Mér virðist ljóst, að vilji uppsveitahreppanna til að losa sig við jörðina Laugarás, sem sýslunefnd Árnessýslu keypti upp úr 1920, undir læknissetur, fari vaxandi. Ekki ætla ég að hafa sérstaka skoðun á því, utan þá sem ég hef oft áður tjáð, sem felst í því að Laugarás teljist í hugum ýmissa í uppsveitum, hálfgerður vandræðagemlingur, sem truflar eðlilega uppbyggingu á svæðinu, komi að einhverkju leyti í veg fyrir að hrepparnir fái að blómstra, hver á sinni forsendu. Það hefur hver sína skoðun á þessu, eins og við má búast.
Í gær rakst fD, sem fylgist grannt með sveitarstjórnarmálum í Bláskógabyggð, á lið í fundargerð sveitarstjórnar, sem hljóðar svo:
198. fundur sveitarstjórnar Bláskógabyggðar, 5. maí, 2017
6. Bókun Skeiða- og Gnúpverjahrepps um Laugarásjörðina. Lögð fram bókun frá fundi sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps, dags. 7. desember 2016. Í bókununni kemur fram að sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps telur eðlilegast að setja hlut Laugarásjarðarinnar sem er í eigu sveitarfélaganna í Uppsveitum Árnessýslu í sölu. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða að fela oddvita og sveitarstjóra að skoða forsendur málsins og afla gagna. Jafnframt að eiga viðræður við forsvarsmenn hinna eignaraðilanna.
Þar sem mig langaði að vita meira um uppruna þessa, fann ég umrædda samþykkt sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps.
Samningar og umsagnir:
28. Samningur um umsjón jarðarinnar Laugarás. Þarfnast staðfestingar samningur staðfestur. Gunnar Örn Marteinsson lagði fram svohljóðandi bókun : Eðlilegast er að setja hlut Laugarásjarðarinnar sem er í eigu sveitarfélaganna í sölu. Á þeim tíma sem sveitarfélöginn sem stóðu að uppbygging heilsugæslu í Laugarási keyptu þau land og heitavatnsréttindi í Laugarási, þau kaup voru nauðsynleg á þeim tíma, í dag eru hinsvegar aðrir tímar og eingin þörf fyrir sveitarfélöginn að hald í þessa eign. Samþykkt samhljóða.
(málfar og stafsetning er eins og það er í fundargerðinni)
Ekki nenni ég að leita eftir bókunum um málið í fundargerðum annarra hreppa.
Bókunin sem samþykkt var á fundi sveitarstjórnar Skeiða-og Gnúpverjahrepps er ósköp blátt áfram: allir voru sammála um að eðlilegast væri að selja Laugarásjörðina vegna þess að nú væru breyttir tímar.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar tók þessa samþykkt fyrir fimm mánuðum síðar, svo ekki virðist nú vera mikill asi. Sveitarstjórnin samþykkti, samhljóða, að fela oddvita og sveitarstjóra að skoða forsendur málsins og afla gagna. Jafnframt að eiga viðræður við forsvarsmenn hinna eignaraðilanna.
Óhjákvæmilega vakna ýmsar spurningar þegar bókanir af þessu tagi eru lesnar.
Til að halda því til haga, fyrir þá sem ekki vita, þá eru allar lóðir í Laugarási, ef frá er talin svokölluð "sláturhúslóð", þar sem nú stendur yfir bygging á miklu hóteli, leigulóðir. Þannig greiða allir lóðarhafar leigu til Bláskógabyggðar, enda telst Laugarás vera hluti af því sveitarfélagi (áður hluti af Biskupstungum).
Hér eru nokkrar spurningar sem svara þarf með óyggjandi hætti, að mínu mati:
1. Eiga uppsveitahrepparnir Laugarásjörðina?
Í læknablaðinu í apríl 1922 segir svo m.a. um fjárveitingar í fjárlögum fyrir árið 1923:
"alt að 11000 handa Árnessýslu til þess að kaupa Laugarás
fyrir læknissetur".
Þarna var sem sagt um að ræða framlag ríkisins til Árnessýslu
Brynjúlfur Melsteð skrifaði eftirfarandi í tengslum við byggingu Iðubrúar í janúar, 1952:
"Það var viturleg ráðstöfun er Sýslunefnd Árnessýslu keypti á sínum tíma Laugarás fyrir læknissetur".
Samkvæmt þessu var það sýslunefnd Árnessýslu sem keypti jörðina, en ekki uppsveitahrepparnir. Sannarlega ætla ég ekki að efast um eignarhald hreppanna, en það þarf þá að liggja fyrir.
Ef hrepparnir eiga jörðina, hvenær eignuðust þeir hana?
Hver er eignarhluti hvers og eins?
Hvað greiddi hver og einn fyrir hana?
Hverjar eru tekjur hvers hrepps af jörðinni?
Hver er kostnaður hvers hrepps af þessari eign?
2. Hvernig sala á þetta að vera?
Í samþykktri bókun Skeið/Gnúp segir: Eðlilegast er að setja hlut Laugarásjarðarinnar sem er í eigu sveitarfélaganna í sölu. Þetta felur ekkert annað í sér en að þetta þyki sveitarstjórninni "eðlilegast" og þá mögulega að það sé "óeðlilegt " að hreppurinn eigi einhvern hlut í jörð í öðru sveitarfélagi. Ekki ætla ég að agnúast út í það. Mig grunar hinsvegar að þarna á bak við hljóti að vera eitthvað fleira, sem ekki er sagt. Vissulega er það rétt sem fram kemur, að margt hefur breyst frá því jörðin komst í eigu sýslunefndar Árnessýslu og vel kann að vera að kominn sé til á að endurskoða eignarhald á jörðinni.
Samþykki allir hrepparnir að kominn sé tími til að selja Laugarásjörðina (sem þeir eiga væntanlega), hverjir eru þá mögulegir kaupendur?
3. Þurfa Laugarásbúar að hafa áhyggjur?
Mun þetta birtast okkur svona, rétt eins og auglýsing um sumarbústað til sölu?
Því er ekki að neita, að maður veltir fyrir sér ýmsum "sviðsmyndum" við tilhugsunina um, að Laugarás verði selt, rétt eins og hver önnur bújörð í Bláskógabyggð, þó mig gruni að hugsunin sé frekar, að Bláskógabyggð kaupi. En vill Bláskógabyggð það? Um það hef ég ákveðnar efasemdir, svona í ljósi sögunnar. Ég held hinsvegar, að Bláskógabyggð hafi ekki val.
Hvað gerist nú ef Bláskógabyggð vill ekki kaupa? Myndi Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Hrunamannahreppur eða Grimsnes- og Grafningshreppur sjá einhvern hag í að eignast þessa kostajörð?
Vilji allir hrepparnir selja, en enginn kaupa, hvað gerist þá? Auðvitað yrði jörðin auglýst, eins og hver önnur jörð, væntanlega á evrópska efnahagssvæðinu.
Mögulegir kaupendur, hverjir gætu þeir nú verið?
1. Orkufyrirtæki - Orkuveita Reykjavíkur hefur haslað sér völl víða.
2. Skálholt - á sennilega ekki pening.
3. Eigendur nýja hótelsins?
4. Erlendur milljarðamæringur.
4. Erlendur milljarðamæringur.
5. Hlutafélag í eigu óþekktra aðla, sem mögulega, hugsanlega vilja flytja heim fé sunnan úr höfum.
6. Íbúar í Laugarási.
Ef hrepparnir vilja selja til þess að fá pening í hreppakassana, er auðvitað eðlilegast að auglýsa bara og sjá hver býður best. Þar með væru þeir líka að henda íbúunum út á kaldan klaka í mikilli óvissu um hvað við tæki. Öllum lóðasamningum yrði þá sagt upp og íbúunum boðið að semja aftur, um margfalda leiguupphæð.
Mér finnst sjötti liðurinn áhugaverður. Bláskógabyggð myndi kaupa jörðina með gæðum og gögnum, á málamyndaverði, að öðru leyti en þann hluta hennar sem nú þegar er leigður undir íbúðabyggð. Íbúunum yrði gefinn kostur á að kaupa sínar lóðir fyrir málamyndaupphæð í hlutfalli við landstærð, t.d.hundrað krónur á hektara. Ég veit að mörgum mun finnast þetta fáranleg hugmynd, en ég tel hana ekki vitlausari en margt annað, að minnsta kost þangað til ég fæ upplýsingar um hvað hver hreppur greiddi fyrir jörðina á sínum tíma, ef eitthvað.
Reyndur sveitarstjórnarmaður sagði eitt sinn við mig að hreppar væru ekki gróðafyrirtæki.
Ætli ég láti þetta ekki duga í bili. Held áfram að hafa áhyggjur.
Reyndur sveitarstjórnarmaður sagði eitt sinn við mig að hreppar væru ekki gróðafyrirtæki.
Ætli ég láti þetta ekki duga í bili. Held áfram að hafa áhyggjur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli