08 maí, 2011

Opnað fyrir sólina

Allt í veröldinni á sinn líftíma, sennilega einnig veröldin sjálf, en hér er nú ekki á ferðinni umfjöllun á svo víðum grundvelli. Þetta hófst með því að horfa að kennslumyndband á þútúbunni þar sem nákvæmlega var farið í hvernig staðið skyldi að verkinu svo ekki færi illa. Þar áður hafði reyndar átt sér stað óhemjumikil pæling þar sem reynt var að sjá fyrir sér hvert einasta hænufet í ferlinu, meira að segja var þar tekist á við spurninguna um hvort aðgerðin ætti rétt á sér, í ljósi þess að síðast þegar ráðist var í samsvarandi verk á þessum bæ, kallaði það á ramakvein suður um alla Evrópu.

Hvað um það.

Þegar andlegum undirbúningi var lokið þannig að mér sýndist að verkið yrði mér ekki ofviða, hafði ég sambandi við stoltan eiganda hins sérhæfða tækis sem ég þurfti að halda. Hann tók beiðni minni um lán á  græjunni afar vel, en hún hafði reyndar ekki verið hreyfð síðan síðastliðið sumar, svo það gæti tekið á að koma henni í stand. Með vísindalegri blöndunarnákvæmni minni og útreikningum tókst mér að finna út hvað þyrfti mikið af olíu í bensínblönduna. Ég blandaði, hellti á tankinn og fylgdi síðan leiðbeiningum um gangsetningu. Viti menn, innan ekki svo ógurlega margra tilrauna hrökk tækið í gang og malaði að mestu hnökralaust. Þá var það í höfn.

Þar sem fD hafði séð það fyrir sér að það gæti verið sniðugt að skilja eftir 2ja metra bút af stofninum til að nýta hann í einhverjum tilgangi, þurfti ég að finna ástand, og þá rifjaðist upp fyrir mér, að það ætti að vera til. Var mikið notað þegar paprika var ræktuð í Kvistholti. Ástandið fannst, hálfgerð ryðhrúga að fyrir utan þá hluta sem voru úr áli. Ég dröslaði þessu upp fyrir hús, þar sem grenitréð sem dæmt hafði verið til dauða, stóð.

Ég hef nú reyndar ekki gert mikið að því að beita vélsög á trjágróður - hafð reyndar aldrei gert það áður - og þess vegna ákvað ég að æfa mig á ómerkilegri gróðri. Etir að hafa komist að því að vélsögin lék í höndum mér, stillti ég ástandinu upp við grenitréð sem var farið að hafa óþægilega mikil áhrif á sólardýrkunarmöguleika á bænum. Ég vippaði mér léttilega upp á ástandið vopnaður söginni og hóf að gangsetja hana. Hvort það var vegna þess að æðri máttarvöld litu á þetta príl sem óásættanlegt eða bara vegna einhverrar vanstillingar, þá fór sögin bara ekki í gang. Eftir margítrekaðar tilraunir prílaði ég ofan og ákvað að reyna aftur síðar.


Löngu síðar reyndi ég aftur. Sögin fór í gang eins og ekkert hefði í skorist.

Þarna stóð ég á ástandinu, vonaður vélsög og undirbjó vandasamt verkið. Ég ætlaði á láta tréð falla í tiltekna átt, þannig að það ylli ekki skaða við fallið. Til að svo mætti verða þurfti ég, samkvæmt sérfræðingnum á þútúbu, að saga með tilteknum hætti, flís á tilteknum stað og þannig tryggja að tréð félli eins og vera bar. Sérfræðingurinn hafði líka lagt áherslu á að flóttaleiðir yrðu að vera klárar ef, þrátt fyrir öruggan undirbúning, tréð félli í aðra átt en lagt var upp með. Ég reiknaði út í huganum hvernig ég stykki, ef tréð félli þangað, og hvernig ég stykki ef það félli hingað. Allt var klárt og fD fylgdist með, þess fullviss að allt færi þetta vel eftir svo vandaðan undirbúning. Allavega lét hún ekki annað í ljós.


Vélsögin kyssti stofninn og tennurnar sörguðu sig í gegnum börkinn. Fyrst tók ég láréttan skurð tiltekna vegalengt inn í stofninn og síðan 70° skurð sem endaði þar sem fyrri skurðurinn hafði endað. Þetta var nú reyndar ekki alveg eins og á myndbandinu, því þegar hér var komið sögu var ég næstum búinn að saga alla leið í gegnum tréð og veit raunar ekki hvernig það fór að því að standa þetta af sér. Ákvað að saga ekki skurðinn á móti, eins og ég átti að gera, heldur vippaði mér niður og náði í kaðalband sem ég batt við grein. Henti mér aftur niður og beitti, með snilldarlegum hætti, "toga-slaka" aðferðinni, með þeim afleiðingum, að grenitréð féll á nákvæmlega þann stað sem ég hafði æðlað því að falla á.


Ég neita því ekki, að nú tel ég mig vera færan í flestan sjó þegar skógarhögg er annars vegar. Reyndar sit ég uppi með stirða liði, rispaða handleggi og tognaða vöðva, en að öðru leyti bara sprækur.

3 ummæli:

  1. Hirðkveðilll er harmi sleginn
    hefur bara engan veginn
    kost á tölvutækni nú.
    Glaður vildi gaspra hér
    gefst ei tími - því er verr.
    Kveðjur sendi kærar æ
    að Kvistholti - þeim unaðsbæ.

    Hirðkveðill harmar tímabundið aðstöðuleysi hvað varðar tölvur og skrif.

    SvaraEyða
  2. vegna ekki:)

    SvaraEyða

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...