27 apríl, 2022

Hugs, dund og vonir.

Ekki nóg með það...

... að mannskepnan skuli enn ekki vera búin að læra neitt að ráði á styrjöldum aldanna.

... að lærdómurinn af aðdraganda bankahrunsins hafi farið fyrir ofan garð og neðan hjá efnahagslegri yfirstétt í landinu okkar.

,,, að stjórnmálaflokkar hafi komist upp með það, áratugum saman, að lofa öldruðum á hverjum tíma mannsæmandi kjörum og aðbúnaði og lofi enn, eins og enginn sé morgundagurinn.

... að ég skuli ekki fyrir löngu vera hættur að syngja í kirkjukór, Guði til dýrðar - eða sjálfum mér.

... að ég hafi látið dragast inn í þátttöku  nokkurskonar gjörningi.

... að ég sé búinn að reyna að viðhalda líkamlegum þrótti með heilsueflandi aðgerðum.

... að samantekt mín um Laugarás þokist áfram hægar en ég hefði viljað.

... að ég hafi loksins ráðist í löngu tímabæra endurnýjun á tölvukostinum á heimilinu.

Ekki nóg með það, heldur tókst pestarskrattanum að ná mér og halda mér óvirkum dögum saman. 

Ég hafði séð fyrir mér, að þegar hér væri komið, yrði þetta allt rólegra. Fannst ég jafnvel hafa unnið fyrir því, en einhvernveginn virðist alltaf eitthvað tínast til, sem mér er nauðsynlegt að taka afstöðu til eða taka mér fyrir hendur. 
Það er sannarlega jákvætt að hafa eitthvað til að dunda sér við, ekki neita ég því og efast ekki um að það eykur líkurnar á að að höfuðið haldi sér í stórum dráttum í lagi í fjölmörg ár í viðbót. 

Það má alltaf vona ...
... að það sem einhver segir um eitthvað sem bendir til þess að innrásin verði brotin á bak aftur, reynist rétt og satt.
... að fjármálaráðherrann taki pokann sinn og það verði síðan lærdómur fyrir auðvaldspjakkana.
... að stöðugt fjölmennari og frískari eldri borgarar rísi nú upp og krefjist réttar síns. (því miður fylgja of margir þeirra vitlausum flokkum að málum).
... að að því komi að röddin meini mér frekari iðkun sönglistar.
... að gjörningurinn fari fram, stórslysalaust og framhald á slíku verði tekið til skynsamlegrar yfirvegunar.
... að ég fari að sjá útlitslegan ávinning af heilsueflingunni.
... að nýr tölvubúnaður efli mig til að takast á við samantektina um Laugarás þannig að mér takist að ljúka henni fyrir sjötugsafmælið mitt.
... að það komi einhver til að aðstoða mig við að setja tölvubúnaðinn upp, með öllu sem honum fylgir. Það er nefnilega nokkuð síðan ég hætti að nenna að reyna að fylgjast með þeirri tækniþróun sem þar er stöðugt að eiga sér stað.
... að Covid hafi ekki valdið neinum varanlegum skaða á mér - hvorki líkama né sál.

Svo mörg voru nú þau orð, þessu sinni - sennileg ekki bara mörg, hendur einnig nokkuð óskiljanleg.

Engin ummæli:

Mislitir sokkar

Mér dettur ekki í hug að neita því, að sú hugsun hefur hvarflað að mér nokkrum sinnum í vetur, að ég þurfi að gæta aðeins betur að sjálfsvir...