16 desember, 2008

Örsaga um fúlan útrásarvíking - eða bara hál*****gang - fyrri hluti


Sviðið sett upp:
Það liggur fyrir að bókanir í flugið frá Berlín til Íslands eru fáar mánudagskvöldið 15. desember. Það var vissulega fullt út, enda Pólverjar og Ungverjar að flykkjast heim til sín í jólafrí, eða alfarið; aðallega var hið síðara uppi á teningnum, líklega.
Stjórn félagsins er orðin pirruð á hve fáir ferðast á þessari leið og heldur sérstakan fund um hvernig við skuli brugðist.
Stjórnarformaðurinn leggur loks til, að félagið grípi til tiltekinna ráðstafana til að vekja athygli farþega á mikilvægi þess að geta treyst flugfélaginu til að koma þeim áfallalaust frá einum stað til annars.
Tillagan er samþykkt og allt fer í gang innan félagsins til hún nái fram að ganga.

Sagan:
Farþegarnir frá Berlín stíga grunlausir um borð í flug AEU134 til Keflavíkur. Þeir hafa fengið upplýsingar um að vélin sé ekki fullbókuð og þessvegna muni þeir geta breitt úr sér og notið flugsins (aldrei þessu vant). Meðal farþeganna eru þau hjónakornin hP og fD, á heimleið eftir að hafa notið einnar helgar samveru við sitt fólk í Berlín. Þau koma sér vel fyrir í sætum sínum með úrvalsbókmenntir og búa sig undir ánægjulegt flug til landsins góða í norðrinu. Það skiptir þau engu máli þótt flugstjórinn tilkynni að flugið myndi taka lengri tíma en venjulega, vegna óvenju mikils mótvinds; það er nóg pláss til að breiða úr sér og njóta ferðarinnar. Meðal þess sem er á boðstólnum á leiðinni er sérstakt jólatilboð: flatkaka með hangikjköti, 5 piparkökur og hin klassíska íslenska jólablanda appelsíns og malts, sem hP ákveður að splæsa á sjálfan sig til að tryggja jólaskapið. fD ákveður að hún þurfi ekki á svonalöguðu að halda og lætur sér nægja hefðbundnari rétti á matseðlinum.


Það er í rauninni ekki nauðsynlegt að fjölyrða um þetta flug norður á bóginn, en það gekk hreint ágætlega, ef frá er talinn nokkur hristingur vegna ókyrrðar í lofti.
Það var lent og leiðin lá inn í Flugsöð Leifs Eiríkssonar, þar sem fríhöfnin beið þess að hjónakornin sinntu hefðbundnum innkaupum. Þau gengu flljótt og örugglega fyrir sig, að vanda. Eftir að gert hafði verið upp héldu þau fD og hP að farangursbandinu og biðu þess að þar birtust töskurnar 2, sem tæmdar höfðu verið á þýskri grundu og innihéldu nú léttavarning einn.

Þarna biðu þau þess að bandið færi af stað. Þau biðu. Þau biðu. fD náði í vatn til að slökkva þorstann meðan hP beið þess að allt færi af stað og hann gæti kippt töskunum af um leið og þær birtust. fD kom með vatnið og þorstinn var slökktur. 

Þau biðu.

Þar kom, að þau fóru að líta annað en beinlínis á óhreyfanlegt bandið. Þá virtist svo sem umtalsverður hópur fólks hefði safnast saman á ákveðnum stað í salnum þar sem var að finna einhverskonar afgreiðsluborð. 
"Hvaða vitleysa er þetta? Bara farið að kvarta strax, þó farangurinn birtist ekki bara um leið og lent er!!! Uss, uss!"

Þau biðu og voru jafnvel farin að sjá bandið hreyfast fyrir sjónum sínum, en svo var hreint ekki í raun. 

Það fóru að renna á þau tvær grímur. Það var orðin umtalsverð hreyfing á fólkinu við afgreiðsluborðið og enginn var lengur að bíða eftir töskum við færibandið. 
Þetta var ekki eins og það átti að vera. 
Það var því ekki um annað að ræða en kynna sér hvað var þarna í gangi.  hP og fD gengu hikandi í áttina að afgreiðsluborðinu og voru innan skamms umkringd fólki sem virtist ekki vera alveg rótt.

......framhaldið birtist innan skamms. 
Lesendur geta átt von á ótrúlegri fléttu.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...