Eina leiðin til að tryggja fordómaleysi gagnvart sjálfum sér, er að vera nakinn.
Auðvitað er það rugl, því þá myndi blasa við líkamlegt atgerfi manns, með allskyns upplýsingum um hið ytra byrði. Þar með dreg ég upphaflega yfirlýsingu til baka.
Því verður samt ekki neitað, að sá fatnaður sem maður klæðist er nokkurskonar merkimiði sem ætlaður er öðru fólki. Gefur til kynni hvað maður er, jafnvel frekar en hver maður er.
Það má líka segja að hann sé sameiningartákn; þar sem fólk kemur saman í eins klæðnaði og á sér sameiginleg markmið meðan það klæðist skrúðanum. Þannig er þetta til dæmis með hermenn og íþróttamenn. Þegar þeir eru að fara að berja á óvininum, berjast til sigurs, skiptir miklu máli að þeir komi fram sem einn maður, einn fyrir alla, allir fyrir einn, í eins búningum. Auðskilin skilaboðin sem þeir senda frá sér eru: við sameinuð, gegn hinum.
Þetta var nú bara svona inngangur þar sem þetta kom í huga mér í gær, á Skálholtshátíð, þegar einn gesturinn sem ég kannast við spurði mig hversvegna ég væri klæddur eins og embættismaður. Spurning þessi gaf skýrt til kynna að þarna var ég metinn út frá fötunum. Ég hafði sent frá mér ákveðin skilaboð. Fatnaður minn var svört jakkaföt, hvít skyrta og svart bindi (læt vera að nefna klæðnaðinn að öðru leyti). Þannig er það, að karlmenn sem svona eru klæddir eru embættismenn.
Vissulega var ég nokkurskonar embættismaður. Ég fékk að ganga í prósessíu frá Skálholtsskóla út í kirkju, næsti maður á eftir biskupi Íslands og verðandi vígslubiskup í Skálholtsumdæmi, en þau tilheyra öðrum hópi en ég. Hópunum sem gengu þarna til kirkju var raðað í tiltekna röð og þeir máttu ekki blandast. Hvernig þessi röð var ákveðin veit ég ekki, bara það að ég, ásamt öðrum félögum í Skálholtskórnum gengum á eftir biskupi og á undan pílagrímum. Þannig var það.
Við gengum bara ágætlega, en vissulega varð mér hugsað til skrautreiðar hestamannafélagsins á 17. júní.
Ég hefði getað farið að leika allskyns kúnstir þarna í röðinni, til dæmis stokkið úr úr henni þegar við nálguðumst kirkjuna og alla myndavélasmellina, og tekið eins og eitt kraftstökk, eða boðið biskup upp í dans, en ég gerði ekkert slíkt, enda hefði það ekki endað vel, líklega. Þar fyrir utan var ég þarna sem n.k. embættismaður í prósessíu og svoleiðis menn gera enga vitleysu, jafnvel þó þá langi til.
Sæti biðu okkar, eins og annarra þegar inn var komið. Það er ákveðið öryggi fólgið í því að vita að það bíður eftir manni sæti. Það biðu hinsvegar engin sæti pílagrímanna sem síðastir gengu inn kirkjugólfið, berfættir í göngufötum sínum, sem stungu talsvert í stúf við skrautklæðnað biskupanna og upphluti stórs hluta sóprananna og altanna. Pílagrímar kæra sig ekki um þægindi eða reikna ekki með þeim. Þeir komu sér fyrir í tröppunum fyrir framan kórinn (ekki samt Skálholtskórinn). Sátu síðan á grjóthörðum, norskum steinflísum, meðan nýi Skálholtsbiskupunn var settur í embætti og var klæddur í tilheyrandi biskupsskrúða. Þeir voru þarna eins og varnarveggur, tilbúnir að taka á móti ef einhver hygðist trufla athöfnina. Það sama má segja um alla prestana sem sátu fyrir framan altari Brynjólfs biskups.
Það varð engin uppákoma við þessa athöfn, enda flest fólk þarna vel upp alið. Það sem helst má nefna, sem vék frá venjulegum messum var, að það var fullt út út dyrum og myndatökumenn frá fjölmiðlum börðust um bestu staðina til að stilla upp græjunum sínum.
Svo var þetta bara búið að haldið í kaffi, áður en hið prestlærða fólk og leikmenn sem þarna tóku þátt stilltu sér upp til myndatöku. Þar voru ekki allir jafn þægir, en allt hafðist þetta að lokum og svo virðulega að vel má halda því fram að sómi hafi verið að.
Þessum pistli er ekki ætlað að fella neina dóma. Ég kann að hafa mínar skoðanir á þessu tilstandi öllu, en þær eru bara mínar. Ég neita því ekki að það er ákveðnn stíll yfir samkomum af þessu tagi, jafnvel hátíðleiki. Fólk fær tækifæri til að klæða sig upp á, finna sig eiga heima í einhverjum tilteknum hópi fólks sem vinnur að sameiginlegu markmiði. Gleðst eða fagnar jafnvel saman.
Það get ég þó sagt, að það er sjónarsviptir að Kristjáni Val Ingólfssyni og Margréti Bóasdóttur. Með þeim hverfa á braut einstaklingar sem hafa sett mark sitt á samfélag okkar hér í neðri sveitinni, laust við tilgerð eða prjál. Fólk eins og við hin, sem þykist ekki vera neitt annað.
Ekki hef ég kynnst nýjum vígslubiskup, Kristjáni Björnssyni eða konu hans Guðrúnu Helgu Bjarnadóttur að neinu marki. Það sem ég þó veit og hef heyrt er að þar sé ágætt fólk. Ég þykist allavega viss um að vígslubiskupinn hefur góðan húmor og tekur sjálfan sig ekki of alvarlega.
Ég leyfi mér að bjóða Kristján og Guðrúnu velkomin í Skálholt.
-----------------
Þer sem ég sit og skrifa þetta er ég ekki lengur embættismaðurinn, heldur bara karlinn með EOS-inn, í kvartbuxum í skjóli Kvistholts, sem vonast til að tenórröddin verði ekki farin að láta verulega á sjá þegar á líður haustið.
MYNDIR FRÁ SKÁLHOLTSHÁTÍÐ OG BISKUPSVÍGSLU.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)
Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...
-
Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...
-
Það er ótvíræður kostur við þorrabót eldri borgara í Biskupstungum, að það er ekki boðið upp á dansiball með tilheyrandi hávaða þegar fól...
-
Líklega lið annars bekkjar veturinn 1971-1972. Aftari röð f.v. Helgi Þorvaldsson, Eiríkur Jónsson, Kristján Aðalsteinsson, Páll M, Skúlaso...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli