16 febrúar, 2008

PS-P640....prufukeyrslan

Ég hef orðið var við það að fjöldi fólks um víða veröld bíður nú í ofvæni eftir því að framhald sögunnar af PS-P640 verði skráð. Ég var lengi vel að velta fyrir mér að geyma framhaldið til næstu helgar og fjalla þess í stað um ýmislegt annað sem er í pípunum, en hitinn er orðinn slíkur í áhangendum en ekki telst fært að draga þá á framhaldinu.
Það háttar þannig til í Hvarfi, að ég sit gjarnan með mína fínu og nýju Dell fartölvu á lærunum í öðrum hinna stórþægilegu rauðbleiku hægindastóla sem þar er að finna, og í hinum samsvarandi stólnum situr síðan frú Dröfn með sína gömlu, hægvirku en ennþá virkandi IBM græju, og leggur kapal, af ótrúlegum krafti og elju.
Eins og fyrr segir, var, þegar síðasta hluta sögunnar af PS-P640 lauk, staðan sú að mynd hafði náðst í gegnum þessa fínu vefmyndavél þannig að ég, sem stoltur eigandi, sá sjálfan mig á skjánum og gat auðveldlega stækkað og minnkað myndina eftir því sem ég vildi fá nákvæmari mynd af sjálfum mér. Það gætu einhverjir haldið því fram að hér væri um sjálfsdýrkun á háu stigi að ræða, en það er auðvitað ekki svo. Hér var bara um það að ræða að athuga hvað möguleika undratækið býður upp á.
Nú var komið að næsta skrefi í prufukeyrslu á tækinu góða; athuga hvort hægt væri að senda myndina góðu af sjálfum mér í aðra tölvu. Hvaða tölva lá nú beinast við? Ó, jú - var ekki eðlilegast að freista þess að senda fyrstu myndirnar yfir í IBM-inn hennar frú Drafnar. Einhver kann að spyrja hvernig það má gerast, en svarð felst auðvitað í að beita nýjustu samskiptatækni sem fólki stendur til boða (hvað annað gætu lesendur ímyndað sér að Kvistholtshjónin noti í sínum samskiptum, en slíka tækni?). MSN er orðinn daglegur samskiptamáti fjölskyldunnar og með PS-P640 var komið að næsta þrepi í framþróuninni. Í sem stystu mál þá opnaði ég sem sagt MSN samskiptagluggann á fínu DELL fartölvunni minni, sitjandi í rauða stólnum í Hvarfi, í meters fjarlægð frá frú Dröfn sitjandi í sínum rauða stól með IBM-inn sinn, leggjandi kapal. Í samskiptagluggannum valdi ég að senda skilaboð til frúarinnar og síðan valdi ég að hefja - já, auðvitað - VIDEO CALL. Það heyrðist PLING, PLING í IBM-inum þegar tilkynning kom um að ég væri þar að leita eftir sambandi. Lítilsháttar hik varð á kapallagningunni. Það næsta sem gerðist var að frú Dröfn ýtti á blikkandi takkann neðst á skjánum hjá sér þar sem hún hefur væntanlega séð:"PMS - conversation". Gluggi opnaðist við þetta á IBM-inum og athugun fór fram á því hvað væri á seyði. Frú Dröfn snerti nokkra takka og eftir nokkrar nanósekúndur birtist þessi texti á skjánum á fínu DELL fartölvunni minni: "Dröfn says: HVAÐ ER MÁLIÐ?"
..................................................................
Hvernig átti ég nú að bregðast við þessu? Þar sem sú sem sendi þessi skilaboð sat í meters fjarlægð frá mér upplýsti ég hana um hvað væri málið með þeim orðum að ég væri að athuga hvort hægt væri að senda myndina af mér í hennar IBM - tölvu. Hún þyrfti hinsvegar að samþykkja að þessi tilraunasending ætti sér stað, með því að smella á bláa stafi orðsins "accept" sem finna mætti í samskiptaglugganum. Möglunarlaust gerði frúin þetta. Leið nú og beið.
"Það er ekkert að gerast" heyrðist úr hinum rauða stólnum.
"Jú, hún er að reyna að ná sambandi", heyrðist þá úr þessum.
...enn leið og beið
... það var að því komið að kapallagningin hæfist aftur.
... spennan var að verða of mikil.
Þá skyndilega gerðist kraftaverkið: PS-P640 hafði náð í gegn af einskærri snilld. Andlit eiginmannsins, titrandi af spenningi, birtist á skjá IBM-sins. Frúin brosti, en sagði ekkert - sennilega vegna þess hve fögnuðurinn hafði ná miklum tökum á henni.
Enn hafði vefmyndavélin góða sannað ágæti sitt. Nú snéri ég linsunni í átt að frúnni og þar með gat hún séð sjálfa sig í IBM-inum sínum. Enn brosti hún af því sem túlka mátti sem barnslega gleði.
Þarna kom það sem sagt í ljós, að myndræn samskipti gátu átt sér stað milli tveggja fartölva í meters fjarlægð frá hvor annarri.
Næsta skref í tilraunasendingum með PS-P640 var síðan að gera athugun á því, hvort það sama væri hægt, ef lengra væri á milli tölvanna.
Þessi niðurstaða gaf vissulega tilteknar vonir um að það myndi ganga glimrandi vel, en það átti ýmislegt eftir að ganga á áður en svo yrði. Frásögnin af því verður að bíða um sinn.

2 ummæli:

  1. Ja hun er skemmtileg taeknin. Spurning hvernig Ps-inn virkar a milli landa. The pressure is on

    SvaraEyða
  2. Ég titraði af spenningi þegar lestur hófst á framhaldinu, og létti stórum þegar lestri var lokið. Gott að vita að þetta virkar bara :)

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...