30 maí, 2010

Askmál og annað



Það er allt gott að frétta af asknum "mínum". Út úr brumhnöppum brjótast þessa dagana laufblöðin sem munu prýða hann á þessu sumri, veita honum næringu og kraft til vaxtar.Ekki veit ég hve lengi hefur verið mögulegt að rækta tré af þessu tagi á þessum slóðum, en það er engu líkara en að það sé hér í kjörlendi.


Á þessum degi er margt hugsað, vítt um land. Þjóðin hefur sent skilaboð sín, sem ekki verða túlkuð með öðru móti en sem krafa um eitthhvað nýtt og öðruvísi. Næst 4 ára verða í mörgum tilvikum tilraunaár. Nýtt fólk fær þar tækifæri til að sýna sig og sanna. Það er sannarlega ekki það sama að berjast fyrir breytingum í minnihluta og að sitja uppi með krógann og taka ábyrgð á velferð hans og þroska.

Íbúar Bláskógabyggðar tóku þann pól í hæðina þessu sinni, að fella meirihluta, sem alveg má segja að hafi farið með stjórn sveitarfélagsins í fjölmarga áratugi, fyrst meðan það var Biskupstungnahreppur og síðan Bláskógabyggð. Hér er því um talsverð tímamót að ræða.


Það er auðvitað engum blöðum um það að fletta, að allt það fólk sem býður sig fram til setu í sveitarstjórn, gerir að vegna þess að það vill vel. Listarnir tveir sem við höfum haft úr að velja eru eflaust skipaðir þannig fólki. Ekki held ég nú að í grunnin sé neinn umtalsverður munur á þeim málefnum sem þeir hafa fram að fær, ef til vill áherslumunur og munur á vinnubrögðum. Munurinn liggur væntanlega að stærstum hluta í fólkinu sem skipar listana, ekki flokkspólitískum skoðunum þess, heldur framgöngu þess í störfum sínum, ættartenglsum og sögu.

Á þessum vettvangi tjái ég mig ekki um hvernig ég notaði atkvæði mitt í þessum kosningum. Ég vil hinsvegar óska nýjum meirihluta velfarnaðar í vandasömu, oft vanþakklátu, en einnig oft gefandi starfi.

1 ummæli:

  1. Á listunum báðum var ljúflingsfólk
    sem lengi vel þreifst hér á Blátungnamjólk
    nú biðjum þeim blessunar öllum.

    Í starfi og leik sínum líði því vel
    svo leystist öll mál og til farsældar tel
    að biðja fyr' konum og köddlum.

    Hirðkveðill yrkir eitt sinna rétt kristilegu samfélagsljóða - að loknum kosningum.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...