14 febrúar, 2008
Þá er vefmyndavélin að verða klár
Ég held að í mér leynist tækjaóður einstaklingur. Heima í Kvistholti er þessi fína vefmyndavél, ónotuð, sem keypt var fyrir þó nokkrum árum og ég man ekki í hvaða tilgangi það var gert; sennilega langaði mig í vefmyndavél, svona eins og gengur.
Nú, þegar helmingur barnanna er fluttur til útlanda, fannst mér skyndilega nauðsynlegt að eignast vefmyndavél.... aftur.
Þegar svona tilfinning hvolfist yfir mig þá bíð ég ekki þangað til ég kemst í kaupstað næst, heldur fer ég auðvitað á Ebay og leita þar að þeirri græju sem mig langar í. Þarf yfirleitt að leita nokkuð lengi því ég er töluvert kræsinn á svona lagað.
Vefmyndavélarnar sem í boði eru skipta auðvitað þúsundum, en ég komst að niðurstöðu og hér er hún:
PS-P640 heitir þessi elska. Vissulega ekki Logitech eða Thunderstrike eða Ultimate Force, en glæsilegt kínverskt undratæki engu að síður.
Þessi kaup áttu sér stað í síðari hluta janúar og þar var síðan í gær, sem tilkynning barst um að hennar gæti ég vitjað hjá póstþjónustu Samkaups Strax, strax, sem ég auðvitað gerði og greiddi möglunarlaust vefmyndavélarverð í aðflutningsgjöld. Pakkinn, sem ég hafði séð fyrir mér sem veglegan kassa, reyndist vera umslag með sprengikúlum. Svo létt var þetta umslag að mér fannst líklegast að það hefði gleymst að setja undratækið í. Þegar ég hafði lokið þessu erindi í Samkaup Strax, hvarf ég strax heim í Hvarf með umslagið. Þar var það opnað í viðurvist frú Drafnar, sem mér til nokkurrar gremju, lét sér fátt um finnast og hélt áfram að leggja kapalinn sinn (ég held að kapallagning sé ættgeng í kvenlegg).
Já umslagið opnaði ég fullur af eftirvæntingu. Lengi vel fann ég ekkert nema kúluplast, en eftir því sem haugurinn af því stækkaði á borðinu, foru að birtast fleiri örsmáir hlutar þess sem síðar skyldi gera mér kleift að varpa hreyfimyndum af sjálfum mér, og frú Dröfn, hringinn í kringum veröldina og allt þar á milli. (þetta er sérlega mikilvægt í ljósi þess hver mataræðis er gætt vel þessa dagana og þess að þrisvar í viku er hamast í tækjasalnum).
Loks var eftir einn poki, sem var reyndar stærstur, og upp úr honum kom vefmyndavélin sjálf. Mér datt helst í hug leikfangamyndavél sem búast mætti við sem hluta af fylgihlutum í dúkkuhúsi. Vefmyndavélin er cs 3x3 cm og linsan svona um 5 mm. Klemman er stærsti hluti tækisins. Framan á vefmyndavélinni eru 6 útstæðir punktar sem mér skilst að séu ljós sem lýsa sjálfkrafa við léleg birtuskilyrði. á þetta hefur ekki reynt enn.
Jæja, nú var ekkert annað að gera en setja vefmyndavélina í stand. Í einum kúluplastpokanum reyndist vera örsmár geisladiskur sem bar titilinn DRIVER (veglegt nafn). Hann setti ég auðvitað umsviflaust í geisladrifið og taldi að nú væri allt að smella. Þegar hér var komið var frú Dröfn farin fram í eldhús eitthvað að fást við mat (áhugi og spenna þar á ferðinni).
Það var varla að geisladiskurinn sæist í fullvöxnu geisladrifinu, en ég taldi að það ætti ekki að skipta máli. Það var ekki annað að sjá diskurinn hefði verið of smár eftir allt saman, því þrátt fyrir ítrekaðar endurteknar tilraunir til að keyra inn DRIVERinn með þessum hætti, neitaði tölvan að sætta sig við hann og þar við sat. Þarna var mér farið að renna nokkuð í skap, en ilmurinn af hvítlaukskjúklingi seiddi og ég sá ekki annað í stöðunni en gera honum skil, meðan ég velti fyrir mér hvað til bragðs skyldi taka. Það hlaut að vera einhver framleiðandi að þessari blessuðu vefmyndavél. Það var þessvegna að loknu borðhaldi (og frágangi) að ég leitaði á náðir GOOGLE með málið; sló inn PS-P640 og beið orkotsstund. GOOGLE birti niðurstöðurnar - fjölmargar að vanda. Flestar vísuðu þær á eina síðu sem mér þótti fremur lítið traustvekjandi: http://www.alibaba.com/ Já þetta er ekki mislestur! Þegar hér var komið þótti mér sýnt að einhver skúrkurinn hefði nú platað inn á mig einhverju sem leit út eins og vefmyndavél geimaldar, en var það ekki í raun. Síðan alibaba.com reyndist vera heimasíða kínversks heildsala sem sérhæfir sig í tækjasölu. Í sem skemmstu máli komst ég ekkert áfram þarna - enginn DRIVER...#%&#"!
En...bíðum við. Hafði einhver ekki selt mér þessa vefmyndavél dýrum dómum? Hvernig væri að láta hann svara til saka? Nákvæmlega það sem ég gerði næst.
Fann kauða á Ebay og sendi honum svohljóðandi skilaboð:
Hi I just received item. The enclosed CD seems to be unreadable. How can I download a driver?
Svo beið ég.... framhald
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)
Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...
-
Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...
-
Það er ótvíræður kostur við þorrabót eldri borgara í Biskupstungum, að það er ekki boðið upp á dansiball með tilheyrandi hávaða þegar fól...
-
Líklega lið annars bekkjar veturinn 1971-1972. Aftari röð f.v. Helgi Þorvaldsson, Eiríkur Jónsson, Kristján Aðalsteinsson, Páll M, Skúlaso...
Þessi síða er líka lesin í Héraðsdómi Reykjavíkur.
SvaraEyðaLíst vel á -
Kv, Bergþóra Kristín
p.s. mér finnst neðra lógóið meira flott. En hvað veit ég svo sem!