26 febrúar, 2011

Febrúarsól

Tveir mánuðir ársins fara sérlega illa í mig, en það eru þeir janúar og febrúar. Janúar byrjaði vel með Álaborgarbúandi herramanni, og ungann úr febrúar skein sól kraftmikillar og ómótstæðilegrar stúlku sem, breytti dimmum vetrarmánuði í geislandi vor.


Það var síðast fyrir einum sex mánuðum sem við fengum að vera samvistum við ungfrú Júlíu og í mörgu hefur hún breyst síðan þá, sérstaklega þó í því að nú var hún farin að tjá sig um hvaðeina sem fyrir bar.

Það kom í hlut eldri borgaranna að gæta geislans í einn sólarhring, eða svo, (aðallega var það nú ammamn sem sá um verkin sem þessu fylgdu, þar sem afinn taldi sig vera búinn að gleyma ýmsu sem þar kom við sögu, fyrir nú utan það, að ábyrgðin sem þarna var um að ræða kallaði á að fara eftir ýmsum leiðbeiningum sem hann hafði ekki fengið tækifæri til að tileinka sér, að því er hann vildi halda fram) sem reyndist nú verða sérlega átakalítill tími.  Ekkert það gerðist sem olli því að snótin ákallaði foreldra sína; undi bara glöð við sitt, með allt á hreinu að því er varðaði að nýta sér stöðuna sér í hag, enda í fáu til sparað af hálfu eftirlitsaðilanna að tryggja að allt færi eins vel og mögulega var unnt. Þar komu ýmsir leikmunir við sögu - ekki síst kom sér vel að eiga sitthvað í fórum sínum sem fer vel í ungum munni.


Aldeilis hreint sérlega ánægjulegar samvistir við ungfrú Júlíu.

Engin ummæli:

(Ráð)villtur unglingur með bleika plötu

Sýnishorn af plötubunkanum Ég er sennilega einn þeirra sem aldrei náði þeirri stöðu á unglingsárum, að verða svokallaður töffari. Ég var...