03 júlí, 2012

Ég tilheyri jákvæða fólkinu

Í morgun var mér tjáð á FB, að ég tiheyri þeim hópi fólks sem kallast, meðal tiltekins hóps fólks, "jákvæða fólkið"  
"Efast um að ég eigi eftir að fjalla mikið um kauða:) - nema þá helst til að stríða ykkur jákvæða fólkinu aðeins:)"
Mér þykir mikið til um að vera flokkaður í svo ljúfan hóp, en er jafnframt ekkert hissa, svo einstaklega jákvæður sem ég nú er, sem er í rauninni stórmerkilegt þar sem ég hef tilheyrt minnihlutahópum í flestum skilningi svo lengi sem ég man eftir mér. 
Kannski kemur jákvæðnin einmitt til af því að tilheyra minnihluta, hafa skoðanir sem ganga gegn því sem meirihlutanum finnst. Ef ég hefði, í hvert sinn sem ég hef tapað fyrir meirihluta, lagst í þunglyndi, væri ég líklega í vondum málum í dag. Ég hef hinsvegar nýtti töpin til að sannfæra sjálfan mig um, að sá dagur komi, að ég tilheyri meirihluta sem ég er sáttur við. Með því að stefna stöðugt að því markmiði, getur það ekki framkallað aðra tilfinningu en jákvæðni. 

Það er mér fjarlæg hugsun að ganga í lið með meirihlutum - þeir hafa ekkert það til að bera sem ögrar eða ýtir undir - þar fljóta menn með og verða sinnulausir og gagnrýnislausir þrælar leiðtoga sinna; apa eftir þeim orð og gerðir. Líf þeirra verður hugmynda og hugsjónasnautt. Þarna er fólkið sem segist vera ópólitískt, þeir sem eru orðnir svo dofnir í blindri trú sinni á sterka leiðtoga, að þeir kunna ekki að fjalla um skoðanir sínar, sem kannski eru engar. 

Nei, ég vil ekki tilheyra meirihluta þar sem ég gæti orðið skoðanalaus og sinnulaus og lifði þar með, á margan hátt, tilgangslausu lífi. Ég vil  frekar tilheyra "jákvæða fólkinu" þó það kosti sitt, þar sem það er  dæmt til að vera alltaf í minnihluta, einmitt vegna þess að þar hefur fólk svo sterkar skoðanir að það er síður tilbúið til að ganga þann veg sem einhverjir aðrir leggja. 

Það getur haft ýmislegt í för með sér að tilheyra þessum góða hópi. Til dæmis fela sterkar skoðanir í sér að maður hafnar ýmsu eða neitar sér um ýmislegt á grundvelli þeirra. Oftast er það bara jákvætt og uppbyggilegt, eins og það að sleppa því að lesa tiltekið dagblað. Sterkar skoðanir geta haft í för með sér að aðrir líta á mann sem sérvitring, en það er í flestum tilvikum fremur jákvætt en hitt að bera slíkan stimpil.

Lifi skoðanir, lifi jákvæðnin og lífsgleðin.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...