25 september, 2011

Af jólatré og búð


Eftir því sem ár líða og nýtt fólk tekur við af þeim sem safnast inn á ellibelgjalistann og/eða til feðra sinna, verður alltaf ákveðið rof. Það sem var sannleikur eða viðtekið meðan séra Guðmundur var presturinn og Herra Sigurbjörn biskupinn, verður kannski ekki jafn mikill sannleikur eða jafn viðtekið þegar séra Egill er presturinn, séra Sigurður, vígslubiskupinn og Herra Karl, biskupinn. Allt er breytingum háð, annað hvort breytingum til hins betra eða hins verra. Hvort breytingar eru til his betra eða verra er síðan háð mati hvers og eins og allt það.

Þetta var háspekilegur inngangur að frekar einfaldri umfjöllun um málefni Skálholtsstaðar, en staðurinn sá hefur all oft orðið tilefni til umfjöllunar af minni hálfu. Nú í tilefni af því að þeir eru byrjaðir að byggja gervifornleifar við kirkjuvegginn; reyndar ekki beinlínis í tilefni af því, út af fyrir sig, heldur því að þessi bygging er orðin eitt af þessum málum sem allir geta haft skoðun á, meira að segja þó þeir viti ekkert hvað þeir eru að tala um. Slík mál eru mörg í þessu landi þessi árin.

Mitt hlutskipti hefur verið að lifa lífi mínu í næsta nágrenni Skálholtsstaðar allt fá fæðingu og því hef ég óhjákvæmilega öðlast talsverða þekkingu á því sem þar hefur farið fram, alla vega því sem við hér í nágrenninu höfum fengið að eða mátt vita af.

Það var ljóst alveg frá upphafi að engu mátti koma fyrir í nágrenni dómkirkjunnar, sem varpaði með einhverjum hætti skugga á bygginguna. 
- Það mátti ekki planta neins konar trjágróðri (þótt talsverður sigur þegar leyfi fékkst til að planta skjólbelti í og umhverfis nýja kirkjugarðinn, sem þó stendur talsvert miklu lægra en kirkjan. 
- Það mátti ekki merkja leiði við kirkjuna öðruvísi en með láréttum legsteinum - engir uppistandandi steinar leyfðir. Ég held að það sé búið að brjóta þessa reglu. 
- Það mátti ekki setja ljós á leiði um jól, en sú regla er úr gildi.
- Það mátti ekki setja upp upplýst jólatré í nágrenni kirkjunnar, en það tókst að afnema þá reglu og nú er oftar en ekki upplýst jólatré í forgrunni þegar opinberar myndir af kirkjunni um jól, birtast.

Sem sagt - það mátti EKKERT skyggja á bygginguna. Ég hef lært að vera sammála því, enda er hún afskaplega reisuleg of sést víða að. Rústir af einhverri Þorláksbúð fengu að vera þarna við kirkjuvegginn (ég veit ekki hvort þær eru upprunalegar, eða yfirleitt hvað þessi Þorláksbúð var, eða hvort hún var eitthvað merkileg).

Eins og ég kom inn á í innganginum, þá vill það gerast eftir því sem tímar líða og nýir herrar koma að málum, að það verður ákveðið rof. Það verður smám saman leyft sem áður var bannað, og það sem var leyft verður stundum bannað. Allt eru þetta nefnilega mannanna verk þó stundum séu notuð einhver manngerð guðleg rök fyrir þeim.  Mannanna verk eru þess eðlis að menn geta breytt þeim, guðleg rök eru þess eðlis að mennirnir geta breytt þeim.

Þannig hefur þetta verið á Skálholtsstað sem víðar. 

Það hefur verið að slakna á ýmsum þeim reglum sem settar hafa verið um umhverfi Skálholtskirkju. Það nýjasta í þeim efnum er uppbygging Þorláksbúðar (sem ég veit ekki einu sinn hvort á sér nokkra merkilega sögu), alveg við kirkjuvegginn.

Ég held að það sú nú nokk sama hvort ég fer að tjá einhverjar skoðanir á þessari framkvæmd núna. Ég er búinn að vita af henni talsvert lengi. Ég hef vissulega skoðanir, en mér finnst hálf hallærislegt, svo löngu eftir að byggingin er farin af stað, að fara að blása eitthvað um hana. Það sem ég leyfi mér að gagnrýna er hversu hljótt hefur verið um þetta verk á þessum einum mesta sögustað þjóðarinnar. Þá finnst mér ástæða til að velta fyrir sér þessu Þorláksbúðarfélagi, sem ég hef ekki heyrt af fyrr en fyrir nokkrum dögum. Er það eitthvert leynifélag?

Ég ætla nú ekki að tjá mig um hugsanir mínar í tengslum við aðkomu Þingmannsins okkar Sunnlendinga að þessu máli. 

Skyldi þessi framkvæmd vera einn leiðarsteinninn í átt að formlegu afnámi klappbannsins?

1 ummæli:

  1. Mér skilst að nú sé líka farið að hvetja til þess af æðstu mönnum kirkjunnar að tónleikahaldarar í Skálholtskirkju fari að selja inn á tónleika til að hafa upp í kostnað. Þetta segja mér staðkunnugir.
    Bkv. Heiða

    SvaraEyða

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...