04 maí, 2022

Við ætlum að gera allt betra og meira til.

Hluti af mér er uppfullur af gagnrýni á sjálfan mig fyrir að eyða ekki dögunum í fundi og vöfflukaffi út um allan bæ. 
Hluti af mér einsetur sér að láta þetta allt sem vind um eyru þjóta, í fullvissu þess, að öll orðin sem frambjóðendur láta frá sér, hvort sem er í ræðu eða riti byggist í besta falli á einhverskonar óskhyggju eða séu jafnvel bara sett fram til að setja þau fram, vitandi fullvel, að það mun sennilega enginn krefjast þess að það sem orðin segja, raungerist á næstu fjórum árum. Þetta gera frambjóðendur í þeirri von að einhver trúi og það er fullt af fólki sem trúir og líka fullt af fólki sem sem þarf ekki orðin til að trúa - það gerir það sem það hefur alltaf gert og lítur sennilega svo á, að ef það skyldi nú fara að kjósa einhvern annan lista, þá væri það þar með að viðurkenna eigin glámskyggni í síðustu 40 kosningum, eða svo. Það gerir það sko ekki svo glatt.

Mér hefur reynst æ erfiðara að velja einhvern lista í kosningum, ekki síst sveitarstjórnarkosningum. Fram til þessa hef ég greitt atkvæði í sveitarfélagi þar sem ekki eru svokallaðir flokkspólitískir listar í boði. Þó þeir séu ekki flokkspólitískir, svona formlega, situr á þeim einhver blanda úr tveim pólitískum flokkum, sem veldur því, að ef þú aðhyllist hvorugan, geturðu ekkert kosið með góðri samvisku.

Nú er ég að fara að kjósa í fyrsta sinn í sveitarstjórnarkosningum í sveitarfélagi þar sem stjórnmálaflokkar bjóða fram. Það er að mörgu leyti talsvert hreinni og beinni aðferð, því þá á ég þó kost á að velja lista sem tilheyrir þeim flokki sem kemst næst því að falla að lífsskoðun minni. 
En hvaða flokkur skyldi það nú vera? 
Ég bara veit það ekki, hreint út sagt.
Ég veit í rauninni bara eitt, en það er, hvaða flokk ég hef aldrei og mun aldrei ljá atkvæði mitt, jafnvel þó þar sé nú að finna pilt sem ég fékk að kenna fyrir einhverjum árum og sem ég myndi kjósa á hvaða lista sem væri, en bara ekki þessum.

Aldrei hef ég verið ákveðnari í hvaða flokk ég ætla ekki að kjósa, einfaldlega vegna þess, að ég lít svo á að fólk sem býður sig fram undir merkjum einhvers stjórnmálaafls, hlýtur að samþykkja það sem það stendur fyrir á landsvísu og bera ábyrgð á því. Tilraunir til að fría sig ábyrgð á gerðum þessa stjórnmálaafls, hljóta að vera innantómar.

Þá er bara að fara að skoða hina flokkana, sem eru mislíklegir til að fá atkvæðið mitt.  
Gangi  mér vel - eða ekki.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...