18 febrúar, 2008

PS-P640 - .... út vil ek

Þó ég sé nú að verða búinn að þurrmjólka ævintýrið sem lífið hefir fært mér í gegnum vefmyndavélina ágætu, get ég ekki látið staðar numið fyrr en ég hef greint frá því hvernig fór þegar næsta skref var tekið - þegar látið var á það reyna hvort hægt væri að komast í mynd- og hljóðsamband út fyrir Hvarf með aðstoð undratækisins.

Nú finnst mér ekki ólíklegt að aðdáendum þessrar síðu fari frekar fækkandi, þar sem þessar frásagnir hafa verið afskaplega langar. Mér tekst ekki að finna leið til að sjá teljara á fjölda heimsókna þannig að í raun veit ég ekkert hve margir láta sig hafa það við og við, að kíkja hér inn, enda skiptir það ekki aðalmáli, heldur það, að ég hef skráð niður frásögnina af fyrstu kynnum mínum að litlu tæki sem kallar fram svo endalaust margar tilfinningar. Ég ætla, hér og nú að freista þess að ljúka þeirri frásögn.

Þar var komið í frásögninni, að mér hafði tekist, með hjálp PS-640 að varpa mynd af sjálfum mér yfir í IBM-inn hennar frú Drafnar, og má segja að bæði höfðum við nokkuð gaman af, þó svo við hefðum mishátt um gleði okkar.

Næsta skref var að freista þess að varpa mynd af sjálfum mér, ásamt hljóði raddar minnar í tölvu annarsstaðar en hér í Hvarfi.

Tækifærið barst mér upp í hendurnar fyrr en mig hafði órað fyrir.
Guðný says:"Hæ"
Guðný says:"Ég sé að þú ert kominn með webcam"

Þetta upphaf samtals átti sér semsagt stað í gegnum MSN - sama fyrirbæri og ég hafði sent myndina af mér yfir í IBM-inn skömmu áður. Ekki er mér ljóst hvernig ungfrúin hafði komist yfir upplýsingar um að ég væri kominn með þessa fínu vefmyndavél, en það skiptir engu.

Það sem fram fór í framhaldi af upphafsorðum Guðnýjar er heilmikill ferill og stór hluti þess afar tæknilegs eðlis, og sem ég tel ekki að gagnist frásögninni, þó vissulega gæti verið gaman að deila því með þessari síðu. Ég, sem sagt, tjáði Guðnýju að ég hygðist freista þess að senda myndræna útgáfu af sjálfum mér í hennar tölvu. Hún taldi á því vandkvæði, hefði reynt það og ekki tekist. Ég hafði hinsvegar aðra reynslu og og valdi myndsendingartakkann í samskiptaglugganum. Allt fór af stað og Guðný ýtti á accept þegar það bauðst og svo leið og beið. Ég fann það fljótt að Guðný var afar óþolinmóð gagnvart þessari tilraun og ekki leið á löngu áður en:
Guðný says: "Ertu ekki með SKYPE?"

Áfram hélt PS-P640 að reyna að ná sambandi en fátt gerðist.

PMS says: "Jú, en þarf maður ekki að borga eitthvað til að nota það?"
PMS says: "ég... ég er ekkert búinn að borga í það"
Gudný says: "það þarf ekkert að borga"
Guðný says: "ég er búin að tala við fólk út um allt ókeypis"

Jæja, það fór svo að ég opnaði SKYPE-ið mitt og og á endanu fann ég þar leið til að bæta vídeói inn í chattið. Guðný hafði þá þegar birst mér á skjánum og horfði auðvitað ekki á mig, heldur virtist hún vera upptekin við að horfa á skjáinn hjá sér!

Skyndilega poppaði PS-P640 inn á skjáinn hjá henni og samtalið hófst fyrir alvöru - eða þannig. Guðný sagði mér að það kæmi ekkert hljóð (það heyrðist ekkert í mér) bara mynd. Ég reyndi nokkra stund enn að koma hljóðinu yfir til hennar og það gerði ég með því að hækka röddina og á endanum var ég farinn að hrópa í rauða stólnum í Hvarfi og frú Dröfn leit upp til að athuga hvað væri málið. Það var bara þannig að Guðný heyrði bara ekkert í mér, enda í 90 km fjarlægð.......

Þá skelltum við okkur á MSN-ið til að leita lausna - ég var á sama tíma að leita um allt SKYPE-ið til að finna út hvernig ég gæti komið hljóðinu á. Þetta er fyrirbæri sem kallast MULTI-TASKING á fræðimáli (að gera margt í einu) og það er engan vegin mín sterka hlið. Eftir mikla leit, sem hægt væri að lýsa með mörgum orðum, komst ég að því að míkrófónnin var á MUTE!!!
Þegar ég hafði kippt því í lag hófst samtal þar sem Guðný horfði á sinn skjá og ég á minn, sem er umtalsvert sérstakur samskiptamáti.

Það sem eftir stóð var fullverkandi PS-P640 sem vonandi kemur að góðum notum á næstu mánuðum.

Lýkur hér með frásögninni af PS-P640. Þó svo hann eigi vonandi eftir að bera mig bæði til Berlínar og Perth reikna ég ekki með að aðfarirnar við það verði þess virði að fjölyrða um.

Þar með þakka ég þeim sem hafa lagt á sig að lesa.

3 ummæli:

  1. Það er aldeilis tækni tilrauni í gangi.Kveðja Sigrún systir

    SvaraEyða
  2. Vááá.

    Þetta er eins og sjá barn taka taka fyrstu skrefin.

    PMS að læra að nota PmS-P640.

    Fylgist spenntur með ;)

    Kv. Skúli

    SvaraEyða
  3. ohhhh... var búin að skrifa þetta líka fína comment, sem virkaði svo ekkert !

    En... það var ekkert erfitt að finna að þú værir með webcam, í fyrsta lagi varstu með hana tengda, svo að msn gefur það til kynna með "webcam-merki" fyrir neðan myndina af þér á msn...

    í öðru lagi var ég búin að finna bloggið þitt! :)

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...