamarindo, þar sem við dvöldum síðustu þrjár næturnar á Costa Rica.
Meira um það næst - ef allt fer eins og áætlað er.

Costa Rica (17) Norður í svalann - lok

Frásögnin hefst  hér FRAMHALD AF  ÞESSU -------------------------------------- Að morgni mánudagsins 24. nóvember lá fyrir, eins og alltaf v...