Þingpallurinn. Mynd tekin af vef RUV - okkar allra. |
Fundur Alþingis á Þingvöllum er gott dæmi um það hvernig fer þegar maður veit hvað stafirnir standa fyrir og skilur jafnvel merkingu orðanna, en áttar sig ekki á heildarsamhenginu, kann ekki að túlka. Með þessum fundi birtist glæsileg leturgerð, orðin sem gengu fram af munnum ræðumanna falleg, söngurinn vandaður, svo ekki sé nú minnst á lúðrablásturinn.
Þarna birtist hinsvegar óþægilegur skortur á tengingu við veruleikann og einhverri auðmýkt gagnvart sögu þessarar örþjóðar. Háreistir, teppalagðir stálpallar og mjúkir stólar undir risastóru þaki yfir valdið (það má ekki rigna á æðstu fulltrúa þjóðarinnar), með tugi ljóskastara til að þjóðin fengi nú að sjá sjálfa sig vel og rækilega í fulltrúum sínum á hinu háa Alþingi. Þarna var ekki að finna þá merkingu sem kallað er eftir heldur einhverja aðra, sem gaf til kynna, að túlkun væri verulega áfátt.
Það er heilmikið mál að lesa þjóð. Það fólk sem skipulagði þennan þingfund á Þingvöllum og tók þátt í honum, þarf að læra betur.
Fallegt letur, bakgrunnurinn svo sem í lagi, en hvað með innihaldið? |
Á Þingvöllum sat fólk með hlutverk, leikarar. Það var ekki þarna statt sem raunverulegar persónur, brennandi fyrir sameiginlegum málstað, með þanið brjóst vegna stoltsins yfir að vera að fagna 100 ára afmæli undirskriftar fullveldissáttmála. Þarna var fólk statt vegna þess að það þurfti að vera þarna. Ef það var ekki mætt, taldist það gagnrýnivert og móðgandi.
Mér fannst þessi uppákoma vandræðaleg og læt þar staðar numið í umfjöllun um hana, enda skilur hún ekkert eftir nema hneykslismál í tengslum við rasískan, danskan þingforseta, sem bætir enn á æpandi kunnáttuleysið í lestri.
Við erum í mörgu tilliti svo yfirmáta yfirborðskennd þjóð og það er nánast grátlegt. Það vantar ekki að við eigum fallega stafi og falleg orð, jafnvel fallegar setningar, en okkur mistekst oftar en ekki að tengja þetta allt saman svo úr verði skilningur.
Við þurfum að læra að lesa svo ótal margt, skyggnast bak við stafina og orðin, uppgötva það sem þar er að finna.
Við þurfum að læra að lesa börnin okkar. Þau er falleg og fín og okkur þykir svo undurvænt um þau, viljum þeim aðeins það besta, segjum við, en hversvegna er þau þá ekki læs, hversvegna þurfa þau allar þessar greiningar, hversvegna gengur strákum ver í skóla en stelpum? Hversvegna....?
Við þurfum að læra að lesa gamla fólkið okkar. Fólkið sem eyddi ævinni í að koma okkur á legg og lagði nótt við dag til að byggja upp þetta nútímalega samfélag, segjum við. Fallegt fólk og fínt, en hversvegna er ekki hægt að tryggja því áhyggjuleysi síðustu árin sem það er meðal okkar? Hversvegna þarf gamalt fólk að berjast í bökkum? Hversvegna fær það ekki fullnægjandi þjónustu við ævilok? Hversvegna....?
Það er svo margt fleira sem við þurfum að læra að lesa. Hvernig væri nú að hætta um stund að horfa bara á myndirnar og lesa fyrirsagnirnar?
---------------------------------------
Það getur svo sem vel verið að ég teljist óskaplega dómharður hér fyrir ofan. Þá, sem kunna að hafa móðgast við þessa lesningu, bið ég bara afsökunar með von um að þeir komist yfir þetta. Það er svo einfalt - enda bara orð.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli