02 júlí, 2022

Kórferð - heit og áhrifamikil (7)

... framhald af þessu.

Litla hugmynd hafði ég um það sem framundan var, þar sem ég sleikti sólskinið á sundlaugarbakkanum á Hótel Oliveto að morgni og fram eftir degi  7. dags Ítalíuferðarinnar (24. júní) sem hér hefur verið til umræðu. Jú, ferðaáætlunin greindi frá því að síðdegis lægi leið okkar til San Martino della Battaglia þar sem ein stærsta orrusta fyrir tíma heimsstyjaldanna átti sér stað og sem varð til þess að Ítalía varð að einu ríki. Jú það var talað um litla beinakapellu, og Rauðakrosssafn. Þá var tilgreint að veitingastaðurinn sem við ætluðum að fara á væri þarna á svæðinu.  Svo hélt ég bara áfram í sólbaðinu og öðru því fylgir því að skjótast í skemmtiferð til Ítalíu. 


Klukkan 17.30 á þessum degi var lagt í hann til San Martino della Battaglia til að snæða mikinn hátíðarkvöldverð, enda síðasta kvöld ferðarinnar og mikið stóð til.  Þegar við komum á staðinn lá leiðin fyrst í litla kapellu, svokallaða beinakapellu, sem kallast Ossario di san Martino. Það sem við blasti þar innan dyra var ekki alveg það sem ég hafði búist við. Veggurinn þar sem altari er venjulega að finna, var mótaður úr ótal hauskúpum fallinna hermanna í orrustunni miklu og ef litið var niður sáust á neðri hæð staflar af beinum þessara hermanna.  

Að sögn fararstjórans kviknaði hugmyndina að þessari minningarkapellu eftir að stöðugt voru að finnast fleiri líkamsleifar fallinna hermanna á svæðinu árin eftir orrustuna.

 


Orrustan við Solferino (24.  júní, 1859)
Úrslita átökin í stríðinum um sameiningu Ítalíu í eitt ríki. Þjáningar særðra hermanna, sem fengu enga aðhlynningu urðu kveikjan að stofnun Rauða krossins.
Frakkar of Sardiníumenn undir stjórn Napóelons II börðust við Austurríkismenn. Fyrstu skotunnum var hleypt af um klukkan þrjú um nóttina og klukkan sex var orrustan háð af fullum krafti. Sumarsólin skein á um það bil 300.00 hermenn sem slátruðu hver öðrum. Síðdegis tóku Austurríkismenn að hopa af vígvellinum og um kvöldið var vígvöllurinn þakinn líkum meira en 6000 hermanna og 40000 særðir lágu eins og hráviði um völlinn.
Kórinn í Ossario kapellunni (mynd Garðar Már Garðarsson)

Sjúkralið Frakka og Sardiníumanna réði engan veginn við verkefnið sem við blasti; franski herinn hafði færri lækna á sínum snærum en dýralækna, engin flutningatæki voru fyrir hendi og hjúkrunarvörur höfðu ekki verið í farteskinu. Þeir hinna særðu, sem það gátu, komu sér til þorpsins Castiglione, sem var í nágrenninu til að leita matar og vatns, en þangað komust um 9000 manns sem ollu yfirþyrmandi álagi á þorpið og þorpsbúa. Í kirkjunni, Chiesa Maggiore, sinntu Henri Dunant og þorpskonurnar hinum særðu og deyjandi í þrjá daga og þrjár nætur. (vefsíða ICRC - Alþjóða Rauða krossins)

Þarna í San Martino er að finna turn sem reistur var til minningar um Viktor Emmanúel II konung og þá sem börðust á árunum 1848-1870 fyrir sjálfstæði Ítalíu sem ríkis. Hann stendur á hæstu hæðinni í San Martino. Hæðin náðist og tapaðist í ítrekuðum árásum í grimmilegum bardaganum og það var loks her Sadiníumanna sem náði henni og hélt.

Allt um það. Eftir að hafa orðið fyrir talsverðum áhrifum af  þessari ógnvænlegu sögu lá leiðin í veitingastað þar sem fimm rétta máltíð var borin fram, sungið og ávörp flutt, áður en heimleiðis var haldið til að gista síðustu nóttina á Ítalíu. 

Ekki neita ég því að ég leiði hugann að því, eftir að hafa komið á þennan stað, að landamæri þjóða hafa orðið til með því að úthella blóði æskumanna, enn þann  dag í dag.

Svo var bara að svífa inn í svefninn og halda áfram með lífið.



 



 




01 júlí, 2022

Kórferð - heit og áhrifamikil (6)


... framhald af (1), (2), (3), (4) og (5)

"O Romeo, Romeo,
wherefore art thou Romeo?
Deny thy father and refuse thy name,
Or if thou wilt not, be but sworn my love,
And I’ll no longer be a Capulet."

 Fram undir kl. 16 á þessum ágæta degi, 22. júní, 6. degi ferðar kirkjukórs úr Flóanum til Ítalíu, var mikilvægt að nýta tímann vel, enda ferðafólkinu frjálst að taka sér það fyrir hendur sem best hentaði. Sumum þótti henta að leigja sér reiðhjól á hótelinu og bruna á rafknúnum (eða fótstignum) fararskjótum um nágrennið, eða bara "fara eitthvað og gera eitthvað", eins og stundum er sagt á þessu heimili. Við fD og allmargir aðrir, töldum hinsvegar tíma okkar betur varið á sundlaugarbakkanum eða ofan í lauginni, enda mikilvægt að safna D-vítamíni fyrir veturinn og að ná sér í aðeins fegurðaraukandi brúnku fyrir óperusýninguna miklu sem framundan var.  Ský voru þarna farin að skyggja á sólina við og við, svo þetta var allt eins og best varð á kosið. Hlé gerðum við á sólböðum um miðjan dag til að leggja steini lagðar gangstéttir til miðbæjarins undir fót. Þar nutum við matar, Aperol spritz og Negroni í miklu hófi áður en leið okkar lá aftur á hótelið, til andlegs undirbúnings fyrir ferðina til Verona.

Rauðu hringirnir vísa á heimili Rómeós og Júlíu

Verona er borg elskenda, þar sem þar eiga að hafa gerst þeir atburðir sem urðu Shakespeare að yrkisefni í leikritinu "Rómeó og Júlía" eins og allir ættu nú að vita. Ég neita því ekki, að það hefði verið gaman að eyða öllum deginum í þessari borg til að kynnast sögusviðinu. Á kortinu hér til hægri má sjá (rauðir hringir) heimili þeirra Júlíu og Rómeós.  Eftir á að hyggja hefði heill dagur í borginni auk óperusýningarinnar sennilega orðið heldur stór biti að kyngja og það verður því að bíða betri tíma. 

A  I  D  A   í  Arena di Verona

Hringleikahúsið mikla sem leið okkar lá í, var byggt árið 30 e.Kr og man því tímana tvenna. Það skemmdist talsvert í jarðskjálfta árið 1117, en þá hrundi ysti hringur byggingarinnar.  En, hvað um það, fólksflutningabifreiðin sótti hópinn á hótelið kl. 16 og þá kom í ljós, að einhverjir úr hópnum ætluðu bara hreint ekki að leggja í þessa ferð, sem kom mér nokkuð á óvart, þar sem ég hafði litið að þetta sem hápunkt þessarar utanlandsreisu. Auðvitað má fólk hafa mismunandi skoðanir á þessu sem öðru og að ýmsu leyti gat ég skilið - óperur eru ekki allra og ég get ekki hreykt mér af því að vera mikill óperuunnandi, þó svo ýmsir hlutar margra þeirra séu meðal fegurstu perla tónbókmenntanna.  Ég var ekki mikið búinn að kynna mér söguþráð þessarar óperu fyrirfram, en vissi að þar mátti finna ýmsa perluna, eins og t.d. þetta: SIGURMARSINN

Á Castelvecchio brúnni
Ekki segir af þessari ferð fyrr en til Verona var komið. Fólksflutningabifreiðin flutti okkur yfir ána  Adige, og setti okkur út þar sem gula brotalínan sýnir á myndinni hér fyrir neðan. Þaðan gengum við aftur yfir ána um Castelvecchio brúnaog síðan lá leiðin eftir Rómarvegi (Via Roma) allt þar til komið var á torgið og að styttu Viktor Emanúels II, en þar skyldi fólkið hittast á fyrirfram ákveðnum tímum, svo allt færi nú ekki í vitleysu í mannmergðinni sem væntanleg var á þetta torg þegar nær drægi sýningunni, en Arenan mun taka um 22.000 manns í sæti.


Eftir að hópurinn hafði fengið að teygja úr sér og jafnvel fengið sér eitthvað í gogginn, svo ekki sé nú minnst á Aperol spritz, kom hann saman við styttu Viktors Emanúels, þar sem talning fór fram, en síðan leiddi fararstjórinn kórfólk og maka eins og leikskólabörn að hliði nr. 61. Það varð að klára allt vatn sem var með í för og fara í gegnum vopnaleit, en þar sem við höfðum ekki tekið með okkur neina hríðskotariffla eða handsprengjur, sluppum við öll nokkuð auðveldlega í gegn. Eftir það hófst ganga niður tröppur og síðan upp mjög brattar tröppur, áður en sjálf dýrðin blasti við og það var nú bara talsvert magnað, skal ég segja ykkur. Við fD fengum sæti á fremsta bekk (sjá rauða punktinn á myndinni fyrir ofan) og vorum heppnari en margur annar að því leyti. Þau sem sátu fyrir ofan okkur greindu frá því að stutt væri í sætisbökin fyrir framan þau og fyrir einstaka í hópnum, sem voru óþarflega langleggjaðir fyrir slíkar aðstæður, reyndust sætin nánast óbærileg. Þau voru úr járni og ófóðruð með öllu, þannig að það var nauðsynlegt að hafa með sér rasspúða, sem seldir voru fyrir utan Arenuna og auðvitað höfðum við fD haft vit á því. 


Rétt í þann mund er óperan var að byrja, gengu í salinn glæsikvendi með fylgdarliði og þar sem þær nálguðust sviðið hófust myndatökur með þær í forgrunni, sem stóðu yfir allt þar til fyrstu tónar forleiksins liðu um hringleikahúsið.
Ég ætla nú ekki að fara að fjalla um um þessa óperusýningu, listfræðilega, enda hef ég lítið vit á þessu listformi. Ég get þó sagt, að uppsetningin var stórfengleg og textinn sem sunginn var, birtist á stórum skjá (sjá efstu myndina), sem hjálpaði mikið til við að skilja það sem fram fór. 


Vegna þess að ég þekki aðeins til tenóra, verð ég að segja það að ég var ekkert sérlega hrifinn af þeim sem þarna söng hlutverk Radamésar, en þar mun hafa verið um að ræða tenór að nafni Yusif Eyvazov frá Azerbaijan, sem mun vera svo heppinn að vera maki hinnar stórfrægu sópransöngkonu Önnu Netrepko, sem til skamms tíma var ein aðal söngkonan í Metropolitan óperunni í New York, en mun hafa horfið þaðan eftir að Pútín réðst inn í Úkraínu. Þarna vorum við, sem sagt komin í óbeina tengingu við heimsmálin og þær hörmungar sem saklaust fólk þarf að líða vegna vitbrenglaðs einræðisherra. Mér fannst rödd Yusufs ekkert sérstök sem sagt, hvað sem líður Pútín og brölti hans.

Þetta kvöld var mikil upplifun og er ánægður með að það skyldi hafa verið hluti af dagskrá þessaarar Ítalíuferðar, þó svo ekki geti ég sagt að ég hafi verið yfir mig hrifinn af öllu, og hafði vissan skilning á sessunaut mínum (altso hinum, en ekki fD) sem lýsti því yfir í hléi, að hún/hann væri bara farin(n), en fór þó ekki. 

Klukkan var að verða tvö um nóttina þegar við komum heim á hótelið, örþreytt auðvitað, en þetta var aldeilis ekki búið. 







30 júní, 2022

Kórferð - heit og áhrifamikil (5)

Athugasemd neðst, ef athugasemdar er þörf.
...framhald af  (1), (2), (3) og (4)
Ja, hvað skal segja?  

Feneyjadagur
Ekki varð annað séð, að morgni 5. dags þessarar kórferðar (22. júní), en að fólk hefði haft sæmilegt taumhald á sér á Borgo la Caccia kvöldið áður. Enginn svaf yfir sig, sem var eins gott því þarna var dagurinn tekinn snemma og framundan heill dagur Feneyjaferðar. 
Feneyjar kallast Venezia á máli innfæddra. Fólksflutningabifreiðar þeirra Ítala eru af nýjustu og bestu gerð og bílstjórarnir alla ferðina stóðu sig óaðfinnanlega. Ferðin til Feneyja var hinsvegar dálítið löng, kannski vegna þess að þar höfðum við fD verið áður, í lúxusferð með Hófí hjá  Bændaferðum á fljótandi hóteli. Við  reiknuðum ekki með að sjá eitthvað nýtt þarna, sem varð svo sem raunin.

Hinsvegar reyndum við að hegða okkur eins og við værum orðin heimavön og lá nærri nokkrum sinnum að það yrði dýrkeypt, en ekki svo nærri að það sé umfjöllunarvert hér. 
Eftir að strætóbátur hafði skilað hópnum á bryggju skammt frá Markúsartorginu, gekk hópurinn, eftir miklar brýningar um tímasetningu á brottför síðdegis, sem leið lá að torginu þar sem hina frægu basíliku heilags Markúsar er að finna.  Við fD höfðum, held ég, ætlað okkur að fylgja bara hópnum til að njóta leiðsagnar fararstjórans inn á torginu, en það fór á annan veg, þar sem náttúrukraftar gripu í taumana, með þeim afleiðingum að ég og tveir aðrir eiginmenn, stóðum og biðum frúnna þriggja sem hurfu inn þrönga götu, eftir að hafa séð skilti á vegg, sem á voru letraðir stafirnir W og C.
Sá staður sem hér var um að ræða, reyndist vera talsvert lengra í burtu en vonast hafði verið eftir og því var hópurinn horfinn veg allrar veraldar, þegar aðgerðum lauk og frúrnar snéru til baka. Eftir þetta vorum við fD bara þarna á röltinu, aðallega eftir rangölum borgarinnar, stöðugt ögrandi ratvísinni eða til að kíkja í eitt og eitt glas af Aperol spritz eða Negroni (annar ofurvinsæll sumardrykkur þarna syðra).  
Þegar upp var staðið vorum við búin að þræða ótrúlegustu rangala, en hefði getað gengið betur að villast. Þarna í Feneyjum eru nefnilega tveir aðal staðir sem fólk verður að fara á: Markúsartorgið og Rialto brúin. Milli þeirra liggur sannarlega ekki bein leið, eins og glöggt má sjá af kortinu hér vinstra megin.

Það kom sér því sannarlega vel, þar sem við fikruðum okkur frá Markúsartorginu að Rialto brúnni og síðan til baka, að búa yfir þeirri grundvallar þekkingu, að Feneyingar hafa fyrir löngu sett upp merkingar á húsveggi, sem eiga að koma í veg fyrir að fólk verði til í rangölum borgarinnar. Þannig segja þessi skilti annaðhvort "PER RIALTO" (til Rialto) eða "PER S. MARCO" (til Torgs heilags Markúsar) með örvum í viðeigandi áttir og svei mér ef þetta bara virkar ekki fullkomlega. 

Klukkan 17.20 var brottfarartíminn settur og þá skyldu allir ferðalangarnir vera komnir að skýrt tilgreindri bryggju, tilbúnir að stíga um borð  í strætóbátinn. Aðdragandinn að því að þessi tími rynni upp var nokkuð spennuþrunginn. Þurfti mögulega að senda leitaflokka eftir einhverjum ferðafélögum? Hafði kannski einhver lagt sig og gleymt að láta símann hringja? Hafði Aperol spritzið reynst einhverjum óvenju gott?
Ótal spurningar, en fátt um svör. Það þarf ekki að fjölyrða um  það, að allur hópurinn var mættur á tilgreindum stað vel fyrir tilgreindan tíma, eins og Selfyssinga er siður. Það vantaði í rauninni bara einn, þar sem óðum nálgaðist brottfarartímann: sjálfan fararstjórann! Hvað væri þá til bragðs að taka? Strætóbátsbílstjórinn var farinn að spyrjast fyrir um ábyrgðarmann hópsins og það var farið að fara lítillega um, allavega einhverja samviskusama, en auðvitað birtist týnda dóttirin svo 15 sekúndum fyrir réttan tíma og allt féll í ljúfa löð og strætóinn flutti þennan túristahóp yfir að rútustæðinu. Þaðan lá leið aftur til Desenzano. 
Þó svo ég hafi ekki ætlað að minnast á veður, þá var það þennan daginn afar þægilegt, skýjað að mestu og hitinn einhvern slatta fyrir neðan 30°C. 
Þar sem svefninn tók við þreyttum ferðalöngum, má reikna með að þeir hafi farið í gegnum næsta kvöld í huganum, fullir af spennu, kvíða eða tilhlökkun, eða bara öllu í bland.



Myndin efst, var reyndar tekin árið 2018 og síðan "lagfærð" í Photoshop. Sem sagt "falsfrétt".

Kórferð - heit og áhrifamikil (4)


... framhald af (1), (2) og (3)
Það má segja að upptakturinn að kvöldi þessa 4. dags ferðarinnar, (21. júní) hafi bara verið, eða hefði getað verið  rólegur og þægilegur. Að loknum staðgóðum morgunverði, lögðumst við fD á sundlaugarbakkann, þar sem óhindrað sólarljósið fékk að leika um flesta líkamshluta, en vandlega sáum við til þess að snúa okkur með reglulegu millibili, milli þess sem sundlaugarbarinn var heimsóttur til að nálgast Aperol spritz, sem mun vera nokkurskonar tískudrykkur þarna syðra. 

Þar kom þó, að ekki þótti okkur ráðlegt að ögra húðinni með of miklu sólarljósi þennan daginn og úr varð, gagnstætt því sem ákveðið hafði verið um morguninn, að rölta í bæinn til að sækja þar vikulegan markað, sem reyndist ekki vera neinn smá markaður - náði yfir um kílómetra leið með ströndinni. Ég held að mér sé óhætt að fullyrða, að langt er síðan ég hef séð jafn mikið af kvenfatnaði. Nánast hver einasti bás reyndist sneisafullur af flíkum handa konum. Í einum eða tveim mátti sjá eitthvað sem körlum var ætlað og þar fyrir utan rakst maður á bása með einhverju dóti. Við gengum þennan markað nánast á enda án mikillar uppskeru, enda ekki um að ræða verslunarferð til Ítalíu, heldur menningarlega kirkjukórsferð.
Eftir harla hlýja gönguna á markaðinn tókum við séns á smávegis sólböðum, en lágum þó frekar undir sólhlíf eða tókum sundsprett í lauginni - hið ljúfa líf, sem sagt, eða eins og Ítalir segja "la dolce vita". 

Þegar sá tími kom hófst undirbúningur fyrir kvöldið, en þar stóð í ferðaáætlun, að um væri að ræða "vínsmökkun og kvöldverð". Hljómaði ósköp venjulegt, svo sem. Við höfðum áður tekið þátt í þannig samkomum og þóttumst vita hvað þetta myndi fela í sér. Þetta reyndist þó ekkert sérlega venjulegt.

Vínsmökkun og kvöldverður
Fólksflutningabifreiðin flutti hópinn sem leið lá á vínbúgarðinn Borgo la Caccia, en myndir frá þeim stað má sjá hér. Það sem ég hélt að væri bara svona venjulegur vínræktandi reyndist vera ótalmargt annað. Þessi búgarður er ekki gamall í núverandi mynd, en eftir því sem mér skildist var að einhver vellauðugur maður sem keypti jörðina og hóf þar uppbyggingu af miklum krafti og vínframleiðslan hefur margfaldast síðan.
Fræðst um vínvið

Stór hluti starfseminnar snýst einnig um að hjálpa ungu fólki sem hefur villst af leið í lífinu, til að finna aftur fótfestu í lífinu. Því er boðin vinna þarna og ekki bara við vínframleiðslu, enda er ýmislegt annað ræktað og önnur starfsemi stunduð. Til dæmis er rekið trésmíðaverkstæði, mikil ferðaþjónusta (vínsmökkun, viðburðir og hátíðir af ýmsu tagi) og elliheimili fyrir veðhlaupahesta sem koma víða að úr Evrópu til að njóta elliáranna og gefa af sér efni til framleiðslu á nýjum veðhlaupahestum. 
Þó svo stór hluti húsnæðisins virðist vera frá 15 öld, þá er það ekki svo. Þarna hefur nýtt verið byggt úr gömlu, héðan og þaðan frá Ítalíu.  
Hluti forréttanna
Eftir leiðsögn um svæðið var hópurinn leiddur inn í stóran sal sem var nánast konunglegur, þar sem langborð svignaði, og vínglösin stóðu í röðum. Mér varð svo mikið um, að ég tók enga mynd á símann minn, en hér fylgir myndskeið sem ég fékk lánað, með réttu eða röngu, sem Lýður Pálsson tók við þetta tilefni. Þarna eru ferðalanganir sestir að borðum og njóta veislufanganna.  Ég var nú ekki betur að mér en svo, að ég taldi forréttina vera allt sem borið yrði þarna á borð, en það var hreint ekki svo. Eftir þá var borin fyrir okkur réttur sem faðir minn hefði kallað "kássu", en sem mér og fleirum fannst bragðast bara nokkuð vel (ég veit um fólk, hinsvegar, mér tengt, sem var ekki frá sér numið). Loks var svo borinn fram ágætur eftirréttur, gott ef það var ekki "tiramisu", en um það þori ég ekki að fullyrða, enda var þá búið að "smakka" vín úr glösunum fimm, sem sjá má á efstu myndinni.
Vín frá Borgo la Caccia, komið
á Selfoss.


Eftir matinn lá leið í vínkjallarann og lagið tekið, og síðan upp í móttökusal, þar sem lagið var tekið líka og þá við meðleik eða undirleik píanóleikarans sem var með í för.
Sá fékk í ferðinni ítrekaðar ákúrur fyrir að vera ekki með píanó með sér og í það minnsta tvisvar "rak" kórstjórnandinn hann af þeim sökum - eða þannig hljóðuðu orðin, allavega. 
Eftir víninnkaup lá svo leið aftur á Hótel Oliveto í Desenzanobæ og við tók nætursvefn, enda strangur dagur framundan - Feneyjaferðin mikla.





 


29 júní, 2022

Kórferð - heit og áhrifamikil (3)


Framhald af  Kórferð - heit og áhrifamikil (1) og Kórferð - heit og áhrifamikil (2)

Þriðji dagur (20.06.): Sigling á Gardavatninu og annað það sem á daginn dreif
Þetta var eiginlega svona fyrsti alvöru ferðadagurinn og eins gott að hafa gengið tiltölulega hægt um gleðinnar dyr í útikvöldverðinum. Það var lagt af stað árla, eða upp úr kl. 6 að íslenskum tíma, því framundan var sigling með strætó þeirra Gardavatnsbúa, sem átti að taka ungann úr deginum. 
Þetta hófst með göngu niður að ferjuhöfninni í Desenzano, um 1,5 km. leið og þar var gengið um borð í ferju sem sinnti bæjum á austurströnd þessa mikla vatns.
FFP2 andlitsgríma

Til þess að fá að fara um borð, þurftu farþegar að setja upp ffp2 andlitsgrímu til varnar C-pestinni, en kaup á slíkum varnarbúnaði höfðu verið framkvæmd á landinu bláa, eins og fyrir hafði verið lagt fyrir upphaf ferðar. Þetta voru sko alvöru grímur CE-vottaðar í bak og fyrir.
Þessi grímunotkun var nú eitthvað sem fólk umgekkst eins og ákveðinn leikþátt, sem fólst í því að setja búnaðinn upp ca. 5 metrum áður en stigið var um borð og taka niður ca. 5 metrum eftir að um borð var komið (en hvaða efni hef ég svo sem á að gera lítið úr mikilvægi grímunotkunar?).
Upphaflega stóð til að sigla til bæjarins Sirmione, sem ku vera afar fagur og merkilegur, og ekki varð annað séð, þar sem við áttum þar stutta viðdvöl meðan farþegar þangað fóru frá borði (aðrir en við) og aðrir gengu um borð.  
Ástæða þess, að fararstjórinn hætti við að eyða deginum í Sirmione, eins og til stóð, var einfaldlega yfirþyrmandi hitinn sem spáð hafði verið að yrði þennan dag við Garda vatnið. Ég geri fastlega ráð fyrir að þarna hafi fararstjóranum ekki litist á að leiða eldri borgarana í ferðinni um Scaligero-kastalann, Grotte di Catullo hellana eða heimili Mariu Callas. Lái henni hver sem vill. Við eigum allavega eftir að heimsækja og kynna okkur Sirmionetangann.

Bardolino - einn viðkomustaðurinn
Þarna héldum við síðan áfram með austurströnd vatnsins mikla og komum við í helstu bæjum, án þess að fara frá borði. Ég viðurkenni að ég veit ekki alveg hver margir þeir voru og því kann að vera, að myndin sem fylgir hér neðst, sé ekki allskostar nákvæm.  
Það var ákveðið, að við myndum sigla til smábæjarins Garda, sem vatnið dregur væntanlega nafn sitt af, borða þar og njóta dvalarinnar að öðru leyti. Þetta varð úr. Hópurinn steig frá borði eftir að ferjan hafði lagt að bryggju. Jú, það var vissulega nokkuð hlýtt .


Pizzamálið mikla.
Þar sem komið var hádegi lá fyrir að snæða eitthvað og því vorum við fD varla komin frá borði þegar við fórum að tillögu fararstjórans, eins og fleiri og settumst inn á veitingastaðinn El Refol, sem var nánast sá fyrsti sem bið komum að. Þarna settumst við við borð og fengum í hendur matseðil, eins og venja er á svona stöðum. 
"Mig langar í pizzu" tilkynnti fD og þar með var sjónum fyrst og fremst beint að þeirri tegund rétta, enda Ítalir þekktir fyrir pizzurnar sínar, enda fundu þeir þær víst upp. Það kom einhvernveginn í minn hlut, að renna yfir matseðilinn í leit að góðum pizzum og eftir nokkurt japl og jaml varð niðurstaða um að panta sitthvora tegundina, sem við gætum svo skipst á að snæða: Pizza Romana og Pizza Calzone. Þetta átti aldeilis eftir að verða sögulegt.
"Dj.... ógeð, ég ét þetta sko ekki!", var það fyrsta sem fD varð að orði eftir að hafa tekið fyrsta bitann af  Pizza Romana, sem lenti hjá henni. "Það er ógeðslegur fiskur í þessu!" hélt hún síðan áfram. Þetta þýddi bara eitt: Pizza Calzone, sem hafði lent mín megin á borðinu, svo sérstök sem hún nú var útlits, var flutt yfir til fD og ég fékk meinta fiskpizzu í fangið til skoðunar.  Ég smakkaði og án þess að beita jafn kjarnmiklu orðfæri og fD, tók ég til við að reyna að fjarlægja ansjósurnar af pizzunni og þar með meginhlutann af ostinum líka. Ansjósubragðið hvarf þó ekki og þar með var útséð um að þessari fiskpizzu yrðu gerð frekari skil. Pizza Calzone var hinsvegar ágæt, þrátt fyrir óvenjulegt útlit. Segir ekki meira af þessu borðhaldi, en ég tók og tek á mig ábyrgð á að hafa pantað þessa Pizzu Romana, aðallega vegna þess að hún leit út fyrir að vera sérlega einkennandi fyrir ítalska matarmenningu. Hefði ég ekki gert þau grundvallar mistök, að hafa ekki lesið innihaldslýsinguna nægilega vel, hefði þetta borðhald liklega farið öðruvísi.


Töskumálið mikla
Eftir borðhaldið tók við rölt um Gardabæinn og fljótlega varð niðurstaða um kíkja inn í eina af hliðargötunum sem þarna voru, þar sem sólin ekki skein. Hliðarástæða var síðan, að kíkja á þann varning sem þar var að finna.
Þannig var háttað, að léttur bakpoki, sem til er á heimilinu, hafði gleymst þar og því ekki um annað að ræða, til að flytja með sér vatn og aðrar nauðsynjar, en umhverfisvænan plastpoka. Það þykir ekki sérlega "smart".  Af þessum sökum beindust sjónir fljótlega að bakpokum af ýmsu tagi í áðurnefndri hliðargötu. Ekki var ég nú lengi að finna afar álitlegan poka á tvöþúsund krónur. Af einhverjum ástæðum reyndist fD ekki fullsátt og vildi halda áfram leit að hinum fullkomna poka. Það var auðvitað úr. Þarna tók síðan við heilmikill göngutúr í stóran hring og um flestar hliðargötur bæjarins, í leit að poka sem uppfyllti einhverjar ótilgreindar kröfur um poka sem bæði væri hentugur til að bera í vatnsflöskur og "smart". Það þarf ekki að fjölyrða um það, en við enduðum á þeim stað þar sem ég hafði áður fundið pokann sem mér leist vel á. Ég tók umræddan poka fór inn í búðina og greiddi uppsett verð og málið var þar með dautt. Vissulega fengum við út úr þessu ágætan göngutúr um hliðargötur Garda og það er alltaf gott að hreyfa sig. Pokinn "minn" dugði vel alla ferðina eftir þetta og mun duga inn í óvissa framtíð, ef að líkum lætur. 
Það leið að brottför og síðdegið við glitrandi Gardavatnið, þar sem beðið var ferjunnar sem skyldi flytja hópinn til baka til Desenzano, með viðkomu í sömu bæjum og fyrr, var ofurhlýtt.

Fyrirsætan
Ég efast um að þessi þáttur eigi heima hér, en ég læt hann samt fylgja, þó ég skammist mín nokkuð fyrir aðgerðaleysi mitt.
Það fór ekki hjá því að á siglingunni færi maður að fylgjast með öðru en bara útsýninu til bæjanna og móðuhulins fjallahringsins. Aðrir farþegar komu einnig til nokkurrar skoðunar, þar á meðal par sem birtist í skut ferjunnar, líklega að nálgast fimmtugt. Konan hóf að stilla sér upp í skutnum með hvítan hatt og sólgleraugu, meðan karlinn myndaði hana í gríð og erg. Hún var hreint ekki óaðlaðandi, en var greinilega þeirrar skoðunar sjálf, að fegurri mannvera hefði varla stigið á þessa jörð. Þær fyrirsætustellingar sem hún kom sér þarna í fyrir framan karlinn, sem myndaði af óblandinni aðdáun, fóru talsvert út fyrir það sem mér finnst við hæfi hjá fullorðnu fólki. Sjálfsdýrkun af þessu tagi er því miður orðin ansans ári áberandi í þessum nútíma okkar.  Hvað um það, einhverju síðar sá ég þetta par síðan inni á dekki sitjandi í einni sætaröðinni. Hann, ósköp lúðalegur, greyið, lengst til vinstri, þá strákur á að giska 6 ára, þá fyrirsætan og loks stelpa sem var líleg 8 ára. Það sem varð til þess, að ég tók eftir þeim þarna var löðrungur, sem fyrirsætan veitti stráknum, en hann mun ekki hafa hegðað sér alveg eins og henni þóknaðist. Þessi samskipti þeirra héldu svo bara áfram með sama hætti og hún sló hann ítrekað, og öskraði á hann, en hann reyndi að komast í vatnsflösku, sem hann mátt víst ekki drekka úr og tárin voru farið að renna, en áfram hélt fyrirsætan og öskra og slá. Karlinn sat vandræðalegur meðan á þessu stóð og mér stóð ekki á sam og reyndi að horfa eitthvert annað. Átti ég að skerast í leikinn - eða kom mér þetta bara hreint ekki við. Það sat fólk þarna allt í kring og enginn gerði neitt.  Á endanum fóru skötuhjúin aftur aftur í skut og virtust þar ver að reyna að sættast, sem lauk með talsverðu kossaflensi, meðan börnin sátu eftir í öngum sínum í sætum sínum.  Ég gerði ekkert og skammast mín eiginlega fyrir það. Hvað hefði ég átt að gera og hverjar yrðu mögulega afleiðingar? Voru þetta kannski bara uppeldisaðferðir sem  eru viðurkenndar á þessum slóðum?  Nokkrum dögum eftir þetta varð ég vitni að því þegar óþægur strákur um 4-5 ára fékk vænan löðrung hjá föður sínum á veitingastað.  
Maður getur víst ekki bjargað heiminum.

Ferðarlok
Eftir viðkomu í sömu bæjum og fyrr, lauk siglingunni um Gardavatanið þegar nálgaðist kvöld. Sumir - þetta unga fólk og eflaust fleiri - fóru í bæinn að borða eða gera eitthvað annað, en við fD og nokkur fjöldi annarra í hópnum snæddum bara á hótelinu, enda orðin úrvinda eftir hlýjan og góðan dag á Garðavatninu.







28 júní, 2022

Kórferð - heit og áhrifamikil (2)

....framhald af þessu.

Einmitt það. Þarna hófst dvölin við Gardavatnið á Ítalíu, í 40.000 manna bænum Desenzano, á hóteli sem ber nafnið Oliveto.
Eftir nætursvefn risum við upp til dags, sem einkenndist af bláum himni og hlýju sem jaðraði við að vera of mikið af svo góðu. Ég get þess hér strax, til að vera ekki alltaf að tilkynna það, að hiti á þessum slóðum þann tíma sem dvöl okkar stóð var í kringum 30°C - fór upp í 35°C og niður í 28°C, Eins og fólk getur ímyndað sér, þá er þetta í hærri kantinum. Mér finnst erfitt að ímynda mér hvernig fólk fer að því að búa við hita umfram þetta, en æ oftar eru fluttar fréttir að miklu hærri hita víða um heim. Ætli ég segi ekki bara "ÚFF!" Lýkur þar með veðurfregnum.

Eftir hóflega gönguferð með strönd Gardavatnsins, niður í miðbæ Desenzano, sem var svona tveggja km. gangur, um það bil,  fór fólk aðeins að prófa sólbaðsaðstöðuna og ég dáist eiginlega að sjálfum mér, að hafa kunnað mér hóf, enda hokinn af reynslu þegar sólböð eru annars vegar.
Matseðillinn

Síðdegis hófst undirbúningur fyrir fyrsta útstáelsið, mikinn kvöldverð á stað sem heitir Cascina (býli) Capuzza eða Selva (skógur) Capuzza, sem er í nokkurra kílómetra fjarlægð frá Desenzano. Kvöldverðurinn var utandyra, svo ekki var um annað að ræða en hálfbaða sig í skordýraeitri af einhverju tagi.  Þegar við komum á staðinn, biðu okkar dekkuð borð í síðdegissólinni, sem síðan hvarf af himni eftir því sem á leið. Fljótlega kom í ljós, að einn einstaklingur hafði gleymst á hótelinu, sem kostaði hann ferð með leigubíl. Ég reyndi að setja mig í spor viðkomandi og þau spor virtust mér ekki vera sérlega eftirsóknarverð, en síðdegisblundur mun hafa farið aðeins úr böndunum, eftir því sem næst verður komist.
Annað fólk, annar tími, svipað umhverfi.
Þarna var einkar skemmtilegt umhverfi til utanhússborðhalds og fram var borin fjögurra rétta máltíð með óþrjótandi, heimaræktuðum veigum, svokallaðs Lugano víns. Vínið og mögulega einnig maturinn snertu á þeim streng sem kallar á söng, og það var sungið, jafnvel af meiri söngþrá en söngfegurð, í einhverjum tilvikum.  
Lokalagið var tekið þar sem hópurinn beið eftir að rútubílstjóranum tækist að troða farartækinu á nægilega hentugan stað fyrir hópinn til að stíga um borð. Áheyrendurnir voru matargestir sem enn höfðu ekki lokið borðhaldi. Þeir reyndust varla geta haldið aftur af sér í fagnaðarlátum eftir sönginn og heim á leið hélt saddur og sæll kór, þess fullviss, að hafa slegið í gegn á alþjóðamarkaði. 


Leiðin milli Hotel Oliveto og Cascina Capuzza. Ekki veit ég hver þeirra þriggja leiða, 
sem þarna eru sýndar, var valin.


27 júní, 2022

Kórferð - heit og áhrifamikil (1)

Kór Selfosskirkju var búinn að halda í sér í ein tvö ár þegar við fD komum til sögunnar síðastliðið haust. Við getum alveg litið svo á að örlögin hafi komið því svo fyrir, að fyrirhugaðri Ítalíuferð hafi verið frestað ítrekað, þannig að við kæmumst með. Ég leyfi mér allavega að halda því fram, eða hvernig má skýra það, að á fyrstu eða annarri æfingunni var okkur gefinn kostur á að skrá okkur til fyrirhugaðrar ferðar kórsins suður til Ítalíu í júní á komandi ári. Sá júní er kominn og ferðinni er lokið.

Það er aðallega fyrir sjálfan mig og mögulega einstaka trygga fylgjendur bloggskrifa minna, sem ég sest við lyklaborðið og renni í gegnum þessa ferð, í nokkrum hlutum. Hér verður væntanlega um að ræða frásögn, eða umfjöllun sem varpar ljósi á mína upplifun og skoðanir og einskis annars. Aðrir þátttakendur verða bara að skrá eigin frásagnir af því sem eftir situr eftir vikulanga ferð Kirkjukórs Selfosskirkju og maka til Gardavatnsins, dagana 18. - 25. júní. Ég mun reyna að fara varlega í að fjalla um einstaka ferðafélaga, þar sem ég telst varla vera nægilega rótgróinn enn, til að geta búist við að kórfélagarnir þekki nægilega vel til mín og þess hvernig ég get verið, þegar grannt er skoðað.

Flugferðin hefst.

"Kemur ekki til greina!" hljómaði yfirlýsing fD, þar sem hún stóð í farþegarými vélar Icelandair á Keflavíkurflugvelli. Jú, hún vissi það svo sem, þegar þarna var komið, að við myndum ekki fá sæti hlið við hlið í vélinni sem átti að flytja okkur til Malpensa flugvallar við Mílanó, frekar en önnur pör. Þarna blasti veruleikinn, hreinn og tær við frúnni: henni ætlað að setjast milli tveggja Ítala á heimleið eftir mögulega dásamlega ferð til Íslands. Henni þótti einfaldlega til of mikils ætlast, en það fór samt svo, að hún fylgdi því sem sætisnúmerið sagði, en hélt samt áfram uppi mótmælum við þeim fáránleika sem þarna var um að ræða. Mér var ætlað sæti beint fyrir aftan hana, einnig milli tveggja Ítala á heimleið. Allt fór þetta nú samt vel, enda kom mjög fljótlega í ljós, að allir Ítalirnir þekktust vel og voru jafnvel úr sömu fjölskyldu og þeir reyndust harla kátir með að skipta bara um sæti, þannig að fD endaði við hlið mér, eins og vera ber.  
Það má alveg halda því fram, að það hafi verið einstaklega fáránlegt hvernig fólki var raðað í þessa vél til Ítalíu. Það má jafnvel segja að það hafi verið sennilega verið yfirlýst markmið þeirra sem sætaröðuninni réðu, að stía pörum í sundur. Tilgangurinn er vandséður - mögulega að gefa selfysskum kórfélögum færi á að kynnast ítalskri menningu og samskiptum. Mér finnst ég hafa heyrt af því að einn kórfélaginn hafi lent á milli ítalskra elskenda, en ítalsir elskendur eru sagðir geta verið mjög ástríðufullir. Þessir munu hafa verið af því tagi - gátu ekki hvort af öðru litið, en gengu þó ekki lengra en kyssast fyrir framan andlitið á þessum kórfélaga, sem mun hafa fundist háttalagið fremur vandræðalegt.

Sætaskipanin fór vel, hjá okkur fD í það minnsta (held ég) og það var nú fyrir mestu og síðdegis þennan laugardag lyftumst við í hæðir áður en við síðan lentum á Malpensa flugvelli, rétt fyrir utan Mílanó á Ítalíu. Eftir langa göngu um flugvallarbyggingar þar, (þar sem ég nýtti mér bruntækni sem boðið var upp á, meðan fD hélt sig við sína aðferð við að ganga milli staða) komumst við út og hittum það fararstjóra frá ferðskrifstofunni Eldhúsferðum, sem er tengdadóttir Eddu í Dalsmynni, sem mögulega einhver af eldri kynslóðum kannast við síðan í barnaskóla í Reykholti.  Það tók svo við meiri ganga, og meiri ganga og loks akstur í rútu til bæjarins Desenzena við suðurenda Gardavatnsins, en hann stóð yfir í eina 2-3 tíma.   Hótelið reyndist vera svona hótel, eins og hótel eru. 

12 júní, 2022

Blóðugt verkefni

 

Gærdagurinn hefði getað orðið dýr. 

Ég tók að mér ljósmyndatengt verkefni við Laugarvatn, en þar gullsprettu um 300 manns í kringum Laugarvatn, eins og mörg undanfarin ár.  Ég fékk, þessu sinni, það hlutverk, að mynda hlauparana þar sem þeir komu sér yfir fyrsta vaðið og til þess þurfti að flytja mig á björgunarbáti nokkurn spöl. Ekki hófst nú bátsferðin björgulega. 

Ég var auðvitað einbeittur þar sem ég gekk út á bryggjuna til að koma mér um borð, enda hef ég séð ansi mörg myndskeið þar sem fólk er reyna að komast um borð í svona smábáta - komið með annan fótinn á borðstokkinn, þegar báturinn skríður frá bryggjunni  - jæja.


Hvað um það, þar sem ég var ákveðinn í að ganga um borð eins og vanur maður, gleymdi ég að ég hafði komið stóru linsunni fyrir í myndavélartöskunni (sem er alltof lítil fyrir slíka linsu). Svo heyrði ég högghljóð, eins og eitthvað hefði dotti á bryggjuna, sem var raunin. Stóra fína linsan mína hafði fallið úr töskunni og eitt augnablik hélt ég að hún hefði síðan skoppað út af henni og ofan í vatnið, sem var sem betur fer ekki raunin  Hún hafði lent á linsuhettunni (lens hood), sem brotnaði og flaug út í vatnið. Linsan sjálf reyndist ósködduð, en þarna er um að ræða fjárfestingu upp á hundruð þúsunda. Ætli ég verði ekki að læra af þessu, að minnsta kosti vill fD halda því fram. 


Ég komst um borð í björgunarbát Ingunnar án frekari áfalla, í tilskildu björgunarvesti og vel búnir björgunarsveitarmenn sáu til þess að allt væri eins og vera bar. Báturinn brunaði í átt að fyrsta vaðinu, en fyrsti lendingarstaðurinn sem kannaður var, reyndist of aðgrunnur til að hægt væri að koma mér í land þurrum fótum, sem var auðvitað skilyrði frá minni hendi.  Hófst þá leit að hentugri lendingarstað, en þá reyndist þetta föruneyti vera komið heldur nálægt varnarsvæði fuglsins sem beitir einkar harðvítugum aðferðum við að verja svæðið sitt. Kría tók að herja á okkur, en þar sem ég hafði aldrei lent í því að hún gerði annað en hóta því að reka gogginn í höfuðleðrið á mér, kippti ég mér litt upp við árásir hennar. Björgunarsveitarmennirnir voru auðvitað með hjálma á höfðum, en ég var ekki enn búinn að sjá ástæðu til að setja upp hattinn sem ég hafði meðferðis til að skýla höfðinu fyrir sólargeislum. 

 Viti menn, skyndilega lét krían vaða beint á þann stað höfuðs míns þar sem hárvöxtur er sjaldgæfastur. Þetta var hreint ekki vont, en þegar ég síðan þreifaði á höggstaðnum, reyndist blæða talsvert og svo bara hélt áfram að blæða, en ég gat nú ekki farið að láta kalla út björgunarsveit vegna þess, svo ég skellti á mig hattinum og varð ekki fyrir frekari árásum kríunnar eftir það. 


Svo bara tók ég myndir af fólkinu sem lagði á sig að hlaup þennan sprett í kringum Laugarvatn og þegar það var allt komið framhjá, var ekki annað en kalla á björgunarbátinn til að fá flutning til baka, sem allt gett vel og snyrtilega fyrir sig. Ég neita því ekki, að ég hafði athugað hattinn aðeins og sá að hann var alblóðugur að innan, svo ég setti hann bara upp aftur - þetta virtist ekki svo alvarlegt að mér myndi blæða út, en samt fannst mér stundum eins og ég fyndi fyrir lítilsháttar svima (sem var nú bara ímyndun).

Þegar í land var komið fór ég að leita mér aðhlynningar, sem ég fékk að sjálfsögðu og sem ég er afar þakklátur fyrir.  Það er nefnilega þannig að ég tilheyri þeim hópi fólks, sem af tilteknum ástæðum, þarf að neyta lyfja sem stuðla að blóðþynningu og þess vegna tekur það alla jafna talverðan tíma fyrir blóðið að storkna, ef það finnur sér leið út úr líkamanum. Það gerist þó og gerðist þarna, á endanum.

Eins og myndirnar, sem Erla Þorsteinsdóttir tók, sýna, reyndi ég að bera mig vel, meðan Eva Hálfdánardóttir gerði að sárum mínum. 

Að öðru leyti gekk nú dagurinn áfallalaust fyrir sig að mestu og ég þykist góður að hafa komið til baka jafngóður og þegar ég lagði af stað, svona að mestu leyti.

Ég, sem sagt, tók að mér það verkefni að taka myndir af hlaupandi fólkinu og hér eru sýnishorn. Myndirnar í heild má svo sjá í fyllingu tímans á facebooksíðu Gullsprettsins. 













30 maí, 2022

Fyrsta garðyrkjustöðin í Laugarási og heimsókn 82 árum síðar.

Í Hveratúni með Lemmingunum: f.v Jette, Lissie og Allan.
Í lok janúar, árið 1938 kom Gullfoss til Reykjavíkur og meðal farþega var 25 ára gamall, danskur garðyrkjumaður. Heima í Danmörku beið 17 ára unnustan þess að ná 18 ára aldri, svo hún gæti fylgt honum. Það liggur ekkert fyrir um hversvegna þessi ungi maður ákvað að fara til Íslands einn síns liðs, en helst virðist eins og hann hafi komist í kynni við Ólaf Gunnlaugsson, garðyrkjubónda á Laugabóli í Mosfellssveit, þegar Ólafur sótti stóra garðyrkjusýningu sem var haldin í Kaupmannahöfn haustið 1937.  Það sem helst styður þetta er, að í maí 1938 var ungi maðurinn talinn sem starfsmaður á garðyrkjustöð Ólafs að Laugabóli. 
Einhverntíma, árið 1939, þó ekki síðar en í lok júlí, kom unnustan síðan til Íslands, þá á 19da ári. Fljótlega eftir að hún var komin fluttu þau út á land, þar sem pilturinn hafði fengið starf sem garðyrkjumaður á nýstofnaðri garðyrkjustöð í Reykjalundi í Grímsnesi. Þann 30 desember, gengu þau í hjónaband í Mosfellskirkju og 4 mánuðum síðar, eða í apríl 1940 fæddist fyrsta barn þeirra, dóttir. 
Það átti ekki fyrir þeim að liggja að una lengi í vinnumennsku og þau ákváðu að byggja upp eigin garðyrkjustöð, en einmitt um þetta leyti var oddvitanefndin sem stýrði Laugarásjörðinni farin að huga að því að kynna möguleika á að leigja jarðnæði og hita í Laugarási. Það varð úr að þessi nýbökuðu dönsku hjón ákváðu að freista gæfunnar. Líkur benda til að þau hafi komið í Laugarás vorið 1940, en þar voru þau skráð í sóknarmannatali í árslok, ásamt dótturinni, sem var sögð óskírð.
Garðyrkjubóndinn var Børge Johannes Magnus Lemming, fæddur 30. ágúst, 1913 í Árósum og kona hans var Ketty Hilma Lemming fædd 29. október, 1920 í Árósum. Børge var því 26 ára og Ketty 19 ára, þegar þau komu í Laugarás.  


Það er saga að segja frá því hvernig ég fór síðan að því að finna afkomendur þessara fyrstu garðyrkjubænda í Laugarási, en frá því greini ég á vefnum Laugaras.is . Mér finnst erfitt að átta mig á því, hvernig þau fóru að því með nýfætt barn, að lifa af fyrsta veturinn í Laugarási, en þau hljóta að hafa haft  einhverja aðstoð, til dæmis má reikna með því, að þau hafi fengið inni í Reykjalundi eitthvað áfram og ekki finnst mér ólíklegt, að læknishjónin í Laugarási, Ólafur og Sigurlaug, hafi verið þeim innan handar. Um þetta er þó engar upplýsingar að hafa.
Lóðin sem þau fengu í Laugarási, er sú sama sem Hveratún stendur á nú. Þau byggðu sér gróðurhús, sem var um 100 ferm. og bjuggu fyrstu árin í þeim enda þess, sem snéri að hveralæknum. Í sóknarmannatali frá því í árslok 1943 segir, að fjölskyldan búi í gróðurhúsi. 
Í Laugarási eignuðust  Ketty og Børge fjögur börn og árið 1944 munu þau hafa flutt í húsið sem þau byggðu og sem síðan hýsti Hveratúnsfjölskylduna til ársins 1961. Það má ljóst vera að líf þessarar hjóna og barna þeirra í Laugarási var enginn dans á rósum, end fór svo, árið 1945, að þessi tilraun þeirra til að koma undir sig fótunum á Íslandi gekk ekki upp og þau hurfu á braut og sigldu til Danmerkur með börnin fimm, árið 1946. Börnin voru þau Kirsten Agnea Ketty (21. apríl, 1940), Elisabet Ketty Lemming (27. júní, 1941), Søren Peter Børge Lemming (3. mars 1943), Hans Peder Børge Lemming (5. mars, 1944) og Inge Birte Lemming (24. mars, 1945).

Það var árið 2017 sem ég fann ekkju S
ørens, Lissie og son hennar Allan. Lissie sagði mér sð hana hafi lengi langað að koma til Íslands til að skoða söguslóðir tengdaforeldranna og ég hvatti hana auðvitað til þess og bauðst til að vera henni innan handar. Eftir það heyrði ég ekki meira frá þessu fólki fyrr en um miðjan mars, að ég fékk skilaboð frá Allan, þar sem hann greindi frá því að þau kæmu til landsins í lok maí og kvaðst vona að þau gætu átt aðstoð mína vísa, sem var auðvitað sjálfsagt.
Í Hveratúni: Sonarsonur bóndans 1942
og bóndinn árið 2022. Með þeim er 
dóttursonur Hveratúnsbóndans
Kolbeinn Búri.

Svo skipulögðum við þetta allt saman og síðastliðinn laugardag hittumst við og lögðum leið okkar í Laugarás, Skálholt, Mosfell og Reykjalund. Danirnir sem þarna voru auk Lissie og Allans, eiginkona Allans, Nicola og dóttir Lissie, Jette og eiginmaður hennar,
Søren.
Þetta var hinn ánægjulegasti dagur, en með í för voru einnig þau Sigrún systir mín og Ari, sem bæði eru vel heima í danskri tungu, en þau bjuggu í nokkur ár í Árósum. Húsbændur í Hveratúni, þau Magnús og Sigurlaug tóku svo á móti hópnum og afkomendurnir fengu tilfinningu fyrir því hvernig aðstæður voru á staðnum, árið 1940. Sören Lemming var skírður í Skálholti og því var það eðlilegur viðkomustaður og sömuleiðis Mosfellskirkja, þar sem Ketty og Børge gengu í hjónaband 30. desember 1939.

Í Mosfellskirkju, f.v. Allan, Nicola, Jette, Lissie og Sören.
Kirkjan mun vera nánast óbreytt frá því Börge og Ketty giftust árið 1939.



It's only words ...

Við erum mörg reið og það hvílir á okkur einhver óviðráðanlegur þungi. Við upplifum vonleysi og varnarleysi. Við reynum að skilja hvernig he...