25 ágúst, 2021

Ég, peningasmyglarinn

Myndir af vef. Samsetning pms
Á Álaborgarflugvelli hefur lífið yfirleitt verið fremur afslappað og átakalítið þegar við höfum átt þar leið í gegn. 
Að aflokinni innritun og kveðjustund héldum við þrjú, ég, fD og uG í gegnum hefðbundna skoðun á handfarangri og sjálfum okkur, svona rétt eins og venjan er, enda engin leið að vita með öðrum hætti hvort við séum fólkið sem ætlar að sprengja flugvélina, eða ræna henni. 
Við skiljum þessar varúðarráðstafanir afar vel. 

Þar sem bakpokinn okkar fD var á ábyrgð fD, tók ég að mér að hafa umsjón  með annarri handtösku uG.   Við töldum víst að þessi afmarkaða leið okkaar í gegnum öryggiseftirlitið yrði jafn ljúf og hún hefur áður verið: auk farangursins fórum við yfir hefðbundinn tékklista, slógum á alla vasa, og tókum allt sem málmur var í af okkur og skelltum í bakka. Þessa rútínu þekkir fólk sem farið hefur um flugvelli auðvitað.
Að þessu búnu gekk ég að hliðinu, handan hvers öryggisvörður stóð og benti mér að koma í gegn, sem ég sannarlega gerði og fór píplaust í gegn, eins og jafnan. Þarna fyrir innan stóðu fleiri öryggisverðir og voru með svartan labrador hund í bandi, sem ég gerði auðvitað ekkert með, heldur fór að bandinu sem flutti farangurinn gegnum gegnumlýsingartækið og tók þaðan tösku uG og annað sem mér tilheyrði og komið var í gegn. Ég áttaði mig ekki strax á því, að bakkinn með bakpokanum og jakkanum mínum hafði á þessari stundu verið tekinn til hliðar og silaðist eftir öðru bandi í átt að sérstökum öryggisverði.

Mynd frá öryggisleit í Álaborg, af vef.

"Har du kontanter?" var ég allt í einu spurður og bak við mig stóð frekar góðmannlegur öryggisvörður með hundinn í bandi, en hann hafði þarna sett hægri framfótinn á tösku uG, sem ég hélt á, ósköp kurteislega. 
Í huganum þurfti að snarlega að þýða þetta orð "kontanter" og upp kom merkingin "peningar" eða "fjármunir" eða "reiðufé".  Ég játaði auðvitað strax að ég væri með "kontanter" og um leið ítrekaði hundurinn bendingu sína á tösku uG, afar kurteislega.  
Ég neita því ekki, að eitt augnablik hvarflaði að mér, að uG væri, með því að fela mér umsjá annarrar töskunnar sinnar, að nota mig sem burðardýr fikniefna í gegnum öryggisleitina - en bara eitt örstutt  augnablik. Ég hef ekki áður lent í því að hundur bendi ítrekað á að rétt sé að skoða mig eitthvað nánar og því mögulega skiljanlegt að í sekúndubrot hafi mér komið til hugar að sársaklaus dóttir mín væri þessarar gerðar.

Öryggisvörðurinn útskýrði í framhaldinu fyrir mér að hundurinn væri þjálfaður til að þefa uppi "kontanter" og bað mig að koma að sérstöku borði þar sem tveir öryggisverðir til viðbótar biðu mín og báðu um að fá að sjá reiðuféð sem ég hefði í fórum mínum, en einnig  leituðu þeir gaumgæfilega í bakpokanum sem fD bar ábyrgð á, og rákust þar að tvo danska osta sem við höfðum fest kaup á - afar góða, en þeir gerðu ekkert með þá.

Jæja, ég tók auðvitað fram veskið mitt og hóf að leita að seðlum inn á milli allra kvittananna og lét þá falla á borðið fyrir framan öryggisverðina. Annar þeirra horfði á seðlana, nokkra íslenska og nokkrar evrur, sem höfðu átt samastað í veskinu í einhver ár og voru kannski farnir að gefa frá sér einhverja ellilykt.  Hinn öryggisvörðurinn við borðið fyllti á meðan út eyðublað með helstu upplýsingum sem fram komu við þessa rannsókn, en að því búnu var mér leyft að setja seðlana/reiðuféð/fjármunina aftur í veskið og ekki neita ég þvi, að ég óttaðist að þeir tækju þá eftir lítilsháttar handarskjálfta, þar sem ég reyndi, af festu og smeygja seðlunum í veskið aftur. 
Að þessu búnu vildu þeir fá að vita erindi okkar í Álaborg og því svaraði ég greiðlega, sömuleiðis forvitnuðust þeir um hvert ég væri að fara, sem ég gat upplýst þá um.


Ég neita því ekki, að það hefur stundum hvarflað að mér að flytja bara peninga milli landa í tösku, frekar en senda þá í gegnum einhverja bankaþjónustu, en þarna komst ég að því að til eru sérþjálfaðir hundar, sem leita uppi fólk sem reynir að komast upp með að smygla peningum milli landa, nú eða landshluta, eins og í okkar tilfelli, enda vorum við á leið í flug til Kaupmannahafnar, eftir einkar ánægjulega dvöl hjá sonunum og þeirra fólki í Álaborg, með tvo "gullklumpa" í farteskinu, eftir frækilega 5 km, göngu, með frjálsri aðferð, í Guglöbet 2021. Engin ummæli:

Sama gamla

Það má hverjum manni vera ljóst, að ég ætla mér að nýta kosningaréttinn, þó ég viti, að eins og venjulega muni mér ekki verða að ósk mini um...